Ferill 25. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 25 . mál.


25. Frumvarp til laga



um breytingar á lagaákvæðum á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna aðildar að samningi um Evrópskt efnahagssvæði.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



I. KAFLI


Um breytingar á lögum um heilbrigðisstéttir.


Breytingar á læknalögum, nr. 53/1988,


sbr. breytingu nr. 50/1990.


1. gr.


    1. gr. laganna orðast svo:
                  Rétt til þess að stunda lækningar hér á landi og kalla sig lækni hefur:
              
    sá sem fengið hefur leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sbr. 2. og 3. gr.,
              
    sá sem fengið hefur staðfestingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á lækningaleyfi í landi sem aðili er að samningi um Evrópskt efnahagssvæði.
                  Ráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um þá sem stunda mega lækningar hér á landi skv. 2. tölul. 1. mgr.
    2. gr. laganna orðast svo:
                  Leyfi skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. skal veita þeim sem lokið hefur prófi frá læknadeild Háskóla Íslands svo og viðbótarnámi í heilbrigðisstofnunum hér á landi eftir reglum sem ráðherra setur að fengnum tillögum læknadeildar Háskóla Íslands.
                  Viðbótarnámi skv. 1. mgr. má ljúka erlendis við heilbrigðisstofnanir sem fullnægja skilyrðum heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, læknadeildar Háskóla Íslands og landlæknis.
                  Áður en leyfi er veitt samkvæmt þessari grein skal leita umsagnar landlæknis og læknadeildar Háskóla Íslands.
                  Óheimilt er að veita manni lækningaleyfi ef 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga á við um hagi hans eða ef landlæknir eða læknadeild telja hann óhæfan vegna heilsubrests, t.d. vegna áfengis- eða eiturlyfjaneyslu, eða vegna þess að hann hafi kynnt sig af alvarlegu hirðuleysi eða ódugnaði í störfum.
    3. gr. laganna orðast svo:
                  Veita má manni, sem lokið hefur sambærilegu prófi og um getur í 1. mgr. 2. gr. í landi utan hins Evrópska efnahagssvæðis, leyfi skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. uppfylli hann skilyrði 2. gr. að öðru leyti. Áður en slíkt leyfi er veitt skal leita umsagnar læknadeildar Háskóla Íslands sem getur sett sem skilyrði að viðkomandi gangi undir próf í lögum og reglum er varða störf lækna hér á landi og sanni kunnáttu í mæltu og rituðu íslensku máli. Læknadeild Háskóla Íslands getur krafist þess að umsækjandi sanni kunnáttu sína í læknisfræði með því að gangast undir próf.
    5. gr. laganna orðast svo:
                  Læknir hefur rétt til að kalla sig sérfræðing og starfa sem slíkur hér á landi hafi:
              
    hann fengið til þess leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra,
              
    hann fengið staðfestingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á sérfræðingsleyfi í landi sem aðili er að samningi um Evrópskt efnahagssvæði.
                  Ráðherra setur reglur um nám sérfræðinga að fengnum tillögum læknadeildar Háskóla Íslands.
                  Áður en leyfi skv. 1. tölul. 1. mgr. er veitt skal leita umsagnar landlæknis og nefndar sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn og í eiga sæti einn fulltrúi Læknafélags Íslands og tveir fulltrúar læknadeildar Háskóla Íslands og skal annar þeirra vera formaður. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
                  Ráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um þá sem mega kalla sig sérfræðinga og starfa sem slíkir hér á landi skv. 2. tölul. 1. mgr.
    1. málsl. 6. gr. laganna orðast svo: Sá einn á rétt á því að kalla sig lækni og stunda lækningar sem uppfyllir skilyrði 1. gr.
    Fyrirsögn í staflið A í VII. kafla verður: Brottfall og svipting lækningaleyfis og staðfestingar á lækningaleyfi.
    Við 27. gr. bætast tvær nýjar málsgreinar, 3. og 4. mgr., svohljóðandi:
                  Nú er einstaklingur sem hér starfar á grundvelli leyfis skv. 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. eða 2. tölul. 1. mgr. 5. gr. sviptur því leyfi og fellur þá niður heimild hans til að starfa á grundvelli þess hér á landi.
                  Ákvæðum þessa kafla skal beitt eftir því sem við á gagnvart þeim sem fengið hafa staðfestingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skv. 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. eða 2. tölul. 1. mgr. 5. gr.

Breytingar á lögum um tannlækningar, nr. 38/1985.


2. gr.


    1. gr. laganna orðast svo:
                  Rétt til þess að stunda tannlækningar hér á landi og kalla sig tannlækni hefur:
              
    sá sem fengið hefur leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sbr. 2. og 3. gr.,
              
    sá sem fengið hefur staðfestingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á tannlækningaleyfi í landi sem aðili er að samningi um Evrópskt efnahagssvæði.
                  Ráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um þá sem stunda mega tannlækningar hér á landi skv. 2. tölul. 1. mgr.
    1. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
                  Leyfi skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. skal veita þeim sem lokið hefur prófi frá tannlæknadeild Háskóla Íslands.
    1. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
                  Veita má manni, sem lokið hefur sambærilegu prófi og um getur í 1. mgr. 2. gr. í landi utan hins Evrópska efnahagssvæðis, leyfi skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. Tannlæknadeild Háskóla Íslands getur sett það skilyrði fyrir meðmælum sínum að umsækjandi sanni deildinni hæfni sína með prófi. Sé um erlendan ríkisborgara, aðra en ríkisborgara frá EES-landi, að ræða skulu þeir enn fremur sanna fullnægjandi kunnáttu sína í íslenskri tungu. Binda má leyfið við ákveðinn tíma. Leita skal umsagnar Tannlæknafélags Íslands og landlæknis.
    5. gr. laganna orðast svo:
                  Tannlæknir hefur rétt til að kalla sig sérfræðing og starfa sem slíkur hér á landi hafi:
              
    hann fengið til þess leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra,
              
    hann fengið staðfestingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á sérfræðingsleyfi frá landi sem aðili er að samningi um Evrópskt efnahagssvæði.
                  Ráðherra setur reglur um nám sérfræðinga að fengnum tillögum nefndar sem hann skipar til þriggja ára í senn. Í nefndinni skulu eiga sæti deildarforseti tannlæknadeildar Háskóla Íslands og er hann jafnframt formaður, yfirtannlæknir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytsins og aðili tilnefndur af Tannlæknafélagi Íslands. Nefnd þessi skal einnig gefa umsögn um umsóknir um sérfræðileyfi og skal við meðferð einstakra mála heimilt að kveðja til tvo sérfróða tannlækna í þeirri sérgrein sem sótt er um viðurkenningu á. Fá þeir þá einnig atkvæðisrétt í nefndinni.
                  Ráðherra skal með reglugerð setja nánari reglur um þá sem kalla mega sig sérfræðing í tannlækningum skv. 2. tölul. 1. mgr.
    Við 12. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, sem verða 3. og 4. mgr., svohljóðandi:
                  Ákvæðum 1. og 2. mgr. svo og ákvæðum 13. gr. skal beitt eftir því sem við á gagngvart þeim sem fengið hafa staðfestingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skv. 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. eða 2. tölul. 1. mgr. 5. gr.
                  Nú er einstaklingur, sem hér starfar á grundvelli leyfis skv. 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. eða 2. tölul. 1. mgr. 5. gr., sviptur því leyfi og fellur þá niður heimild hans til að starfa á grundvelli þess hér á landi.

