Ferill 41. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 41 . mál.


42. Frumvarp til lagaum friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana o.fl.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)1. gr.

    Alþjóðastofnanir skulu njóta þeirrar friðhelgi og þeirra forréttinda hér á landi sem kveðið er á um í alþjóðasamningum sem öðlast hafa gildi að því er Ísland varðar.
    Eftirtaldir skulu einnig njóta friðhelgi og forréttinda samkvæmt samningum þessum hér á landi:
    starfslið alþjóðastofnana,
    þeir sem koma fram eða starfa á vegum alþjóðastofnana,
    fulltrúar, sendimenn og erindrekar aðila að alþjóðastofnunum,
    þeir sem taka þátt í rekstri mála fyrir alþjóðastofnunum og
    fjölskyldur þeirra sem getið er í 1.–4. tölul.
    

2. gr.

    Hlutaðeigandi ráðherra getur sett nánari reglur um framkvæmd laga þessara.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi eftirtalin lagaákvæði:
    Lög um heimild til að staðfesta fyrir Íslands hönd alþjóðasamning um réttindi Sameinuðu þjóðanna, nr. 13 frá 1. mars 1948.
    Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd samþykkt um alþjóðasiglingamálastofnun (IMCO), nr. 52 frá 11. júní 1960.
    Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd samning Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um stofnun Norræna fjárfestingarbankans, nr. 26 frá 12. maí 1976.
    Lög um Þróunarsjóð fyrir Færeyjar, Grænland og Ísland, nr. 4 frá 19. febrúar 1987.
    Lög um norrænan þróunarsjóð, nr. 14 frá 7. mars 1989.
    Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að staðfesta samninga um réttarstöðu skrifstofu ráðherranefndar Norðurlanda og stjórnarnefndar Norðurlandaráðs og um réttarstöðu samnorrænna stofnana, nr. 55 frá 22. maí 1989.
    5. gr. laga vegna aðildar Íslands að Evrópusamningi um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, nr. 15 frá 27. mars 1990.
    Lög um norrænt fjármögnunarfélag á sviði umhverfisverndar, nr. 102 frá 12. desember 1990.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta var flutt á 113. löggjafarþingi 1990–91 og varð þá eigi útrætt. Það er endurflutt með örfáum breytingum.
    Ísland er aðili að ýmsum alþjóðastofnunum. Í alþjóðasamningum þeim, er liggja til grundvallar þessum stofnunum, er iðulega að finna ýmis ákvæði er leggja aðildarríkjum á herðar skyldur til að tryggja stofnunum þessum réttarstöðu í aðildarríkjum, svo og friðhelgi, forréttindi og undanþágur til handa þeim, starfsliði þeirra og erindrekum. Eignir stofnana og skjalasöfn eru friðheilög og ekki má leggja ýmsar takmarkanir á eignir þeirra. Samskiptafrelsi þarf að tryggja og veita starfsmönnum og erindrekum ýmis réttindi til þess að þeir geti sinnt störfum sínum í þágu þessara stofnana. Viss fríðindi á sviði skatta og tolla þarf einnig að tryggja. Slík ákvæði eru nauðsynleg til þess að stofnanirnar geti framfylgt hlutverki sínu og til þess að tryggja óháða framkvæmd þeirra starfa sem þeim er fyrir lagt.
    Með þessu frumvarpi er lagt til að farið verði að dæmi margra annarra þjóða, þar á meðal Norðmanna, Dana og Svía, og skapaður grundvöllur í almennum lögum þannig að ekki þurfi að setja sérlög um þessi skyldubundnu réttindi í hvert skipti sem Ísland gerist aðili að alþjóðastofnun.
    Hér á landi hafa verið sett nokkur sérlög sem varða þetta efni:
    Lög um heimild til að staðfesta fyrir Íslands hönd alþjóðasamning um réttindi Sameinuðu þjóðanna, nr. 13/1948. Samkvæmt lögunum hefur samningurinn lagagildi hér á landi. Lögin ná aðeins til Sameinuðu þjóðanna sem slíkra en ekki sérstofnana þeirra.
    Lög um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess, nr. 110/1951.
    Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd samþykkt um alþjóðasiglingamálastofnun (IMCO), nr. 52/1960. Samþykktin hefur lagagildi hér á landi samkvæmt lögunum. Í 50. og 51. gr. og II. viðbæti samþykktarinnar er að finna ákvæði um friðhelgi.
    Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að gerast aðili að alþjóðasamningi um lausn fjárfestingardeilna milli ríkja og þegna annarra ríkja, nr. 74/1966. Samkvæmt lögunum hefur samningurinn lagagildi hér á landi. Í 18.–24. gr. samningsins er kveðið á um friðhelgi og undanþágur.
    Lög um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stjórnmálasamband, nr. 16/1971. Samningurinn hefur lagagildi hér á landi.
