Ferill 96. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 96 . mál.


513. Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1993.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Nefndin hefur haft fjárlagafrumvarpið til athugunar frá því 2. umr. fór fram 10. desember sl. Til viðræðna við nefndina komu forsvarsmenn B-hluta stofnana, þ.e. Pósts og síma, Ríkisútvarpsins, Rafmagnsveitna ríkisins, Vegagerðar ríkisins og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Fulltrúar efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins og Þjóðhagsstofnunar komu á fund nefndarinnar til viðræðna um tekjuhlið frumvarpsins og horfur í þjóðarbúskapnum. Að lokum komu á fund nefndarinnar fulltrúar nokkurra ráðuneyta vegna þess að gerðar eru tillögur um breytingar á framlögum til stofnana í A-hluta sem undir þau heyra.
    Meiri hluti nefndarinnar gerði tillögur um lækkun útgjalda hjá A-hluta ríkissjóðs frá fjárlagafrumvarpinu um 500 millj. kr. og því til viðbótar er fallið frá fyrirhuguðu framlagi til viðhalds opinberra bygginga að fjárhæð 400 millj. kr. sem ríkisstjórnin hafði boðað, eða alls 900 millj. kr. sem skiptist þannig:
Þús. kr.

    Heimildir á 6. gr.     
60.000

    Markaðsátak á EES-svæðinu     
50.000

    Hæstaréttarhús     
27.000

    Hlutdeild Seðlabanka í rekstri Þjóðhagsstofnunar     
25.000

    Byggingarsjóður verkamanna     
50.000

    Vegagerðarverk     
250.000

    Sölvhólsgata 7     
5.000

    Hugbúnaðarkerfi í skattamálum     
8.000

    Launa- og verðlagsmál, stofnkostnaður     
15.000

    Þjóðminjasafn, stofnkostnaður     
10.000

        Samtals lækkun miðað við frumvarpið     
500.000


    Viðhald opinberra bygginga     
400.000

......
        Samtals
900.000

    Þá gerir meiri hlutinn tillögur um hækkun útgjalda hjá A-hluta stofnunum. Heildarniðurstaðan er sú að útgjöld hækka um 44 millj. kr. Þar er einkum um að ræða hækkun framlaga til sjúkratrygginga, lækkun sértekna Hafrannsóknastofnunar, hækkun framlaga til viðhalds opinberra bygginga og Framkvæmdasjóðs aldraðra, þ.e. til Hjúkrunarheimilisins Eirar. Þá er gerð tillaga um skiptingu framlaga til hafnamála í sérstöku þingskjali nú við 3. umr. Að lokum eru gerðar tillögur til hækkunar vegna breytts gengis og almennra verðlagsforsendna frá því að frumvarpið var lagt fram í október sl. Samtals er gert ráð fyrir að verðlagsuppfærsla nemi um 700 millj. kr., þar af 300 millj. kr. vegna vaxtagreiðslna í kjölfar breytinga á gengi.
    Upplýsingar, sem fram komu hjá forstjóra Þjóðhagsstofnunar á fundi nefndar um horfur í þjóðarbúskapnum, benda til þess að við endurskoðun á þjóðhagsspá fyrir árið 1993 verði dregin upp heldur dekkri mynd af horfum en gert var í síðustu spá. Þá eru nú horfur á að viðskiptakjör þjóðarbúsins á árinu 1993 verði nokkru lakari en gert hefur verið ráð fyrir í fyrri áætlunum. Þessu veldur einkum frestun á gildistöku samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og að efnahagsbati í heiminum lætur á sér standa. Þá bendir margt til þess að atvinnuleysi aukist frá því sem áætlað var á haustmánuðum. Í þjóðhagsáætlun var reiknað með því að atvinnuleysi yrði að meðaltali 3,5% af mannafla á árinu 1993. Nýjustu upplýsingar benda nú til þess að atvinnuleysi geti orðið yfir 4% að meðaltali á næsta ári. Þjóðhagsstofnun reiknaði með í nóvember sl. að verðbólgan á milli áranna 1992 og 1993 yrði um 4,5%. Ýmsar forsendur hafa breyst að því er varðar verðlagshorfur frá þeirri spá. Nú er hins vegar talið að verðbólga verði ögn lægri eða um 4%. Fram kom hjá fulltrúa Þjóðhagsstofnunar að óvissa ríki um verðbólguspána, ekki síst þegar saman fara viðamiklar breytingar á tekjuöflunarkerfi hins opinbera og um margt óvenjulegar aðstæður í þjóðarbúskapnum.
    Tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins hefur nú verið endurskoðuð í ljósi breyttra efnahagsforsendna og tekjuöflunaráforma ríkisstjórnarinnar. Niðurstaða þessarar endurskoðunar er að heildartekjur ríkissjóðs á næsta ári verði nánast þær sömu og gert var ráð fyrir í frumvarpinu en nú er áætlað að heildartekjur nemi 104.771 millj. kr. sem er 19 millj. kr. lægri fjárhæð en fram kemur í frumvarpinu. Skatttekjur ríkissjóðs hækka um 215 millj. kr. en á móti lækkuðu aðrar tekjur ríkissjóðs um 234 millj. kr. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu næmu 26,9% en samkvæmt endurskoðaðri tekjuáætlun er hlutfallið áætlað 26,7%.
    Nefndin var ekki sammála um afgreiðslu mála og mun minni hlutinn skila sérstöku nefndaráliti. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem hann stendur að og gerðar eru tillögur um á sérstökum þingskjölum.