Breytingar á lögum um lyfjafræðinga, nr. 35/1978,


sbr. breytingar nr. 57/1986 og 23/1991.


3. gr.


    1. gr. laganna orðast svo:
                  Rétt til þess að kalla sig lyfjafræðing og starfa sem slíkur hér á landi hefur:
              
    sá sem fengið hefur leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sbr. 2. og 3. gr.,
              
    sá sem fengið hefur staðfestingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á lyfjafræðingsleyfi í landi sem aðili er að samningi um Evrópskt efnahagssvæði.
                  Ráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um þá sem hér mega starfa á grundvelli 2. tölul. 1. mgr.
    1. málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna orðast svo: Rétt til þess að fá leyfi skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. hefur sá einn sem lokið hefur háskólaprófi eða hliðstæðu prófi í lyfjafræði lyfsala sem metið er gilt að dómi fastráðinna kennara í lyfjafræði lyfsala við Háskóla Íslands.
    Við 13. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, 3. og 4. mgr., svohljóðandi:
                  Nú er einstaklingur sem hér starfar á grundvelli leyfis skv. 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. sviptur því leyfi og fellur þá niður heimild hans til að starfa hér á landi.
                  Ákvæðum þessa kafla skal beitt eftir því sem við á gagnvart þeim sem hlotið hafa staðfestingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skv. 2. tölul. 1. mgr. 1. gr.
    17. gr. laganna orðast svo:
                  Veita má erlendum ríkisborgara í landi utan hins Evrópska efnahagssvæðis leyfi skv. I. og II. kafla laga þessara ef þeir fullnægja að öðru leyti þeim skilyrðum sem þar eru sett.

Breytingar á hjúkrunarlögum, nr. 8/1974,


sbr. breytingar nr. 32/1975 og 58/1984.


4. gr.


    1. gr. laganna orðast svo:
                  Rétt til þess að stunda hjúkrun hér á landi og kalla sig hjúkrunarfræðing hefur:
              
    sá sem fengið hefur leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sbr. 2. gr.,
              
    sá sem fengið hefur staðfestingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á hjúkrunarleyfi í landi sem aðili er að samningi um Evrópskt efnahagssvæði.
                  Ráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um þá sem stunda mega hjúkrun hér á landi skv. 2. tölul. 1. mgr.
    2. gr. laganna orðast svo:
                  Leyfi skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. skal veita þeim sem lokið hefur prófi í hjúkrunarfræðum frá Háskóla Íslands.
                  Ráðherra getur og veitt hjúkrunarleyfi skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. þeim sem lokið hefur sambærilegu prófi og um getur í 1. mgr. í landi utan hins Evrópska efnahagssvæðis, enda teljist umsækjandi að öðru leyti hæfur að dómi hjúkrunarráðs.
                  Hjúkrunarráð skal skipað þremur mönnum til fjögurra ára og skal einn tilnefndur af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, einn af menntamálaráðuneyti og einn af Hjúkrunarfélagi Íslands.
                  Útlendingar, sem sækja um leyfisveitingu skv. 2. mgr., skulu hafa næga kunnáttu í töluðu og rituðu íslensku máli.
    Á eftir 2. mgr. 7. gr. koma tvær nýjar málsgreinar, sem verða 3. og 4. mgr., svohljóðandi:
                  Ákvæðum 1. og 2. mgr. skal eftir því sem við á beitt gagnvart þeim sem hlotið hafa staðfestingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skv. 2. tölul. 1. mgr. 1. gr.
                  Nú er einstaklingur, sem hér starfar á grundvelli leyfis skv. 2. tölul. 1. mgr. 1. gr., sviptur því leyfi og fellur þá niður heimild hans til að starfa hér á landi.

Breytingar á ljósmæðralögum, nr. 67/1984.


5. gr.


    1. gr. laganna orðast svo:
                  Rétt til þess að kalla sig ljósmóður og stunda ljósmóðurstörf hér á landi hefur:
              
    sá sem fengið hefur leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sbr. 2. gr.,
              
    sá sem fengið hefur staðfestingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á ljósmæðraleyfi í landi sem aðili er að samningi um Evrópskt efnahagssvæði.
                  Ráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um þá sem stunda mega ljósmóðurstörf hér á landi skv. 2. tölul. 1. mgr.
    2. gr. lagnna orðast svo:
                  Leyfi skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. skal veita þeim sem lokið hefur prófi frá Ljósmæðraskóla Íslands.
                  Ráðherra getur veitt öðrum leyfi er lokið hafa jafngildu námi erlendis í löndum utan EES-svæðisins að fenginni umsögn ljósmæðraráðs sem ráðherra skipar. Ljósmæðraráð skal skipað þremur aðilum til fimm ára og skal einn tilnefndur af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, einn af Ljósmæðrafélagi Íslands og einn af Ljósmæðraskóla Íslands.
                  Útlendingar, sem sækja um leyfisveitingu skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr., skulu hafa næga kunnáttu í töluðu og rituðu íslensku máli.

Breytingar á lögum um iðjuþjálfun, nr. 75/1977,


sbr. breytingu nr. 23/1991.


6. gr.


    2. gr. laganna orðast svo:
                  Leyfi skv. 1. gr. skal veita íslenskum ríkisborgurum og ríkisborgurum í EES-ríki sem lokið hafa prófi frá skóla sem viðurkenndur er fullkominn iðjuþjálfaskóli af heilbrigðisstjórn þess lands sem námið er stundað í. Leita skal umsagnar stjórnar námsbrautar í iðjuþjálfun við Háskóla Íslands og landlæknis áður en leyfi er veitt.
    3. gr. laganna orðast svo:
                  Nú uppfyllir maður skilyrði 2. gr. að öðru leyti en því að hann hefur hvorki íslenskt ríkisfang né ríkisfang í EES-ríki og er þá ráðherra heimilt að veita honum ótakmarkað eða tímabundið leyfi til að stunda iðjuþjálfun, enda hafi stjórn námsbrautar í iðjuþjálfun við Háskóla Íslands og landlæknir mælt með leyfisveitingunni.

Breytingar á lögum um sjúkraþjálfun, nr. 58/1976,


sbr. breytingu nr. 23/1991.


7. gr.


    2. gr. laganna orðast svo:
                  Leyfi skv. 1. gr. skal veita íslenskum ríkisborgurum og ríkisborgurum í EES-ríki sem lokið hafa prófi frá skóla sem viðurkenndur er fullkominn sjúkraþjálfunarskóli af heilbrigðisstjórn þess lands sem námið er stundað í. Leita skal umsagnar stjórnar námsbrautar í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands og landlæknis áður en leyfi er veitt.
    3. gr. laganna orðast svo:
                  Nú uppfyllir maður skilyrði 2. gr. að öðru leyti en því að hann hefur hvorki íslenskt ríkisfang né ríkisfang í EES-ríki og er þá ráðherra heimilt að veita honum ótakmarkað eða tímabundi leyfi til að stunda sjúkraþjálfun, enda hafi stjórn námsbrautar í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands og landlæknir mælt með leyfisveitingunni.

