Ferill 145. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 145 . mál.


534. Nefndarálit



um frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1993.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar getur ekki mælt með afgreiðslu frumvarps til lánsfjárlaga við þær aðstæður sem nú ríkja í þann mund sem stjórnarmeirihlutinn hefur ákveðið að afgreiða málið út úr nefnd. Fram til þessa dags hefur afar mikil óvissa ríkt um ýmsa veigamikla þætti efnahagsmála og ríkisfjármála og ríkisstjórnin og meiri hluti hennar á Alþingi hefur undanfarna daga verið á harðahlaupum við afgreiðslu tekjuöflunarfrumvarpa og álagningu skatta fyrir komandi ár. Alla heildarsýn yfir efnahagsmálin vantar og ekki verður séð að fylgt sé neinni markvissri eða fyrir fram mótaðri stefnu heldur ákvarðast hinir einstöku þættir ríkisfjármála og efnahagsmála af handahófskenndum ákvörðunum eða málamiðlunum stjórnarflokkanna sem gjarnan verða til á næturfundum.
    Sú upplausn sem einkennt hefur vinnuna í ríkisfjármálum og efnahagsmálum undanfarna daga gerir það nánast ómögulegt fyrir fulltrúa stjórnarandstöðunnar að fá nokkra yfirsýn yfir það hvernig mál standa og draga verður stórlega í efa að yfir höfuð finnist nokkur maður innan stjórnarliðsins eða utan sem hafi þá vitneskju. Þannig hafa skattamál verið til meðferðar í efnahags- og viðskiptanefnd og hafa þar tekið miklum breytingum nánast daglega og svipaða sögu er að segja um afgreiðslu fjárlaga. Má í því sambandi vísa til álits minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar bæði um frumvarp um skattamál og um tekjugrein fjárlagafrumvarps, sbr. umsögn minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar til fjárlaganefndar um það mál.
    Þegar lánsfjárlög eru afgreidd er afar þýðingarmikið að traustar upplýsingar og áreiðanlegar liggi fyrir um alla helstu útgjaldaþætti ríkisins og lánsfjárþörf hins opinbera svo og þeirra aðila sem undir lánsfjáráætlun og lánsfjárlög falla. Lánsfjárlögin eru í eðli sínu ákveðinn rammi utan um lántökumálin, þróun vaxta og þróun á fjármagnsmarkaði þar með sem mikilvægt er að sé traustur og unninn samkvæmt bestu fáanlegum upplýsingum. Væntanleg þróun á peningamarkaði skiptir miklu máli eigi forsendur ríkisfjármálanna að standast og einnig áform eða áætlanir um lántökur stærri aðila annars vegar innan lands og hins vegar erlendis. Ljóst er að stilla verður þeim í hóf og miða við að eftirspurn sé í þokkalegu samræmi við fjármagn í umferð þannig að vaxtastig geti orðið hóflegt. Sú mynd, sem við okkur blasir, er afar brotakennd enda stangast aðgerðir ríkisstjórnarinnar hver á við aðra. Lítið bólar á vaxtalækkunum og er vaxtastigið enn með því hæsta sem þekkst hefur hér á landi.
    Við þessar aðstæður hefur reynst miklum erfiðleikum bundið fyrir efnahags- og viðskiptanefnd að átta sig á þeim stærðum sem mestu máli skipta. Þá hefur nefndinni hvorki gefist tími til að kafa ofan í einstaka þætti né haft forsendur til að kanna málið í heild með viðunandi hætti vegna óðagotsins í ríkisstjórnarflokkunum sem eru að afgreiða ríkisfjármálin á elleftu stund.
    Minni hlutinn ítrekar því þá afstöðu sína að hann treystir sér ekki til að mæla með eða standa að afgreiðslu frumvarpsins á þessu stigi. Minni hlutinn telur eðlilegast að lánsfjárlögin ásamt öðrum skattafrumvörpum og fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar verði endurskoðuð í veigamiklum atriðum og gerð þannig úr garði að þau séu boðleg og tæk til efnislegrar afgreiðslu. Skynsamlegast væri að afgreiða greiðsluheimildir til að mæta útgjöldum á fyrstu vikum næsta árs og nota tímann til að fara yfir forsendur ríkisfjármála og efnahagsmála á næsta ári með það að leiðarljósi að dreifa byrðum af erfiðleikum í efnahags- og atvinnumálum með réttlátari hætti en ríkisstjórnin hyggst gera í sínum skattafrumvörpum og grípa til skynsamlegra og raunhæfra úrræða gagnvart vaxandi atvinnuleysi og erfiðleikum í atvinnulífi.
