Dýravernd

125. fundur
Miðvikudaginn 10. mars 1993, kl. 15:11:53 (5862)


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það mál sem við ræðum hér er komið til þings öðru sinni. Það hefur verið til meðferðar í þingnefnd eins og hæstv. ráðherra gat um og hefur tekið nokkrum breytingum frá því að það lá fyrir hér í þinginu. Mér sýnist að þær breytingar sem hafa verið gerðar á frv. séu í skynsamlega átt og á þar ekki síst við 17. gr. frv., sem ljóslega var umdeild eins og málið lá fyrir á síðasta þingi, í sambandi við nýtingu dýra á tilraunastofum. Ég vænti þess að um þá breytingu sem hér er gerð tillaga um megi takast friður eða hægt verði að finna þeim málum skynsamlegan farveg. Að sjálfsögðu að teknu tilliti til sjónarmiða dýraverndar eftir því sem réttmætt er talið.
    Það er sannarlega tími til kominn að endurskoða löggjöf sem síðast var breytt 1968 og hafa verið gerðar margar atrennur að breytingum á vegum stjórnvalda en ekki borið árangur. Ég geri ráð fyrir því að af hálfu umhvn., sem fær málið til meðferðar, verði unnið í málinu með tilliti til þess að það verði hægt að ná fram afgreiðslu á þessu máli, jafnvel á þessu þing þó að ekki sé mjög langur tími til þingloka, en vegna þeirrar málsmeðferðar sem fór fram á síðasta þingi og vinnu sem fór fram í málinu ætti það þó að vera unnt.
    Ég ætla ekki að fara að kveða upp úr um vinnubrögð umhvn. í einstökum atriðum en mér sýnist það nú vera útlátalaust að verða við frómum óskum hv. 1. þm. Norðurl. v. fyrir hönd landbn. að sú nefnd fái að segja eitthvað um frv. á meðan það er í athugun í nefnd. Það er alveg rétt athugasemd að eðlilegt er að sjónarmið bænda komi að máli sem þessu, jafnmikinn hlut og þeir eiga í málum sem þetta frv. varðar. Hafi þar orðið einhverjir meinbugir á við undirbúning málsins, þá ætti að mega úr því bæta við þá skoðun sem málið mun fá.
    Ég held að hér sé stefnt í rétta átt í öllum aðalatriðum í þessu máli. Það er vafalaust nauðsynlegt ef menn ætla í reynd að framfylgja ákvæðum laga í þessum efnum að styrkja umsýslu málsins, eftirlit með löggjöfinni, eins og gerðar eru hér tillögur um þótt nokkur kostnaður fylgi. Ég kann ekki betri ráð að gefa en hér er gerð tillaga um nema kannski það eitt að það mætti e.t.v. hugsa sér að finna aðila sem væru bærir til þess að fjalla um málið í héruðum landsins þó ekki væru sérstaklega til kvaddir. Ég á við stofnanir eða aðila sem fyrir eru, en er þó engan veginn að leggja neitt slíkt til hér og nú. Hér er vissulega um nokkuð sértæk mál að ræða og því ofur eðlilegt að það sé reynt að finna þeim sérstakan farveg.
    Þessi mál varða búfé í hefðbundnum skilningi en einnig iðnaðarstarfsemi þar sem verið er að framleiða í fæðuskyni afurðir dýra eða til þess að nýta afurðir þeirra með því að halda dýrum í búrum. Þar hafa orðið miklar breytingar frá því að áður voru sett lög um þessi efni og áreiðanlega fyllsta nauðsyn á að setja þeim málum ákveðnar skorður lagalega séð og hvað eftirlit snertir. Hér er um að ræða mál þar sem oft og tíðum vísað er til samkeppnissjónarmiða aðila í sambandi við framleiðslu að því er varðar dýrahald í búrum. Þar þurfa menn auðvitað að kunna sér eitthvert hóf og einhver takmörk í sambandi við þær aðstæður sem skepnum eru búnar við slíkt uppeldi, eða slíkt eldi eins og væri nú kannski réttara að nefna það.
    Það eru ýmis atriði hér bæði stór og smá sem er auðvitað skylt að gaumgæfa áður en lögfest verða betur en þegar hefur verið gert. Ég get bent hér á örfá atriði sem tengjast þessari löggjöf. Ég held t.d. að ákvæði 5. gr. þurfi athugunar við og ekki síst hvernig eigi að tryggja þar nauðsynlegt eftirlit.
