Ferill 212. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 212 . mál.


253. Frumvarp til laga



um hönnunarvernd.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



I. KAFLI


Almenn ákvæði.


1. gr.


    Hönnun samkvæmt lögum þessum merkir útlit og gerð vöru eða skreytingu hennar í tví- eða þrívídd. Lögin taka ekki til hönnunar þegar aðeins er af tæknilegum ástæðum völ á einum möguleika varðandi útlit eða gerð vöru.
     Hönnuður eða sá sem sækir rétt sinn til hans getur samkvæmt lögunum öðlast einkarétt til hönnunar sem hagnýtt verður í atvinnulífi.

2. gr.


    Einungis sérstæð hönnun nýtur verndar samkvæmt lögum þessum.
     Sérstæð telst sú hönnun sem ekki hefur fyrir upphafsdag, sbr. 6. gr., verið gerð aðgengileg kunnáttumönnum á viðkomandi sviði og frá sjónarhóli notenda er, þegar á heildina er litið, verulega frábrugðin hönnun sem þeir þekkja.

3. gr.


    Hönnun nýtur ekki verndar:
    ef hún eða notkun hennar brýtur gegn siðgæði eða allsherjarreglu,
    ef hún:
         
    
    felur heimildarlaust í sér einkenni eða merki sem um getur í 117. gr. almennra hegningarlaga eða einkenni sem eru svo lík öðrum merkjum eða einkennum sem aðrir eiga löglegt tilkall til að villast má á þeim og hönnuninni.
         
    
    felur heimildarlaust í sér ríkistákn, opinber alþjóðamerki, merki íslenskra bæjar- og sveitarfélaga eða opinber skoðunar- og gæðamerki.

4. gr.


    Hönnunarvernd getur stofnast með tvennum hætti:
    með skráningu á grundvelli umsóknar, sbr. 14. gr.,
    með því að gera vöru, sem hönnunin einkennir, aðgengilega almenningi.

5. gr.


    Í skráðri hönnunarvernd felst að aðrir en rétthafi mega ekki heimildarlaust framleiða, nota í atvinnuskyni, markaðssetja, bjóða til sölu eða leigu, stunda útflutning á, flytja inn eða safna birgðum af vöru sem frá sjónarhóli notenda er, þegar á heildina er litið, eins eða mjög lík hinni skráðu hönnun.
     Í óskráðri hönnunarvernd felst að beina eftirlíkingu af hönnun má ekki framleiða, nota í atvinnuskyni, markaðssetja, bjóða til sölu eða leigu, stunda útflutning á, safna birgðum af né flytja inn án heimildar rétthafa.

6. gr.


    Upphafsdagur skráðrar hönnunarverndar er umsóknardagur hér á landi, sbr. þó 4. mgr. 19. gr.
     Upphafsdagur óskráðrar hönnunarverndar er sá dagur þegar hönnun verður fyrst aðgengileg almenningi.

7. gr.


    Hafi sá er sækir um hönnunarvernd hér á landi á síðustu sex mánuðum fyrir umsóknardag sótt um vernd á sömu hönnun á grundvelli hönnunarlaga (mynsturlaga) eða laga um smáeinkaleyfi í öðru landi sem er aðili að Parísarsamþykktinni skal litið svo á að umsóknin hafi verið lögð inn samtímis hinni fyrri, enda leggi umsækjandi fram kröfu þar að lútandi. Sama rétt eiga þeir sem sótt hafa um vernd á hönnun í ríki sem ekki er aðili að Parísarsamþykktinni ef það ríki viðurkennir samsvarandi forgangsrétt íslenskra umsókna og lög þess um hönnunarvernd eða vernd smáeinkaleyfa eru í aðalatriðum í samræmi við samþykktina.

8. gr.


    Hönnun getur talist sérstæð, sbr. 2. gr., þótt hún hafi birst almenningi allt að 12 mánuðum fyrir umsóknardag (griðtími), enda sé hún birt fyrir atbeina:
    hönnuðar eða þess sem öðlast hefur rétt hans,
    aðila sem byggir á upplýsingum eða gjörðum hönnuðar.

9. gr.


    Réttur til hönnunarverndar (hönnunarréttur) tilheyrir hönnuði eða þeim sem öðlast hefur rétt hans.
     Hafi tveir eða fleiri aðilar unnið sameiginlega að hönnun tilheyrir hönnunarverndin þeim sameiginlega.
     Hafi tveir eða fleiri sjálfstæðir aðilar án þess að vita hver af öðrum unnið að sams konar eða mjög svipaðri hönnun sem hver í sínu lagi uppfyllir skilyrði 2. gr. skal:
    réttur til óskráðrar hönnunar tilheyra hverjum hönnuði fyrir sig, en
    réttur til skráðrar hönnunar tilheyra þeim er fyrstur lagði inn umsókn um skráningu.
     Sé krafist forgangsréttar skv. 7. gr. skal taka mið af forgangsréttardegi varðandi mat á rétti til skráðrar verndar, sbr. b-lið 3. mgr.

10. gr.


    Nú hefur rétthafi, sbr. 1. mgr. 9. gr., eða annar aðili notað í atvinnuskyni hér á landi sömu eða mjög svipaða hönnun er annar hefur fengið verndaða með skráningu. Er honum þá heimilt að halda sömu hagnýtingu áfram að því tilskildu að hann hafi verið í góðri trú og að hagnýting hafi hafist áður en umsókn um vernd á hinni skráðu hönnun var lögð inn. Sama á við um þann sem undir sömu kringumstæðum hafði gert verulegar ráðstafanir til að hagnýta hönnunina í atvinnuskyni hér á landi.
     Réttur skv. 1. mgr. telst hluti af viðkomandi atvinnustarfsemi og verður ekki framseldur einn sér.

11. gr.


    Sá sem telur sig eiga tilkall til hönnunarverndar, sbr. 9. gr., er sótt hefur verið um skráningu á eða skráð hefur verið á nafn annars aðila getur krafist þess fyrir dómi að skráningin verði færð á hans nafn. Sá sem á rétt á að vera skráður sem meðeigandi hönnunarverndar getur krafist þess að vera skráður sem slíkur.
     Mál skv. 1. mgr. skal höfða innan tveggja ára frá því skráning er birt í riti skráningaryfirvalda, sbr. 5. mgr. 13. gr. Frestur þessi á ekki við ef eiganda skráðrar hönnunar var kunnugt um að hann ætti ekki löglegt tilkall til hönnunarverndarinnar er hún var skráð eða framseld honum.
     Í hönnunarskrá, sbr. 3. mgr. 13. gr., skal getið um málshöfðun skv. 2. mgr. og niðurstöðu máls.
     Verði eigendaskipti á skráðri hönnunarvernd á grundvelli dóms, sbr. 1. mgr., falla nytjaleyfi og önnur réttindi niður við skráningu hins nýja rétthafa. Eigendaskipta skal getið í hönnunarskrá.
     Hafi skráður rétthafi hönnunarverndar eða nytjaleyfishafi notað hönnunina eða gert ráðstafanir þar að lútandi áður en mál skv. 1. mgr. er höfðað er viðkomandi heimilt að halda áfram notkun að því tilskildu að hann innan tveggja mánaða óski eftir almennu nytjaleyfi hjá hinum nýja, skráða rétthafa. Nytjaleyfið skal veita í sanngjarnan tíma með sanngjörnum skilmálum.
     Hafi skráður rétthafi eða nytjaleyfishafi verið í vondri trú þegar notkun eða undirbúningur notkunar hófst á ákvæði 5. mgr. ekki við.

12. gr.


    Hafi rétthafi hönnunarverndar eða einhver með samþykki hans markaðssett vöru er nýtur hönnunarverndar eða heimilað slíkt getur hann ekki hindrað notkun, markaðssetningu, sölu, leigu, innflutning, útflutning eða annars konar dreifingu á vörunni á hinu Evrópska efnahagssvæði.

II. KAFLI


Skráningaryfirvöld o. fl.


13. gr.


    Málefni samkvæmt lögum þessum falla undir iðnaðarráðherra.
     Einkaleyfastofan fer með framkvæmd laganna. Með skráningaryfirvöldum er átt við þá stofnun nema annað sé tekið fram.
     Einkaleyfastofan heldur hönnunarskrá og tekur hún til skráðrar hönnunarverndar fyrir landið allt. Skráin skal vera aðgengileg almenningi.
     Iðnaðarráðherra skipar áfrýjunarnefnd í málum er varða hönnunarvernd. Nefndin úrskurðar í málum er til hennar verður skotið og varða ákvarðanir skráningaryfirvalda. Í reglugerð verður nánar kveðið á um nefndina.
     Í riti, sem Einkaleyfastofan gefur út, skal birta skráningar og tilkynningar samkvæmt lögum þessum.

III. KAFLI


Umsókn, skráning o.fl.


14. gr.


    Umsókn um hönnunarvernd skal skila skriflega til Einkaleyfastofunnar. Umsókn skulu fylgja myndir (teikningar eða ljósmyndir) er greinilega sýni hönnun þá er óskast vernduð.
     Nafn hönnuðar skal tilgreint í umsókn. Sé umsækjandi annar en hönnuður skal umsækjandi sanna rétt sinn til hönnunar.
     Umsækjandi skal greiða tilskilin gjöld vegna umsóknar.
     Umsókn má hafa að geyma stutta lýsingu á hönnuninni. Einnig geta skráningaryfirvöld óskað eftir því að slík lýsing sé lögð fram. Lýsingin hefur ekki áhrif á umfang hönnunarverndar.
     Heimilt er að leggja fram líkan af hönnun. Hafi líkan verið lagt fram telst það ákvarðandi varðandi útlit eða gerð hönnunar.
     Nánar skal kveðið á um innihald og frágang umsóknar í reglugerð.

15. gr.


    Rétthafi hönnunarverndar, sem ekki hefur lögheimili hér á landi, skal hafa umboðsmann búsettan hérlendis sem getur komið fram fyrir hans hönd í öllu því sem viðkemur umsókn og skráningu.
     Nafn og heimilisfang umboðsmanns skal skrá í hönnunarskrá.

16. gr.


    Skráningaryfirvöld skulu flokka hönnun samkvæmt alþjóðlegu flokkunarkerfi í viðauka Locarno-sáttmálans sem upphaflega var gerður 8. október 1968. Slík flokkun hefur ekki áhrif á umfang verndar.

17. gr.


    Í einni og sömu umsókn er heimilt að sækja um vernd á fleiri en einni hönnun er mynda samstæðu. Hver hluti hönnunarsamstæðu verður að tilheyra sama undirflokki samkvæmt Locarno-sáttmálanum, sbr. 16. gr. Nánari reglur um slíka samskráningu skal setja í reglugerð.

18. gr.


    Við innlagningu umsóknar getur umsækjandi farið fram á rannsókn á því hvort hönnun, sem umsóknin varðar, uppfyllir skilyrði 2. gr.
     Leiði rannsókn í ljós að umsókn uppfyllir ekki skilyrði 2. gr. skal henni hafnað. Hönnun verður þó ekki afmáð úr hönnunarskrá fyrr en umsækjanda hefur, innan tilskilins frests, gefist kostur á að tjá sig um ákvörðun skráningaryfirvalda.
     Hver sem er getur krafist rannsóknar á því hvort tiltekin hönnun sé eins eða svipuð skráðri hönnun eða hönnun sem sótt hefur verið um skráningu á og orðin er almenningi aðgengileg.
     Fyrir rannsókn skv. 1. og 3. mgr. skal greiða tilskilið rannsóknargjald.

19. gr.