    Lög um norrænan tækni- og iðnþróunarsjóð, nr. 54/1973, en samkvæmt lögunum hefur Norðurlandasamningur um norrænan tækni- og iðnþróunarsjóð lagagildi hér á landi. Í samningnum er ekki kveðið á um friðhelgi en í 2. gr. laganna eru sjóðnum veittar undanþágur.
    Lög um aðild Íslands að alþjóðasamningi um ræðissamband, nr. 4/1978. Samningurinn hefur lagagildi hér á landi.
    6. gr. laga um Iðnþróunarsjóð, nr. 9/1970, en samkvæmt lögunum hefur samningur um norrænan iðnþróunarsjóð fyrir Ísland lagagildi hér á landi. Í 5. gr. samningsins er kveðið á um friðhelgi og undanþágur.
    Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd samning Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um stofnun Norræna fjárfestingarbankans, nr. 26/1976. Samningurinn hefur lagagildi hér á landi.
    Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að staðfesta fyrir Íslands hönd þrjá alþjóðasamninga um varnir gegn mengun sjávar af völdum olíu, nr. 14/1979. Samkvæmt lögunum hafa samningarnir lagagildi hér á landi en 34. gr. eins þeirra, samnings frá 18. desember 1971 um stofnun alþjóðasjóðs til að bæta tjón af völdum olíumengunar, kveður á um forréttindi og undanþágur.
    Lög um Þróunarsjóð fyrir Færeyjar, Grænland og Ísland, nr. 4/1987.
    Lög um norrænan þróunarsjóð, nr. 14/1989.
    Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að staðfesta samninga um réttarstöðu skrifstofu ráðherranefndar Norðurlanda og stjórnarnefndar Norðurlandaráðs og um réttarstöðu samnorrænna stofnana, nr. 55/1989. Samningarnir hafa lagagildi hér á landi.
    Lög vegna aðildar Íslands að Evrópusamningi um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, nr. 15/1990, sbr. 5. gr.
    Lög um norrænt fjármögnunarfélag á sviði umhverfisverndar, nr. 102/1990.
    Verði frumvarp þetta að lögum verða sum ofangreindra lagaákvæða óþörf og er því með 3. gr. frumvarpsins lagt til að þau verði felld úr gildi.
    Í fskj. I eru skráð ákvæði um friðhelgi og forréttindi í samningum sem Ísland er aðili að. Viðkomandi ákvæði í samningi frá 29. maí 1990 um stofnun Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu eru birt í fskj. II sem sýnishorn slíkra ákvæða.
    Þess má geta að ákvæði viðkomandi samninga hafa fyrst og fremst gildi gagnvart þeim ríkjum þar sem stofnanirnar eru. Lítt eða ekki reynir í reynd á ákvæði þessi á Íslandi enda eru stofnanirnar yfirleitt ekki hér á landi né útibú þeirra. Öruggara þykir þó að hafa lagagrundvöllinn hér á landi í lagi enda er það skylt samkvæmt samningunum.
    Verði frumvarp þetta að lögum verður unnt að uppfylla skuldbindingar í samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls frá 2. maí 1992, sbr. 44. gr. samningsins og bókanir 6 og 7 við hann um gerhæfi, forréttindi og friðhelgi eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins. Einnig verður unnt að gerast aðili að samningi frá 21. nóvember 1947 um forréttindi og friðhelgi sérstofnana Sameinuðu þjóðanna. Enn fremur er ætlunin að Ísland fullgildi 4. og 5. bókanir við samning frá 2. september 1949 um réttindi og griðhelgi Evrópuráðsins. Þær fjalla um réttarstöðu dómara Mannréttindadómstóls Evrópu og nefndarmanna mannréttindanefndar Evrópu. Einnig verður unnt að fullgilda Evrópusamning frá 6. maí 1969 um aðila sem taka þátt í málflutningi fyrir mannréttindanefnd og Mannréttindadómstól Evrópu.
    Tekið skal fram að í 30. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, sbr. 3. gr. laga, nr. 49/1987, eru ákvæði um skattfrelsi launatekna starfsliðs alþjóðastofnana. Í 4. tölul. 3. gr. tollalaga, nr. 55/1987, eru ákvæði um að aðilar, sem undanþegnir eru skattskyldu með sérstökum lögum, skuli ekki greiða toll af innfluttum vörum. Einnig má minna á að skv. 11. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, verður íslenskum hegningarlögum einungis beitt með þeim takmörkunum sem leiðir af reglum þjóðaréttarins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hugtakið alþjóðastofnanir nær til hvers konar stofnana sem byggja á samningum milli tveggja eða fleiri ríkja, þar á meðal eru alþjóðasamtök.
    Þeir aðilar, sem eru taldir upp í 2. mgr., njóta þargreindra réttinda eingöngu að því leyti sem þau eru tryggð í viðkomandi alþjóðasamningi.