Breytingar á lögum um sjóntækjafræðinga, nr. 17/1984,


sbr. breytingu nr. 23/1991.


8. gr.


    2. gr. laganna orðast svo:
                  Leyfi skv. 1. gr. skal veita íslenskum ríkisborgurum og ríkisborgurum í EES-ríki sem lokið hafa prófi frá skólum sem viðurkenndir eru sem slíkir af heilbrigðisstjórn þess lands sem námið er stundað í. Leita skal umsagnar prófessorsins í augnlækningum við Háskóla Íslands, félags sjóntækjafræðinga og landlæknis áður en leyfið er veitt.
    3. gr. laganna orðast svo:
                  Nú uppfyllir maður skilyrði 2. gr. að öðru leyti en því að hann hefur hvorki íslenskt ríkisfang né ríkisfang í EES-ríki og er þá ráðherra heimilt að veita honum ótakmarkað eða tímabundi leyfi að fenginni umsögn sömu aðila og um getur í 2. gr.

II. KAFLI


Um breytingar á lagaákvæðum á vátryggingarsviði.


Breyting á lögum um ófriðartryggingar, nr. 2/1944,


sbr. breytingu nr. 10/1983.


9. gr.


    3. mgr. 1. gr. laganna fellur niður.

Breytingar á lögum um innlenda endurtryggingu,


stríðsslysatryggingu skipshafna o.fl.,


nr. 43/1947, sbr. breytingar nr. 61/1962,


5/1964, 29/1977 og 10/1983.


10. gr.


    2. mgr. 2. gr. laganna fellur niður.
    14. gr. laganna fellur niður.
    15. gr. laganna orðast svo:
                  Ráðherra getur ákveðið að skylt sé að tryggja hjá vátryggingafélagi fyrir stríðsslysum skipshafnir á öllum íslenskum skipum og bátum. Vátryggingarskylda hvílir á útgerðarmanni skipsins og má ekki færa þeim sem vátryggðir eru iðgjöldin til útgjalda. Gildir það jafnt þótt skipverji taki aflahlut í stað kaups.

Breytingar á lögum um brunatryggingar


utan Reykjavíkur, nr. 59/1954,


sbr. breytingar nr. 43/1962, 93/1965 og 37/1980.


11. gr.


    Heiti laganna breytist og verður: Lög um brunatryggingar.
    1. gr. laganna fellur niður.
    2. gr. laganna orðast svo:
                  Húseigendum er skylt að tryggja gegn eldsvoða allar húseignir, þar með talin öll útihús, hvort heldur eru gripahús, hlöður, geymslur eða annað sem metið verður sem hús skv. 3. gr. Hús í smíðum skal einnig tryggja og fer um tryggingarupphæð þeirra á hverjum tíma eftir samkomulagi milli eiganda og vátryggingafélags.
                  Vátryggingafélag skal ekki taka gilda uppsögn á skyldutryggingu skv. 1. mgr. nema uppsögn fylgi staðfesting á að húseigandi hafi stofnað til nýrrar skyldutryggingar hjá öðru vátryggingafélagi.
    3. gr. laganna orðast svo:
                  Vátryggingarupphæð húsa, sem lög þessi ná til, annarra en húsa í smíðum, skal nema fullu verði þeirra eftir virðingu dómkvaddra manna og meta þeir jafnframt brunatjón. Ef annar hvor aðili vill ekki una því mati getur hann óskað yfirmats.
                  Breyta skal árlega vátryggingarverði húsa til samræmis við vísitölu byggingarkostnaðar.
    6. gr. laganna (var 5. gr. fyrir breytingu í lögum nr. 93/1965) verður svohljóðandi:
                  Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.
    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða svohljóðandi:
                  Borgarstjórn Reykjavíkur skal hafa með höndum brunatryggingar húseigna í Reykjavík til ársloka 1993 og skulu tilkynna húseigendum tímanlega og eigi síðar en 30. september 1993 ef brunatryggingar þeirra hjá Húsatryggingum Reykjavíkurborgar falla niður og að þeir skuli stofna til brunatryggingar hjá öðru vátryggingafélagi frá 1. janúar 1994. Ákvæði þetta á einnig við um nýtryggingar sem teknar eru á árinu 1993.

Breytingar á lögum um Brunabótafélag Íslands,


nr. 9/1955, sbr. breytingar nr. 10/1983 og 108/1988.


12. gr.


    7. gr. laganna fellur niður.
    8. gr. laganna orðast svo:
                  Félaginu er heimilt að taka í brunatryggingu hvers konar lausafé hvar sem er á landinu, þar með taldar allar afurðir í vörslu framleiðenda.
    20. gr. laganna fellur niður.

Brottfall laga um ávöxtun fjár tryggingafélaga,


nr. 17/1964, sbr. breytingar nr. 26/1973 og 10/1983.


13. gr.


    Lög um ávöxtun fjár tryggingafélaga, nr. 17/1965, sbr. breytingar nr. 26/1973 og 10/1983, falla úr gildi.

Breytingar á lögum um búfjártryggingar,


nr. 20/1943, með síðari breytingum.


14. gr.


    2. gr. laganna orðast svo:
                  Verkefni búfjártryggingadeildar er að selja og annast vátryggingu búfjár gegn vanhöldum og slysum, sbr. 3. gr.
    3. gr. laganna orðast svo:
                  Skylt er að tryggja gegn hvers konar vanhöldum kynbótanaut, kynbótahesta og kynbótahrúta sem notaðir eru í félögum eða á kynbótabúum sem styrks njóta af opinberu fé. Vátryggingarupphæð búfjár skal fara lækkandi er það eldist og rýrnar að verðgildi. Ákvæði þar að lútandi skulu sett með reglugerð. Tryggingartími búfjár skal minnst vera árlangt í senn.
    1. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo: Heimilt er að tryggja gegn venjulegum vanhöldum og slysum.
    2. mgr. 4. gr. laganna fellur niður.
    8. gr. laganna fellur niður.
    9. gr. laganna fellur niður.
    1. og 2. mgr. 11. gr. laganna falla niður og 3. mgr. 11. gr., sem verður 1. mgr., verður svohljóðandi:
                  Nú verður ágreiningur milli vátryggingafélags og tjónþola um rétt og skyldu til bóta eða um upphæð bótanna og skal ágreiningnum þá skotið til gerðardóms þriggja manna. Nefni til sinn mann hvor aðili, en viðkomandi dómari oddamanninn. Úrskurður gerðardómsins er fullnaðarúrskurður. Skaðabætur greiðast ekki af hendi fyrr en tjón er að fullu sannað og metið.
    13. gr. laganna fellur niður.
    14. gr. laganna orðast svo:
                  Landbúnaðarráðherra getur með reglugerð, að fenginni umsögn Tryggingaeftirlitsins, sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

Brottfall laga um brunatryggingar í Reykjavík,


nr. 25/1954.


15. gr.


    Lög nr. 25/1954 falla úr gildi.

Breyting á umferðarlögum, nr. 50/1987,


með síðari breytingum.


16. gr.


