Ferill 284. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 284 . mál.


414. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 90/1990, um tekjustofna sveitarfélaga.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



    Við lögin bætast ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:

I.


Niðurfelling aðstöðugjalds á árinu 1993.


    Innheimta á aðstöðugjaldi skv. V. kafla, sem lagt er á gjaldárið 1993 vegna rekstrar á árinu 1992, skal falla niður. Ákvæði V. kafla skulu að öðru leyti gilda um framtal, álagningu og aðra meðferð gjalds þessa.
    Ákvörðun sveitarstjórnar, sbr. 39. gr. og 36. gr. um gjaldstig og gjaldflokka, sem gilti á gjaldárinu 1992 vegna rekstrar ársins 1991, skal í einu og öllu gilda óbreytt við álagningu skv. 1. mgr.
    Í stað aðstöðugjalds gjaldársins 1993 skulu sveitarfélög fá sérstakt framlag úr ríkissjóði. Framlag ríkissjóðs skal vera fjárhæð sem svarar til 80% af álögðu aðstöðugjaldi gjaldárið 1993 sem hefði fallið til hvers sveitarfélags ef ekki hefði komið til niðurfelling gjaldsins.
    Þar til álagning aðstöðugjalds liggur fyrir skal sveitarfélögum greitt með fimm jöfnum greiðslum 40% af álögðu aðstöðugjaldi ársins 1992 vegna rekstrar á árinu 1991 sem fyrirframgreiðsla upp í greiðslu skv. 3. mgr. Fyrirframgreiðsla samkvæmt þessari grein skal fara fram fyrsta dag mánuðina febrúar til júní 1993. Þegar álagning liggur fyrir skulu eftirstöðvar greiðslu skv. 3. mgr. gerðar upp með fimm jöfnum greiðslum mánuðina ágúst til og með desember 1993.
    Leiði breytingar skattstjóra, við yfirferð framtala og við úrskurð á kærum á aðstöðugjaldsstofni, til þess að sýnilegt er að framlag ríkissjóðs, sbr. 4. mgr., hafi verið of hátt eða of lágt í einstöku sveitarfélagi skal ákvarða að nýju umrætt framlag. Félagsmálaráðherra skal í samráði við fjármálaráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga setja í reglugerð nánari ákvæði um hvernig staðið skuli að þeirri ákvörðun.

II.


Framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.


    Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. í ákvæði til bráðabirgða I skulu 120 milljónir króna af framlagi ríkissjóðs renna til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og skal þeim varið til greiðslu jöfnunarframlaga, sbr. 14. gr. Fjárhæð þessa skal draga frá óskiptu framlagi ríkissjóðs til sveitarfélaganna í ágústmánuði 1993 og greiða þegar til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

III.


Önnur lagaákvæði um aðstöðugjaldsstofn.


    Framkvæmd á ákvæðum laga um kirkjugarðs-, útflutningsráðs-, iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjald, svo og öðrum reglum er kveða á um að aðstöðugjaldsstofn sé að einu og öðru leyti grundvöllur gjaldaútreiknings og þess háttar, sbr. t.d. ákvæði um landsútsvar, skal, þrátt fyrir niðurfellingu á innheimtu aðstöðugjalds, standa óhögguð gjaldárið 1993.

IV.


Skerðing á framlagi til Lánasjóðs sveitarfélaga.


    Framlag ríkissjóðs til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga skv. a-lið 8. gr. skal á árinu 1993 skerðast um 110 milljónir króna. Upphæð þessi skal koma til lækkunar á framlagi til Lánasjóðs sveitarfélaga skv. c-lið 12. gr.

V.


Gildistaka.


