Ferill 97. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 97 . mál.


503. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um málefni aldraðra, nr. 82/1989, með síðari breytingu.

Frá 1. minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk umsagnir um það frá Félagi eldri borgara, Landssambandi aldraðra, stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Öldrunarráði.
    Fyrsti minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem hann flytur tillögu um á sérstöku þingskjali. Tillagan gerir ráð fyrir að b-lið 1. gr. frumvarpsins verði breytt þannig að heimilt verði að nýta allt að 160 millj. kr. af fé Framkvæmdasjóðs aldraðra á árinu 1993 til rekstrar stofnana fyrir aldraða. Tillaga meiri hluta nefndarinnar gerir hins vegar ráð fyrir því að heimilt verði að nota mjög stóran hluta Framkvæmdasjóðsins í rekstur framvegis. Fyrsti minni hluti er ekki reiðubúinn til að standa að þeirri takmörkun á framlögum í Framkvæmdasjóð aldraðra. Fyrsti minni hluti telur að heimild af þessu tagi verði að vera tímabundin og sæta reglulegri endurskoðun. Höfuðmarkmið Framkvæmdasjóðs aldraðra hlýtur hér eftir sem hingað til að vera uppbygging stofnana í þágu aldraðra.

Alþingi, 18. des. 1992.



Finnur Ingólfsson,

Sigurður Þórólfsson.

Svavar Gestsson.


frsm.