    1. mgr. 91. gr. laganna orðast svo:
     Greiðsla á bótakröfu vegna tjóns, sem hlýst af notkun skráningarskylds vélknúins ökutækis, skal vera tryggð með ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi sem er viðurkennt eða skráð af dómsmálaráðherra.

III. KAFLI


Um breytingu á lögum um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988,


    

með síðari breytingum.


17. gr.


    6. gr. laganna orðast svo:
     Setja skal með reglugerð ákvæði um það hverjir mega selja og flytja inn eiturefni.

IV. KAFLI


Um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 96/1990,


    

með síðari breytingum.


18. gr.


    2. tölul. 1. mgr. 16. gr. laganna orðast svo:
              2.    Dvelja hér á landi eða eru í atvinnuleit í EES-landi.
    Á eftir 41. gr. kemur ný grein, sem verður 41. gr. a, svohljóðandi:
                  Atvinnuleysistryggingasjóði er heimilt fyrir hönd þar til bærrar stofnunar í EES-landi að greiða ríkisborgara í EES-ríki, sem hingað kemur í atvinnuleit, atvinnuleysisbætur, enda endurgreiði sú stofnun sjóðnum þær fjárhæðir sem þannig eru inntar af hendi.

V. KAFLI


Um breytingar á ýmsum lögum um lyfjamál.


Breytingar á lyfjalögum, nr. 108/1984.


19. gr.


    3. mgr. 10. gr. laganna fellur niður.
    8. gr. laganna orðast svo:
                  Bannaðar eru hvers konar auglýsingar um lyf með þeim undantekningum sem um getur í kafla þessum.
    19. gr. laganna orðast svo:
                  Auglýsa má og kynna fullgerð lyf, sbr. 7. gr., lyfjavöru, læknis- og lækningaáhöld og lyfjagögn á íslensku í tímaritum eða blöðum lækna, lyfjafræðinga og tannlækna, dýralækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraþjálfara, ljósmæðra, lyfjatækna og annarra sem vinna áþekk störf, svo og nemenda í þessum greinum.
                  Í lyfjaauglýsingum skal auk nafns framleiðanda, heitis lyfs og virkra efna, tilgreina verð, helstu ábendingar og frábendingar er varða notkun hlutaðeigandi lyfja og pakkningastærðir. Enn fremur stærð skammta og helstu atriði önnur um notkun og aukaverkanir. Framangreindar upplýsingar skulu ætíð vera í samræmi við það sem greinir í lyfjaskrám.
    20. gr. laganna orðast svo:
                  Heimilt er þó að kynna fyrir heilbrigðisstéttum, sbr. 19. gr., lyf og áðurtalinn varning, en þó á þann hátt að ekki sé líklegt að auglýsingin komi almenningi fyrir sjónir.
    21. gr. laganna orðast svo:
                  Auglýsing og kynning lausasölulyfja er heimil.
                  Lyfjabúðum er heimilt að auglýsa og kynna þjónustu sína, svo sem heimsendingarþjónustu og verð.
                  Texti slíkra auglýsinga eða kynninga skal vera í samræmi við ákvæði reglugerðar um gerð lyfseðla og afgreiðslu lyfja, svo og annarra fyrirmæla er að þessu lúta.
    22. gr. laganna orðast svo:
                  Heimilt er að afhenda persónulega lækni, tannlækni eða dýralækni lyfjasýnishorn í minnstu pakkningu og án greiðslu, enda sé um að ræða nýskráð lyf til kynningar hér á markaði og ekki teljast ávana- eða fíknilyf.
                  Önnur afhending eða póstsending lyfjasýnishorna er óheimil.
    23. gr. laganna orðast svo:
                  Lyfjaeftirlit ríkisins gætir þess að lyfjaauglýsingar séu réttar. Það getur bannað tilteknar auglýsingar sem gefa rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um lyf. Það getur og krafist þess að auglýsandi sendi út leiðréttingar eða viðbótarskýringar.
    24. gr. laganna orðast svo:
                  Landlækni er heimilt að senda út tilkynningar um lyf, m.a. til þess að vara við aukaverkunum þeirra.
    25. gr. laganna orðast svo:
                  Landlæknir getur bannað auglýsingar um læknis- eða lækningaáhöld eða lyfjagögn, sbr. 1. mgr. 19. gr., er gefa rangar eða villandi upplýsingar. Auk þess getur hann krafist þess að auglýsandi sendi út leiðréttingar eða viðbótarskýringar.
    26. gr. laganna orðast svo:
                  Ráðherra er heimilt að fenginni umsögn Lyfjaeftirlits ríkisins og landlæknis að kveða nánar á í reglugerð um gerð auglýsinga er um ræðir í þessum kafla, þar með talin heimild til notkunar annarra tungumála í auglýsingum, sbr. 19. gr. Reglugerðin skal einnig kveða nánar á um meðferð og afhendingu lyfjasýnishorna, sbr. 22. gr.

Breytingar á lögum um lyfjadreifingu,


nr. 76/1982, með síðari breytingum.


20. gr.


    37. gr. laganna fellur niður.
    38. gr. laganna fellur niður.

VI. KAFLI


Gildistökuákvæði.


21. gr.


    Lög þessi öðlast gildi um leið og EES-samningurinn. Þegar lög þessi hafa hlotið staðfestingu skal fella ákvæði þeirra inn í meginmál þeirra laga sem þau breyta og gefa þau lög út svo breytt.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


     Vegna skuldbindinga Íslands samkvæmt samningnum um Evrópskt efnahagssvæði, sem undirritaður var 2. maí 1992, er nauðsynlegt að breyta ýmsum lögum á sviði heilbrigðis- og tryggingamála.
     Í yfirliti því, sem utanríkisráðuneytið dreifði 18. maí 1992 um lagabreytingar sem fyrirhugaðar eru vegna EES-samningsins, kemur fram að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hyggst leggja fram tvö lagafrumvörp í tengslum við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði, annars vegar frumvarp til nýrra lyfjalaga og hins vegar frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna EES-samningsins.
     Á þessum fyrirætlunum hafa orðið þær breytingar að frumvarp til nýrra lyfjalaga verður ekki borið fram í tengslum við lagabreytingar vegna EES-samningsins. Þess í stað hafa nauðsynlegar breytingar á lyfjalögum og lyfjadreifingarlögum verið felldar inn í frumvarp það sem hér liggur fyrir um breytingar á lagaákvæðum á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna aðildar að samningi um Evrópskt efnahagssvæði.
     Frumvarpið skiptist í sex kafla og hefur að geyma breytingartillögur við tuttugu lög. Þessi lög eru:

1.    Ýmis lög um heilbrigðisstéttir.
    Læknalög, nr. 53/1988, með síðari breytingu.
    Hjúkrunarlög, nr. 8/1974, með síðari breytingum.
    Tannlæknalög, nr. 38/1985.
    Ljósmæðralög, nr. 67/1984.
    Lög um lyfjafræðinga, nr. 35/1978, með síðari breytingum.
    Lög um iðjuþjálfun, nr. 75/1977, með síðari breytingu.
    Lög um sjúkraþjálfun, nr. 58/1976, með síðari breytingu.
    Lög um sjóntækjafræðinga, nr. 17/1984, með síðari breytingu.
    Öllum þessum lögum þarf að breyta vegna ákvæða III. hluta EES-samningsins, sbr. VII. viðauka hans um gagnkvæma viðurkenningu á starfsmenntun og hæfi. Hér hafa þrenn lög bæst við frá fyrrnefndu yfirliti utanríkisráðuneytisins, lög um iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun og sjóntækjafræðinga. Í ljós kom við nánari skoðun að vegna ákvæða þessara laga um íslenskt ríkisfang sem skilyrði leyfisveitingar þarf að rýmka þau gagnvart ríkisborgurum á EES-svæðinu.