SKÝRINGAR Á BREYTINGARTILLÖGUM VIÐ 4. GR.


01 Forsætisráðuneyti


102    Þjóðhagsstofnun: Sértekjur hækka um 25 m.kr. og verða 71 m.kr. en gert er ráð fyrir að fjármálaráðuneytið semji við Seðlabanka Íslands um aukna kostnaðarhlutdeild bankans í rekstri stofnunarinnar.

02 Menntamálaráðuneyti


210    Háskólinn á Akureyri: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 5 m.kr. og verður 147 m.kr. Hækkunin er vegna fyrirhugaðrar kennaradeildar við skólann.
221    Kennaraháskóli Íslands: Viðfangsefni 1.30 Önnur kennsla hækkar um 5 m.kr. og verður 24,5 m.kr. Hækkunin er ætluð til fjarkennslu.
720    Grunnskólar, almennt: Tekinn er inn nýr liður, 1.45 Miðskólinn, rekstrarstyrkur og er framlag 3 m.kr.
872    Lánasjóður íslenskra námsmanna: Framlag hækkar um 50 m.kr. vegna verðlagsuppfærslu í kjölfar gengisbreytinga.
902    Þjóðminjasafn: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 2 m.kr. vegna sérstaks skráningarverkefnis. Viðfangsefni 5.90 Verndun gamalla húsa hækkar um 10 m.kr. og verður 20,4 m.kr. Viðfangsefni 6.90 Húseign við Suðurgötu, endurbætur lækkar um 20 m.kr. og verður 90 m.kr.

03 Utanríkisráðuneyti


        Framlag til utanríkisráðuneytis hækkar alls um 55,9 m.kr. vegna verðlagsuppfærslu í kjölfar gengisbreytinga.

04 Landbúnaðarráðuneyti


235    Landgræðsla ríkisins: Viðfangsefni 1.20 Sérstök verkefni lækka um 0,5 m.kr. og verður 80,8 m.kr.
299    Búnaðarmál, ýmis verkefni: Tekinn er inn nýr liður, 1.15 Landþurrkun og er framlag 0,5 m.kr.
430    Sérstakar greiðslur í landbúnaði: Viðfangsefni 1.01 Nauta-, svína-, hrossa- og alifuglaafurðir lækkar um 50 m.kr. og verður 210 m.kr.

05 Sjávarútvegsráðuneyti


202    Hafrannsóknastofnun: Sértekjur lækka um 235 m.kr. og verða 322,9 m.kr. vegna lægri tekna af sölu á kvóta Hagræðingarsjóðs.

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti


291    Húsnæði og búnaður dómstóla: Viðfangsefni 6.01 Húsnæði Hæstaréttar lækkar um 27 m.kr. og verður 100 m.kr.
490    Ýmis rekstrarkostnaður sýslumannsembætta: Tekinn er inn nýr liður, 1.40 Hreppstjórar og er framlag 16 m.kr.
590    Fangamál, ýmis kostnaður: Viðfangsefni 1.10 Fangahjálp hækkar um 0,5 m.kr. og er hækkunin ætluð félagasamtökunum Vernd.

07 Félagsmálaráðuneyti


272    Byggingarsjóður verkamanna: Framlag lækkar um 50 m.kr. Á móti hækkar það um 14 m.kr. vegna verðlagsuppfærslu í kjölfar gengisbreytinga. Heildarbreyting á fjárveitingu til sjóðsins er því 36 m.kr. lækkun.
801    Jöfnunarsjóður sveitarfélaga: Viðfangsefni 1.01 lækkar um 104 m.kr. og verður 1.246 m.kr. Lækkun um 110 m.kr. er í samræmi við frumvarp til laga um sjóðinn en á móti kemur 6 m.kr. hækkun sem er vegna ákvæða laga um tekjustofna sveitarfélaga. Framlag á að nema 1,4% af beinum og óbeinum sköttum til ríkissjóðs og er hækkunin vegna breytinga á tekjuáætlun ríkissjóðs fyrir árið 1993.
985    Félagsmálaskóli alþýðu: Teknir eru inn þrír nýir liðir, 1.20 ASÍ, Menningar- og fræðslusamband alþýðu, 4 m.kr., 1.30 ASÍ, Norræni verkalýðsskólinn í Genf, 0,2 m.kr., og 1.40 Námskeið fyrir trúnaðarmenn á vinnustöðum, 1,8 m.kr. Á móti lækkar viðfangsefni 1.10 um 6 m.kr. og verður 12,5 m.kr. Liðurinn breytir einnig um heiti og verður 1.10 Almennur rekstur. Engin breyting er á heildarfjárveitingu til skólans.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti


271    Tryggingastofnun ríkisins: Viðfangsefni 1.10 Lífeyristryggingar hækkar um 140 m.kr. Af þeirri fjárhæð eru 90 m.kr. vegna verðlagsuppfærslu í kjölfar gengisbreytinga en 50 m.kr. vegna minni skerðingar á mæðra- og feðralaunum en áformað var. Viðfangsefni 1.20 Sjúkratryggingar hækkar um 50 m.kr. vegna verðlagsuppfærslu í kjölfar gengisbreytinga.
273    Atvinnuleysistryggingasjóður: Viðfangsefni 1.01 lækkar um 500 m.kr. og verður 1.464 m.kr. en gert er ráð fyrir að sveitarfélög leggi 500 m.kr. til sjóðsins á árinu 1993.
350    Sjúkrahúsið Akranesi: Sértekjur hækka um 2 m.kr. og verða 37 m.kr.
352    Sjúkrahúsið Patreksfirði: Sértekjur hækka um 0,1 m.kr. og verða 3 m.kr.
353    Fjórðungssjúkrahúsið Ísafirði: Sértekjur hækka um 0,1 m.kr. og verða 24,8 m.kr.
355    Sjúkrahús Austur-Húnvetninga, Blönduósi: Sértekjur hækka um 1 m.kr. og verða 8,2 m.kr.
356    Sjúkrahúsið Sauðárkróki: Sértekjur hækka um 0,4 m.kr. og verða 18,4 m.kr.
357    Sjúkrahúsið Siglufirði: Sértekjur hækka um 0,1 m.kr. og verða 7,5 m.kr.
358    Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri: Sértekjur hækka um 5,2 m.kr. og verða 136,9 m.kr.
361    Fjórðungssjúkrahúsið Neskaupstað: Sértekjur hækka um 0,1 m.kr. og verða 16,5 m.kr.
363    Sjúkrahúsið Egilsstöðum: Sértekjur hækka um 1 m.kr. og verða 5,1 m.kr.
365    Sjúkrahús Suðurlands, Selfossi: Sértekjur hækka um 1,5 m.kr. og verða 29,7 m.kr.
366    Sjúkrahúsið Vestmannaeyjum: Sértekjur hækka um 0,6 m.kr. og verða 20,2 m.kr.
367    Sjúkrahúsið Keflavík: Sértekjur hækka um 1 m.kr. og verða 49,6 m.kr.
368    Sólvangur, Hafnarfirði: Sértekjur hækka um 2,5 m.kr. og verða 8,4 m.kr.
370    Sjúkrahús í Reykavík: Sértekjur fjárlagaliðarins, 95 m.kr., falla brott. Á móti hækka sértekjur á ýmsum sjúkrahúsum um alls 60 m.kr.
371    Ríkisspítalar: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 20 m.kr. vegna áfengismeðferðar og verður 6.647,4 m.kr. Sértekjur hækka um 11,8 m.kr. og verða 805,2 m.kr.
372    Borgarspítalinn: Sértekjur hækka um 10,5 m.kr. og verða 470,7 m.kr.
373    St. Jósefsspítali, Landakoti: Sértekjur hækka um 7,5 m.kr. og verða 171,2 m.kr.
385    Framkvæmdasjóður aldraðra: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 70 m.kr. og verður 230 m.kr. m.a. vegna væntanlegs reksturs hjúkrunarheimilisins Eirar.
400    St. Jósefsspítali, Hafnarfirði: Sértekjur hækka um 1,8 m.kr. og verða 44,5 m.kr.
402    Sjúkrahús Hvammstanga: Sértekjur hækka um 0,8 m.kr. og verða 3,5 m.kr.
408    Sunnuhlíð, Kópavogi: Sértekjur hækka um 4,3 m.kr. og verða 12,2 m.kr.
409    Hjúkrunarheimilið Skjól: Sértekjur hækka um 7,3 m.kr. og verða 11,8 m.kr.
411    Garðvangur, Garði: Sértekjur hækka um 0,4 m.kr. og verða 1,7 m.kr.
431    Heilsuhæli Náttúrulækningafélags Íslands: Viðfangsefni 1.01 Endurhæfingardeild hækkar um 10 m.kr. og verður 191 m.kr.

09 Fjármálaráðuneyti


402    Fasteignamat ríkisins: Viðfangsefni 6.01 Tæki og búnaður hækkar um 10 m.kr. og verður 36 m.kr.
481    Útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum: Viðfangsefni 6.01 lækkar um 60 m.kr. og verður 340 m.kr.
801    Ýmis lán ríkissjóðs, vextir: Viðfangsefni 1.10 hækkar um 300 m.kr. og verður 10.500 m.kr. Hækkun er vegna verðlagsuppfærslu í kjölfar gengisbreytinga.
981    Ýmsar fasteignir ríkissjóðs: Viðfangsefni 6.50 Sölvhólsgata 7 lækkar um 5 m.kr. og verður 5 m.kr.
989    Launa- og verðlagsmál: Viðfangsefni 6.01 Stofnkostnaður lækkar um 15 m.kr. og verður 20 m.kr.
990    Ríkisstjórnarákvarðanir: Viðfangsefni 1.90 Markaðsátak í löndum EES lækkar um 50 m.kr. og verður 50 m.kr. Tekinn er inn nýr liður 5.01 Viðhald og er framlag 100 m.kr. Gert er ráð fyrir að ríkisstjórn skipti þessu fé að fengnu samþykki fjárlaganefndar.
995    Skýrsluvélakostnaður: Viðfangsefni 6.03 Hugbúnaðargerð fyrir skattvinnslukerfi lækkar um 8 m.kr. og verður 38 m.kr.
999    Ýmislegt: Viðfangsefni 1.19 Ýmsar endurgreiðslur hækkar um 5 m.kr. og verður 25 m.kr. Hækkunin er vegna tækja- og búnaðarkaupa björgunarsveita.