    Skráningaryfirvöld skulu kanna:
    hvort umsókn uppfyllir skilyrði 1. og 3. gr.,
    hvort umsókn uppfyllir skilyrði 14., 15. og 17. gr.
     Telji skráningaryfirvöld að umsókn uppfylli ekki skilyrði skv. a-lið 1. mgr. skal henni hafnað. Hönnun verður þó ekki afmáð úr hönnunarskrá fyrr en umsækjanda hefur innan tilskilins frests gefist kostur á að tjá sig um ákvörðun skráningaryfirvalda.
     Teljist umsókn ekki uppfylla skilyrði skv. b-lið 1. mgr. skal umsækjanda gert viðvart og honum gefinn kostur á að tjá sig eða lagfæra umsóknina innan tilskilins frests. Ef umsækjandi tjáir sig ekki eða gerir nauðsynlegar ráðstafanir til að lagfæra umsóknina áður en fresturinn rennur út skal hún afskrifuð.
     Ef umsækjandi í framhaldi af ábendingu skv. 3. mgr. gerir þær lagfæringar á umsókn sinni sem skráningaryfirvöld telja að breyti umsókn efnislega skal upphafsdagur hennar teljast sá dagur er breytingarnar bárust yfirvöldum.

20. gr.


    Þegar umsókn er í samræmi við settar reglur skal hönnun sú, sem umsóknin tekur til, skráð og umsækjanda látin í té staðfesting um að svo hafi verið gert.
     Skráning hönnunarverndar skal birt í sérstöku riti er skráningaryfirvöld gefa út.

21. gr.


    Umsókn um hönnunarvernd skal ávallt vera aðgengileg almenningi þegar sex mánuðir eru liðnir frá umsóknardegi eða forgangsréttardegi ef forgangsréttar er krafist.
     Frá skráningu hönnunarverndar er umsókn aðgengileg almenningi.
     Samkvæmt beiðni umsækjanda má fresta skráningu í allt að sex mánuði frá umsóknardegi eða forgangsréttardegi ef forgangsréttar er krafist.

IV. KAFLI


Gildistími og endurnýjun.


22. gr.


    Hönnun, sem uppfyllir skilyrði 2. gr., nýtur verndar án skráningar í tvö ár frá upphafsdegi skv. 2. mgr. 6. gr. hafi hún komið fyrir almenningssjónir fyrir tilstilli hönnuðar eða þess sem öðlast hefur rétt hans. Sama á við ef þriðji aðili birtir hönnun á grundvelli upplýsinga frá hönnuði eða vegna gjörða hans.
     Um leið og hönnunarvernd er skráð fellur úr gildi vernd á sams konar eða líkri hönnun sem sami aðili er eigandi að.
     Ef skráð hönnunarvernd fellur síðar úr gildi eða sætir ógildingu öðlast óskráð vernd ekki gildi á ný.

23. gr.


    Skráð hönnunarvernd gildir í fimm ár frá því umsókn var lögð inn, sbr. þó 4. mgr. 19. gr. Skráningu má endurnýja til fimm ára í senn þar til 25 ára verndartíma er náð.

24. gr.


    Umsókn um endurnýjun ásamt tilskildu endurnýjunargjaldi skal lögð inn hjá skráningaryfirvöldum í fyrsta lagi þremur mánuðum áður en skráningartímabili lýkur og í síðasta lagi sex mánuðum eftir lok þess.
     Berist skráningaryfirvöldum ekki umsókn um endunýjun á því tímabili sem um getur í 1. mgr. skal skráningin afmáð úr hönnunarskrá.
     Í riti skráningaryfirvalda skal birta tilkynningu um að skráning hafi verið afmáð.

V. KAFLI


Ógilding skráningar og réttur til áfrýjunar.


25. gr.


    Ógilda má hönnunarvernd með dómi:
    ef hún uppfyllir ekki skilyrði 1. eða 2. gr.,
    ef ákvæði 3. gr. eiga við,
    ef hönnun brýtur í bága við annars konar eldri hugverkaréttindi.

26. gr.


    Skráningaryfirvöld geta lýst skráða hönnunarvernd ógilda samkvæmt kröfu sem grundvallast á ákvæðum 1.–3. tölul. 25. gr. og sem berst skráningaryfirvöldum innan tveggja ára frá skráningardegi.
     Krafa skv. 1. mgr. skal vera skrifleg og rökstudd. Greiða skal tilskilið gjald vegna slíkrar kröfu.
     Komi fram krafa um ógildingu skal rétthafa hinnar skráðu hönnunarverndar tilkynnt um það og honum gefið tækifæri til að tjá sig um kröfuna.

27. gr.


    Hverjum þeim, sem hefur lögmætra hagsmuna að gæta, er heimilt að höfða mál skv. 25. gr. eða gera kröfu um ógildingu skv. 26. gr.

28. gr.


    Ef höfðað hefur verið mál þar sem gerð er krafa um að skráning hönnunarverndar verði færð á nafn annars aðila, sbr. 1. mgr. 11. gr., eða um ógildingu skráðrar hönnunar, sbr. 25. gr., verður skráning ekki afmáð fyrr en meðferð málsins fyrir dómstólum er lokið og afrit dóms hefur borist Einkaleyfastofunni.
     Komist skráningaryfirvöld að þeirri niðurstöðu að skráning skuli ógilt skal hún afmáð. Tilkynna skal málsaðilum um ógildingu hönnunarverndar þegar í stað.
     Tilkynni rétthafi skráðrar hönnunarverndar bréflega að hann afsali sér hönnunarvernd ber að afmá skráninguna.

29. gr.


    Hönnunarvernd, sem er ógilt með dómi eða af skráningaryfirvöldum, telst ógild frá upphafi.

30. gr.


    Aðilar máls geta skotið endanlegri ákvörðun skráningaryfirvalda til áfrýjunarnefndar, sbr. 4. mgr. 13. gr. Tilkynning um áfrýjun skal berast áfrýjunarnefnd innan tveggja mánaða frá því að skráningaryfirvöld tilkynntu viðkomandi um ákvörðunina. Innan sama frests skal greiða tilskilið áfrýjunargjald. Sé gjaldið ekki greitt skal vísa áfrýjun frá.

VI. KAFLI


Framsal, nytjaleyfi o. fl.


31. gr.


    Rétt til hönnunarverndar má framselja ásamt atvinnurekstri þeim sem hönnunin er notuð í eða einan sér.
     Nú framselur einhver atvinnurekstur sinn og eignast framsalshafi þá rétt til hönnunarverndar sem rekstrinum tilheyrir nema um annað hafi verið samið.

32. gr.


    Hafi rétthafi hönnunarverndar veitt öðrum leyfi til að nota hönnun sína í atvinnuskyni má nytjaleyfishafi ekki framselja rétt sinn nema sérstaklega hafi verið um það samið.
     Sé nytjaleyfi veitt fyrirtæki má framselja leyfið ásamt fyrirtækinu nema um annað sé samið.

33. gr.


    Nytjaleyfishafa er, að fengnu samþykki rétthafa verndarinnar, heimilt að höfða mál vegna brota á hönnunarvernd.
     Nytjaleyfishafa er heimilt að gerast aðili að réttaraðgerðum sem rétthafi hönnunarverndar á frumkvæði að, enda eigi nytjaleyfishafi rétt á bótum vegna tjóns sem hann hefur orðið fyrir eða gæti orðið fyrir vegna brots.

34. gr.


    Hvers kyns aðilaskipti að skráðri hönnunarvernd skal færa í hönnunarskrá samkvæmt tilkynningu aðila og gegn tilskildu gjaldi.
     Framsal á skráðu nytjaleyfi skal því aðeins fært í hönnunarskrá að nytaleyfishafi sanni að hann hafi samþykki eiganda hönnunarverndarinnar fyrir framsalinu.
     Ef færðar eru sönnur á að skráð nytjaleyfi sé fallið úr gildi skal það afmáð úr hönnunarskrá.
     Sé um samskráningu að ræða yrðu aðilaskipti ekki færð í hönnunarskrá nema þau nái til hönnunarsamstæðu í heild sinni.
     Mál varðandi hönnunarvernd má jafnan höfða gegn þeim sem er skráður rétthafi í hönnunarskrá og tilkynningar skráningaryfirvalda má senda honum.
     Breytingar í hönnunarskrá varðandi rétthafa eða nytjaleyfishafa skal birta í riti skráningaryfirvalda.

VII. KAFLI


Refsing, viðurlög o.fl.


35. gr.


    Unnt er að krefjast lögbanns við athöfn sem þegar hefur hafist eða er sannanlega yfirvofandi og brýtur eða mun brjóta gegn hönnunarrétti.

36. gr.


    Sá sem af ásetningi brýtur gegn einkarétti þeim, er hönnunarvernd veitir, skal sæta sektum. Eftir aðstæðum getur refsing verið varðhald eða fangelsi í allt að þrjá mánuði.
     Sektir samkvæmt lögum þessum má gera jafnt lögaðila sem einstaklingi. Lögaðila má ákvarða sekt án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á starfsmann lögaðilans. Hafi starfsmaður lögaðilans framið brot á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim má einnig gera lögaðilanum sekt og sviptingu starfsréttinda, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hefur notið hagnaðar af brotinu. Lögaðili ber ábyrgð á greiðslu sektar sem starfsmaður hans er dæmdur til að greiða vegna brota á lögum þessum, enda séu brot tengd starfi hjá lögaðilanum.
     Dæma má upptöku eigna skv. 69. gr. almennra hegningarlaga í máli er rís vegna brota á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim.
     Mál samkvæmt þessari grein skulu rekin í samræmi við reglur um meðferð opinberra mála.

37. gr.


    Sá sem af ásetningi eða gáleysi brýtur gegn hönnunarrétti skal greiða hæfilegt endurgjald fyrir hagnýtingu hönnunar og skaðabætur fyrir annað tjón sem brot hans hefur haft í för með sér.
     Sá sem hagnast hefur af broti gegn hönnunarrétti án þess þó að um ásetning eða gáleysi sé að ræða skal greiða hæfilegt endurgjald. Bætur þessar skulu þó ekki vera hærri en ætla má að nemi hagnaði hins bótaskylda af brotinu.

38. gr.


    Hafi hönnunarréttur verið skertur getur dómstóll mælt fyrir um ráðstafanir til að koma í veg fyrir frekari misnotkun hönnunarverndar. Unnt er að ákveða að vöru, sem hönnun einkennir, verði breytt á tiltekinn hátt, hún ónýtt eða afhent rétthafa hönnunarverndar. Þetta á þó ekki við gagnvart þeim sem í góðri trú hefur eignast viðkomandi vöru eða öðlast umráðarétt yfir henni og ekki hefur sjálfur framið brot gegn hönnunarrétti.

39. gr.


    Rétt til að höfða mál samkvæmt ákvæðum þessa kafla hefur sá sem telur hagsmuni sína skerta.
     Mál skv. 37. og 38. gr. skulu rekin sem almenn einkamál en kröfur skv. 37. gr. er einnig heimilt að setja fram í opinberu máli.

VIII. KAFLI


Ýmis ákvæði.


40. gr.


    Iðnaðarráðherra setur nánari reglur um framkvæmd laga þessara.

41. gr.