2.    Lög um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988, með síðari breytingum.
     Lögunum þarf að breyta vegna II. viðauka um tæknilegar reglugerðir, staðla, prófanir og vottun, XV. hluta hans um hættuleg efni og vegna VII. viðauka um gagnkvæma viðurkenningu á starfsmenntun og hæfi.

3.    Lög um atvinnuleysistryggingar, nr. 96/1990, með síðari breytingum.
     Lögunum þarf að breyta vegna ákvæða í III. hluta EES-samningsins, sbr. VI. viðauka hans um félagslegt öryggi.
4.    Ýmis lög um lyfjamál.
    Lög um lyfjadreifingu, nr. 76/1982, með síðari breytingum.
    Lyfjalög, nr. 108/1984.
    Lögunum þarf að breyta vegna ákvæða í II. viðauka um tæknilegar reglugerðir, staðla, prófanir og vottun, sbr. XIII. hluta hans um lyf. Í fyrrnefndu yfirliti utanríkisráðuneytis var gert ráð fyrir að þessar breytingar kæmu í nýtt frumvarp til lyfjalaga. Ákveðið hefur verið að gera nauðsynlegar breytingar á lyfjalögum og lyfjadreifingarlögum í þessu frumvarpi. Nýtt frumvarp til lyfjalaga verður ekki tengt þingmeðferð EES-samningsins.

5.    Ýmis lög á vátryggingarsviði.
    Lög innlenda endurtryggingu, stríðsslysatryggingu o.fl., nr. 43/1947, með síðari breytingum.
    Lög um Brunabótafélag Íslands, nr. 9/1955, með síðari breytingum.
    Lög um brunatryggingar utan Reykjavíkur, nr. 59/1954, með síðari breytingum.
    Lög um búfjártryggingar, nr. 20/1943, með síðari breytingum.
    Lög um ófriðartryggingar, nr. 2/1944, með síðari breytingum.
    Lög um ávöxtun fjár tryggingafélaga, nr. 17/1964, með síðari breytingum.
    Lög um brunatryggingar í Reykjavík, nr. 25/1954.
    Umferðarlög, nr. 50/1987, með síðari breytingum.
     Lögum þessum þarf að breyta vegna ákvæða í III. hluta EES-samningsins, sbr. IX. viðauka hans um fjármálaþjónustu. Hér hafa fimm lög bæst við fyrrnefnt yfirlit utanríkisráðuneytisins. Við nánari skoðun Tryggingaeftirlitsins á íslenskri löggjöf á sviði vátryggingamála kom í ljós að breyta þarf lögum um búfjártryggingar, lögum um ófriðartryggingar og umferðarlögum til að uppfylla skilyrði EES-samningsins. Þá þarf og að fella niður lög um ávöxtun fjár tryggingafélaga. Lög um búfjártryggingar og umferðarlög heyra undir landbúnaðarráðuneyti og dóms- og kirkjumálaráðuneyti. Í samráði við þessi ráðuneyti var ákveðið að breytingar á lögunum yrðu gerðar í þessu frumvarpi. Þá hefur verið ákveðið að breyta strax lögum um brunatryggingar í Reykjavík. Þessu til viðbótar kom í ljós að vegna vátryggingarreglna EB þarf og að breyta lögum um greiðslu vátryggingaiðgjalda fiskiskipa sem heyra undir sjávarútvegsráðuneytið og loftferðalögum sem heyra undir samgönguráðuneytið. Breytingar á þessum lögum munu gerðar í frumvörpum á vegum þessara ráðuneyta. Í margnefndu yfirliti utanríkisráðuneytis frá því fyrr á þessu ári vantaði þessi lög einnig.
    Í frumvarpið vantar breytingar á lögum um bátaábyrgðarfélög, nr. 18/1976, með síðari breytingum, lögum um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, nr. 37/1978, lögum um vátryggingarstarfsemi, nr. 50/1978, og lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum, eins og boðað var í áðurnefndu yfirliti.
     Fyrr á þessu ári skipaði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra nefnd sem falið var að vinna að heildarendurskoðun lagaákvæða um bátaábyrgðarfélög hér á landi. Fyrirhugað var, þrátt fyrir þessa heildarendurskoðun, að gera nauðsynlegar breytingar á lögunum vegna EES-samningsins um leið og öðrum lagaákvæðum á vátryggingarsviði yrði breytt. Endurskoðunarnefndin telur hins vegar að ekki sé hægt að slíta þessar breytingar úr samhengi við þá heildarendurskoðun sem hún vinnur að. Því hefur verið ákveðið að haustið 1992 verði lagt fram á Alþingi frumvarp sem verði árangur þessarar heildarendurskoðunar og þar tekið tillit til þeirra breytinga sem reglur EES-samningsins krefjast. Lögin um bátaábyrgðarfélög og um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum eru svo nátengd að ekki er talið unnt að skilja að breytingartillögur á þeim og verða nauðsynlegar breytingar á síðarnefndu lögunum því einnig látnar bíða heildarendurskoðunarinnar.
     Sama gildir um lögin um vátryggingarstarfsemi. Fyrir nokkrum árum var skipuð nefnd til að vinna að heildarendurskoðun laganna. Nefndin telur æskilegra að fella nauðsynlegar breytingar vegna EES-samningsins inn í heildarendurskoðun sína fremur en gera breytingartillögur nú, ekki síst þar sem fyrirhugað er að leggja nýtt frumvarp til laga um vátryggingarstarfsemi fram á Alþingi í nóvemberbyrjun. Því frumvarpi mun fylgja frumvarp til laga um val á vátryggingarsamningalögum, sem nauðsynlegt er talið til að tryggja betur rétt vátryggingartaka þegar gerðir eru vátryggingarsamningar við vátryggingafélög í öðrum ríkjum. Gert er ráð fyrir að það frumvarp verði lagt fyrir strax í ársbyrjun 1993.
     Breytingar á lögum um almannatryggingar eru enn fremur látnar bíða um sinn. Fyrir því eru tvær ástæður. Annars vegar sú að í apríllok á þessu ári voru samþykktar veigamiklar breytingar á reglugerð EB á þessu sviði sem kalla á skjóta viðbótarskoðun EFTA-ríkjanna á almannatryggingalöggjöf sinni. Sú vinna er að hefjast og er þess vænst að í ljós komi þörf fyrir frekari breytingar á lögunum um almannatryggingar en þegar hafa verið boðaðar. Hins vegar hefur lögunum um almannatryggingar verið breytt u.þ.b. sjötíu sinnum á þeim tuttugu árum sem þau hafa verið í gildi og þau því lítt aðgengileg. Í byrjun þessa árs var ákveðið, í samræmi við ítrekuð fyrirmæli í breytingarlögum, að fella breytingarlög inn í upphaflegu lögin og gefa þau út að nýju. Í ljós hefur komið að við þessar endurteknu breytingar hafa lögin orðið ónákvæmari en æskilegt væri, rétt röð lagagreina raskast og allnokkrar eyður myndast. Því hefur verið ákveðið að útbúa frumvarp til laga um almannatryggingar með samfelldum, lagfærðum og leiðréttum lagatexta þar sem jafnframt verður að finna nauðsynlegar breytingar vegna EES-samningsins. Þetta frumvarp mun lagt fyrir Alþingi í byrjun október.
     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra mun því á næstu mánuðum leggja fram fimm lagafrumvörp vegna EES-samningsins til viðbótar við það frumvarp sem hér liggur fyrir. Þessi frumvörp eru:
    Frumvarp til laga um brottfall laga um bátaábyrgðarfélög, nr. 18/1976, með síðari breytingum.
    Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, nr. 37/1978, með síðari breytingu.
    Frumvarp til laga um vátryggingarstarfsemi.
    Frumvarp til laga um val á vátryggingarsamningalögum.
    Frumvarp til laga um almannatryggingar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.