    Hæstv. ráðherra vék að hrossum og hrossabúskap. Ég man ekki hvort það var í samhengi þessarar greinar en held að það hafi þó verið. Útigangur hrossa er eitt af þeim efnum sem oft hefur verið gagnrýnt og vafalaust er þar þörf á breytingum frá því sem nú er tíðkað í einhverjum tilfellum. Í rauninni er það svo að hrossabúskapur í landinu kallar á endurmat eins og að þeim málum er staðið, ekki eingöngu í sambandi við meðferð á hrossum út frá dýraverndarsjónarmiðum heldur ekki síður með tilliti til ágangs á gróðurlendi landsins og þess mikla álags sem stafar af hrossabeit á bithaga í landinu. Þarna er um gífurlega fjölgun að ræða og breytingu mikla frá því sem áður var, ekki síst að því er varðar hrossahald í þéttbýli og nágrenni þéttbýlis. Þessi mál er brýnt að taka föstum tökum af hálfu stjórnvalda til þess að setja þar eðlilegar leikreglur og reisa eðlilegar skorður við slíku. Þetta á einnig við nýtingu hrossa í breyttum skilningi í sambandi við ferðamennsku, bæði umferð á hestum og meðferð bithaga sem tengist slíku, ekki síst um hálendi landsins en einnig um önnur svæði sem viðkvæm eru fyrir slíkri umferð. Þarna er margs að gæta og ætlaði ég ekki að fara langt út í þessa sálma sérstaklega.
    Ég ætla líka að varast að fara að ræða hér um efni einstakra tegunda til þess að kveikja ekki óþarfa umræður en vil þó leyfa mér að nefna eitt atriði sem er athugunarefni að því er varðar gæludýr. Þar á ég við kattaeign og meðferð á köttum, fyrst og fremst í þéttbýli. Mér sýnist að það hafi ekki fengið þá athygli sem vert væri í sambandi við reglur og virðist gilda þar t.d. allnokkuð annað en í sambandi við hundahald sem mjög var umrætt og er umrætt í sambandi vð meðferð og reglur þar um. En um blessaða kettina virðast kröfur að því er varðar meðferð og aðhald af hálfu eigenda vera allt annað en gildir um ýmsar aðrar skepnur. Er það þó svo að af þeim er veruleg truflun fyrir fólk í þéttbýli ef kettir ganga lausir og ekki síður fyrir önnur dýr. Þá á ég sérstaklega við fugla og fuglalíf sem fólk vill laða að sér sem tengist trjárækt og görðum. Þarna finnst mér að þurfi að gefa gaum að, ekki til þess að hindra slíkt skepnuhald út af fyrir sig ef það er látið lúta eðlilegum leikreglum þar sem ekki er um að ræða áníðslu á eðlilegan grannarétt. Þetta vildi ég leyfa mér að nefna hér í samhengi við þetta frv.
    11. gr. þessa frv. kveður á um það að ef dýr villast eða strjúka að heiman, þá sé leyfilegt að taka

þau úr umferð og löggæsla geti tekið slík dýr í vörslu sína. Hér er auðvitað spurning hvort eigi að kveða fastar að orði því að þarna er aðeins um heimild að ræða að löggæslan geti tekið slíkt dýr í vörslu sína. Spurning er hvort ekki eigi að lögbjóða að hún skuli gera það, vegna þess að hvers er rétturinn? Hafa þá löggæsluyfirvöld heimild til þess að neita ef eftir er leitað og þörf er talin á? Auðvitað kallar þetta á aðstæður fyrir löggæslu að geta orðið við slíkum kröfum. Þetta er ábending um eitt atriði sem ástæða er til að athuga.
    Í 7. gr. frv. er kveðið á um að óheimilt sé að nota hormón, deyfilyf eða hliðstæð efni til að hafa áhrif á afkastagetu dýra í keppni. Það er auðvitað mjög eðlilegt að einnig séu settar kvaðir á skepnurnar ekki síður en reynt er að koma böndum á mannfólkið í sambandi við þessar keppnisíþróttir þar sem allt er nú að ganga úr böndum satt að segja og komið langt út fyrir öll skynsamleg mörk, bæði að því er snertir álag og eins það sem hér er að vikið og gildir auðvitað alveg eins um mannskepnuna og önnur dýr, svo að ég leyfi mér að hafa þetta allt undir einu þaki sem þar á heima. Þetta vísar á það að þarna er full ástæða til að reyna að setja skorður við einnig að því er dýrin varðar og þeirra afkastagetu en bendir á eitt af þessum vandamálum sem fylgja nútímaaðstæðum.
    Í 13. gr. er að finna orðalag sem er kannski heldur óljóst. Einhver kann að segja hæfilega óljóst eins og stundum verður ekki komist hjá í löggjöf, að skilja eftir eyður. Þar er kveðið á um það að tryggja þurfi hæfilega meðferð dýra og orðið ,,hæfilegur`` er ekki nánar skilgreint. Það verðum við að meta sem um fjöllum í þingnefnd hvort nothæft sé í þessu samhengi sem þarna er. Einnig kann að vera erfitt að skera úr um það í sambandi við tamningu dýra til sýnis almenningi eða heimild til að taka af þeim kvikmyndir þannig að ekki valdi sársauka eða ótta. Hér er komið að dýrasálfræði og er einnig eitt af þessum markamálum þar sem auðvitað verður að byggja á rannsóknum og reynslu til þess að setja almennar leikreglur.