10 Samgönguráðuneyti


211    Vegagerð ríkisins: Viðfangsefni 6.11 Framkvæmdaátak vegna atvinnumála lækkar um 250 m.kr. og verður 1.550 m.kr.
333    Hafnamál: Viðfangsefni 6.20 Ferjubryggjur hækkar um 12 m.kr. og verður 22 m.kr. Fjárhæðin skiptist á Nauteyrarhrepp, 20 m.kr. og Mjóafjörð, 2 m.kr. Viðfangsefni 6.30 Hafnamannvirki lækkar um 37,1 m.kr. og verður 771,9 m.kr. Í breytingartillögu nefndarinnar er fjárhæðinni skipt á einstök viðfangsefni í sérstöku yfirliti. Tekinn er inn nýr liður, 6.39 Hafnamannvirki Sandgerði, og er framlag 25,1 m.kr.

11 Iðnaðarráðuneyti


399    Ýmis orkumál: Viðfangsefni 1.14 Niðurgreiðsla á húshitun, 80 m.kr., fellur brott.

14 Umhverfisráðuneyti


210    Veiðistjóri: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 6 m.kr. vegna eyðingar refa og minka.

Verðlagsuppfærsla


        Tegundaliðurinn Önnur gjöld á rekstrarviðfangsefnum hækkar um 1% vegna verðlagsuppfærslu í kjölfar gengisbreytinga. Áætluð hækkun, miðað við frumvarpið eftir 2. umr., er 146 m.kr. Allar tölur skulu standa á hundruðum þúsunda króna. Hækkunin tekur þó ekki til utanríkisráðuneytis né vaxtagreiðslna ríkissjóðs á fjárlagalið 09-801.


SKÝRINGAR Á BREYTINGARTILLÖGU VIÐ 5. GR. (B-HLUTA)



    Forsendur B-hluta áætlana hafa verið í endurskoðun frá því að fjárlagafrumvarp var lagt fram í október. Í fyrsta lagi hafa áætlanir verið endurmetnar með hliðsjón af breyttum forsendum um gengi og verðlag. Almennt hefur verið miðað við að rekstrargjöld, önnur en laun, taki verðlagshækkun í þeim tilvikum sem tekjuöflun hækkar í takt við aukna verðbólgu, en að öðrum kosti verði hagrætt í rekstri. Rekstur og lánastarfsemi, sem tengist erlendum gjaldmiðlum, reiknast upp samkvæmt viðkomandi gengi eftir því sem við á. Í öðru lagi hefur þurft að breyta einstökum áætlunum með tilliti til annarra efnahagsráðstafana ríkisstjórnarinnar, t.d. vegna upptöku 14% þreps í virðisaukaskatti sem kemur í stað niðurfellingar á endurgreiddum innskatti. Í þriðja lagi hefur verið haft samband við allar B-hluta stofnanir og tekin afstaða til annarra breytinga í einstökum atriðum.
    Gerð er tillaga um breytingar á 16 af 48 áætlunum fyrirtækja og sjóða í B-hluta. Í flestum tilvikum er um að ræða óverulegar breytingar á verðlagi eða einstökum forsendum rekstrar eða lánahreyfinga. Engar gjaldskrárhækkanir eru áformaðar umfram það sem fram kom í fjárlagafrumvarpi. Hér á eftir fara skýringar á þeim breytingum sem gerð er tillaga um.

22-872     Lánasjóður íslenskra námsmanna.
    Gert er ráð fyrir að lánveitingar sjóðsins aukist um 92 m.kr. vegna gengis- og verðlagsbreytinga umfram forsendur fjárlagafrumvarps. Sömu ástæður valda hækkun á afborgunum og vöxtum sem nemur 83 m.kr., en á móti falla niður 62 m.kr. sem í frumvarpi var ætlað að koma til viðbótar öðrum afborgunum. Þau mistök urðu hjá sjóðnum við gerð fjárlagatillagna að 300 m.kr. í afborganir og vexti af láni í japönskum jenum féllu niður í lánaskrá og hefur áætlunin nú verði leiðrétt sem því nemur. Að samanlögðu hafa þessar breytingar í för með sér 321 m.kr. hækkun afborgana og vaxta hjá sjóðnum miðað við fjárlagafrumvarp og fjármunatekjur og innheimtar afborganir af áðurnefndum ástæðum hækka um 16 m.kr. Miðað er við að framlag úr ríkissjóði hækki um 50 m.kr. Gert er ráð fyrir að rekstrarkostnaður sjóðsins hækki um 14 m.kr. í kjölfar breyttra laga og úthlutunarreglna sem hafa í för með sér aukið starfsálag í ár og á næsta ári. Tekjur af lántökugjaldi lækka um 2 m.kr. og fjárfesting lækkar um 3 m.kr. Að teknu tilliti til framangreindra breytinga þarf að auka lántökur um 360 m.kr. til að standa undir fjárþörf sjóðsins á næsta ári.