    Lög þessi öðlast gildi þegar eitt ár er liðið frá staðfestingu þeirra.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta tekur til verndar hugverka á sviði hönnunar. Með hönnun samkvæmt frumvarpinu er átt við útlit og gerð vöru og skreytingu hennar. Verði frumvarpið að lögum bætist nýtt svið við hugverkaréttindi sem hægt er að fá vernduð með skráningu hér á landi. Mynstur sem nytjalist njóta nú óskráðrar verndar samkvæmt höfundalögum.
     Frumvarpið er samið af starfsmönnum Einkaleyfastofunnar, Ástu Valdimarsdóttur lögfræðingi, Ellý K.J. Guðmundsdóttur lögfræðingi og Gunnari Guttormssyni, forstjóra stofnunarinnar. Á fundum með fulltrúum ýmissa hagsmunaaðila í samtökunum Form Ísland hafa farið fram gagnleg skoðanaskipti um ýmis stefnumarkandi atriði og einstaka þætti frumvarpsins.
     Við samningu frumvarpsins var einkum stuðst við tillögur og hugmyndir um hönnunarvernd sem verið hafa til umfjöllunar í ríkjum Evrópubandalagsins og EFTA frá miðju ári 1991. Tillögurnar fela í sér verulegar breytingar og nýmæli miðað við gildandi norræna mynsturlöggjöf. — Ísland mun vera fyrsta Evrópuríkið sem leggur fram frumvarp að nýrri löggjöf um hönnunarvernd á grundvelli þessara tillagna enda er Ísland eina ríkið í V-Evrópu, að Grikklandi frátölu, sem ekki hefur sérstök lög um hönnunarvernd.
     Þörfin fyrir skráða hönnunarvernd hefur orðið æ ljósari með hverju árinu sem líður. Þar kemur ekki síst til stöðugt vaxandi þáttur hönnunar í markaðssetningu og viðskiptum. Íslenskir hönnuðir og framleiðendur verða í þessu efni að eiga völ á sambærilegri vernd á hönnun sinni og líkur eru á að lögfest verði í helstu viðskiptalöndum okkar. Í flestum iðnríkjum njóta hönnuðir og framleiðendur skráðrar mynsturverndar. Hér er hins vegar ekki völ á slíkri vernd.
     Á árinu 1990 ákvað iðnaðarráðherra að ráðuneytið tæki þátt í samstarfi annarra Norðurlanda um undirbúning nýrrar löggjafar um hönnunarvernd. Iðnaðarráðuneytið (og síðar Einkaleyfastofan) hefur átt fulltrúa í vinnuhópi norrænu einkaleyfastofnananna um þetta verkefni. Þá hefur iðnaðarráðuneytið tekið þátt í starfi sérfræðinga á vegum EFTA í hugverkaréttindum sem átt hafa fundi með sérfræðingum Evrópubandalagsins á þessu sviði.

Helstu efnisatriði frumvarpsins.


    
Samkvæmt frumvarpinu markast hönnunarvernd af eftirfarandi megindráttum:
—    hönnunarvernd tekur til heildarútlits vöru og skreytinga á vöru,
—    einungis hönnun sem er sérstæð frá sjónarhóli kunnáttumanna og almennings getur notið verndar,
—    réttur til hönnunarverndar tilheyrir hönnuði eða þeim er öðlast hefur rétt hans,
—    hönnun getur ýmist verið skráð — og hámarksverndartími 25 ár frá innlagningu umsóknar — eða óskráð og hámarksverndartími tvö ár frá því hún kemur fyrst fyrir almenningssjónir,
—    skráning fer fram á grundvelli umsóknar um vernd og án þess að áður fari fram nákvæm efnisleg rannsókn,
—    umsókn verður fyrst og fremst rannsökuð með tilliti til formskilyrða,
—    hægt verður að fara fram á ítarlega forrannsókn gegn sérstakri greiðslu,
—    unnt er að sækja um vernd á fleiri en einni hönnun í sömu umsókn ef vissum skilyrðum er fullnægt,
—    með eins árs griðtíma er reynt að fyrirbyggja að hönnunarréttur tapist vegna ótímabærrar birtingar hönnunar eða vegna upplýsinga sem hönnuður hefur látið öðrum í té,
—    heimilt verður að fresta birtingu hönnunar í allt að sex mánuði frá innlagningardegi umóknar,
—    stefnt er að því að skráningarkerfið verði skjótvirkt og að gjöld vegna verndarinnar verði tiltölulega lág.
     Samkvæmt frumvarpinu heyra lög um hönnunarvernd undir iðnaðarráðuneytið en framkvæmdin verður í umsjá Einkaleyfastofunnar.

Þróun norrænnar mynsturlöggjafar.


    
Á árinu 1958 átti sænska ríkisstjórnin frumkvæði að því að koma á norrænu samstarfi um endurskoðun á mynsturlöggjöf landanna. Ísland tók ekki þátt í þessu samstarfi. Tilefni frumkvæðis Svía var m.a. að eftir breytingar, sem gerðar voru á Parísarsamþykktinni á árinu 1958 (Lissabon-textinn), var talið að sænsk mynsturlöggjöf uppfyllti ekki lágmarksskilyrði samþykktarinnar. Engin mynsturlög voru í Finnlandi og Danir höfðu búið við óbreytta mynsturlöggjöf frá árinu 1905. Mynsturlög voru fyrst sett í Noregi árið 1910.
     Árangur af samstarfi Norðurlandanna fjögurra á þessu sviði birtist í tillögum um nýja og samræmda mynsturlöggjöf. Á grundvelli þessara tillagna voru sett ný eða endurskoðuð mynsturlög í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð á árunum 1970–71.
     Þótt norræn mynsturlöggjöf hafi þótt framsækin á sínum tíma hefur hún á síðustu árum sætt vaxandi gagnrýni. Löggjöfin er að margra áliti komin úr takt við þá þróun sem orðið hefur í hönnun framleiðsluafurða sem nú eru á markaði. Ákvæði laganna um skilyrðislaust nýnæmi mynsturs er álitið of strangt í ljósi þess að rannsókn skráningaryfirvalda þykir ekki veita nægilega tryggingu fyrir því að um raunverulega nýjung sé að ræða. Talið er að auðvelt sé að sniðganga það ákvæði laganna að mynstur skuli vera verulega frábrugðið þeim sem þekkt eru á markaði. Lögin þykja þannig ekki uppfylla væntingar hönnuða og framleiðenda um réttaröryggi og verndin hefur þótt of kostnaðarsöm miðað við það hve haldlítil hún virðist oft þegar á reynir.

Frumvörp til mynsturlaga.


    
Rúm þrjátíu ár eru frá því farið var að ræða um mynsturvernd (hönnunarvernd) hér á
landi. Frumvarp um vernd hugverka á þessu sviði hefur þó aldrei verið lagt fram á Alþingi.
     Hinn 15. ágúst 1961 fól þáverandi iðnaðarmálaráðherra vörumerkjalaganefnd, er skipuð var 20. maí 1958, að „semja frumvarp til laga um vernd iðnteikninga og iðnlíkana“. Nefndin ákvað að bíða með samningu frumvarps þar til séð yrði hvernig mál þróuðust annars staðar á Norðurlöndum.
     Vörumerkjalaganefnd skilaði 13. mars 1975 frumvarpi til laga um mynstur. Í greinargerð er fylgdi frumvarpinu kemur fram að farin hafi verið sú leið að fylgja norrænni löggjöf og að dönsku lögin (frá 1970) hafi verið höfð til fyrirmyndar og þeim reyndar fylgt með smávægilegum breytingum með tilliti til íslenskra staðhátta. Frumvarp þetta var aldrei lagt fram.
     Með bréfi dags. 9. janúar 1986 fól iðnaðarráðherra Þorgeiri Örlygssyni, þáverandi borgardómara, að semja frumvarp til laga um mynsturvernd. Skilaði hann í september sama ár frumvarpi ásamt greinargerð. Þetta frumvarp byggði einnig á norrænni löggjöf. Iðnaðarráðherra áformaði að leggja þetta frumvarp fram samhliða frumvarpi til einkaleyfalaga en af því varð þó ekki.

Alþjóðleg þróun og tillögur Evrópubandalagsins.


    
Á síðari árum hefur hönnun vöru verið æ meiri gaumur gefinn í framleiðslu og viðskiptum á alþjóðavettvangi. Hönnun er gildur og sívaxandi þáttur í vöruþróun og markaðssetningu. Af þessari ástæðu er hvarvetna í iðnríkjum fylgst grannt með umræðu um hönnunarvernd.
     Hugtakið hönnun (e. industrial design) kemur fyrst fyrir í Parísarsamþykktinni frá 1883. Alþjóðahugverkastofnunin, WIPO, World Intellectual Property Organization, hefur jafnan gegnt ákveðnu hlutverki varðandi miðlun upplýsinga og samræmingu hugmynda sem fram hafa komið um hugverkavernd á þessu sviði. Á síðustu árum hefur stofnunin unnið að tillögum um alþjóðlegt skráningarkerfi fyrir hönnunarvernd. Rannsóknastofnanir á sviði hugverkaréttar hafa einnig átt sinn þátt í umræðu um nýjungar á sviði hönnunarverndar. Þá hafa ríki með hliðstæða hugverkalöggjöf og stjórnsýsluframkvæmd borið saman bækur sínar og má sem dæmi nefna Norðurlönd. Hlutur ríkja, sem hafa með sér markaðssamstarf, er einnig drjúgur í þessari umræðu. Þar má nefna aðildarríki Evrópubandalagsins og EFTA.
     Á árinu 1990 sendi Max Planck stofnunin í Þýskalandi (Max Planck Institut für ausländisches und internationales Patent- Urheber- und Wettbewerbsrecht) frá sér álitsgerð þar sem reifaðar voru hugmyndir um evrópska hönnunarlöggjöf (Auf dem Wege zu einem europäischen Musterrecht — GRUR International, Heft 8/1990). Þessar hugmyndir voru byggðar á niðurstöðum ráðstefnu sem stofnunin stóð fyrir 11.–14. júlí 1990 um evrópskan hönnunarrétt. Ráðstefnuna sóttu m.a. fulltrúar Alþjóðahugverkastofnunarinnar, WIPO, og fulltrúar háskóla og stofnana í mörgum Evrópuríkjum. Tillögunum fylgdu drög að lagafrumvarpi og ítarleg greinargerð. Þær voru eins konar áskorun til Evrópubandalagsins, EB, um að beita sér fyrir samræmdri evrópskri löggjöf um hönnunarvernd, enda mikið misræmi í vernd hönnunar í löndum EB sem og í aðildarríkjum EFTA. Ráðherraráð EB gerði tillögurnar að sínum og gaf þær út á árinu 1991 í skýrslu sem gengið hefur undir nafninu „Green Paper“.
     Megininntak upphaflegra tillagna EB er eftirfarandi:
    Að skapa grundvöll fyrir vernd hönnunar er skilgreind verði sem útlit vöru í tví- eða þrívídd og jafnt getur höfðað til sjónskynjunar sem annars konar skynjunar.
    Að hönnunarverndin verði fyrst og fremst byggð á skráningu er gildi í fimm ár, en möguleiki verði á að endurnýja skráninguna uns 25 ára verndartíma er náð. Einnig verði gert ráð fyrir óskráðri vernd er hönnuður geti notið í þrjú ár frá því hann opinberar hönnun sína.
    Skilyrði skráningar verði að hönnun, sem sótt er um vernd á, sé ólík þeirri sem fagmenn í viðkomandi grein þekkja, jafnframt að heildarásýnd hönnunarinnar sé í augum almennings frábrugðin hönnun eða vöru sem almenningur hefur séð á markaði. Það verði ekki skilyrði verndar að fram fari rannsókn á því hvort þessi skilyrði séu uppfyllt. Skráningin veiti eiganda einkarétt til að banna þriðja aðila að framleiða, bjóða til sölu, markaðsfæra eða nota framleiðslu sem ber sömu eða lík hönnunareinkenni hafi hann ekki fengið samþykki eiganda. — Með svonefnum griðtíma verði reynt að koma í veg fyrir að hönnuðir verði fyrir réttartapi þótt þeir af vangá eða vegna þekkingarskorts birti almenningi hönnun sína áður en umsókn er lögð inn.
     Tillögur EB eru nú til umfjöllunar hjá aðildarríkjum bandalagsins. EFTA-ríkin hafa sent EB sameiginlega umsögn um tillögurnar. Var umsögn þeirra jákvæð, en þó var bent á nokkur minni háttar atriði sem betur mættu fara. Verið er að vinna að frumvarpi til tilskipunar innan EB á grundvelli tillagnanna og ætla má að það líti dagsins ljós á næstu mánuðum.