Um 2. gr.

    
    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal I.


Ákvæði um friðhelgi og forréttindi í samningum


sem Ísland er aðili að .     Alþjóðaflugmálastofnunin (ICAO). 47. og 60. gr. samþykktar um Alþjóðaflugmálastofnunina frá 7. 12. 1944 (SÍ 49).
     Sameinuðu þjóðirnar:
    104. og 105. gr. Sáttmála hinna Sameinuðu þjóða frá 26.6.1945 (SÍ 52);
    samningur frá 13. febrúar 1946 um réttindi og griðhelgi Sameinuðu þjóðanna (SÍ 56), sbr. lög nr. 13/1948;
    5. gr. samnings frá 21.11. 1956 um tæknilega aðstoð milli Íslands og Sameinuðu þjóðanna og stofnana þeirra (SÍ 112).
     Matvæla- og landbúnaðarstofnun hinna Sameinuðu þjóða (FAO). 4. tölul. 8. gr. og 16. gr. stofnskrárinnar frá 16.10.1945 (SÍ 53).
     Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). XII. kafli stofnskrárinnar frá 16.11.1945 (C 5/1964).
     Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF). IX. kafli samkomulags frá 27.12.1945 um samþykktir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (SÍ 54, sbr. C 18/1978).
     Alþjóðabanki til endurbyggingar og nýbyggingar (IBRD) . 7. gr. samkomulags frá 27.12.1945 um samþykktir bankans (SÍ 55).
     Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO). 66.–68. gr. stofnskrárinnar frá 22.7.1946 (SÍ 59).
     Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO). 40. gr. gerðar frá 9.10.1946 um breytingar á stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (SÍ 60).
     Alþjóðaveðurfræðistofnunin (WMO). 27. gr. samnings frá 11.10.1947 um Alþjóðaveðurfræðistofnunina (SÍ 66).
     Alþjóðasiglingamálastofnunin (IMO). 50. og 51. gr. og II. viðbætir samþykktar frá 6.3.1948 um Alþjóðasiglingamálastofnunina (SÍ 67), sbr. lög nr. 52/1960.
     Evrópuráðið:
    40. gr. stofnskrár Evrópuráðsins frá 5.5.1949 (SÍ 79);
    samningur frá 2.9.1949 um réttindi og griðhelgi Evrópuráðsins (SÍ 83), ásamt bókunum frá 6.11.1952 (SÍ 84), 15.12.1956 (SÍ 85) og 6.3.1959 (C 8/1971).
     Tollasamvinnuráðið (Customs Co-operation Council). 13. gr. samnings frá 15.12. 1950 um tollasamvinnuráð og viðaukinn við samninginn (C 2/1971).
     Norður-Atlantshafsbandalagið:
    Samkomulag frá 20.9.1951 varðandi réttarstöðu Norður-Atlantshafsbandalagsins, fulltrúa og starfslið þess (SÍ 78);
    bókun frá 28.7.1952 varðandi aðstöðu alþjóðlegra hernaðarbækistöðva sem stofnað hefur verið til samkvæmt Norður-Atlantshafssamningnum (SÍ 97).
     Alþjóðalánastofnunin (IFC). 6. gr. samkomulags frá 25.5.1955 um Alþjóðalánastofnun (SÍ 104).
     Alþjóðakjarnorkumálastofnunin (IAEA). 15. gr. stofnskrár stofnunarinnar frá 26.10.1956 (SÍ 111).
     Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA). 35. gr. samnings frá 4.1.1960 um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu og bókun frá 28.1.1960 við samninginn um löghæfi, sérréttindi og friðhelgi Fríverslunarsamtaka Evrópu (C 7/1970).
     Hin alþjóðlega framfarastofnun (IDA). 8. gr. samnings frá 26.1.1960 um Hina alþjóðlegu framfarastofnun (SÍ 121).
     Efnahagssamvinnu- og framfarastofnunin (OECD). 19. gr. samnings frá 14.12. 1960 um Efnahagssamvinnu- og framfarastofnunina og viðbótarsamkomulag II við samninginn (SÍ 124).
     Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES). 15. gr. samnings frá 12.9.1964 um alþjóðahafrannsóknaráðið (C 2/1965).
     Alþjóðleg stofnun til lausnar fjárfestingardeilum. 18.–24. gr. samnings frá 18.3.1965 um lausn fjárfestingardeilna milli ríkja og þegna annarra ríkja (C 13/1966), sbr. lög nr. 74/1966.
     Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna. 43. gr. alþjóðasamnings frá 19.12.1966 um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (C 10/1979).
     Alþjóðasjómælingastofnunin (IHO). 13. gr. samnings frá 3.5.1967 um Alþjóðasjómælingastofnunina (C 6/1968).
     Alþjóðahugverkastofnunin (WIPO). 12. gr. samnings frá 14.7.1967 um stofnun Alþjóðahugverkastofnunarinnar (C 11/1986).
     Norrænn iðnþróunarsjóður fyrir Ísland. Engin ákvæði um friðhelgi eru í samningi frá 12.12.1969 um sjóðinn (C 8/1970) en í 6. gr. laga nr. 9/1970 er gert ráð fyrir undanþágum.
     Alþjóðastofnun fjarskipta um gervihnetti (INTELSAT). XV. gr. samnings frá 20.8.1971 um alþjóðastofnun fjarskipta um gervihnetti (C 3/1975).
     Alþjóðasjóður til að bæta tjón af völdum olíumengunar. 34. gr. alþjóðasamnings frá 18.12.1971 um stofnun sjóðsins (C 10/1980), sbr. lög nr. 14/1979.
     Norrænn tækni- og iðnþróunarsjóður. Engin ákvæði um friðhelgi eru í samningi frá 20.2.1973 um sjóðinn (C 18/1973) en í 2. gr. laga nr. 54/1973 er gert ráð fyrir undanþágum.
     Norræni fjárfestingarbankinn. 5. gr. samnings frá 4.12.1975 um stofnun bankans (C 12/1976), sbr. lög nr. 26/1976.
     Evrópustofnun fjarskipta um gervitungl (EUTELSAT). XVII. gr. stofnsamnings frá 15.7.1982 (C 7/1986).
     Alþjóðahafsbotnsstofnunin. 176.–183. gr. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna frá 10.12.1982 (C 7/1985). Ekki enn í gildi.
     Norrænn þróunarsjóður fyrir hin vestlægu Norðurlönd. 6. gr. samnings frá 19.8.1986 um stofnun sjóðsins (C 2/1987), sbr. lög nr. 4/1987.
     Skrifstofur Norðurlandaráðs. Samningur frá 13.5.1987 um réttarstöðu skrifstofu ráðherranefndar Norðurlanda og stjórnarnefndar Norðurlandaráðs (C 12/1989), sbr. lög nr. 55/1989.
     Norrænn þróunarsjóður. 6. gr. samnings um sjóðinn frá 3.11.1988 (C 15/1988), sbr. lög nr. 14/1989.
     Samnorrænar stofnanir. Samningur frá 9.12.1988 um réttarstöðu samnorrænna stofnana og starfsfólks þeirra (C 7/1989), sbr. lög nr. 55/1989.
     Norrænt fjármögnunarfélag á sviði umhverfisverndar. 6. gr. samnings frá 2. mars 1990 um stofnun Norræns fjármögnunarfélags á sviði umhverfisverndar (C 26/1990), sbr. lög nr. 102/1990.
     Endurreisnar- og þróunarbanki Evrópu. VIII. kafli samnings frá 29. maí 1990 um stofnun bankans (C 2/1991).Fylgiskjal II.


Úr stofnsamningi Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu.VIII. kafli.


Réttarstaða, friðhelgi, forréttindi og undanþágur.44. gr.

Tilgangur kaflans.


    Réttarstöðu þá, friðhelgi, forréttindi og undanþágur, sem lýst er í kafla þessum, skal veita bankanum á landsvæðum allra aðildarríkja svo að hann geti til fullnustu gegnt hlutverki sínu og þeim störfum sem honum eru falin.

45. gr.

Réttarstaða bankans.


    Bankinn skal hafa fullt rétthæfi og m.a. gerhæfi að því er varðar það að:
   i.    gera samninga,
  ii.    eignast og afsala lausafé og fasteignum og
 iii.    höfða mál.

46. gr.

