Ferill 279. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 279 . mál.


396. Frumvarp til laga



um breytingu á lánsfjárlögum fyrir árið 1992, nr. 2/1992.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar (VE, RG, SP, IBA, SAÞ).


1. gr.


    4. tölul. 4. gr. laganna orðast svo: Húsbréfadeild Byggingarsjóðs ríkisins, allt að 16.000 m.kr., sbr. 35. gr. laga nr. 86/1988, um Húsnæðisstofnun ríkisins, með áorðnum breytingum.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


     Frumvarp þetta er flutt að beiðni félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra og felur í sér 4.000 millj. kr. hækkun heimildar húsbréfadeildar Byggingarsjóðs ríkisins samkvæmt lánsfjárlögum fyrir árið 1992. Samkvæmt nýrri áætlun Húsnæðisstofnunar ríkisins þarf húsbréfadeildin viðbótarheimild að fjárhæð 1.000 millj. kr. á þessu ári til að útgáfa húsbréfa stöðvist ekki en hvað varðar framkvæmdina er æskilegt að nýr flokkur húsbréfa sé ekki minni en 4.000 millj. kr. Gildar skýringar verða að teljast fyrir hendi á vanáætlun yfirstandandi árs, sbr. meðfylgjandi fylgiskjal frá Húsnæðisstofnun ríkisins. Einnig er lítil reynsla komin á húsbréfakerfið.
     Um leið og útgáfa húsbréfa 1992 hefur orðið meiri en áætlun gerði ráð fyrir er útgáfa húsbréfa á næsta ári áætluð minni en við framlagningu lánsfjárlagafrumvarps 1993. Þannig er í raun aðeins gert ráð fyrir tilfærslu milli ára eða með öðrum orðum að heildarútgáfan á þessu ári geti orðið um 13 milljarðar króna en að hámarki 11 milljarðar króna á því næsta.
     Vegna hækkunar heimildar húsbréfadeildar Byggingarsjóðs ríkisins um 4.000 millj. kr., sem lögð er til í frumvarpinu, verði gerð samsvarandi breyting til lækkunar í frumvarpi til lánsfjárlaga fyrir árið 1993.




Fylgiskjal.


Húsnæðisstofnun ríkisins,
húsbréfadeild:



Útgáfa húsbréfa.


1.    Mismunur á áætlun um útgáfu húsbréfa í byrjun ársins 1992 og í nóvember 1992.
    Í upphafi ársins 1992 var gert ráð fyrir því að húsbréfaflokkur að nafnverði 12 milljarðar króna mundi nægja til þess að afgreiða allar þær beiðnir sem bærust á árinu 1992. Samkvæmt rauntölum fyrir fyrstu tíu mánuði ársins og áætlun fyrir síðustu tvo mánuðina lítur hins vegar út fyrir að þörfin sé fyrir tæplega 13 milljarða króna á árinu 1992.
    Ástæður þess að fyrirsjáanleg útgáfa húsbréfa fari umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir í upphafi ársins eru nokkrar. Fyrst má þar telja að afgreiðslur vegna greiðsluerfiðleika, sem voru afgangur frá árinu 1991, fóru í tæpar 448 milljónir króna, en reiknað var með að 300 milljónir króna mundu duga. Í öðru lagi var ákveðið á árinu að afgreiða biðröðina frá Byggingarsjóði ríkisins í húsbréfakerfinu og lítur nú út fyrir að það þýði útgáfu upp á um 366 milljónir króna á þessu ári, en ekki hafði verið gert ráð fyrir neinum afgreiðslum vegna þessa í byrjun ársins. Geta ber þess að þegar til stóð að taka þessar afgreiðslur inn í húsbréfakerfið voru aðstæður í húsbréfakerfinu þær að um 46% samdráttur var í afgreiðslum til notaðra íbúða og um 16% samdráttur í afgreiðslum til nýbygginga miðað við sama tíma árið áður, þannig að á þeim tíma leit út fyrir verulegan samdrátt frá fyrra ári og að flokkur upp á 12 milljarða króna mundi duga vel á árinu. Það sem síðar hefur gerst er að samdráttur í notuðum íbúðum er nú einungis um 6% sem er í takt við spá Þjóðhagsstofnunar fyrir árið 1992, en hins vegar hefur aukning orðið í afgreiðslum vegna nýbygginga þannig að í ár stefnir í að afgreiðslur vegna nýbygginganna verði um 3,9 milljarðar króna í stað 3,2 milljarða króna ef samsvarandi samdráttur hefði orðið jafnmikill í nýbyggingum og notuðum íbúðum. Samkvæmt könnun virðist svo sem biðtíminn frá því að lóðum er úthlutað og þar til íbúðir eru komnar í lánshæft ástand sé lengri en reiknað hafði verið með um síðustu áramót. Þannig endurspegla afgreiðslur vegna nýbygginga nú í ár ekki núverandi efnahagsástand, heldur það efnahagsástand sem var á árinu 1990 eða fyrripart ársins 1991.
    Munurinn á áætlun um útgáfu húsbréfa í byrjun árs og í dag er því sem hér segir (í millj. kr.):