    Þrátt fyrir þetta vill minni hlutinn þó nefna fáein einstök efnisatriði sérstaklega. Í fyrsta lagi fjármál Byggðastofnunar og þar með talið atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar. Ætlunin er að heimila lántökur upp á 1.300 millj. kr. vegna fjárþarfar deildarinnar á næsta ári, en þegar óskað var eftir upplýsingum um áætlanir eða fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um stofnun hins nýja stórsjóðs, Þróunarsjóðs, í sjávarútvegi og fyrirhugaðan samruna m.a. atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar og Hagræðingarsjóðs inn í þann sjóð komu engin svör frá ríkisstjórninni eða stjórnarliðum. Einfaldlega var sagt að það mál væri algjörlega óútfært. Þar ríkir því fullkomin óvissa um meðferð þeirra mála og því vandséð í raun og veru að það þjóni miklum tilgangi að eyða tíma í skoðun á málefnum deildarinnar við þær aðstæður.
    Þá óskuðu fulltrúar minni hlutans eftir upplýsingum um hvað liði störfum nefndar ráðherra eða ráðuneyta sem sett var á laggirnar sl. sumar til þess að útfæra tillögur um fjárstuðning til þeirra útgerðaraðila sem mestan samdrátt urðu að þola við úthlutun veiðiheimilda fyrir yfirstandandi kvótaár. Eins og kunnugt er lofuðu forsætisráðherra og fjármálaráðherra því, m.a. á fundi á Flateyri sl. sumar, að varið yrði svipuðum fjárhæðum til útgerðaraðila, í formi styrkja, sem samdráttur í þorskveiðum bitnuðu þyngst á og fengist fyrir sölu veiðiheimilda Hagræðingarsjóðs.
    Fjármálaráðherra kynnti hugmyndir um að auk ríkissjóðs myndu Fiskveiðasjóður og Byggðastofnun leggja fé af mörkum í þessu skyni. Í umræðum á Alþingi sl. haust lofaði forsætisráðherra niðurstöðu í þessu máli innan fárra daga.
    Nú skömmu fyrir árslok þegar við fulltrúar minni hlutans inntum eftir því hvað þessu máli liði og hvort ríkisstjórnin óskaði eftir fjárheimildum í þessu sambandi var því svarað að nefndin hefði ekki lokið störfum og ekkert væri af málinu að frétta. Yfirlýsingar og loforð ráðherra og ríkisstjórnar frá sl. sumri virðast því gleymd og grafin og engin áform koma fram um að þau eigi að efna við afgreiðslu fjárlaga eða lánsfjárlaga.
    Í öðru lagi ber að nefna að efnahags- og viðskiptanefnd hefur ákveðið að breyta uppsetningu IV. kafla frumvarpsins um skerðingarákvæði opinberra framlaga samkvæmt fjölmörgum lagaákvæðum og færa þau til fyrra horfs eins og verið hefur í lánsfjárlögum undanfarin ár þannig að hver breyting á hverjum einstökum lögum verði sett upp sem sjálfstæð lagagrein og í þeirri lagagrein komi skýrt fram hver skerðingin er eða hver viðmiðunarmörk skerðingar eru í hverju einstöku tilviki.
    Einstakir nefndarmenn, eða minni hlutinn í heild, eru andvígir ýmsum skerðingarákvæðum sem þarna eru á ferðinni. Má þar t.d. nefna Húsafriðunarsjóð en hans bíða mjög mikilvæg menningarverkefni sem þola enga skerðingu á framkvæmdafé. Sérstaklega skal þó nefnd skerðing á mörkuðum tekjum Vegagerðar ríkisins upp á 344 millj. kr. sem gera á upptækar í ríkissjóð af hinum mörkuðu tekjum á sama tíma og Vegagerðinni er ýtt með sérstakri ákvörðun ríkisstjórnar út í stórfelldar lántökur til að standa undir framkvæmdum. Í reynd verður skattur á bensín, sem renna á í ríkissjóð, stóraukinn og aukinn langt umfram þessi skerðingarmörk. Til viðbótar þessu kemur álagning sérstaks bensíngjalds samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar í skattamálum sem færir mörg hundruð milljónir króna í viðbót í ríkissjóð. Þannig er í raun verið að ganga með mjög gróflegum hætti inn á þennan tekjugrundvöll Vegagerðarinnar sem gjaldtaka af bensíni hefur verið.
