Ferill 60. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 60 . mál.


97. Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Finns Ingólfssonar um útboð á vegum umhverfisráðuneytisins á árinu 1991 til og með 31. ágúst 1992.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hversu mörg útboð í vöru, þjónustu og framkvæmdir voru á vegum ráðuneytisins og stofnana, sem undir það heyra, á árinu 1991 til og með 31. ágúst 1992?
    Hvaða útboð voru þetta?
    Í hve mörgum og hvaða tilvikum var lægsta tilboði tekið?
    Í hve mörgum og hvaða tilvikum var lægsta tilboði ekki tekið? Hvaða rökstuddu ástæður lágu að baki þeirri ákvörðun?


    Sex útboð voru á vegum umhverfisráðuneytis og stofnana á ofangreindu tímabili.
    Á vegum aðalskrifstofu umhverfisráðuneytisins voru eftirtalin útboð á tímabilinu:
                  Innkaupastofnun ríkisins var falið að selja ráðherrabíl og var besta tilboði tekið.
                  Einnig var á þessu ári leitað tilboða í þýðingu, setningu og prentun á bókinni „Umhverfi og þróun“ í tengslum við umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Rio de Janeiro. Lægstu tilboðum var tekið.
                  Enn fremur hefur verið leitað til Innkaupastofnunar ríkisins varðandi kaup á tölvubúnaði og er þar gengið inn í besta samning sem Innkaupastofnun hefur gert við viðkomandi söluaðila hverju sinni.
                  Skipulagsstjóri ríkisins efndi tvisvar til útboða í þjónustu á tímabilinu. Í annað skiptið var um að ræða útboð í prentun á bréfsefni og í hinu tilvikinu prentun á ársskýrslu. Í báðum tilvikum var lægsta tilboði tekið.
                  Náttúruverndarráð hefur einu sinni efnt til formlegs útboðs á umræddu tímabili. Um var að ræða smáauglýsingu þar sem auglýst var til sölu og niðurrifs fjárhús og refa- og minkahús á jörðinni Ási í Kelduhverfi. Tilboðsfrestur var til 4. september 1992 en ekkert tilboð hefur borist.
                  Á vegum mengunarvarnasviðs Hollustuverndar ríkisins, Landmælinga Íslands, embættis veiðistjóra, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Veðurstofu Íslands og mengunarvarnadeildar Siglingamálastofnunar ríkisins voru engin útboð á umræddu tímabili.
    Í öllum tilvikum var lægsta tilboði tekið.
    Í engu tilviki var lægsta tilboði ekki tekið.