22-970, 971, 972 Ríkisútvarpið, hljóðvarp, sjónvarp og framkvæmdasjóður.
    Afkomuhorfur Ríkisútvarpsins hafa batnað mikið síðan fjárlagafrumvarpið var lagt fram þar sem ekki er lengur áformað að fella niður endurgreiðslur virðisaukaskatts, heldur kemur nýtt 14% skattþrep á afnotagjöldin í staðinn. Önnur rekstrargjöld lækka um 120 m.kr. við þessar breytingar, en á móti kemur 36 m.kr. hækkun vegna verðlagsbreytinga. Greiðslur lífeyrisuppbóta starfsmanna að fjárhæð 18 m.kr. voru í fyrri áætlun taldar með öðrum rekstrargjöldum en hafa nú verið færðar undir launaliðinn. Samanlagt fela laun og önnur gjöld í sér að dregið er úr þeim rekstrarsparnaði sem áformaður var í frumvarpinu. Eftir þessar breytingar verður ekki þörf fyrir 10% hækkun afnotagjalds eins og áður var áætlað, heldur nægir 4% hækkun til að ná starfseminni í sama jafnvægi. Hluta af tekjuaukningunni, eða 6 m.kr., verður varið til fjárfestinga sem hækka þá um 65 m.kr. frá fjárlögum 1992 og verða alls 178 m.kr. Í endurskoðaðri áætlun er jafnframt gert ráð fyrir að tæpum 20 m.kr. verði varið til að lækka fjármagnskostnað með því að greiða inn á skuld á hlaupareikningi.
    Þótt Ríkisútvarpið sé í raun eitt fyrirtæki hefur áætlunin jafnan verið sett fram í þremur reikningum í fjárlögum. Að samanlögðu sýna reikningarnir nú að afskriftir og fjárfestingar standast nokkurn veginn á og að tekjuafgangur verður um 50 m.kr. sem er svipað og í fjárlögum 1992 og í reikningi 1991.

23-101     Fríhöfn, Keflavíkurflugvelli.
    Rekstrartekjur Fríhafnarinnar eru að stærstum hluta í dollurum og hækka í takt við þær breytingar sem orðið hafa á gengi dollars frá forsendum fjárlagafrumvarps. Rekstargjöld hækka minna sem skýrist að hluta af því að ekki er gert ráð fyrir launabreytingum umfram fyrri áætlun og að hluta af því að önnur gjöld tengjast meira öðrum myntum og innlendu verðlagi. Húsaleiga til flugstöðvarinnar hækkar um 10%. Að samanlögðu er reiknað með að gengis- og verðlagsbreytingar leiði til þess að tekjuafgangur og skil í ríkissjóð aukist um 46 m.kr.

23-111     Flugmálastjórn, Keflavíkurflugvelli.
    Tekjur af lendingargjöldum eru að stærstum hluta í dollurum og hækka sem nemur breytingu á gengi dollars frá forsendum fjárlagafrumvarps. Rekstrargjöld hækka minna frá fyrri áætlun, einkum vegna þess að miðað er við að laun hækki ekki umfram það sem áður hafði verið gert ráð fyrir. Fjárvöntun, sem fram kom í frumvarpi, lækkar við þessar breytingar og verður 6 m.kr. í stað 19,5 m.kr. áður. Tekjuöflun stofnunarinnar er til skoðunar í nefnd sem starfar á vegum ríkisstjórnarinnar, en engar ákvarðanir hafa verið teknar um breytingar á lendingargjöldum að svo stöddu.

23-114     Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
    Rekstrarforsendur eru óbreyttar frá frumvarpi að öðru leyti en því að tekið hefur verið tillit til gengis- og verðlagsbreytinga. Húsaleigutekjur og hlutdeild í lendingargjöldum aukast vegna hærra gengis dollars gagnvart íslensku krónunni en gert var ráð fyrir í frumvarpi. Rekstrargjöldin hækka hins vegar í svipuðum mæli þar sem þau tengjast einnig að stórum hluta gengi dollars, t.d. vextir af lánum. Leigutekjur aukast frá Fríhöfn og Íslenskum markaði en dragast jafnmikið saman vegna þess að Póstur og sími minnkar við sig húsnæði í stöðinni. Fjárvöntun, sem fram kom í frumvarpi, er því nánast óbreytt. Beðið er niðurstaðna nefndar á vegum ríkisstjórnarinnar sem hefur tekjuöflun flugstöðvarinnar til athugunar.

24-221     Áburðarverksmiðja ríkisins.
    Gert er ráð fyrir að gjaldskrá haldist óbreytt en rekstrargjöld hækki um 9,2 m.kr. af völdum gengis- og verðlagsbreytinga umfram forsendur frumvarps. Tekjuafgangur af rekstrinum verður þá aðeins 1,7 m.kr. í stað 14,1 m.kr. í frumvarpi. Afborganir skammtímaskulda lækka sem þessu nemur.

25-222     Síldarverksmiðjur ríkisins.
    Rekstraráætlun fyrirtækisins hefur verið endurskoðuð miðað við erfiðari rekstrarskilyrði. Breytingin frá fjárlagafrumvarpinu ber með sér að ekki er talið gerlegt að ná fram þeirri lækkun rekstrarkostnaðar sem að var stefnt án þess að tekjurnar lækki jafnframt verulega. Heildargjöld hækka um 121 m.kr. og tekjur lækka um 8 m.kr. samkvæmt þessu endurmati. Gert er ráð fyrir að vandanum verði mætt með 130 m.kr. lántöku.