Vegna greiðsluerfiðleikalána     
148

Vegna yfirfærslu biðraðar BR í húsbréfakerfið     
366

Vegna nýbygginga     
698


          Samtals          
1.212


2.    Áætlun fyrir árið 1993.
    Gerð hefur verið áætlun fyrir útgáfu húsbréfa á árinu 1993. Í þessari áætlun var gert ráð fyrir að um 950 milljónir króna þyrfti vegna beiðna frá árinu 1992 eða sem svarar því sem núverandi áætlun fyrir árið 1992 fer umfram þá 12 milljarða króna sem reiknað var með að gefa út á árinu 1992. Auk þess er gert ráð fyrir að samdráttur verði 9% í notuðum íbúðum frá fyrra ári sem er í samræmi við áætlun Þjóðhagsstofnunar. Varðandi nýbyggingarnar er gert ráð fyrir að þær efnahagsaðstæður, sem ríkt hafa á árinu 1991 og 1992, mundu koma fram á árinu 1993, þannig að draga mundi úr þeim afgreiðslum um sem nemur 15% á árinu 1993 miðað við árið 1992. Auk þess er gert ráð fyrir að afgreiddar verði um 100 umsóknir vegna endurbóta.
    Samkvæmt þessu gæti útgáfa húsbréfa eða umsóknir um skuldabréfaskipti numið um 11 milljörðum króna á árinu 1993. Eftirfarandi tafla gefur yfirlit yfir útgáfu húsbréfa undanfarin ár ásamt áætlun ársins 1993 (í millj. kr.):

       1991

       1992

       1993


Nýjar íbúðir      3.607
,8 4.020 ,5
3.547 ,2
Notaðar íbúðir      9.340
,9 8.290 ,4
7.774 ,4
Greiðsluerfiðleikar      2.556
,4 447 ,6
0 ,0
Yfirfærsla      0
,0 366 ,1
0 ,0
Endurbætur      0
,0 118 ,7
139 ,7

    Í áætlun þessari er gert ráð fyrir þeim samdrætti sem Þjóðhagsstofnun hefur gert ráð fyrir á næsta ári á fasteignamarkaðnum, auk þess sem gert er ráð fyrir að sá samdráttur, sem Þjóðhagsstofnun gerði ráð fyrir á árinu 1992 en kom ekki fram í nýbyggingum, komi auk þess fram í afgreiðslum vegna nýbygginga. Jafnframt er líklegt að þær skattahækkanir, sem boðaðar hafa verið á næsta ári, auk breytinga á vaxtabótum, geti orðið til að draga frekar úr útgáfu húsbréfa.
    Rétt er í þessu sambandi að geta þess að á fyrstu mánuðum ársins 1992 varð vart mikils samdráttar í húsbréfakerfinu, eða fram að því að kjarasamningar voru undirritaðir á vormánuðum, en greinilega varð vart við uppsveiflu eftir að þeir voru gerðir sem náði hámarki í september og október sl. en virðist nú vera í rénun.