Ferill 30. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 30 . mál.


31. Frumvarp til stjórnarskipunarlaga



um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33 17. júní 1944.

Flm.: Ragnar Arnalds, Steingrímur Hermannsson, Ingbjörg Sólrún Gísladóttir,


Ólafur Ragnar Grímsson, Páll Pétursson, Kristín Einarsdóttir.



    Á eftir 45. gr. stjórnarskrárinnar kemur ný grein svohljóðandi:
    Nú hefur samningur, sem háður er samþykki Alþingis, sbr. 2. málsl. 21. gr., hlotið jákvæða afgreiðslu í þinginu og getur þá þriðjungur alþingismanna krafist þess að hann sé borinn undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Meiri hluti atkvæða ræður úrslitum málsins.
    Þriðjungur alþingismanna getur krafist þess að frumvarp til laga eða þingsályktunar sé borið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu áður en það hlýtur fullnaðarafgreiðslu. Úrslit atkvæðagreiðslunnar eru ráðgefandi.
    Nánari reglur um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu skulu settar með lögum.

Greinargerð.


     Í stjórnarskránni er ekkert almennt ákvæði um þjóðaratkvæði og hefur aldrei verið. Þó er skylt að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu ef Alþingi samþykkir frumvarp til breytinga á kirkjuskipun ríkisins, sbr. 79. gr., og ef forseti synjar að staðfesta lagafrumvarp, sbr. 26. gr.
    Í löggjöf margra ríkja er ráð fyrir því gert að bera megi mikilvæg mál undir dóm þjóðarinnar. Sem dæmi má nefna ítarleg ákvæði dönsku stjórnarskrárinnar sem veita þriðjungi þingmanna rétt til að krefjast þess að samþykkt lagafrumvarp sé lagt fyrir kjósendur til samþykktar eða synjunar. Þó eru ýmsar tegundir lagafrumvarpa undanþegnar, t.d. fjárlög, launa- og eftirlaunalög og skattalög. Frumvarp verður ekki fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu nema 30% kjósenda taki þátt í atkvæðagreiðslunni en að öðru leyti eru úrslitin bindandi fyrir löggjafann.
    Að undanförnu hafa miklar umræður orðið um aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði. Það er viðurkennt af öllum að þessi samningur er viðamesti og örlagaríkasti samningur sem gerður hefur verið fyrir hönd þjóðarinnar um áratugaskeið. Skoðanakannanir hafa sýnt að mjög er óljóst hver vilji þjóðarinnar er í þessu máli og hugsanlegt er að meiri hluti kjósenda sé á móti þessum samningi. Efni samningsins hafði lítt verið kynnt kjósendum fyrir seinustu alþingiskosningar. Þess vegna hefur sú krafa stöðugt orðið háværari að samningurinn verði borinn undir dóm þjóðarinnar. Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja svo og mörg önnur launþega- og hagsmunasamtök, hafa tekið undir kröfuna um þjóðaratkvæði. Enn hefur þó ríkisstjórnin ekki tekið undir þessa kröfu.
    Þessi umræða minnir á að brýn þörf er á almennum ákvæðum í stjórnarskrá um rétt minni hluta á Alþingi til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu. Sérstaklega á það við þegar fullveldisréttindi þjóðarinnar eiga í hlut. Hér er lagt til að samningur, sem háður er samþykki Alþingis, sbr. 2. málsl. 21. gr., og hlotið hefur jákvæða afgreiðslu í þinginu, skuli borinn undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar ef þriðjungur alþingismanna krefst þess. Meiri hluti atkvæða ræður úrslitum málsins.
    Samkvæmt 2. mgr. 21. gr. gildandi stjórnarskrár eru samningar við önnur ríki, sem hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi, háðir samþykki Alþingis. Í öðru frumvarpi til stjórnarskipunarlaga, sem flutt er af sömu þingmönnum og bera fram þetta frumvarp, er lagt til að skilgreining 2. málsl. 21. gr. sé útvíkkuð þannig að samningar séu háðir samþykki Alþingis „ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða á hvers konar fullveldisrétti í íslenskri lögsögu, framsal einhvers hluta ríkisvalds til fjölþjóðlegrar stofnunar eða samtaka eða ef þeir horfa að öðru leyti til breytinga á stjórnhögum ríkisins“. Jafnframt er áskilið að þrír fjórðu alþingismanna greiði slíkum samningi atkvæði. Samkvæmt 1. mgr. frumvarpsins, sem hér er gerð grein fyrir, getur þriðjungur alþingismanna vísað slíku máli í þjóðardóm þótt það hafi hlotið samþykki Alþingis með tilskildum meiri hluta.
    Samhliða þessu er óhjákvæmilegt að gefa þjóðinni kost á að segja álit sitt á umdeildum þjóðmálum sem lögð eru fyrir Alþingi áður en þau eru afgreidd. Þó verður að stuðla að því að þessi réttur sé ekki ofnotaður heldur einungis nýttur þegar sérstök ástæða þykir til. Í 2. mgr. frumvarpsins er því lagt til að þriðjungur þingmanna geti krafist þess að fram fari ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um mál sem Alþingi hefur til meðferðar.