Evrópskt efnahagssvæði

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 15:40:39 (7896)

     Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér fannst sannfæringin hjá hæstv. iðnrh. ekki vera jafnrík nú í annað sinn sem hann sté í stólinn eins og í hið fyrra sinn. Hann heldur að á þessu finnist viðunandi lausn. Áður staðhæfði hann að hann mundi reiða þetta fram í þingbyrjun sem stjfrv. en nú hefur hæstv. ráðherra slegið þarna varnagla. Það hryggir mig að baklandið sé svo ótraust og flækjan svo mikil sem hæstv. ráðherra gefur til kynna.

    En ég vil nefna það til viðbótar, virðulegur forseti, að hæstv. ráðherra talaði sérstaklega um almenninga í þessu sambandi, eignar- og yfirráðarétt yfir lendum á hálendinu og ég vil minna á það að auðæfi finnast einnig undir löndum með einkaeignarrétti og að EES-samningurinn opnar fyrir kaup útlendinga á jarðeignum sem hluta fasteigna og við þekkjum þann málatilbúnað sem fyrir liggur frá hæstv. landbrh. þar að lútandi þannig að málið er auðvitað miklu víðtækara en svo að það tengist eingöngu spurningunni um eignar- og yfirráðarétt afrétta og almenninga í landinu.