Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 15:06:13 (6475)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það var athyglisvert að hlýða á hv. 10. þm. Reykv. fara yfir sviðið en ég fann ekki mikinn stuðning í hennar máli við stefnu hennar flokks í Evrópumálum. Í rauninni var ræða hennar samfelld mótmæli við stefnu Kvennalistans á þessu sviði. Jafnframt var þar að finna stuðningsyfirlýsingar við Evrópskt efnahagssvæði sem kom auðvitað ekki á óvart miðað við þá afstöðu sem þingmaðurinn hefur tekið.
    En ástæða þess að ég kvaddi mér hljóðs til andsvars er sú fullyrðing þingmannsins að það sé skortur á valkostum, það sé vöntun á einhverju öðru. Þar kemur þingmaðurinn náttúrlega þvert á eigin flokk sem hefur ítrekað bent á það, sem og aðrir sem mæla gegn Evrópsku efnahagssvæði, að það sé vissulega valkostur og hann mjög skýr og miklu vænlegri en sú sigling sem þingmaðurinn er þátttakandi í. Það er að halda sig í fyrsta lagi á þeim grundvelli sem Íslendingar hafa markað sem sjálfstætt ríki án þess að afsala sér þeim völdum sem felst í Evrópsku efnahagssvæði og samningnum þar að lútandi og án þess að ana inn í Evrópubandalagið sem er auðvitað framhaldið á þeirri stefnu í hugum flestra þeirra sem styðja hana og hafa opin augun.
    Íslendingar eru ekki á neinu flæðiskeri staddir þó að þeir haldi sig utan við Evrópskt efnahagssvæði. Það tekur enginn frá okkur að laga okkar löggjöf og reglur út frá okkar hagsmunum, laga okkur að umhverfinu og taka tillit til breytinga í þeim að eigin mati en ekki inni sjálfgengisvél Evrópsks efnahagssvæðis og með framandi dómsvald yfir okkur til þess að fylgja þeim reglum eftir.