    Minni hlutinn mótmælir þessari ráðstöfun sérstaklega og telur að eðlilegra hefði verið að Vegagerðin fengi að njóta óskertra tekna sinna af bensíngjöldum og að lántökur til viðbótar framkvæmda í vegagerð yrðu þá a.m.k. ekki meiri en sem næmi framkvæmdum umfram fulla nýtingu á mörkuðum tekjustofnum til vegagerðar.
    Minni hlutinn telur að full þörf sé á að fara mun rækilegar yfir fjárhagsmálefni allmargra aðila sem lántökuheimildir fá samkvæmt frumvarpi þessu til lánsfjárlaga en tækifæri hefur gefist til. Má þar nefna málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna, en ljóst er að fjárhagur sjóðsins verður alls ekki með þeim hætti sem æskilegt væri á næsta ári. Breytingar ríkisstjórnarmeirihlutans á lögum um námslán sem stjórnarandstaðan mótmælti harðlega hafa leitt til þess að námsmenn hafa hrökklast úr námi í stórum stíl. Nauðsynlegt hefði einnig verið að fara rækilega yfir húsnæðismálin og fjármögnun þeirra, bæði hvað varðar útgáfu húsbréfa, afföll og lánskjör í því sambandi og vaxandi greiðsluerfiðleika þeirra sem bundið hafa sér bagga vegna öflunar íbúðarhúsnæðis á undanförnum árum. Einnig vantar verulega upp á að byggingarsjóðirnir hafi náð að afla sér þess fjár í formi sölu skuldabréfa sem áætlanir stóðu til á yfirstandandi ári og full ástæða er til að ætla að áframhald geti orðið á þeirri þróun á næsta ári.
    Þá er í þriðja lagi ástæða til að nefna stöðu Landsvirkjunar sem er stærsti einstaki lántakandinn fyrir utan ríkissjóð sjálfan og þarf hátt í 8 milljarða króna lántökur á næsta ári samkvæmt nýjustu upplýsingum. Aukin lánsfjárþörf kemur þar til m.a. af erfiðri stöðu fyrirtækisins um þessar mundir og mikilli greiðslubyrði vegna þungra fjárfestinga. Einnig er rétt að hafa í huga að gengisfellingin á dögunum átti stóran þátt í því að skuldir fyrirtækisins hækkuðu um 4 milljarða kr. á skömmum tíma, fóru úr 42 milljörðum kr. í 46 milljarða. Ljóst er að þessar miklu lántökur þýða að Landsvirkjun greiðir sáralítið niður skuldir sínar á næsta ári og full þörf hefði verið á því fyrir nefndina með hliðsjón af mikilvægi þessa fyrirtækis, sem er að stórum hluta í eigu ríkisins, að fara betur yfir stöðu mála en tækifæri gafst til.
    Með vísan til alls þessa telur minni hlutinn í efnahags- og viðskiptanefnd að eðlilegast sé að fresta afgreiðslu þessa máls og taka það ekki fyrir fyrr en á nýju ári. Þá gæfist tækifæri til að skoða það betur, einkum þau atriði sem nú eru í upplausn og óvissu í fjárhagsmálefnum ríkisins og efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar. Draga verður þó í efa í ljósi reynslunnar frá þessum vetri og hinum síðasta að slíkt eigi eftir að gerast á meðan núverandi ríkisstjórn fer með völd og svo á að heita að hún hafi stjórn á hendi hvað stefnumörkun efnahagsmála áhrærir.
    Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar vísar því frá sér allri ábyrgð á afgreiðslu lánsfjárlaga við þessar aðstæður og leggur til að þeim verði frestað og mun ekki greiða því atkvæði komi það engu að síður til afgreiðslu.

Alþingi, 21. des. 1992.


Steingrímur J. Sigfússon,

Halldór Ásgrímsson.

Kristín Ástgeirsdóttir.

frsm.



Jóhannes Geir Sigurgeirsson.