27-271     Byggingarsjóður ríkisins.
    Forsendur fyrir áætlun sjóðsins hafa tekið talsverðum breytingum frá því fjárlagafrumvarp var lagt fram. Í fyrsta lagi hafa allar lánahreyfingar verið endurmetnar miðað við breyttar verðlagshorfur. Í öðru lagi hefur verið lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins þar sem m.a. er stefnt að því að afnema skyldusparnað ungs fólks. Talið er að útstreymi af sparimerkjareikningum verði um 1.300 m.kr. á næsta ári í kjölfar þessarar breytingar, eða um 1.000 m.kr. hærri en í fyrri áætlun. Í þriðja lagi skuldar Byggingarsjóður ríkisins ríkissjóði 1.500 m.kr. vegna skammtímafyrirgreiðslu á árinu 1990. Vegna minnkandi sölu skuldabréfa til lífeyrissjóðanna er nú talið fullvíst að ekki náist að greiða nema í mesta lagi 900 m.kr. af skuldinni á þessu ári. Stefnt er að því að afgangurinn verði greiddur á næsta ári og hækka áætlaðar afborganir því um 600 m.kr. vegna þessa. Í fjórða lagi eru veitt lán skv. 11. gr. lækkuð um 50 m.kr. og lántaka frá lífeyrissjóðum dregin saman sem því nemur. Lántaka Byggingarsjóðs verkamanna hækkar um sömu fjárhæð og verður þá unnt að lækka framlag ríkissjóðs um 50 m.kr. þar. Til þess að standa undir þessum breytingum á fjárreiðum sjóðsins verður að auka lántökur um 1.570 m.kr. frá frumvarpi.

27-272     Byggingarsjóður verkamanna.
    Miðað er við að fylgt verði þeirri lánastefnu sem fram kom í fjárlagafrumvarpi og að lánveitingar haldist í hendur við verðlagsbreytingar. Aðrar lánahreyfingar hafa einnig verið endurmetnar með hliðsjón af breyttum verðlagshorfum. Framlag úr ríkissjóði lækkar um 50 m.kr. að tillögu meiri hluta nefndarinnar. Á móti kemur að framlagið hækkar um 14 m.kr. vegna breyttra verðlagsforsendna þannig að nettólækkunin verður 36 m.kr. Fjárþörf sjóðsins eykst um 178 m.kr. við þessar breytingar og er gert ráð fyrir að auka lántökur sem því nemur.

28-273     Atvinnuleysistryggingasjóður.
    Framlag ríkissjóðs lækkar um 500 m.kr. í kjölfar samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga um að þau leggi sjóðnum til sömu fjárhæð á næsta ári. Nokkur óvissa ríkir um fjárhag sjóðsins hvað varðar atvinnustig og bótaréttinn sem hefur verið til athugunar hjá sérstakri nefnd á vegum heilbrigðisráðuneytis. Á þessu stigi er þó miðað við óbreytta áætlun frá frumvarpi.

29-101     Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.
    Rekstraráætlun fyrirtækisins hefur verið endurmetin með hliðsjón af breyttum verðlagshorfum, bæði á gjalda- og tekjuhlið. Þá hafa söluforsendur tekjuáætlunar verið endurskoðaðar og er nú gert ráð fyrir að tekjurnar lækki um 150 m.kr. frá fjárlagafrumvarpi. Skil í ríkissjóð lækka sem því nemur.

29-102     Lyfjaverslun ríkisins.
    Fjárfesting hækkar um tæpar 50 m.kr. og verður því mætt bæði með framlögum frá rekstri og með lántöku. Fyrirhugaðar eru gagngerar endurbætur í framleiðsludeild fyrirtækisins. Að öðru leyti breytast fjárhæðir í samræmi við verðlagshækkanir umfram forsendur fjárlagafrumvarps.

29-972     Lánasýsla ríkisins, Framkvæmdasjóður Íslands.
    Nýr liður er nú tekinn inn í B-hluta fjárlaga á fjárlaganúmeri 29-972 undir heitinu Lánasýsla ríkisins, Framkvæmdasjóður Íslands. Lánasýslu ríkisins hefur verið falið að annast uppgjör Framkvæmdasjóðs en þeirri starfsemi verður þó haldið aðgreindri í fjárlögum.

30-101     Póst- og símamálastofnun.
    Áætlun fyrirtækisins hefur verið endurmetin með hliðsjón af breyttum verðlags- og rekstrarforsendum. Heildargjöld eru áætluð 78 m.kr. hærri en í fjárlagafrumvarpi. Skýrist það einkum af hærri verðlagsspá, auk launakostnaðar við stefnubirtingar, en ákveðið hefur verið að póstburðarfólk geti eftirleiðis komið stefnum á framfæri við aðila. Tekjur eru jafnframt áætlaðar 97 m.kr. hærri og felst aukningin að mestu í tekjum af stefnubirtingum. Fjárfesting í Cantat-3 ljósleiðara verður 180 m.kr. hærri en í frumvarpi, en þar var ekki búið að taka fjármagnskostnaðinn með í reikninginn. Lántökur aukast um sömu fjárhæð.
    Þá verður gerð breyting á bókhaldi fyrirtækisins á næsta ári sem leiðir til breyttrar framsetningar á áætluninni. Í uppgjöri milli endastöðva yfir símafjarskipti við önnur lönd hafa til þessa einungis verið færðar innstæður, þ.e. nettófjárhæðir, en eftirleiðis verða færð bæði gjöld og tekjur af viðskiptunum, þ.e. brúttófjárhæðir. Við þessa breytingu hækka önnur rekstrargjöld um 720 m.kr., en á móti hækka tekjur af seldum vörum og þjónustu um sömu fjárhæð þannig að nettóáhrifin á afkomuna verða engin. Að öðru leyti eru forsendur að mestu óbreyttar.