Staða bankans gagnvart málssókn.


    Aðeins má höfða mál gegn bankanum fyrir þar til bærum dómi með lögsögu á landsvæði þar sem bankinn hefur skrifstofu, hefur tilnefnt umboðsmann til að taka við kvaðningu eða stefnu fyrir rétt eða hefur gefið út eða ábyrgst verðbréf. Eigi verður þó höfðað mál á hendur bankanum af hálfu eignaraðila eða einstaklinga sem eru fulltrúar fyrir eignaraðila eða hafa fengið kröfur framseldar frá þeim. Fé og eignir bankans skulu án tillits til staðsetningar og handhafa vera undanþegnar hvers konar töku, löghaldi eða aðför áður en lokaúrskurður hefur verið kveðinn upp í máli gegn bankanum.

47. gr.

Friðhelgi fyrir eignasviptingu.


    Fé og eignir bankans skulu án tillits til staðsetningar og handhafa vera undanþegnar leit, afhendingarkröfu, upptöku, eignarnámi eða hvers konar annarri töku eða sviptingu með stjórnvaldsráðstöfun eða löggjöf.

48. gr.

Friðhelgi skjalasafns.


    Skjalasafn bankans skal vera friðheilagt, svo og almennt öll skjöl sem tilheyra því eða eru varðveitt þar.

49. gr.

Undanþága eigna frá takmörkunum.


    Að svo miklu leyti sem nauðsynlegt er til að bankinn geti gegnt hlutverki sínu og störfum og í samræmi við ákvæði samnings þessa skal allt fé og eignir bankans njóta undanþágu frá hvers konar takmörkunum, reglugerðum, hömlum og greiðslufrestunum.

50. gr.

Forréttindi varðandi orðsendingar.


    Eignaraðilar skulu fara með opinberar orðsendingar bankans á sama hátt og opinberar orðsendingar annarra eignaraðila.

51. gr.

Friðhelgi yfirmanna og annarra starfsmanna.


    Allir bankaráðsmenn, fulltrúar í bankastjórn, varamenn, yfirmenn og aðrir starfsmenn bankans, svo og sérfræðingar sem starfa að verkefnum á vegum bankans, skulu njóta undanþágu frá málssókn vegna embættisverka nema bankinn afsali þessari undanþágu. Einnig skulu öll opinber gögn og skjöl þeirra njóta friðhelgi. Friðhelgi þessi nær þó ekki til almennrar ábyrgðar vegna tjóns er hlýst af umferðaróhappi sem bankaráðsmaður, fulltrúi í bankastjórn, varamaður, yfirmaður, annar starfsmaður eða sérfræðingur er valdur að.

52. gr.

Forréttindi yfirmanna og annarra starfsmanna.


    Allir bankaráðsmenn, fulltrúar í bankastjórn, varamenn, yfirmenn og aðrir starfsmenn bankans, svo og sérfræðingar sem starfa að verkefnum á vegum bankans,
   i.    sem ekki eru heimamenn, skulu njóta sömu undanþágu frá innflytjendatakmörkunum, kröfum um skráningu útlendinga og herskyldu og sömu aðstöðu varðandi gjaldeyrisreglur og eignaraðilar veita fulltrúum, embættismönnum og öðrum starfsmönnum á sama stigi frá öðrum eignaraðilum og
  ii.    skulu njóta sömu kjara viðvíkjandi ferðaaðstöðu og eignaraðilar veita fulltrúum, embættismönnum og öðrum starfsmönnum á sama stigi frá öðrum eignaraðilum.
 2.         Makar og fjölskyldur þeirra fulltrúa í bankastjórn, varamanna þeirra, yfirmanna, annarra starfsmanna og sérfræðinga bankans, sem eru búsettir í því landi er hýsir höfuðstöðvar bankans, skulu fá tækifæri til að starfa í því landi. Makar og fjölskyldur þeirra fulltrúa í bankastjórn, varamanna þeirra, yfirmanna, annarra starfsmanna og sérfræðinga bankans, sem eru búsettir í því landi er hýsir útibú eða umboðsskrifstofu bankans, skulu, eftir því sem unnt er, fá sams konar tækifæri til að starfa þar enda sé það í samræmi við lög þess lands. Bankinn skal gera sérstakan samning um framkvæmd þessa ákvæðis við landið er hýsir höfuðstöðvar bankans og, eftir því sem við á, hin löndin sem hlut eiga að máli.


53. gr.

Skattfrelsi.


    Á sviði opinberrar starfsemi sinnar skulu bankinn, eignir, fé og t