Norrænt samstarf og aðdragandi að samningu frumvarpsins.


    
Síðastliðin 15 ár hafa íslensk stjórnvöld haft náið samstarf við önnur ríki á Norðurlöndum um hugverkaréttindi. Leitast hefur verið við að samræma m.a. einkaleyfa- og vörumerkjalöggjöf landanna og framkvæmd þessara laga eftir því sem aðstæður hafa frekast leyft. Og enda þótt hér hafi ekki verið í gildi lög hliðstæð norrænu mynsturlögunum hafa stjórnvöld fylgst vel með umræðu annars staðar á Norðurlöndum um þetta verndarsvið. Umræða um nauðsyn breytinga á mynsturlöggjöf landanna á sér talsverðan aðdraganda.
     Á starfsmannafundi norrænu einkaleyfastofnananna, sem haldinn var í Noregi í september 1990, ákváðu stofnanirnar að vinna saman að undirbúningi tillagna um nýskipan mynsturlöggjafar. Ákvörðunin var m.a. tekin í ljósi umræðu á alþjóðavettvangi um þessi mál og upplýsinga um að ný evrópsk löggjöf um hönnunarvernd væri á döfinni.
     Fyrrnefndar tillögur Max Planck stofnunarinnar höfðu vakið athygli í röðum starfsmanna einkaleyfastofnananna. Töldu margir að löggjöf, er tæki mið af þeim, gæti leyst af hólmi 20 ára — og að margra áliti úrelta — norræna mynsturlöggjöf.
     Í framhaldi af áðurnefndum fundi norrænu einkaleyfastofnananna var óskað eftir því að hvert land tilnefndi fulltrúa í vinnuhóp um þetta verkefni.
    Iðnaðarráðuneytið ákvað að taka þátt í þessu samstarfi Norðurlanda og bíða með að leggja fyrirliggjandi mynsturfrumvarp fram.
     Norræni vinnuhópurinn skilaði áfangaskýrslu til forstjóra norrænu einkaleyfastofnananna í maí 1991. Skýrsla vinnuhópsins ásamt tillögum EB (Green Paper) myndaði uppistöðu í sameiginlegri álitsgerð sem forstjórar norrænu einkaleyfastofnananna gengu frá á fundi í Kaupmannahöfn 23. okt. 1991 og beindu til viðkomandi ráðuneyta í hverju landi.
     Norðurlönd, sem búa við lög um skráða mynsturvernd, Ísland frátalið, ákváðu í ágúst 1991 að bíða átekta með vinnu við undirbúning nýrra laga um hönnunarvernd þar til tilskipun og endanlegar reglur EB litu dagsins ljós.

Alþjóðasáttmálar og hugmyndalegur grunnur hönnunarverndar.


    
Hugverkaréttindi geta skapast bæði á sviði lista og iðnaðar. Hugverkaréttindi á sviði
lista eru yfirleitt vernduð með lögum um höfundarétt sem byggja á vernd án skráningar, en hugverkaréttindi á sviði iðnaðar eru oftar vernduð með lögum sem byggja á skráningu réttinda, sbr. t.d. lög um einkaleyfi og vörumerki hér á landi. Á þessari meginskiptingu í hugverkaréttindi á sviði lista annars vegar og hugverkaréttindi á sviði iðnaðar hins vegar byggja tveir helstu alþjóðasáttmálar um hugverkaréttindi. Þetta eru Bernarsáttmálinn til verndar bókmenntum og listum frá 1886 og Parísarsamþykktin um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar frá 1883. Hugverkaréttindi á sviði hönnunar geta fallið undir bæði sviðin. Hönnunarvernd tekur til hins listræna eða fagurfræðilega í útliti eða gerð hvers konar nytsemdarhluta, t.d. húsgagna, leirtaus, skartgripa. Til að hlutur (vara) geti notið hönnunarverndar verður hann einnig að vera framleiðsluhæfur. Hvort um er að ræða fjöldaframleiðslu eða takmarkaðan fjölda sömu gerðar ræðst yfirleitt af aðstæðum, eðli vörunnar eða eftirspurn.
     Þótt löggjöf um hönnunarvernd sé fyrst og fremst ætlað að vernda hönnun sem tengist ýmsum nytsemdarhlutum og skreytingu vöru er ljóst að viss skörun er milli hönnunarréttar og höfundaréttar. Í ýmsum ríkjum, svo sem Frakklandi, Benelux-löndunum og Danmörku, getur hönnun, sem nýtur verndar samkvæmt lögum um hönnunarvernd, oft og tíðum einnig notið verndar samkvæmt höfundalögum. Í frumvarpi því, sem hér er lagt fram, eru engin ákvæði sem hindra að sama geti gilt hér á landi. Sú skörun, sem hér um ræðir, hefur og þann kost að höfundaréttur á hönnun getur varað áfram þótt skráð hönnunarvernd falli úr gildi.
     Til eru tveir alþjóðasáttmálar er varða hönnunarvernd. Sá fyrri er Haag-sáttmálinn, upphaflega gerður árið 1925, um alþjóðlega skráningu hönnunarverndar. Sáttmálinn býður upp á þann möguleika að umsókn, sem lögð er inn hjá Alþjóðahugverkastofnuninni, WIPO, eða í heimalandi umsækjanda, geti myndað grundvöll fyrir umsókn og skráningu hönnunar í fleiri ríkjum. Aðeins 19 ríki áttu aðild að sáttmálanum í ársbyrjun 1992. Ekkert Norðurlanda er enn aðili að sáttmálanum og kemur þar einkum til að ákvæði hans hafa til þessa þótt henta illa ríkjum sem krafist hafa rannsóknar á nýnæmi hönnunar. Alþjóðahugverkastofnunin hefur undanfarið beitt sér fyrir endurskoðun á sáttmálanum, m.a. í því skyni að gera hann meir aðlaðandi fyrir ríki sem ekki hafa séð sér hag í aðild að honum. Síðari alþjóðasáttmálinn á þessu sviði er Locarno-sáttmálinn frá 1968 um alþjóðlega flokkun hönnunar. Í ársbyrjun 1992 áttu 16 ríki aðild að sáttmálanum. Ísland er ekki í þeim hópi en hins vegar er í frumvarpinu lagt til að stuðst verði við flokkunarkerfi samkvæmt sáttmálanum.

Þörfin fyrir hönnunarvernd. — Reynsla annarra Norðurlanda.


    
Samtök í atvinnulífi hér á landi hafa á umliðnum árum oft hvatt stjórnvöld til að setja
lög um þessi efni. Gera verður því ráð fyrir að frumvarpi um hönnunarvernd verði vel tekið af einstaklingum og fyrirtækjum sem vinna að hönnun og ýmiss konar framleiðslu. Meðal greina, sem verndin mun m.a. snerta, má nefna: húsgagna- og innréttingaiðnað, vefnaðar-, fata- og leðuriðnað, plastvöru- og umbúðaiðnað, pappírs- og prentiðnað, stein-, leir- og gleriðnað og gull- og silfursmíði. Reynslan ein getur skorið úr því í hvaða mæli þessar greinar muni hagnýta sér hina skráðu vernd.
     Eftirfarandi yfirlit gefur hugmynd um árlegan fjölda umsókna um mynsturvernd annars staðar á Norðurlöndum og fjölda skráninga sem eru í gildi:

Árlegur fjöldi

Skráningar


umsókna u.þ.b.

í gildi u.þ.b.



Danmörk     
1.500
8.000
Noregur     
1.000
5.500
Svíþjóð     
3.000
15.500
Finnland     
1.100
6.500


     Þegar litið er á þessar tölur verður að hafa í huga að mynsturlögin annars staðar á Norðurlöndum hafa lengi sætt mikilli gagnrýni og því munu færri hafa nýtt sér þau en gert var ráð fyrir í upphafi.
     Erfitt er að spá fyrir um fjölda umsókna um hönnunarvernd hér á landi. Ef gengið er út frá því að svipað hlutfall verði milli vörumerkjaumsókna og umsókna um hönnunarvernd hér og annars staðar á Norðurlöndum (í Danmörku eru umsóknir um mynsturvernd um 15% af fjölda vörumerkjaumsókna og í Noregi um 10%) má gera ráð fyrir að hér yrðu, þegar fram í sækir, lagðar inn milli 140–150 umsóknir á ári. Fyrstu 2–3 árin verður þó að gera ráð fyrir mun færri umsóknum þar sem það tekur sinn tíma fyrir hönnuði og aðra notendur að átta sig á þeim möguleikum sem verndin veitir.

Um framkvæmd laganna.


    
Það er eitt megineinkenni þess verndarkerfis sem frumvarpið byggir á að gert ráð fyrir mjög takmarkaðri efnislegri rannsókn. Hér er að finna grundvallarmun á ákvæðum frumvarpsins og þeirri skipan sem verið hefur í gildi annars staðar á Norðurlöndum. Þar fer fram forrannsókn sem hefur þann tilgang að leiða í ljós hvort áður hafi verið skráð eins eða mjög lík hönnun (mynstur).
     Meðhöndlun umsókna um hönnunarvernd yrði í aðalatriðum þessi: Skriflegum umsóknum yrði skilað til Einkaleyfastofunnar. Fram færi athugun á því hvort umsókn uppfyllir formskilyrði laganna. Þegar ekki er sérstaklega krafist efnislegrar forrannsóknar yrði efnisleg rannsókn mjög einföld í sniðum. Kannað væri fyrst og fremst hvort viðkomandi hönnun fellur undir lögin en ekki yrði um að ræða eiginlega samanburðarrannsókn miðað við áður skráða hönnun.
     Umsækjandi hefur að sjálfsögðu rétt til að gera athugasemdir við ákvarðanir skráningaryfirvalda. Einnig getur hann skotið ákvörðunum skráningaryfirvalda til úrskurðar áfrýjunarnefndar í vörumerkja- og einkaleyfamálum.
     Að lokinni könnun skráningaryfirvalda yrði hönnunarverndin skráð og staðfest með útgáfu sérstaks vottorðs. Skráningin yrði síðan birt almenningi í riti skráningaryfirvalda.
     Telja verður að skráð hönnunarverndar feli í sér traustari vernd fyrir hönnuði en hin óskráða og almennt meira réttaröryggi á þessu sviði þar sem auðveldara verður fyrir viðkomandi að sanna rétt sinn. Í frumvarpinu er reynt að taka tillit til þess að þarfir hinna ýmsu atvinnugreina eru mismunandi. Þannig er, eins og áður er vikið að, gert ráð fyrir að hönnun geti í takmarkaðan tíma notið verndar án skráningar.
     Komi fram krafa um ógildingu (andmæli) fær rétthafi verndarinnar tækifæri til að tjá sig um kröfuna. Báðir aðilar geta skotið endanlegri ákvörðun skráningaryfirvalda til áfrýjunarnefndar og/eða dómstóla.

Kostnaðaráhrif. — Undirbúningur vegna gildistöku.