    Þessi kafli breytir átta lögum um heilbrigðisstéttir og eru breytingarnar afleiðing af
reglum Evrópubandalagsins um staðfesturétt og frjálsa för fólks.

Um 1.–5. gr.


    Hjá Evrópubandalaginu eru í gildi sérstakar tilskipanir um fimm heilbrigðisstéttir, lækna (75/362 og 75/363), tannlækna (78/686 og 78/687), hjúkrunarfræðinga (77/452 og 77/453), ljósmæður (80/154 og 80/155) og lyfjafræðinga (85/432 og 85/433). Flestum þessum tilskipunum hefur verið breytt. Tilskipanirnar kveða á um skyldu aðildarríkja til að viðurkenna prófskírteini, vottorð og annan vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem önnur aðildarríki veita ríkisborgurum aðildarríkja í samræmi við þessar tilskipanir. Þetta þýðir að starfsleyfi lækna, tannlækna, hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra og lyfjafræðinga í einu EB-ríki skulu gilda í öðru aðildarríki.
     Samkvæmt EES-samningnum skal þessum reglum EB beitt á EES-svæðinu. Af því leiðir að hér á landi þarf að breyta 1. gr. í lögum þessara fimm heilbrigðisstétta því þar segir að sá einn megi starfa hér á landi í viðkomandi starfsstétt sem til þess hefur leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.
     Í frumvarpinu er því gerð breyting á 1. gr. allra þessara laga og skýrt tekið fram að innan viðkomandi heilbrigðisstéttar hér á landi geti starfað annars vegar þeir sem hafa til þess leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og hins vegar þeir sem fengið hafa staðfestingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á leyfi sínu í EES-ríki. Gert er ráð fyrir að með reglugerð verði nánari reglur settar um hvernig heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið standi að þessari staðfestingu.
     Gangur mála yrði þannig að ríkisborgari í EES-ríki með lækningaleyfi, t.d. í Þýskalandi, sem hygðist koma hingað og hefja hér lækningar, þarf fyrst að snúa sér til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og sýna þar þau skjöl sem staðfesta lækningaleyfi hans í Þýskalandi. Að lokinni skoðun ráðuneytisins á réttmæti skjalanna fengi viðkomandi síðan staðfestingu á því að hann mætti starfa sem læknir hér á landi. Þar með væri honum frjálst að starfa hér sjálfstætt sem læknir, t.d. opna stofu. Sömuleiðis gæti hann sótt um stöðu læknis, t.d. á sjúkrahúsum eða á heilsugæslustöðvum. Staðfestingin gefur honum hins vegar engan rétt til stöðuveitingar. Atvinnurekandi gæti t.d. hafnað honum á grundvelli engrar eða lélegrar íslenskukunnáttu.
     Í læknalögum og lögum um tannlækningar er að finna ákvæði um sérfræðingsleyfi sem sömu reglur gilda um. Af þeim sökum þarf að breyta 5. gr. læknalaga og 5. gr. tannlæknalaga. Rétt er hins vegar að benda á að í læknisfræði eru viðurkenndar sérgreinar mun færri hjá EB en hér á landi. Réttur til staðfestingar á sérgrein nær eingöngu til sérgreina sem eru sambærilegar milli landanna.
     Gerðar eru frekari breytingar á 5. gr., sbr. 2. gr. læknalaga, en nauðsynlegar eru samkvæmt ákvæðum EES-samningsins. Samkvæmt þessum ákvæðum skal sérstök þriggja manna nefnd fjalla um umsóknir um almennt lækningaleyfi en læknadeildin gefa umsögn um umsóknir um sérfræðingsleyfi. Í framkvæmd mun þessi nefnd gefa umsögn um hvort tveggja. Ástæðulaust þykir að hafa sérstaka nefnd í umsögnum um umsóknir vegna almenns lækningaleyfis og ákvæðið um hana því fært yfir í 5. gr. laganna og hún þar gerð að umsagnaraðila.
     Þá er og gerð viðbótarbreyting á 5. gr. tannlæknalaga sem ekki tengist EES-samningum. Þar er um að ræða að nefnd þeirri, sem fær til umsagnar sérfræðiumsóknir tannlækna, verður ekki lengur skylt heldur eingöngu heimilt að kveðja til tvo sérfróða tannlækna í þeirri sérgrein sem sótt er um.
     Þá er talið nauðsynlegt að skýrt komi fram í lögunum um þessar fimm heilbrigðisstéttir að sé ríkisborgari í EES-landi, sem hér starfar á grundvelli staðfestingar á leyfi í öðru EES-landi, sviptur leyfi sínu þar fellur niður heimild hans til að starfa hér á landi. Sömuleiðis er talið nauðsynlegt að taka skýrt fram að brjóti EES-borgari, sem hér starfar á grundvelli staðfestingar, af sér í þeim mæli að það mundi varða hann leyfissviptingu hefði hann leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra getur ráðherra svipt hann staðfestingunni sem starf hans hér á landi grundvallast á.

Um 6.–8. gr.


    Í þrennum lögum um heilbrigðisstéttir, lögum um iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun og lögum um sjóntækjafræðinga er það gert að skilyrði fyrir starfsleyfi hér á landi að viðkomandi sé íslenskur ríkisborgari. Þeir sem ekki eru íslenskir ríkisborgarar geta fengið leyfi en með öðrum skilyrðum.
     Reglur EB krefjast þess að engum sé mismunað á grundvelli ríkisfangs. Því er nauðsynlegt að breyta þessum þrennum lögum og tryggja að með umsóknir ríkisborgara í EES-ríki um starfsleyfi í þessum heilbrigðisstéttum sé farið á sama hátt og umsóknir Íslendinga.
     Þessum þremur lögum var öllum breytt með lögum nr. 23/1991, um breytingu á lagaákvæðum er varða fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri o.fl. Þar var gert ráð fyrir að erlendur ríkisborgari, sem hér hefði átt lögheimili í eitt ár, skyldi undanþeginn skilyrði um íslenskt ríkisfang. Frumvarp þetta breytir þessu og takmarkar ákvæðið frá því sem breytingin með lögum nr. 23/1991 gerði ráð fyrir. EES-ríkisborgarar munu njóta sama réttar til löggildingar og Íslendingar en aðrir útlendingar falla undir hið almenna ákvæði laganna um erlenda ríkisborgara. Rýmkun laga nr. 23/1991 þykir óþarflega mikil og því ákveðið að erlendir ríkisborgarar, aðrir en EES-borgarar, skuli sæta óbreyttum reglum frá því sem var fyrir gildistöku laganna nr. 23/1991.

