Ferill 122. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 122 . mál.


295. Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um eflingu Hafrannsóknastofnunar.

     Hvað hafa stjórnvöld gert til að efla starfsemi Hafrannsóknastofnunar í samræmi við ályktun Alþingis vorið 1988?
    Þegar meta á hvað gert hefur verið til að efla starfsemi Hafrannsóknastofnunar er hægt að skoða og miða við nokkra mælikvarða. Hægt er að athuga hvað framlög samkvæmt fjárlögum hafi hækkað mikið umfram almennar verðlagsbreytingar. Á þessum mælikvarða er einn megingalli. Nokkrar rannsóknir hafa verið fjármagnaðar með öðrum hætti, svo sem hvalarannsóknir með hagnaði af rekstri Hvals hf. og togararall með leigutekjum af rs. Hafþóri. Þegar þessar sérstöku tekjur hurfu, annars vegar vegna þess að hætt var að veiða hvali í vísindaskyni og hins vegar þegar rs. Hafþór var seldur, héldu verkefnin áfram en framlög til þeirra komu á fjárlögum í stað tekna annars staðar frá. Rannsóknarverkefnum stofnunarinnar fjölgaði ekki þó framlög hækkuðu samkvæmt þessum mælikvarða. Annar mælikvarði, sem hægt er að skoða, er hvaða heimildir Hafrannsóknastofnun hefur fengið til að stofna til rekstrarútgjalda í fjárlögum hvers árs. Þessi mælikvarði ætti að gefa vísbendingu um möguleika stofnunarinnar til að auka umfang rannsókna hvort sem er með nýjum rannsóknum eða með því að efla þær rannsóknir sem fyrir eru. Sé þessi mælikvarði skoðaður höfðu heimildir Hafrannsóknastofnunar til að stofna til rekstrargjalda á árinu 1992 hækkað um u.þ.b. 32% umfram verðlagsbreytingar frá árinu 1988, sjá töflu 3. Á sama tíma höfðu framlög á fjárlögum lækkað um tæplega 80%, sjá töflu 2. Munar þar mest um að í fjárlögum ársins 1992 er gert ráð fyrir að Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins skili Hafrannsóknastofnun um 525 m.kr. í sértekjum af sölu veiðiheimilda.
    Á árunum 1988–1992 hefur starfsemi tölvudeildar Hafrannsóknastofnunar verið efld verulega. Tekin hefur verið í notkun rannsóknastöð í eldi sjávardýra að Stað í Grindavík og starfa nú fimm menn við rannsóknir á eldi sjávardýra á vegum Hafrannsóknastofnunar. Á þessu ári var ráðist í umfangsmiklar fjölstofnarannsóknir sem fram eiga að fara á árunum 1992–1995. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að auka þekkingu og skilning á lífríki hafsins. Í verkefni þessu verða rannsökuð fæðutengsl fiskstofna, t.d. þorsks og loðnu, og þau áhrif sem breytingar á stofnstærð af náttúrulegum orsökum sem og vegna veiða hafa á vöxt, viðgang og afrakstursgetu fiskstofnanna. Verkefninu er skipt í þrjá meginflokka. Í fyrsta lagi fæðunám og fæðuvistfræði, í öðru lagi gerð fjölstofnalíkans og í þriðja lagi eru ýmis stoðverkefni sem tengjast fyrsta og öðrum flokki. Í fjárlögum ársins 1992 eru um 63 m.kr. ætlaðar til þessa verkefnis og um 66 m.kr. í frumvarpi til fjárlaga ársins 1993.
    Ráðuneytið hefur beitt sér fyrir að á vegum Hafrannsóknastofnunar yrði hafist handa við auknar rannsóknir á hrygningu og klaki þorsksins. Var unnt að hrinda verkefninu af stað á yfirstandandi ári með því að Fiskveiðasjóður og hagsmunaaðilar kostuðu hluta verkefnisins. Markmið þessara rannsókna er annars vegar að auka skilning á þeim þáttum sem hafa áhrif á afkomu hrogna og þorsklifra og hins vegar að auka þekkingu á hrygningunni sjálfri. Vegna samdráttar í fiskveiðum og nýrra álaga á sjávarútvegsfyrirtæki er afar ólíklegt að sömu aðilar muni styrkja verkefnið á næsta ári. Í frumvarpi til fjárlaga ársins 1993 er ekki gert ráð fyrir fjárveitingu til þessa verkefnis og var beiðnum um það hafnað. Ekki þarf þó að fara mörgum orðum um þjóðhagslegt mikilvægi þess að auka vísindalega þekkingu á því hvaða þættir það eru sem áhrif hafa á hvort klak heppnast. Er talið að að baki minnkandi stærðar þorskstofnsins liggi sú ástæða að klak hafi mistekist undanfarin ár þannig að 7–8 síðustu árgangar þorskstofnsins eru langt undir meðaltali. Ráðuneytið hefur af því vissar áhyggjur að verkefnið falli niður á næsta ári.
    Framlög til viðhalds og stofnkostnaðar hafa aukist nokkuð, sjá töflur 4 og 5, mest á árunum 1989 og 1990 er endurbætur stóðu yfir á rannsóknaskipunum Dröfn og Árna Friðrikssyni. Þá er rétt að geta þess að vinnuaðstaða starfsmanna stofnunarinnar að Skúlagötu 4 hefur batnað mjög í kjölfar endurbóta sem gerðar hafa verið eftir að Ríkisútvarpið flutti úr húsinu.
    Eins og sést af framansögðu er betur búið að Hafrannsóknastofnun til að stunda þær mikilvægu rannsóknir sem stofnuninni er ætlað að stunda en var fyrir árið 1988.