    
Gera verður ráð fyrir að verulegur kostnaður sé því samfara að innleiða hönnunarvernd hér á landi.
     Annars vegar er um að ræða undirbúnings- og stofnkostnað. Sem dæmi má nefna að þjálfa þarf fólk til að fjalla um málaflokkinn og yrði að líkindum leitað til einkaleyfastofnana annars staðar á Norðurlöndum í því skyni (starfsdvöl). Þá þarf að huga að tæknilegum þáttum við skráningarkerfið, þar á meðal hönnun tölvuskrár og gerð eyðublaða og leiðbeininga fyrir notendur verndarinnar. Einnig verður að gera ráð fyrir verulegum stofnkostnaði vegna tækjakosts, skrifstofubúnaðar og aukins húsrýmis vegna þessa starfsþáttar.
     Hins vegar er um að ræða rekstrarkostnað við verndarkerfið sem slíkt. Í ljósi þess að umsóknir um hönnunarvernd verða að líkindum ekki margar fyrstu árin má gera ráð fyrir að kostnaður við meðhöndlun hverrar umsóknar verði tiltölulega hár.
     Augljósir annmarkar eru á því að hafa gjöld hér til muna hærri en gerist fyrir hliðstæða vernd í nálægum löndum. Við ákvörðun varðandi upphæð gjalda vegna hönnunarverndar verður annars vegar að taka tilliti til þess markmiðs stjórnvalda að þjónustugjöld af þessu tagi standi að verulegu eða öllu leyti undir kostnaði og hins vegar að líta til þess hve sambærileg gjöld eru há, t.d. annars staðar á Norðurlöndum. Þar eru umsóknargjöld fyrir mynsturvernd yfirleitt nokkru lægri en gjöld fyrir umsóknir um skráningu vörumerkja.
     Þar sem um algerlega nýtt verndarsvið er að ræða verður að gera ráð fyrir að það taki skráningaryfirvöld nokkurn tíma að undirbúa framkvæmdina.
     Með hliðsjón af reynslu frá undirbúningi vegna gildistöku nýrra einkaleyfalaga, 1. janúar 1992, má telja eðlilegt að lögin taki gildi einu ári eftir að þau hafa verið staðfest. Þessi gildistökufrestur er hugsaður sem svigrúm fyrir skráningaryfirvöld til að búa sig undir að framkvæma lögin og fyrir stjórnvöld til að setja nánari reglur um ýmsa þætti varðandi framkvæmd þeirra.
     Gera verður ráð fyrir að gjöld vegna skráningar hönnunarverndar standi ekki undir kostnaði fyrstu árin en að Einkaleyfastofan verði þó ekki fyrir miklum viðbótarkostnaði vegna skráningarinnar. Þegar fram í sækir yrði hins vegar að því stefnt að rekstrarkostnaður við skráninguna hafi ekki í för með sér beinan kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. málsl. er hugtakið hönnun skilgreint. Skilgreiningin er tvíþætt. Annars vegar er um að ræða útlit og gerð vöru í þrívídd, hins vegar skreytingu vöru í tví- eða þrívídd.
     Hönnunarhugtakið er í skilningi frumvarpsins fyrst og fremst bundið við sjónskyn manna, enda ræður ásýnd mestu um heildaráhrif hönnunar. Þó er í einstaka tilvikum unnt að taka tillit til annars konar skynjunar og á það einkum við um mat á því hvort tiltekin hönnun sé frábrugðin annarri. Í slíkum tilvikum getur m.a. efni, sem vara er gerð úr, ráðið úrslitum ef það breytir heildaráhrifum hönnunar.
     Eiginleikar vöru njóta hins vegar ekki verndar. Þá er t.d. átt við þá eiginleika að vara sé óbrjótanleg eða teygjanleg. Tæknileg virkni vöru er líka utan sviðs hönnunarverndar. Það að hægt sé að hefta saman pappír með heftara skiptir ekki máli þótt hönnun á heftaranum njóti verndar.
     Skreyting getur verið sjálfstæð hönnun sem notuð er á vöru sem talist gæti sjálfstæð hönnun. Þannig er t.d. mynstur í veggfóðri sjálfstæð hönnun sem gæti einnig verið notuð til skreytingar á rúmteppi. Rúmteppið og veggfóðrið er hönnun hvert um sig en mynstrið á hvoru tveggja teldist ein og sama hönnunin.
     Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að skreyting sé hluti af vöru. Ekki er hægt að sækja um vernd á skreytingu einni sér. Ef sótt er t.d. um um vernd á skreytingu á tekatli er ekki nauðsynlegt að teketillinn sé sérstæð hönnun. Hins vegar þarf skreytingin að vera það. Hönnunarvernd á skreytingu tiltekinnar vöru tekur einnig til skreytingar á skyldum vörum. Skreyting á bolla gæti t.d. einnig náð til sömu skreytingar á súpuskál. Á þetta mundi þó einkum reyna varðandi óskráða vernd því að þegar um skráða vernd er að ræða yrði væntanlega nýttur möguleiki til samskráningar skv. 17. gr. frumvarpsins.
     Það er ekki skilyrði fyrir skráningu á hönnunarvernd að viðkomandi vara hafi þegar verið framleidd. Hins vegar er það skilyrði fyrir hönnunarvernd skreytingar, svo sem þegar hefur komið fram, að fyrir liggi hvaða vöru hún skuli prýða.
     Með hönnunarvernd er mönnum gefinn kostur á að njóta góðs af hugviti sínu. Þegar þannig hagar til að ekki er möguleiki að hanna hlut nema á einn veg er ekki talið að um verndarhæfa hönnun sé að ræða. Hönnun, sem ræðst af nota- eða tæknigildi hlutar, er þó ekki útilokuð frá hönnunarvernd samkvæmt frumvarpinu.
     Í 2. mgr. er einkaréttur á hönnun, þ.e. hönnunarvernd, tengdur hagnýtingu í atvinnulífi. Þannig er leitast við að afmarka verndarsvið laganna við hönnun sem ætluð er til framleiðslu. Skilin milli höfundaréttar og hönnunarverndar geta verið óljós og skarast oft og tíðum. Með ákvæðinu er reynt að skilgreina hvers konar hugverk falli undir hönnunarvernd án þess þó að það útiloki vernd samkvæmt höfundalögunum. Listræn hönnun, sem aðeins er gert eitt eintak af og er ekki ætluð til fjöldaframleiðslu, mundi þannig að jafnaði falla utan við verndarsvið laganna.

Um 2. gr.


    Til að hönnun geti notið verndar samkvæmt frumvarpinu þarf hún að vera sérstæð. Með því er átt við að hönnun þurfi að vera ný og frábrugðin því sem áður er þekkt. Mat á því hvort hönnun telst sérstæð er því tvíþætt: annars vegar byggist matið á því hvort hönnun teldist ný að mati fagmanna og hins vegar hvort hún teldist frábrugðin frá sjónarhóli hins almenna notanda. Í hvorugu tilvikinu er eingöngu miðað við það sem þekkt er hér á landi. Fyrri viðmiðunin byggist á þekkingu fagmanna, þ.e. hönnun telst því aðeins sérstæð að hún sé ný í augum fagmanna á viðkomandi sviði. Kunnáttumenn eða fagmenn í þessu sambandi eru t.d. húsgagnahönnuðir og -framleiðendur þegar um húsgögn er að ræða. Hin viðmiðunin er mat hins almenna notanda á því hvort vara sé frábrugðin þeirri sem hann hefur áður þekkt og notað. Hér er miðað við tilfinningu þess sem notar að staðaldri þá vöru sem hönnunin einkennir og hefur þar af leiðandi reynslu og þekkingu á viðkomandi sviði.
     Með því að höfða til þekkingar fagmanna og hins almenna notanda er ekki átt við að leita skuli hverju sinni álits fólks úr röðum þessara hópa. Aðeins er um að ræða almenna viðmiðun sem skráningaryfirvöld skulu hafa í huga.
    Hönnun þarf að vera sérstæð þegar á heildina er litið. Það er heildarásýndin sem ræður úrslitum. Ef hluti vöru telst ný hönnun væri skilyrðið um að hún teldist frábrugðin annarri hönnun e.t.v. uppfyllt. Ef hins vegar væri leitað eftir vernd fyrir vöruna sem heild er ekki gefið að hún teldist uppfylla umrætt skilyrði.
     Ekki er nóg að gera breytingu á eldri hönnun, hin nýja verður að vera verulega frábrugðin þeirri eldri þegar þær eru skoðaðar sem heild. Það sem er nýtt í hönnuninni yrði að hafa afgerandi áhrif. Skráningaryfirvöld mundu hins vegar ekki kanna hvort ný hönnun líkist eldri nema fram komi krafa um það, sbr. 3. mgr. 18. gr.

Um 3. gr.


    Í þessu ákvæði eru sett viss takmörk fyrir því hvers konar hönnun getur notið verndar samkvæmt frumvarpinu. Greinin tekur til óskráðrar og skráðrar hönnunar.
     Að því er varðar óskráða vernd mun aðeins reyna á ákvæðið fyrir dómstólum.
     Þegar um skráða vernd er að ræða byggir frumvarpið á þeirri meginstefnu að skráningaryfirvöldum er ekki ætlað að rannsaka efnisatriði umsóknar. Þeim er þó ætlað að rannsaka þau atriði sem hér eru tilgreind.
     Siðgæðismat er breytilegt í tímans rás. Í 1. tölul. er um að ræða matsreglu eða leiðbeiningarreglu sem skírskotar til mælikvarða sem dómarar og þeir sem sjá um úrlausn mála eiga að nota og reiknað er með að þeir þekki.
     Allsherjarregla á að tryggja almannafrið og almannahagsmuni. Sem dæmi um brot gegn allsherjarreglu má nefna athæfi á borð við það að gabba lögreglumenn, brunalið, björgunarlið eða annað hjálparlið, hvetja menn til refsiverðra verka opinberlega, raska útfararhelgi eða grafarhelgi, svo eitthvað sé nefnt. Hönnun, sem notuð er í einhverjum ofangreindum tilgangi, nýtur ekki verndar.
     Ríkjandi skoðanir á hverjum tíma hafa áhrif á túlkun þessarar reglu. Miða skal við það sem almennt telst brjóta gegn siðgæði eða allsherjareglu en ekki það sem minnihlutahópar gætu talið ósiðlegt.

Um 4. gr.


    Hér er kveðið á um þá meginreglu að hönnunarvernd geti skapast með tvennum hætti. Annars vegar með skráningu hjá skráningaryfirvöldum, skráð vernd. Hins vegar án skráningar með því að gera vöru, sem hönnunin einkennir, aðgengilega almenningi, óskráð vernd.
     Í frumvarpinu er lögð megináhersla á skráða hönnunarvernd, enda skapar hún tvímælalaust meira réttaröryggi. Skráning hönnunar er sönnun á því að réttur hafi stofnast og þannig má gera ráð fyrir að færri ágreiningsmál rísi um rétt til hönnunar.
     Í norrænu mynsturlögunum er ekki gert ráð fyrir óskráðri vernd. Fyrirmynd að ákvæðinu um óskráða vernd er sótt í drög að reglugerð um hönnunarvernd sem Evrópubandalagið setti fram í júní 1991, „Green Paper“.
     Á ýmsum sviðum, svo sem í textíliðnaði og fataiðnaði, er hönnun aðeins nýtt í stuttan tíma. Undir slíkum kringumstæðum kynni þeirra viðhorfa að gæta að skráning hafi í för með sér of mikla fyrirhöfn og kostnað. En þrátt fyrir skamman líftíma vöru þykir nauðsynlegt að hægt sé að öðlast vernd á slíkri hönnun. Óskráð vernd er einnig mikilvæg sem varnagli fyrir þá sem ekki átta sig á þörf fyrir vernd áður en framleiðsla og markaðssetning hefst. Ef griðtími skv. 8. gr. líður án þess að hönnuður leggi inn umsókn um skráningu nýtur hann óskráðrar verndar í tvö ár. Þótt hönnuðir skrái ekki hönnun sína er með ákvæðinu komið í veg fyrir að þeir séu með öllu réttlausir.