    Það er eitt efni til viðbótar, virðulegur forseti, sem ég vildi að lokum aðeins koma að og mér finnst tengjast þessu máli með óbeinum hætti þó. Það er í sambandi við líftæknina. Sumt af því sem hér er um fjallað snertir með vissum hætti líftækni. Ég tók eftir því að í athugasemd við eina af greinum þessa frv. var vísað til reglugerðarheimildar ráðherra í sambandi við að setja megi fyrirmæli um erfðatæknilegar aðgerðir á dýrum og líftækni er erfðatæknileg aðgerð. Svo nauðsynlegt sem það er að setja löggjöf og færa lög varðandi dýraverndarmál í nútímahorf með tilliti til áorðinna breytinga, þá er ekki síður þörf á því að taka til hendi í sambandi við það stóra svið, líftæknina, og taka á því í sambandi við löggjöf og leikreglur því að það svið er nánast ónumið að því er varðar lög og reglur í landinu.
    Ég vil inna hæstv. umhvrh. eftir því í sambandi við þetta mál hvort á vegum hans ráðuneytis sé ekki hafin vinna til þess að undirbúa almenna löggjöf sem snertir líftæknimál og meðferð lifandi efnis og framleiðslu, jafnvel framleiðslu á nýjum erfðaeindum og breytingum á lífverum sem geta leitt til mjög verulegrar röskunar ef illa tekst til, fyrir utan hin siðrænu gildi sem þar þurfa skoðunar við.
    Líftæknimálefnin hafa fengið miklu minni athygli erlendis og miklu minni umræðu en gerist í grannlöndum okkar þar sem mikið hefur verið um þau rætt og fjallað jafnvel á þjóðþingum landanna. Ég hygg því að við getum sitthvað sótt í þessum efnum til nágrannalanda, til annarra Norðurlanda, til þess að hraða skoðun þessara mála hér heima fyrir.
    Í samhengi umhverfismálanna er talsvert mikið rætt um líftæknimál og suðræn gildi og leikreglur hvað snertir meðferð lifandi efnis og erfðatækni. Í undirbúningsgögnum umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem haldin var í Rio de Janeiro á síðasta ári, lá fyrir allmikið af efni sem varðaði líftæknimálefni og nokkuð var um það fjallað í undirbúningshóp sem starfaði hér heima í aðdraganda þeirrar ráðstefnu. Ég vildi hvetja til þess að það yrði tekið til hendi á þessu sviði. Auðvitað getum við þingmenn reynt að leggja þar eitthvað af mörkum, en hér þarf að koma til víðtæk vinna að mínu mati. Því inni ég hæstv. ráðherra eftir þessu atriði sérstaklega.
    Í umræðunni komu fram ábendingar, m.a. frá hv. 1. þm. Norðurl. v., sem gagnlegar geta talist fyrir nú utan það sem varðaði stöðuveitingar og annað þess háttar. Ég hélt að þingmaðurinn ætlaði að fara að fitja upp á því að það yrði sett löggjöf til að vernda krata frá útrýmingu. Mér fannst mál hans hníga í þá átt en það var ekki tillaga þingmannsins samt. En einhvern ákveðinn ugg bar hann þó fyrir brjósti í sambandi við örlög Alþfl. og gæti orðið erfitt að fylla í stöðurnar og störfin. Ég ætla ekki að hætta mér út á þetta svell að sinni en ég vil taka undir það sem hv. þm. nefndi í sambandi við starf Dýraverndunarfélags Íslands á liðinni tíð og vafalaust einnig í nútíð. Þar hefur verið unnið mikið og gott starf og það var þarfleg ábending, a.m.k. minnti hún mig á ljúfan lestur á æskudögum í því tímariti sem kom til umræðu og barst einnig inn á mitt heimili. Og held að það hafi verið heldur holl lesning, flest sem þar var að finna. Sumt er mér minnisstætt enn í dag úr því riti, bæði máli og myndum.
    Það er nú svo að á tímum breyttrar prenttækni og alveg gífurlegs magns og fjölda rita sem berst inn um dyrnar að það er ekki víst að þar fari menn í fótspor þeirra sem á undan gengu í þessum efnum að öllu leyti, að því er snertir innihald og gæði. Ætla ég þó ekki að fara í neinn samjöfnuð þar að lútandi enda magnið mjög ólíkt.
    Þetta frv. sem hæstv. ráðherra hefur mælt fyrir og lagt fram verðskuldar alla athygli og umfjöllun og við skulum reyna að setja okkur það mark að afgreiða þetta sem lög frá Alþingi enda er sem betur fer ekki reynt að hengja þetta aftan í einhverja stóra vagna aðkominnar löggjafar sem við ættum að reyna að gjalda varhug við og reyna að hafa eðlilegt frumkvæði á Alþingi Íslendinga að færa okkar löggjöf í nútímalegt horf á sem flestum sviðum.