Um II. kafla.


    Vegna ákvæða í III. hluta EES-samningsins um frjálsa fólksflutninga, frjálsa þjónustustarfsemi og frjálsa fjármagnsflutninga þarf að breyta ýmsum ákvæðum íslenskra laga á vátryggingarsviði. Breytingarnar lúta að því að ryðja úr vegi einkarétti einstakra vátryggingafélaga til að selja tilteknar tryggingar, skattalegum ívilnunum sem sum þessara félaga njóta umfram önnur félög og ákvæðum um staðfestingu ráðherra á vátryggingafélögum eða iðgjöldum svo nokkuð sé nefnt.
     Nokkur þeirra laga, sem hafa að geyma vátryggingarákvæði sem þarf að breyta vegna EES-samningsins, heyra undir önnur ráðuneyti. Tveimur þeirra er breytt með þessu frumvarpi í samráði við viðkomandi ráðuneyti. Um er að ræða umferðarlög sem heyra undir dómsmálaráðuneytið og lög um búfjártryggingar sem heyra undir landbúnaðarráðuneytið.
     Einnig mun þurfa að fella niður síðasta málslið 1. mgr. 137. gr. laga um loftferðir, nr. 34/1964, með síðari breytingum, og breyta orðalagi í 2. mgr. 2. gr. laga um greiðslu vátryggingariðgjalda fiskiskipa, nr. 17/1976, með síðari breytingu. Nauðsynleg breyting á loftferðalögum mun fylgja heildarendurskoðun þeirra sem unnið er að í samgönguráðuneytinu. Sjávarútvegsráðuneytið mun sjálft bera fram nauðsynlegt lagafrumvarp vegna breytinga á lögum um vátryggingariðgjald fiskiskipa.

Um 9. gr.


    Hér er gerð lítils háttar breyting á lögum um ófriðartryggingar, nr. 2/1944, með síðari breytingum. Felld er niður 3. mgr. 1. gr. en samkvæmt henni nær ófriðartryggingin ekki til fjármuna í landinu sem eru í eigu erlendra manna eða stofnana nema slíkir aðilar séu heimilisfastir hér á landi. Þetta ákvæði stangast á við hin almennu ákvæði EES-samningsins um jafnan rétt ríkisborgara svæðisins án tillits til þjóðernis.

Um 10. gr.


    Hér eru nauðsynlegar breytingar gerðar á lögum um innlenda endurtryggingu, stríðsslysatryggingu skipshafna o.fl., nr. 43/1947, með síðari breytingum. Í breytingunum felst að einkaréttur Íslenskrar endurtryggingar á stríðsslysatryggingum er felldur niður. Sömuleiðis eru afnumdar undanþágur Íslenskrar endurtryggingar á greiðslu opinberra gjalda og á stimpilskyldu. Þá er gerð breyting á 15. gr. laganna sem hefur í för með sér að ákvæði II. og III. kafla laganna verða almenns eðlis og munu framvegis eiga við um stríðsslysatryggingar hvort sem þær eru teknar hjá Íslenskri endurtryggingu eða öðru vátryggingafélagi. Með þessum breytingum er verið að setja Íslenska endurtryggingu jafnfætis öðrum félögum á vátryggingarmarkaði.

Um 11. gr.


    Breyta þarf lögum um brunatryggingar utan Reykjavíkur, nr. 59/1954, með síðari breytingum, og fella niður ákvæði þeirra um það að bæjar- og sveitarstjórnir hafi heimild til að semja við eitt vátryggingafélag um brunatryggingar á húsum í viðkomandi umdæmi og að skylt sé að vátryggja allar húseignir í umdæminu hjá þessum aðila. Vegna þessarar breytingar þykir eðlilegt að fella niður ábyrgð sveitarfélaganna á því að vátryggingunni sé haldið við.
     Í EES-samningnum er sérstakt undanþáguákvæði fyrir Húsatryggingar Reykjavíkurborgar. Lögum um brunatryggingar í Reykjavík, nr. 25/1954, þyrfti því ekki að breyta nú. Óeðlilegt þykir hins vegar að mismuna húseigendum eftir því hvar þeir búa á landinu. Því hefur verið ákveðið að notfæra ekki undanþáguákvæði EES-samningsins vegna Húsatrygginga Reykjavíkur heldur breyta lögunum um brunatryggingar í Reykjavík samhliða breytingunum á lögunum um brunatryggingar utan Reykjavíkur.
     Eðlilegt sýnist að fella lögin um brunatryggingar í Reykjavík niður, sbr. 15. gr. frumvarpsins, og breyta heiti laganna um brunatryggingar utan Reykjavíkur í lög um brunatryggingar til viðbótar þeim breytingum sem þegar hafa verið raktar.
     Vegna brottfalls laganna um brunatryggingar í Reykjavík verður að setja ákvæði til bráðabirgða í lögin um brunatryggingar utan Reykjavíkur (sem eftir samþykkt frumvarpsins munu verða almenn lög um brunatryggingar). Í bráðabirgðaákvæðinu er tryggt að á árinu 1993 verði brunatryggingar húsa í Reykjavík óbreyttar hjá Húsatryggingum Reykjavíkur en að Húsatryggingarnar skuli tímanlega tilkynna húseigendum að frá og með 1. janúar 1994 falli skuldbindingar þeirra niður. Húseigendur í Reykjavík verða því fyrir þann tíma að stofna til nýrrar skyldutryggingar hjá öðru vátryggingafélagi. Húsatryggingar Reykjavíkur eru bundnar af endurtryggingarsamningi til 1. janúar 1994. Bráðabirgðaákvæðið og sá aðlögunartími sem það veitir bæði húseigendum í Reykjavík og Húsatryggingum Reykjavíkur fellur vel saman við gildistíma þess samnings.
     Vegna þess að lögin um brunatryggingar í Reykjavík eru felld úr gildi og almenn ákvæði laganna um brunatryggingar utan Reykjavíkur fara að gilda um brunatryggingar húsa í Reykjavík eru hér nefndar tvær breytingar á framkvæmd laganna í Reykjavík á árinu 1993. Tekið er fram að skylt sé að brunatryggja hús í smíðum hvort sem er í Reykjavík eða utan Reykjavíkur, en ákvæði þar um er nú eingöngu að finna í lögunum um brunatryggingar utan Reykjavíkur. Þá er kveðið á um að miða skuli við vísitölu byggingarkostnaðar um breytingu á vátryggingarverðmæti húsa, en í lögum um brunatryggingar húsa í Reykjavík er almennt kveðið á um að miða skuli við breytingar á byggingarkostnaði.
     Afleiðing þessara breytinga er sú að áfram er húseigendum skylt að brunatryggja hús sín en ábyrgð sveitarfélaga á því að vátryggingu sé haldið við fellur niður. Tryggt er eftirlit með að skyldutryggingunni er sinnt með því að vátryggingafélag, sem er með húseign í brunatryggingu, má ekki taka gilda uppsögn tryggingarinnar nema jafnframt sé sýnt fram á að stofnað hafi verið til nýrrar skyldutryggingar hjá öðru félagi. Um Reykjavík gilda þó í fyrstu þær sérreglur að húseigendum ber að sinna skyldutryggingunni.
     Sveitarfélög utan Reykjavíkur munu bundin samningum um brunatryggingar við Brunabótafélag Íslands og Samvinnutryggingar g.t. til síðari hluta árs 1995. Ekki er ljóst hvort sá samningur muni standa óski einhver húseigandi utan Reykjavíkur eftir því að vátryggja hús sitt annars staðar en hjá því félagi sem samningurinn gerir ráð fyrir. Á það kann að reyna fyrir dómstólum fljótlega eftir gildistöku EES-samningsins.
     Ráðuneytið telur að þessar breytingar komi ekki í veg fyrir að sveitarfélög geti haft milligöngu um að leita hagstæðra samninga um brunatryggingar enda yrðu húseigendur ekki bundnir við slíkan samning kysu þeir að leita annað.