Um 5. gr.


    Í ákvæðinu er skýrt inntak hönnunarverndar, þ.e. hvaða athafnir teljast brot á hönnunarrétti.
     Með hönnunarvernd fær hönnuður, eða sá sem öðlast hefur rétt hans, einkarétt til að hagnýta hönnun í atvinnuskyni.
     Skráðri hönnunarvernd er ekki aðeins ætlað að vernda hönnuð gegn framleiðslu á eins eða mjög svipaðri hönnun heldur einnig gegn athöfnum er tengjast því að koma slíkri hönnun á markað.
     Óskráða hönnunarverndin er að því leyti takmarkaðri en skráð vernd að hennar nýtur aðeins við í tvö ár og að hún veitir eingöngu vernd gegn beinum eftirlíkingum. Þá er átt við að augljóst sé að verið sé að líkja eftir hönnun þótt um einhver frávik frá fyrirmyndinni kunni að vera að ræða. Að öðru leyti er inntak verndarinnar hið sama.
     Ef gerð er eftirlíking í því skyni að blekkja aðra í viðskiptum eða líkt er eftir vöru í því skyni er slíkt refsivert skv. 178. gr. almennra hegningarlaga.
     Í 20. gr. frumvarps til samkeppnislaga, sem lagt var fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi, er lagt bann við athöfnum sem brjóta í bága við góða viðskiptahætti í atvinnustarfsemi eins og þeir eru tíðkaðir eða eitthvað það sem óhæfilegt er gagnvart hagsmunum neytenda. Verði umrætt frumvarp að lögum getur ákvæði 20. gr. þess styrkt ákvæði væntanlegra hönnunarlaga, m.a. hvað eftirlíkingar varðar.

Um 6. gr.


    Upphafsdagur markar upphaf hönnunarverndar.
     Upphafsdagur skráðrar verndar er að jafnaði umsóknardagur. Umsóknardagur er sá dagur þegar skráningaryfirvöld veita umsókn viðtöku. Þetta ákvæði verður að skýra með hliðsjón af 19. gr. frumvarpsins. Stefnt skal að því að skrá hönnun sem fyrst eftir upphafsdag. Nokkurt svigrúm verður þó að vera fyrir skráningaryfirvöld til að kanna formskilyrði umsóknar og til að gefa umsækjanda kost á að lagfæra umsókn í samræmi við hugsanlegar ábendingar skráningaryfirvalda.
     Upphafsdagur óskráðrar verndar er sá dagur þegar hönnun kemur fyrst fyrir almenningssjónir. Hönnun telst orðin aðgengileg almenningi þegar vara er sett á markað, sýnd á opinberri sýningu, lýst í riti sem er almenningi aðgengileg eða opinberuð á annan sambærilegan hátt.

Um 7. gr.


    Samkvæmt Parísarsamþykktinni, sjá 4. gr. Parísarsamþykktarinnar, sem er fylgiskjal laga nr. 102/1961, um heimild fyrir ríkisstjórnina til að staðfesta fyrir Íslands hönd Parísarsamþykktina um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar, eru íslensk stjórnvöld skuldbundin til að veita þeim sem sótt hefur um hönnunarvernd í öðrum aðildarríkjum Parísarsamþykktarinnar sex mánaða forgangsrétt hér á landi.
     Forgangsréttarkrafa getur hvort heldur verið byggð á umsókn sem hefur verið lögð inn á grundvelli laga um hönnunarvernd eða laga um smáeinkaleyfi. Á dönsku er sambærileg löggjöf kennd við „mønster“ og „brugsmodell“.
     Umsókn um forgangsrétt verður að vera skrifleg og í henni verður að koma fram í hvaða ríki og hvenær umsókn, sem forgangsréttarkrafa er byggð á, var lögð inn. Krafan um forgangsrétt verður að koma fram samtímis innlagningu umsóknar hér á landi.

Um 8. gr.


    Ákvæði þetta fjallar um svonefndan griðtíma. Tímabil þetta nefnist „grace period“ á ensku og „nyhedsskånefrist“ á dönsku.
     Á griðtímanum, sem tekur yfir síðustu 12 mánuði fyrir umsóknardag, getur hönnuður eða annar, sem öðlast hefur rétt hans eða byggir á upplýsingum eða gjörðum hönnuðar, birt almenningi nýja hönnun án þess að það yrði talið hindra að hún teldist sérstæð. Hér er um að ræða nokkurs konar umþóttunartíma fyrir hönnuði. Hönnuðir geta þannig kannað hvernig hönnun er tekið á almennum markaði og sæki þeir eða aðrir, sem teljast rétthafar, um skráningu innan 12 mánaða frá því að hönnun var fyrst birt hefur slík birting ekki áhrif á mat skráningaryfirvalda á því hvort hönnun telst sérstæð.
     Hér er einungis um að ræða vernd á rétti til að sækja um skráningu á hönnunarvernd en ekki vernd á hönnuninni sem slíkri.

Um 9. gr.


    Greinin kveður á um eignaraðild. Í 3. mgr. er tekið á því þegar fleiri aðilar vinna að sams konar eða svipaðri hönnun á sama tíma og án þess að vita hver af öðrum. Þeir sem ekki hafa skráð hönnun njóta í slíkum tilvikum hver um sig jafngildrar, óskráðrar verndar skv. a-lið. Ágreiningur um vernd þessa kæmi til kasta dómstóla en ekki skráningaryfirvalda. Í b-lið 3. mgr. segir hins vegar að sá sem leggur fyrstur inn umsókn eigi einn rétt á skráðu verndinni og nýtur hinn aðilinn þá ekki lengur óskráðrar verndar, sbr. þó 10. gr.

Um 10. gr.


    Það þykir sanngjarnt að rétthafa skv. 1. mgr. 9. gr. eða öðrum aðila, sem í góðri trú hefur hagnýtt hönnun í atvinnurekstri sínum áður en eins eða mjög svipuð hönnun var skráð, sé tryggður nokkur réttur og honum sé heimilt að halda sömu hagnýtingu áfram eða þeirri sem hann hafði gert verulegar ráðstafanir til að hefja.
     Tilgangurinn með ákvæðinu er að forða fjárhagslegu tjóni vegna útgjalda sem kann að hafa verið stofnað til vegna fyrri notkunar eða verulegra ráðstafana vegna áforma um notkun.

Um 11. gr.


    Hér er kveðið skýrar á um eignaraðild og hvernig fara skuli með ágreining sem rís vegna hennar.
     Umsækjandi telst réttur eigandi uns annað er sannað. Eðlilegt þykir að sönnunarbyrði hvíli á þeim sem rengir eignaraðild umsækjanda.
     Í 1. mgr. kemur fram að vefengingarmál er aðeins hægt að höfða fyrir dómstólum. Stjórnvöld geta ekki tekið á málum af þessu tagi. Þörf getur t.d. verið á vitnaleiðslum sem eru dómsathafnir.
     Vefengingarmál skal höfða innan tveggja ára frá birtingu. Hafi skráður rétthafi hins vegar verið í vondri trú um rétt sinn er rétturinn var skráður á hans nafn gilda engin ákveðin tímatakmörk.
     Með ákvæði 5. mgr. er fyrri rétthafa gert kleift að öðlast nytjaleyfi að því tilskildu að hann hafi verið í góðri trú, sbr. 6. mgr. Aðeins er gert ráð fyrir að fyrri rétthafi geti öðlast almennt nytjaleyfi. Nytjaleyfi skiptast í almenn og sérstök leyfi (e. simple og exclusive). Sérstök nytjaleyfi veita nytjaleyfishafa einkarétt að meira eða minna leyti til að hagnýta hönnun. Almenn nytjaleyfi veita hins vegar aðeins heimild til að hagnýta hönnun en ekki einkarétt af neinu tagi. Enn fremur er kveðið á um að nytjaleyfið eigi að veita í sanngjarnan tíma með sanngjörnum skilmálum. Reglan skírskotar til mælikvarða sanngirni sem nota ber við úrlausn mála og er næmur fyrir breyttum viðhorfum og ríkjandi skoðunum á hverjum tíma.
     Í greininni er aðeins fjallað um skráða hönnunarvernd. Sami vandi getur komið upp hvað varðar óskráða hönnunarvernd. Annar en rétthafi getur hagnýtt sér hönnun undir þeim formerkjum að um hans hönnun sé að ræða. Óþarft þykir að hafa sérákvæði um þetta atriði þar sem aðeins er um eina tegund af broti gegn hönnunarrétti að ræða. Málsókn vegna slíks brots lyti því sömu reglum og almennt gilda um brot gegn hönnunarrétti.

Um 12. gr.


    Þetta ákvæði hefur að geyma reglu sem tekin hefur verið upp í ýmis lög á sviði hugverkaréttar. Reglan kveður á um það sem kalla mætti réttindaþurrð (d. konsumption og e. exhaustion of rights) og á sér stað við markaðssetningu vöru sem hönnun einkennir. Eftir að vara, sem vernduð hönnun einkennir, er komin á markað fyrir atbeina eða með samþykki rétthafa er meginreglan sú að rétthafi getur ekki haft frekari áhrif á markaðssetningu vörunnar eða aðrar athafnir sem taldar eru upp í greininni.
     Fram til þessa hefur almennt gilt um réttindaþurrð að reglan eigi eingöngu við innan einstakra ríkja. Þetta er í samræmi við þá meginreglu í hugverkarétti að réttindin séu landfræðilega afmörkuð. Slík landfræðileg afmörkun getur valdið viðskiptahindrunum og því hefur hún verið afnumin í réttarframkvæmd innan Evrópubandalagsins að því er varðar réttindaþurrð. Samkvæmt samningnum um Evrópskt efnahagssvæði ber einnig að afnema landfræðilega afmörkun réttindaþurrðar í löndum EFTA. Með tilliti til hugsanlegar aðildar Íslands að samningnum um Evrópskt efnahagssvæði tekur réttindaþurrðin hér því til alls Evrópska efnahagssvæðisins.

Um 13. gr.


    Með auglýsingu iðnaðarráðherra nr. 187 frá 24. apríl 1991 var Einkaleyfastofunni falið að sjá um framkvæmd laga og alþjóðasamninga er varða hugverkaréttindi á sviði iðnaðar. Meðal verkefna stofnunarinnar er að fara með málefni varðandi einkaleyfi, vörumerki og hönnunarvernd.
     Hönnunarskrá skv. 3. mgr. er hliðstæð þeim landsskrám sem stofnunin heldur yfir skráð vörumerki og einkaleyfi.
     Áfrýjunarnefnd í einkaleyfamálum starfar samkvæmt lögum nr. 31/1984. Gert er ráð fyrir að nefndinni verði einnig falið að fjalla um áfrýjunarmál varðandi hönnunarvernd og að nánari reglur um starfshætti hennar á því sviði verði settar í reglugerð.
     Reynsla varðandi fjölda umsókna o.fl. mun ráða því hvort umsóknir um hönnunarvernd verða birtar í Vörumerkja- og einkaleyfatíðindum eða hvort gefið yrði út sérstakt rit fyrir birtingar er varða hönnunarvernd.

Um 14. gr.