30-211     Vegagerð ríkisins, þjónustumiðstöðvar.
    Gert er ráð fyrir að tekjur hækki í samræmi við breyttar verðlagshorfur, eða heldur meira en miðað var við í fjárlagafrumvarpi. Verðlagsbreytingin hefur minni áhrif á gjaldahliðina, enda er miðað við að laun verði óbreytt. Gert er ráð fyrir að svigrúmið, sem þannig myndast, verði nýtt til viðhalds á tækjakosti og húsnæði.
    Framsetningu áætlunar fyrir B-hluta Vegagerðarinnar hefur verið nokkuð áfátt. Lagðar eru saman í einum reikningi nokkrar mismunandi rekstrareiningar, svo sem véladeild, birgðadeild og rekstur umdæmisstöðva, sem auk þess eiga í miklum innbyrðis viðskiptum, og geta fjárhæðir þannig verið margtaldar í veltutölum. Stefnt er að því að í frumvarpi næsta árs verði framsetningu áætlunarinnar breytt þannig að hún gefi skýrari mynd af þeim rekstrareiningum sem henni er ætlað að lýsa.

31-321     Rafmagnsveitur ríkisins.
    Talsverður bati verður á afkomu Rarik miðað við fyrri áætlun frumvarpsins. Tekjuáætlun miðast við að gjaldskrá hækki um 4% í framhaldi af sömu hækkun taxta frá Landsvirkjun. Leiðir það til tekjuaukningar að fjárhæð 120 m.kr. en gjöld hækka á móti um 75 m.kr. Önnur rekstrargjöld lækka jafnframt um 200 m.kr. frá fyrri áætlun þar sem ekki kemur til niðurfellingar á endurgreiðslum virðisaukaskatts eins og fyrirhugað hafði verið. Gert er ráð fyrir að þessar breytingar dugi til að eyða þeirri fjárvöntun sem fram kom í fjárlagafrumvarpinu.

Alþingi, 18. des. 1992.



Karl Steinar Guðnason,

Sturla Böðvarsson.

Gunnlaugur Stefánsson.


form., frsm.



Árni Johnsen.

Einar K. Guðfinnsson.

Árni M. Mathiesen.





Fylgiskjal I.


Álit



um 3. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 1993 og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin heimsótti Þjóðhagsstofnun í haust til að fjalla um þjóðhagslegar forsendur fjárlagafrumvarpsins.
    Í samræmi við ákvæði 2. mgr. 25. gr. þingskapa hefur nefndin fjallað um tekjugrein (3. gr.) fjárlagafrumvarpsins og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs. Við umfjöllun um 3. gr. frumvarpsins komu á fund nefndarinnar Bolli Þór Bollason, Indriði H. Þorláksson og Maríanna Jónasdóttir frá fjármálaráðuneytinu, Þórður Friðjónsson, forstjóri Þjóðhagsstofnunar, og Bjarni Bragi Jónsson, aðstoðarbankastjóri Seðlabanka Íslands.
    Nefndin hefur fengið til umfjöllunar fimm frumvörp sem taka til tekjuáætlunar fjárlaga fyrir árið 1993 og þar af er eitt mál sem félagsmálanefnd sendi nefndinni til umsagnar, frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 90/1990, um tekjustofna sveitarfélaga, 284. mál. Þrjú frumvarpanna eru enn til umfjöllunar í nefndinni og verður tveimur þeirra, frumvarpi til laga um breyting á tollalögum, nr. 55/1987, og lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum, 26. máli, og frumvarpi til laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti og fleira, 27. máli, frestað fram yfir áramót. Langviðamest er frumvarp til laga um breytingar í skattamálum, 286. mál. Helstu breytingar, sem það gerir ráð fyrir og hafa áhrif á tekjuáætlun fjárlaga fyrir árið 1993, eru eftirfarandi: Breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, 3.800 millj. kr.; virðisaukaskattur, 1.300 millj. kr.; lög um fjáröflun til vegagerðar (bensíngjald), 780 millj. kr., og tryggingagjald, 50 millj. kr. Af þessari tekjuöflun fara um það bil 4 milljarðar kr. sem framlag til sveitarfélaga vegna niðurfellingar aðstöðugjalds. Auk þess er í frumvarpinu gert ráð fyrir framlengingu á gildandi lögum um skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði sem skilar 435 millj. kr. á næsta ári. Þá er í frumvarpinu breyting á lögum um umboðsþóknun í gjaldeyrisviðskiptum sem felur í sér lækkun frá núgildandi lögum, eða 200 millj. kr. tekjur í stað 315 millj. kr. tekna á árinu 1992.

Alþingi, 17. des. 1992.



Vilhjálmur Egilsson, form.


Guðjón Guðmundsson.


Ingi Björn Albertsson.


Rannveig Guðmundsdóttir.


Sólveig Pétursdóttir.





Fylgiskjal II.