Um 12. gr.


    Breyta þarf lögum um Brunabótafélag Íslands, nr. 9/1955, með síðari breytingum, vegna breytinga á lögunum um brunatryggingar utan Reykjavíkur, sbr. 11. gr., og fella tvær lagagreinar úr gildi og breyta einni.

Um 13. gr.


    Lagt er til að lög um ávöxtun fjár tryggingafélaga, nr. 17/1964, með síðari breytingum, verði felld úr gildi. Lögin kveða á um skyldu líftryggingafélaga að verja tilteknum hluta ráðstöfunarfjár tryggingasjóðs líftrygginga til kaupa á tilteknum bréfum af Húsnæðisstofnun ríkisins og setur félagsmálaráðuneytið nánari reglur um framkvæmdina. Ráðstöfunarfé af þessu tagi hefur nánast ekkert verið þar eð lífeyristryggingar hafa ekki náð teljandi útbreiðslu hér á landi. Lögin hafa því ekki haft mikla þýðingu. Ekki mun verða heimilt á EES-svæðinu að skylda vátryggingafélög til að ráðstafa ráðstöfunarfé sínu með þessum hætti.

Um 14. gr.


    Hér er gerð breyting á lögum um búfjártryggingar, nr. 20/1943, með síðari breytingum. Breytingin lýtur að því að afnema einkarétt búfjártryggingadeildar Brunabótafélags Íslands á þeim tryggingum sem lögin mæla fyrir um. Því fylgja allnokkrar breytingar á lögunum.
     Lög þessi heyra undir landbúnaðarráðuneytið en í samráði við það er þeim breytt í tengslum við aðrar breytingar á lögum á vátryggingarsviði til að tryggja betri yfirsýn yfir nauðsynlegar breytingar á lagaákvæðum á vátryggingarsviði vegna EES-samningsins.

Um 15. gr.


    Hér er lagt til að lögin um brunatryggingu í Reykjavík, nr. 25/1954, verði felld úr gildi. Að öðru leyti vísast til skýringa með 11. gr. frumvarpsins.

Um 16. gr.


    Hér er gerð breyting á umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum. Breytingin felst í því að vátryggingafélag, sem annast að greiðsla á bótakröfu vegna tjóns sem hlýst af notkun skráningarskylds vélknúins ökutækis, skuli vera viðurkennt eða skráð af dómsmálaráðherra. Í gildandi lögum er eingöngu gert ráð fyrir að félögin séu viðurkennd. Vegna breytinga á reglum um vátryggingarstarfsemi er nauðsynlegt að gera ráð fyrir að félögin geti einnig verið skráð af dómsmálaráðherra.
     Umferðarlögin heyra undir dómsmálaráðuneytið en í samráði við það er ákvæðinu breytt hér í tengslum við aðrar breytingar á lögum á vátryggingarsviði. Þannig fæst betri yfirsýn yfir nauðsynlegar lagabreytingar á þessu sviði vegna EES-samningsins.

Um 17. gr.


    Ákvæði laganna um eiturefni og hættuleg efni varðandi sölu og innflutning eiturefna eru of þröng og samrýmast ekki þeim reglum sem gilda hjá EB um þetta efni. Hér er því gert ráð fyrir að ákvæði 6. gr. falli niður en í þeirra stað komi almenn heimild um að skipa málum vegna sölu og innflutnings eiturefna með reglugerð. Í framhaldi lögfestingar þessa frumvarps mun reglugerð um þetta efni, sem styðst við reglur EB á þessu sviði, verða sett.

Um 18. gr.


    Nauðsynlegt er að gera nokkrar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar vegna EES-samningsins. Lögin gera nú ráð fyrir að greiðsla atvinnuleysistryggingabóta sé bundin við dvöl hér á landi. Þessu þarf að breyta því reglur EB, sem verða reglur EES-svæðisins, gera ráð fyrir að fari atvinnulaus einstaklingur í atvinnuleit innan svæðisins beri landinu, þar sem hann á rétt á atvinnuleysisbótum, að greiða honum áfram bætur þann tíma sem honum er atvinnuleitin heimil, eða þrjá mánuði. Sömuleiðis verður að heimila Atvinnuleysistryggingasjóði að hafa milligöngu um greiðslu atvinnuleysistryggingabóta til þeirra sem með þessum hætti komu hingað til lands í atvinnuleit því reglur EB gera ráð fyrir að stofnun í dvalarlandinu geti annast greiðslu bótanna á kostnað þar til bærrar stofnunar í landinu sem viðkomandi kom frá.

Um 19. gr.


    Hér eru gerðar ýmsar breytingar á lyfjalögum. Breytingarnar lúta að því að breyta ákvæðum um auglýsingar og kynningu lyfja til samræmis við reglur EB á þessu sviði. Þannig eru hertar reglur um auglýsingu og kynningu skráningarskyldra lyfja en reglur um auglýsingu og kynningu lausasölulyfja rýmkaðar. Þá er og fellt niður það ákvæði lyfjalaga að hafna megi umsókn um skráningu sérlyfs ef hið virka efni er svo líkt fáanlegu lyfi að það sem skilur geti ekki haft teljandi þýðingu. Þetta ákvæði brýtur í bága við samkeppnisreglur EES-samningsins.

Um 20. gr.


    Vegna samkeppnisreglna EES-samningsins er nauðsynlegt að gera breytingar á 37. og 38. gr. laganna um lyfjadreifingu og fella þær niður.

Um 21. gr.


    Breytingar á lagaákvæðum, sem tengjast gildistöku EES-samningsins, eiga að ganga í gildi um leið og samningurinn. Meðan hann hefur ekki verið staðfestur þykir því eðlilegt að hafa gildistökuákvæði laganna skilyrt með þeim hætti sem hér kemur fram. Jafnframt þykir nauðsynlegt að hafa í lögunum endurútgáfuheimild á lögum þeim sem þau eru að breyta.