    Greinin fjallar um móttöku umsókna um hönnunarvernd og ýmis formskilyrði sem umsókn þarf að uppfylla til að teljast gild.
     Skriflegri umsókn skal skila til Einkaleyfastofunnar. Móttaka umsóknar hefur mikilvæg réttaráhrif og því er nauðsynlegt að hægt sé að færa sönnur á hvenær umsókn var lögð inn hjá skráningaryfirvöldum.
     Meðal þýðingarmestu þátta varðandi frágang umsóknar er að henni fylgi greinilegar ljósmyndir eða teikningar er sýni heildarútlit hönnunar og þau einkenni hennar sem umsækjandi óskar að vernda. Ekki yrði tekið við umsókn nema myndir fylgi. Gera verður ráð fyrir að krafa um ógildingu yrði í mörgum tilvikum eingöngu byggð á myndum þeim sem birtar eru almenningi ásamt efni umsóknar. Því gleggri sem myndir eru þeim mun minni líkur eru á að krafa um ógildingu væri byggð á misskilningi, þ.e. að sá sem ógildingar krefst hafi ekki getað glöggvað sig á þeim sérkennum hönnunar er gera hana frábrugðna þeirri hönnun sem var tilefni ógildingarkröfu. Myndir eða teikningar þurfa að vera hæfar til prentunar.
     Þau tilvik geta komið upp að erfitt sé að lýsa hönnun nægilega vel með myndrænum hætti. Slíkt gæti átt við hönnun sem hefur til að bera einkenni sem betur yrði lýst með orðum. Fyrir getur komið að t.d. yfirborðsáferð vöru verði betur skynjuð með snertingu en myndrænni birtingu er höfðar eingöngu til sjónskynjunar. Geta má slíkra einkenna í stuttorðri lýsingu með umsókn. Lýsing verður þó ekki birt með myndum af hönnun. Lýsing ein sér getur ekki haft áhrif á umfang verndar. Lýsing er hugsuð sem hjálpargagn til að skýra út myndir og geta skráningaryfirvöld kallað eftir lýsingu ef þurfa þykir.
     Samkvæmt greininni er heimilt að leggja fram líkan af hönnun. Líkanið stendur þá sem sönnun fyrir útliti og gerð hönnunar ef um ágreining yrði að ræða. Varsla sýnishorna hefur óhjákvæmilega í för með sér nokkurn kostnaðarauka fyrir umsækjendur.

Um 15. gr.


    Greinin fjallar um þá skyldu rétthafa, sem ekki hefur lögheimili hér, að hafa umboðsmann sem búsettur er hér á landi. Umboðsmaður getur hvort heldur verið einstaklingur eða lögpersóna. Í umboði felst að umboðsmaður hefur heimild til að taka bindandi ákvarðanir varðandi allt það er varðar viðkomandi hönnunarumsókn eða skráningu.
     Ekkert er því til fyrirstöðu að rétthafi með lögheimili hér á landi feli umboðsmanni að koma fram fyrir sína hönd gagnvart skráningaryfirvöldum.

Um 16. gr.


    Þótt Ísland sé enn ekki formlegur aðili að Locarno-sáttmálanum um alþjóðlega flokkun hönnunar er gert ráð fyrir að hönnun verði skipað í flokka samkvæmt flokkunarkerfi hans. Vernd hönnunar er óháð því hvernig hönnuninni er skipað í flokka. Ef tiltekin hönnun er mjög svipuð annarri, án þess þó að vera í sama flokki samkvæmt Locarno-sáttmálanum, er ekki gefið að hún yrði talin sérstæð. Flokkun hönnunar er aðeins til hægðarauka fyrir skráningaryfirvöld og þá sem leita upplýsinga hjá þeim. Flokkunin hefur ekki sérstök réttaráhrif eins og t.d. flokkun vörumerkja og yrði því ekki tilgreind í birtingu.

Um 17. gr.


    Greinin kveður á um svonefnda samskráningu, þ.e. tilvik þegar umsækjandi sækir um vernd á fleiri en einni hönnun (hönnunarsamstæðu) í sömu umsókn. Samskráning kemur eingöngu til greina þegar um ræðir hönnunarvernd á vörum (hlutum) sem bera sama heildarsvip hvað hönnun varðar og sem tilheyra sama undirflokki samkvæmt hinu alþjóðlega flokkunarkerfi. Ef vörur, sem hönnun einkennir, heyra ótvírætt saman með tilliti til notkunar yrði þó talið fullnægjandi að þær tilheyri sama aðalflokki.
     Gera verður ráð fyrir að skráningaryfirvöld meti hvert einstak tilvik með hliðsjón af þessum meginreglum.
    Í reglugerð yrði kveðið á um samskráningu, þar á meðal um gjöld. Ekki þykir rétt að takmarka í frumvarpinu hversu mörg eintök hönnunar væri hægt að vernda með einni skráningu. Í stað slíks hámarks kemur til greina að gjald fyrir samskráningu færi stighækkandi eftir fjölda eintaka.

Um 18. gr.


    Frumvarpið er byggt á þeirri meginreglu að hönnunarvernd verði skráð án undangenginnar rannsóknar á því hvort umsókn geti talist sérstæð samkvæmt skilgreiningu í 2. gr. frumvarpsins.
     Vilji umsækjandi láta fara fram rannsókn á því hvort umsóknin teljist sérstæð verður hann að leggja fram beiðni þar að lútandi samtímis því sem umsókn er lögð inn. Gengið er út frá því að eins eða svipuð hönnun í hvaða landi sem er geti hindrað að hönnun yrði talin sérstæð. Rannsóknin er ekki bundin við hönnun sem þegar er skráð.
     Sami réttur er með ákvæði greinarinnar tryggður hverjum þeim sem óskar rannsóknar á því hvort tiltekin hönnun sé eins eða lík annarri. Ákvæðið mun einkum eiga við í tengslum við ógildingarmál. Réttur þessi er ekki bundinn við ákveðin tímamörk.
     Það leiðir af eðli máls að gjald fyrir rannsókn yrði ekki innifalið í umsóknargjaldi heldur yrði krafist sérstaks gjalds í þeim tilvikum sem farið er fram á rannsókn.

Um 19. gr.


    Hér er fjallað um meðhöndlun skráningaryfirvalda á umsókn.
     Í flestum ríkjum Evrópu fer aðeins fram formrannsókn á umsókn áður en skráning fer fram. Norrænu mynsturlögin skera sig nokkuð úr því samkvæmt þeim er skráningaryfirvöldum skylt að rannsaka hvert mynstur sem sótt er um skráningu á. Rannsóknin beinist ekki aðeins að hugsanlegum formgöllum heldur er einnig rannsakað hvort mynstur teljist nýtt og frábrugðið eldri mynstrum. Þetta fyrirkomulag hefur sætt nokkurri gagnrýni. Rannsóknirnar þykja of tímafrekar og dýrar miðað við hversu haldbærar þær eru.
     Í greininni segir að skráningaryfirvöld skuli kanna hvort umsókn uppfylli skilyrði tiltekinna greina frumvarpsins. Að meginhluta til er hér um að ræða rannsókn á formskilyrðum.
     Rannsókn skv. a-lið 1. mgr. telst efnisleg rannsókn. Ef umsókn uppfyllir ekki þessi skilyrði er hún óskráningarhæf og ber að hafna henni. Þó skal ekki afmá umsókn fyrr en umsækjandi hefur fengið tækifæri til að segja álit sitt eða lagfæra umsóknina.
     Rannsókn skv. 14., 15. og 17. gr. snýr að formsatriðum umsóknar. Ef formsatriðum umsóknar er áfátt skal umsækjanda gert viðvart og honum gefinn kostur á að lagfæra umsóknina. Umræddur frestur umsækjanda til að segja álit sitt eða lagfæra umsóknina yrði stuttur og undir öllum kringumstæðum skal umsókn hafa uppfyllt formskilyrði er hún verður almennt aðgengileg, sbr. 21. gr.
     Í 4. mgr. er að finna heimild til handa skráningaryfirvöldum til að breyta upphafsdegi umsóknar. Slíkt telst aðeins koma til álita í þeim tilvikum sem lagfæring á formgöllum yrði talin fela í sér efnislega breytingu og gæti þannig haft áhrif á umfang verndar. Sem dæmi má nefna að endurbætt mynd af hönnun, sem lögð væri inn í framhaldi af ábendingu skráningaryfirvalda, sýndi eitthvað það sem ekki kom fram á mynd þeirri er upphaflega fylgdi umsókn.

Um 20. gr.


    Samkvæmt greininni yrði umsókn ekki skráð fyrr en hún uppfyllir öll skilyrði laganna, þar með talið að greidd hafi verið tilskilin gjöld. Þær upplýsingar, sem í skráningu felast, yrðu færðar í hönnunarskrá.
     Skráninguna skal birta svo fljótt sem unnt er. Með birtingunni fær almenningur upplýsingar um að viðkomandi hönnun hafi verið skráð og njóti hönnunarverndar.

Um 21. gr.


    Eftir skráningu er hönnun opinber og getur hver sem er kynnt sér umsóknargögnin.
     Umsækjandi getur við innlagningu umsóknar óskað eftir því að skráningu verði frestað í allt að sex mánuði. Hér er um að ræða svokallaðan leyndartíma sem tíðkast hefur í mynsturrétti annars staðar á Norðurlöndum.
     Þótt innihaldi slíkra umsókna sé með þessum hætti haldið leyndu í takmarkaðan tíma yrði þess getið með birtingu í riti skráningaryfirvalda að umsókn hafi borist og hver sé umsækjandi.
     Aldrei mega líða meira en sex mánuðir frá umsóknar- eða forgangsréttardegi þar til umsókn er gerð aðgengileg almenningi. Gengið er út frá því að þá uppfylli umsókn öll formskilyrði.

Um 22. gr.


    Verndartími óskráðrar hönnunar er tvö ár. Verndin er einkum hugsuð fyrir hönnuði í þeim greinum þar sem hönnun hefur skamman líftíma og þarfnast ekki verndar í áraraðir. Dæmi um þetta er tískufatnaður sem breytist jafnvel ársfjórðungslega. Hönnuðir slíkrar framleiðslu vilja e.t.v. ekki leggja út í kostnað og fyrirhöfn við skráningu. Með ákvæðinu er þeim eigi að síður tryggð ákveðin vernd.
     Óskráð vernd er ótryggari en hin skráða þar sem erfitt getur reynst að sanna hvenær hönnun kom fram á sjónarsviðið, sbr 6. gr. frumvarpsins. Í tillögum Evrópubandalagsins (Green Paper) er gert ráð fyrir að óskráð hönnunarvernd gildi í þrjú ár.

Um 23. gr.


    Greinin kveður á um gildistíma skráðrar hönnunarverndar. Verndartími mynsturverndar er mislangur í ríkjum Evrópu, allt frá því að vera 15 ár í Danmörku upp í það að vera ótakmarkaður eins og t.d. í Portúgal.
     Skráning samkvæmt frumvarpinu gildir í fimm ár frá því umsókn var lögð inn eða frá upphafsdegi ef ákvæðum 4. mgr. 19. gr. varðandi tilfærslu upphafsdags er beitt. Rétthafa gefst kostur á að endurnýja verndina fjórum sinnum eða þar til 25 ára samfelldum verndartíma er náð.

Um 24. gr.


    Hér er kveðið á um endurnýjun hönnunarverndar.
     Í umsóknargjaldi er innifalin greiðsla fyrir fyrsta skráningartímabil en því lýkur þegar fimm ár eru liðin frá upphafsdegi. Endurnýjunargjald greiðist síðan fyrir fram á fimm ára fresti innan þeirra tímamarka sem hér eru tilgreind.

Um 25. gr.


    Um ógildingarmál fyrir dómstólum gilda meginreglur íslensks réttarfars. Í greininni eru taldar upp ógildingarástæður sem unnt er að beita fyrir dómstólum.
     Í 3. tölul. segir að ógilda megi hönnun sem fer í bága við „annars konar eldri hugverkaréttindi“. Hér er t.d. átt við hönnun sem brýtur gegn hönnunar-, vörumerkja- eða höfundarétti eða sem heimildarlaust felur í sér eitthvað sem skilja má sem sérkennilegt heiti á vernduðu bókmennta- eða listaverki annars manns.
     Undir höfundarétt fellur m.a. réttur á ljósmynd. Hér á landi eru ekki sérlög um vernd ljósmynda heldur njóta þær verndar í höfundaréttarlögum.