    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 1. janúar 1993.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að innheimta álagðs aðstöðugjalds verði felld niður á árinu 1993 og í kjölfar þess verði sveitarfélögunum bætt upp tekjutapið til bráðabirgða á því ári með hlutdeild í tekjuskatti ríkisins árið 1993. Er þetta í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. nóvember sl. um aðgerðir til að styrkja stöðu íslensks atvinnulífs og sporna við auknu atvinnuleysi. Reiknað er með að niðurfelling aðstöðugjaldsins verði til frambúðar og að á árinu 1993 verði lög um tekjustofna sveitarfélaga endurskoðuð með það að markmiði að finna sveitarfélögunum nýjan tekjustofn í stað aðstöðugjaldsins. Þetta er í samræmi við samkomulag ríkisstjórnarinnar og fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga, en í samkomulagi þessu var einnig gert ráð fyrir sérstöku framlagi til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem tekið yrði af óskiptu framlagi ríkissjóðs til sveitarfélaganna vegna niðurfellingar aðstöðugjaldsins.

Um bráðabirgðaákvæði I.


    Í þessu bráðabirgðaákvæði er lagt til að á árinu 1993 verði aðstöðugjald lagt á með sama hætti og verið hefur og í fullu samræmi við ákvæði V. kafla laganna um tekjustofna sveitarfélaga. Sveitarstjórnir skulu þó ekki taka nýjar ákvarðanir um gjaldstig og gjaldflokka aðstöðugjaldsins heldur skal gilda óbreytt ákvörðun sveitarstjórna um þetta efni frá árinu 1992. Aftur á móti er lagt til að innheimta gjaldsins falli niður og til að bæta sveitarfélögunum upp það tekjutap er lagt til að þau fái hlutdeild í tekjuskatti ríkisins sem nemi 80% af álögðu aðstöðugjaldi samkvæmt aðstöðugjaldsstofni í öllum sveitarfélögunum miðað við árið 1992, með þeim breytingum til hækkunar og lækkunar sem gerðar verða við yfirferð framtala og úrskurð á kærum. Framlagið verði greitt sveitarfélögunum með samtals 10 greiðslum fyrsta dag mánuðina febrúar til júní og ágúst til desember 1993.
    Lagt er til að félagsmálaráðherra setji í samráði við fjármálaráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga reglugerð þar sem kveðið er á um hvernig standa skuli að ákvörðunum og framkvæmd á breytingum þeim er yfirferð framtala og úrskurður á kærum kann að leiða af sér.
    Þar sem lagt er til að atvinnureksturinn greiði ekki aðstöðugjald árið 1993 vegna rekstrar ársins 1992 leiðir af sjálfu sér að aðstöðugjaldið verður ekki fært til gjalda sem rekstrarkostnaður aðila, en í þessu sambandi er rétt að geta þess að fyrirhugað er að fjármálaráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, m.a. hvað þetta atriði varðar.
    

Um bráðabirgðaákvæði II.


    Í bráðabirgðaákvæðinu er lagt til að varið verði 120 milljónum króna til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga af óskiptu framlagi ríkissjóðs samkvæmt bráðabirgðaákvæði I. Framlagi þessu verði einungis varið til jöfnunarframlaga skv. 14. gr. og það verði greitt sjóðnum í ágústmánuði en reiknað er með að greiðsla jöfnunarframlaga til sveitarfélaganna hefjist í september.

Um bráðabirgðaákvæði III.


    Hér er kveðið á um að framkvæmd á ákvæðum laga og reglna, sem kveða á um að aðstöðugjaldsstofn sé að einu eða öllu leyti grundvöllur gjaldaútreiknings og þess háttar, skuli standa óhögguð á árinu 1993. Einnig er undirstrikað að öll núgildandi lagaákvæði um landsútsvör skulu standa óhögguð 1993.

Um bráðabirgðaákvæði IV.


    Í tengslum við niðurskurð ríkisútgjalda er hér lagt til að framlag ríkissjóðs til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga skerðist á árinu 1993 um 110 milljónir króna. Lagt er til að þetta leiði til lækkunar á framlagi sjóðsins til Lánasjóðs sveitarfélaga en hafi ekki áhrif á önnur framlög sjóðsins. Lánasjóður sveitarfélaga er mjög öflugur sjóður með mikið eigið fé. Þrátt fyrir þessa skerðingu á árinu 1993 á hann því að geta haldið uppi eðlilegri útlánastarfsemi með sama hætti og verið hefur.

Um bráðabirgðaákvæði V.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.