Álit



um tekjuhlið fjárlaga fyrir árið 1993.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Samkvæmt 25. gr. þingskapa vísar fjárlaganefnd frumvarpi til lánsfjárlaga og tekjugrein fjárlagafrumvarps til efnahags- og viðskiptanefndar. Nefndin skal skila fjárlaganefnd áliti og tillögum svo tímanlega fyrir 2. umr. fjárlaga sem fjárlaganefnd ákveður.
    Þegar 2. umr. fjárlaga fór fram hafði efnahags- og viðskiptanefnd lítið fjallað um tekjugrein fjárlagafrumvarpsins. Ástæða hefði verið til ítarlegrar umfjöllunar en vegna þess hringlandaháttar og þeirrar fullkomnu óvissu sem ríkti um fjölmarga þætti ríkisfjármála sá nefndin ekki ástæðu til að eyða miklum tíma í þau störf. Samkvæmt ákvæðum sömu greinar þingskapa skal efnahags- og viðskiptanefnd gera grein fyrir áhrifum skattalegra breytinga á tekjur ríkissjóðs fyrir 3. umr. Fundur var haldinn um málið að kvöldi 17. desember og nefndinni falið að skila áliti sem fyrst og helst þá um kvöldið. Þessi umfjöllun var því fyrst og fremst í þeim tilgangi að fullnægja ákvæðum þingskapalaga en á grundvelli hennar er í reynd ekki hægt að láta í ljós álit á tekjugreininni.
    Minni hlutinn telur að ekki liggi fyrir nægilegar upplýsingar um tekjuhliðina og enn eru forsendur að breytast varðandi þær skattalagabreytingar sem nú liggja fyrir Alþingi. Bendum við á ítarlegt nefndarálit á þingskjali 495. Minni hluti nefndarinnar hefði viljað koma á framfæri ítarlegu áliti á tekjuhliðinni, en vegna þeirra aðstæðna, sem áður er lýst, er það ekki mögulegt.
    Í nefndaráliti minni hlutans fyrir einu ári síðan sagði m.a.:
    „Vegna hinnar miklu tekjurýrnunar atvinnulífsins er ljóst að þessi skattheimta mun auk mjög hárra vaxta draga allan þrótt úr atvinnulífinu og spilla samskiptum við aðila vinnumarkaðarins sem nú eru að reyna að finna leið til að semja um kaup og kjör. Það er jafnframt alvarlegt að fulltrúar ríkisstjórnarinnar virðast ekkert samráð hafa við aðila vinnumarkaðarins um þessa stöðu. Mikil hætta er á að slík samskipti geti komið af stað miklum óróa á vinnumarkaði með tilheyrandi afleiðingum. Þjóðarbúið má alls ekki við að framleiðslan stöðvist um þessar mundir og því ber að gera allt sem hægt er til að tryggja afkomu atvinnuveganna og koma í veg fyrir atvinnuleysi.
    Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar vill koma þessum áhyggjum á framfæri við fjárlaganefnd og hvetja hana til að endurskoða þau fljótræðislegu áform sem ríkisstjórnin hefur sett fram á ýmsum sviðum skattamála. Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar telur að fjárlaganefnd verði að taka fullt tillit til þessara aðstæðna og endurskoða áform ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Með endurskoðun og nánari samvinnu við aðila vinnumarkaðarins má áreiðanlega koma í veg fyrir átök á vinnumarkaði og tryggja það, að framleiðslan geti vaxið þannig að þjóðartekjur aukist á nýjan leik.“
    Í ljósi þeirra hörðu viðbragða, sem nú koma frá aðilum vinnumarkaðarins um breytingar á skattalögunum, er nauðsynlegt að árétta það sem sagt var fyrir ári síðan. Fjárlaganefnd og ríkisstjórnin tóku því miður ekkert tillit til þeirra ábendinga sem fram komu þá, en enn meiri ástæða er til að vara við ástandinu núna.
    Síðar í þessu áliti sagði m.a.:
    „Óvandaður fjárlagaundirbúningur getur haft mikil áhrif á rekstrarafkomu ríkissjóðs. Nauðsynlegt aðhald verður ekki skapað nema með vönduðum fjárlögum. Því miður vantar mikið á að þannig sé að málum staðið. Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar telur því breytt vinnubrögð mikilvæga forsendu bættrar afkomu ríkissjóðs.“
    Ekkert tillit hefur verið tekið til þessarar ábendingar minni hlutans frá því fjárlög yfirstandandi árs voru til afgreiðslu. Undirbúningurinn er í reynd verri en hann var á sl. ári, en slíkt samrýmist ekki þingsköpum Alþingis og tryggir ekki vandaða fjárlagagerð.
    Breyting var gerð á þingsköpum í þeim tilgangi að bæta meðferð Alþingis á fjárlögum. Þrátt fyrir einróma vilja Alþingis, sem fólst í þessari breytingu, hefur þróunin gengið í öfuga átt. Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar telur að ríkisstjórnin og sá meiri hluti sem að baki henni stendur hafi vanvirt þennan vilja. Það er ekki við það unandi að svo mikilvægt mál sem tekjuhlið fjárlaga sé undirbúið með þeim hætti að engin leið er að gera sér grein fyrir heildaráhrifum hennar á afkomu þjóðfélagsins. Að mati minni hlutans mun skattastefna ríkisstjórnarinnar hafa þær afleiðingar að atvinnuleysi mun aukast, þjóðarframleiðsla dragast saman og misskipting tekna og eigna í þjóðfélaginu aukast til muna.
    Röksemdafærslu fyrir þessu áliti minni hlutans má finna víða í greinargerðum aðila vinnumarkaðarins sem fylgir nefndaráliti á þingskjali 495. Auk þess hefur minni hlutinn ekki fengið allar umbeðnar upplýsingar eins og um sundurliðun á sölu eigna og sundurliðun á tekjum af arðgreiðslum.
    Með tilliti til framanritaðs hefur minni hlutinn ekki forsendur til að láta í ljós álit á tekjugrein fjárlaga og telur fjárlagafrumvarpið ekki hæft til afgreiðslu á Alþingi.

Alþingi, 18. des. 1992.



Halldór Ásgrímsson.


Steingrímur J. Sigfússon.


Kristín Ástgeirsdóttir.


Jóhannes Geir Sigurgeirsson.