Um 26. gr.


    Fyrstu tvö árin eftir skráningu hönnunarverndar má beina kröfu um ógildingu hennar til skráningaryfirvalda. Kröfuna verður að byggja á ástæðum þeim er fram koma í 1.–3. tölul. 25. gr. Eftir að tvö ár eru liðin frá skráningu hönnunarverndar verður ógildingarmál einungis höfðað fyrir dómstólum.

Um 27. gr.


    Hér er fjallað um hverjum sé heimilt að höfða mál til ógildingar á hönnunarvernd fyrir dómstólum eða skráningaryfirvöldum, þ.e. Einkaleyfastofunni. Einungis þeim er lögvarðra hagsmuna eiga að gæta er heimilt að höfða slíkt mál. Þessir lögvörðu hagsmunir takmarkast þó við þær ástæður er fram koma í 25. gr.

Um 28. gr.


    Hér er fjallað um hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt til að skráning verði afmáð úr hönnunarskrá. Á meðan ógildingarmál er í gangi telst skráður rétthafi hönnunarverndar vera eigandi hennar. Hafi ógildingarmál verið höfðað fyrir dómstólum verður skráning ekki afmáð úr hönnunarskrá fyrr en afrit dóms hefur borist Einkaleyfastofunni. Hér er ekki valin sú leið, sem farin er í vörumerkjalögum, að skylda dómara til þess að senda skráningaryfirvöldum afrit dóms. Gera verður ráð fyrir að annar aðili máls muni ávallt hafa hagsmuni af því að kynna Einkaleyfastofunni niðurstöðu máls ef hún leiðir til breytinga á skráningu.
     Hafi ógildingar verið krafist fyrir skráningaryfirvöldum ber Einkaleyfastofunni að tilkynna báðum aðilum niðurstöðu máls og er það í samræmi við venjubundnar stjórnsýslureglur.

Um 29. gr.


    Ógilding hönnunarverndar hefur í för með sér að skráning hönnunarverndarinnar telst ógild frá upphafi, ógildingin hefur „ex tunc“ áhrif. Er það í samræmi við það sem tíðkast hefur í íslenskum stjórnsýslurétti og telja má meginreglu á þessu sviði. Af ákvæðinu leiðir að þau réttindi, sem skráður rétthafi hönnunarverndar eða aðrir með samþykki hans kunna að hafa öðlast með skráningunni, falla niður. Þeir geta ekki lengur byggt á neinum þeim rétti sem skapast hefur með skráningunni.

Um 30. gr.


    Ákvörðun skráningaryfirvalda má skjóta til áfrýjunarnefndar. Þetta á bæði við um umsækjanda eða rétthafa hönnunarverndar og þann er krefst ógildingar skráningar.

Um 31. gr.


    Hér er tekið fram að hönnunarvernd megi framselja með eða án atvinnurekstrar.
     Í 2. mgr. kemur fram sú meginregla að hönnun, sem tilheyrir atvinnurekstri, telst hluti af honum við sölu. Frá þessari meginreglu má þó víkja með samningum.

Um 32. gr.


    Nytjaleyfissamningar byggjast á trúnaðarsambandi aðila og gert er ráð fyrir að rétthafi hönnunarverndar geti fylgst með hvort nytjaleyfishafi hagnýti hönnun á umsaminn hátt. Ákvæðið kemur í veg fyrir hvers konar aðilaskipti án samþykkis rétthafa, þar á meðal veitingu nytjaleyfis.
     Í 2. mgr. er gerð undantekning frá meginreglunni í 1. mgr. Það yrðu talin of mikil höft á viðskiptafrelsi ef rétthafi gæti komið í veg fyrir að fyrirtæki væri selt ásamt nytjaleyfi. Verðmæti fyrirtækis getur fyrst og fremst verið fólgið í nytjaleyfi.

Um 33. gr.


    Nauðsynlegt getur verið fyrir nytjaleyfishafa að höfða mál vegna brota á hönnunarvernd til að vernda hagsmuni sína. Nytjaleyfishafi verður þó að fá málsóknarheimild frá rétthafa verndarinnar.

Um 34. gr.


    Greinin fjallar um hvaða upplýsingar skuli færa í hönnunarskrá.
     Hvers konar aðilaskipti skulu færð í skrána. Aðilaskipti geta orðið við framsal, erfðir, skipti bús eða fullnustuaðgerðir skuldheimtumanna. Ef veðhafi eða eigandi hönnunarverndar óskar ber að geta þess í hönnunarskrá ef hönnunarvernd hefur verið veðsett eða aðför gerð í henni.
     Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að framsal nytjaleyfis verður ekki fært í hönnunarskrá nema sannað sé að eigandi hafi samþykkt framsalið.
     Nytjaleyfi verður því aðeins afmáð úr hönnunarskrá að sönnur séu færðar á að það sé úr gildi fallið. Samþykki nytjaleyfishafa telst nægileg sönnun fyrir að nytjaleyfi sé fallið niður. Ef ekki liggur fyrir samþykki verður að færa sönnur á brottfall nytjaleyfis með öðrum hætti.
     Í 4. mgr. kemur fram að aðilaskipti geta ekki tekið til hluta hönnunarsamstæðu sem vernduð er með samskráningu.
     Ávallt má beina málsókn að þeim sem skráður er rétthafi í hönnunarskrá. Skráður rétthafi getur því ekki mótmælt málshöfðun með þeim rökum að hann hafi framselt hönnunarverndina. Ekki má þó gagnálykta frá þessari reglu. Aðili, sem skráður rétthafi stefnir, getur mótmælt sóknaraðild hins skráða rétthafa á þeirri forsendu að hann hafi framselt hönnunarverndina. Réttur sóknaraðili í slíkum málum er hinn raunverulegi rétthafi hvort sem hann er skráður í hönnunarskrá eða ekki.
     Allar breytingar á eignaraðild skal birta í riti því er Einkaleyfastofan gefur út.

Um 35. gr.


    Hér er kveðið á um réttarúrræði sem rétthafar skráðrar sem óskráðrar verndar geta fært sér í nyt ef þeir telja brotið á rétti sínum.
     Norræn lög á sviði hugverkaréttar hafa almennt ekki að geyma sérákvæði um lögbann. Lögbann getur þó verið áhrifaríkasta réttarúrræðið í hugverkarétti. Önnur réttarúrræði, eins og t.d. skaðabætur, henta ekki eins vel. Skaðabætur fyrir tjón vegna brots á hönnunarvernd er erfitt að meta og eru þær því oft vanmetnar. Rétthafi hönnunarverndar hefur meiri hag af því að brot sé stöðvað strax heldur en að fá ófullnægjandi bætur síðar samhliða því sem viðskiptavild hans kynni að hafa rýrnað.
     Þar sem um er að ræða mikilvægt réttarúrræði á þessu sviði þykir rétt að kveða sérstaklega á um að unnt sé að krefjast lögbanns. Lögbann er hægt að leggja við athöfn sem byrjuð er eða er yfirvofandi. Skilyrði er að gerðarbeiðandi sanni eða leiði líkur að því að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans. Beiðni um lögbann skal beint til sýslumanns á heimilisvarnarþingi gerðarþola eða þar sem meint ólögmæt athöfn fer fram eða líkur eru á að hún muni fara fram. Framkvæmd lögbanns fer eftir almennum reglum sem gilda um lögbann, þ.e. lögum nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl.

Um 36. gr.


    Í greininni eru talin upp refsiviðurlög vegna brota gegn hönnunarrétti. Ákvæðið er bundið við ásetningsbrot. Óþarfi þykir að hafa refsiákvæði vegna brota sem framin eru af gáleysi. Í hugverkarétti eru flest dómsmál einkaréttarlegs eðlis og er þá beitt öðrum viðurlögum en refsingu, svo sem skaðabótum, krafist ónýtingar, afhendingar o.s.frv. Einungis þykir því þörf á refsiviðurlögum vegna skipulegrar brotastarfsemi. Hér gilda að öðru leyti almennar reglur refsiréttarins, svo sem um tilraun og hlutdeild.
     Heimild til varðhalds eða fangelsis í allt að þrjá mánuði er í samræmi við refsiákvæði einkaleyfalaganna, nr. 17/1991. Þar sem um refsimál er að ræða sæta slík mál að sjálfsögðu opinberri meðferð. Rétthafi skal snúa sér til lögreglu með kæru ef hann vill láta beita refsiviðurlögum. Rétthafi getur einnig haft uppi kröfur um skaðabætur í opinberu máli, sbr. 39. gr.

Um 37. gr.


    1. mgr. tekur til brota sem framin eru af ásetningi eða gáleysi. Samkvæmt ákvæðinu ber þeim sem brýtur gegn hönnunarrétti að greiða hæfilegt endurgjald fyrir nýtingu hönnunar. Endurgjald skal greiða þótt ekki sé um neitt sannanlegt tjón að ræða. Hæfilegt endurgjald er alltaf a.m.k. hæfilegt nytjaleyfisgjald. Taka verður mið af nytjaleyfissamningum um svipuð réttindi. Einnig ber þeim sem brýtur gegn hönnunarvernd skylda til að greiða fyrir það tjón sem hann hefur valdið. Hér er um venjulegar skaðabætur að ræða sem lúta almennum reglum skaðabótaréttarins.
     Í 2. mgr. er ákvæði sem á aðeins við um brot framin í góðri trú. Endurgjald fyrir hagnýtingu er takmarkað við þann hagnað sem hinn bótaskyldi hefur haft af brotinu.

Um 38. gr.


    Greinin hefur að geyma reglur um aðgerðir sem kveða má á um með dómi til að koma í veg fyrir frekari brot á hönnunarrétti. Ákvæði greinarinnar eru hliðstæð ákvæðum í norrænum einkaleyfalögum og höfundaréttarlögum. Um er að ræða tæmandi upptalningu á úrræðum til að koma í veg fyrir brot gegn hönnunarrétti. Mögulegt er að beita þessum viðurlögum saman eftir aðstæðum. Enn fremur er unnt að beita þeim ásamt skaðabótum.
     Við beitingu ákvæðisins verður að taka tillit til aðdraganda hvers brots og allra aðstæðna þannig að niðurstaðan verði ekki ósanngjörn. Hér ræður miklu hvort brot er framið af ásetningi eða gáleysi. Enn fremur hefur mikla þýðingu hvort og hve háar skaðabætur eru dæmdar.

Um 39. gr.


    Hér er kveðið á um hverjum sé heimilt að höfða mál eða hverjir eigi sókn sakar í málum samkvæmt ákvæðum þessa kafla. Það eru einungis þeir sem telja að hagsmunir sínir, er byggja á hönnunarrétti, séu skertir. Er það í samræmi við almennar réttarfarsreglur.

Um 40. gr.


    Gert er ráð fyrir að ráðherra setji nánari reglur m.a. um áfrýjunarnefnd, umsóknir og meðferð þeirra, hönnunarskrá, birtingar og meðferð ógildingarmála. Þá yrðu gjöld samkvæmt ákvæðum laganna einnig ákveðin með reglugerð.

Um 41. gr.


    Vegna tilkomu hins nýja sviðs, sem frumvarpið fjallar um, er nauðsynlegt fyrir skráningaryfirvöld að hafa nokkurt svigrúm til að undirbúa framkvæmd væntanlegra laga. Nauðsynlegt þykir að skráningaryfirvöld fái eitt ár til slíks undirbúnings.