Ferill 78. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 78 . mál.


83. Frumvarp til

laga

um breytingu á lögum nr. 53 16. maí 1978, um eftirlit með framleiðslu á fóðurvörum, áburði og sáðvörum og verslun með þær vörur.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



1. gr.


    Síðari málsliður 6. gr. fellur brott.

2. gr.


    7. gr. laganna orðast svo:
     Landbúnaðarráðherra ákveður með reglugerð hvaða upplýsingar skylt er að láta fylgja vörum sem lög þessi ná yfir.

3. gr.


    8. gr. laganna orðast svo:
     Taka skal sýni til rannsókna eins oft og þurfa þykir og skal eftirlitsaðili hafa aðgang að eftirlitsskyldum vörum hvar og hvenær sem hann óskar þess. Um framkvæmd sýnatöku skulu sett nánari ákvæði í reglugerð.

4. gr.


    15. gr. laganna fellur brott.

5. gr.


    Í stað skammstafananna FR, ÁR og SR í lögunum í 13., 16., 17., 18., 20. og 22. gr. kemur: eftirlitsaðili. Í stað orðsins „áburðareftirlitinu“ kemur í 19. gr. orðið: eftirlitsaðila.
     Í stað orðsins „eftirlitsdeildar“ í 1. málsl. 6. gr. kemur: eftirlitsaðila og í stað orðsins „eftirlitsdeild“ í 10. gr. kemur: eftirlitsaðili.

6. gr.


    Lög þessi öðlast gildi um leið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið öðlast gildi að því er Ísland varðar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Lög nr. 53/1978, um eftirlit með framleiðslu á fóðurvörum, áburði og sáðvörum og verslun með þær vörur, taka til umfangsmikils málaflokks í væntanlegu EES-samstarfi sem á sér stoðir í eftirfarandi ráðstilskipunum EB:
     Í viðauka I kafla II um fóður eru tilskipanir ráðsins nr. 70/524 EBE, 70/373 EBE, 73/373 EBE, 74/63 EBE, 77/101 EBE, 79/373 EBE, 82/471 EBE, 83/228 EBE, 87/153 EBE o.fl. ásamt seinni tíma breytingum.
    Í viðauka I kafla III um sáðvörur og plöntur eru tilskipanir ráðsins nr. 66/400 EBE, 66/401 EBE, 66/402 EBE, 69/208 EBE, 70/457 EBE, 70/458 EBE, 72/168 EBE, 72/180 EBE, 74/268 EBE, 81/675 EBE, 86/109 EBE, 87/309 EBE, 89/14 EBE, 89/374 EBE, 89/540 EBE, 89/639 EBE o.fl. ásamt seinni tíma breytingum.
     Í viðauka II kafla XIV um tilbúinn áburð, tilskipun ráðsins nr. 76/116 o.fl. ásamt seinni tíma breytingum.
     Í frumvarpi því, sem hér liggur fyrir, hefur verið tekið tillit til ofangreindra tilskipana ráðsins að svo miklu leyti sem nú er talið að þær varði landbúnað hér á landi og eru breytingar þær, sem hér eru lagðar til á lögum, í samræmi við efnisreglur ofangreindra tilskipana. Tilgangur breytinganna er m.a. að samræma efnistök og marka skýrar en verið hefur þann ramma sem vöruflokkar þeir, sem lögin ná yfir, eiga að falla að. Jafnframt að opna möguleika á að aðrir en opinberir aðilar geti annast mælingar á þeim gæðaþáttum sem krafist er á hverjum tíma.