Ferill 439. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 439 . mál.


740. Frumvarp til laga



um ráðstafanir til að efla eiginfjárstöðu innlánsstofnana.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992–93.)



1. gr.


    Ríkisstjórninni er heimilt að bæta eiginfjárstöðu Landsbanka Íslands á árinu 1993 með allt að 2.000 m.kr. framlagi úr ríkissjóði í reiðufé eða ríkisskuldabréfum, með víkjandi láni eða með öðrum jafngildum hætti. Nánar skal kveðið á um fyrirkomulag á stuðningi ríkissjóðs í samningi milli hans og bankans.

2. gr.


    Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að taka að láni allt að 2.000 m.kr. á árinu 1993 í því skyni sem ákveðið er í 1. gr.

3. gr.


    Í stað 1. mgr. 51. gr. laga nr. 86/1985, um viðskiptabanka, koma tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
    Tryggingarsjóður viðskiptabanka er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins með sérstakan fjárhag. Hlutverk hans er annars vegar að tryggja full skil á innlánsfé þegar skipti á búi viðskiptabanka ber að skv. 1. mgr. 47. gr. og hins vegar að veita viðskiptabanka víkjandi lán í því skyni að efla eiginfjárstöðu hans, enda verði fjár til þess aflað sérstaklega með lántöku með samþykki ráðherra. Áður en stjórn sjóðsins veitir víkjandi lán úr honum skal hún leita samþykkis viðskiptaráðherra.
    Stefnt skal að því að heildareign Tryggingarsjóðs vegna innstæðutrygginga nái 1% af heildarinnlánum viðskiptamanna bankanna á innlánsreikningum. Í þessu skyni skal hver viðskiptabanki greiða eigi síðar en 1. mars ár hvert gjald til Tryggingarsjóðs er nemi allt að 0,15% af heildarinnlánum samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.

4. gr.


    Ný málsgrein, er verður 4. mgr., bætist við 51. gr. laga nr. 87/1985, um sparisjóði, og orðast svo:
    Tryggingarsjóði sparisjóða er heimilt að taka lán með samþykki ráðherra í því skyni að veita sparisjóði víkjandi lán til að efla eiginfjárstöðu hans.

5. gr.


    Fjármálaráðherra er fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lántöku Tryggingarsjóðs viðskiptabanka og lántöku Tryggingarsjóðs sparisjóða samtals að fjárhæð allt að 3.000 m.kr.

6. gr.


    Það er skilyrði fyrir ráðstöfunum til að efla eiginfjárstöðu innlánsstofnana samkvæmt lögum þessum að gerður verði samningur milli viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra annars vegar og hlutaðeigandi stofnunar hins vegar um það til hvaða ráðstafana hún skuldbindur sig til að grípa í því skyni að bæta afkomu sína og eiginfjárstöðu.

7. gr.


    Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Honum er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd 3., 4. og 6. gr. með reglugerð.

8. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að gripið verði til þrenns konar aðgerða til að styrkja eiginfjárstöðu banka og sparisjóða hér á landi. Í fyrsta lagi fjárhagsstuðningur ríkissjóðs við Landsbanka Íslands, í öðru lagi breyting á hlutverki Tryggingarsjóðs viðskiptabanka þannig að hann geti, líkt og Tryggingarsjóður sparisjóða, veitt lán til að efla eiginfjárstöðu bankanna og í þriðja lagi heimild fyrir ríkisábyrgð á lántökum tryggingarsjóðanna tveggja í því skyni að veita víkjandi lán til innlánsstofnana.
    Á undanförnum missirum hefur eiginfjárstaða Landsbanka Íslands farið stöðugt versnandi. Það stafar bæði af almennum samdrætti í efnahagslífi landsmanna og ekki síður af samdrætti í sjávarútvegi. Sem stærsti og mikilvægasti atvinnuvegabanki landsins hefur Landsbankinn orðið að axla þungar byrðar af þessum sökum. Þrátt fyrir að bankinn hafi lagt umtalsverðar fjárhæðir til hliðar á afskriftareikning útlána á mánuði hverjum á árinu 1992 er orðið ljóst að það dugir ekki til. Nýjustu upplýsingar um afkomu mikilvægra viðskiptavina bankans benda til að síðasta ár hafi verið mörgum þeirra þungt í skauti.
    Undir lok síðasta árs ákvað ríkisstjórnin að beita sér fyrir því að Seðlabanki Íslands veitti Landsbankanum víkjandi lán að fjárhæð 1.250 m.kr. til að bæta eiginfjárstöðu hans. Í samþykkt ríkisstjórnarinnar var tekið fram að stuðningur við bankann tengdist áformum um að breyta bankanum í hlutafélag í eigu ríkisins og almennum aðgerðum til að styrkja stöðu atvinnulífs í landinu. Ríkisstjórnin setti það skilyrði fyrir fyrirgreiðslunni að Landsbankinn hrinti í framkvæmd á árinu 1993 skipulegri áætlun til þess að bæta eiginfjárstöðu og afkomu sína, m.a. með almennri hagræðingu í rekstri, fækkun útibúa, aðhaldi í útlánum og lækkun erlendra endurlána.
    Greinargerð bankastjórnar Landsbankans um bætta afkomu og eiginfjárstöðu bankans barst í lok janúar sl. Samkomulag náðist um það milli viðskiptaráðherra og bankastjórnar Landsbankans að sérfræðingar úr Landsbanka og Seðlabanka færu yfir einstaka þætti í greinargerð bankastjórnarinnar og gerðu viðskiptaráðuneytinu og bankastjórn og bankaeftirliti Seðlabankans grein fyrir framkvæmd rekstraráætlunar Landsbankans í nánari atriðum. Þessari vinnu er ekki lokið.
    Til þess að ársreikningur Landsbankans fyrir árið 1992 gefi viðunandi mynd af stöðu hans þannig að endurskoðendur bankans, ríkisendurskoðandi og viðskiptaráðherra geti staðfest ársreikninginn er talið nauðsynlegt að afskriftareikningur útlána verði 4.500 m.kr. miðað við árslok 1992. Samkvæmt því yrði hlutfall eigin fjár undir lögbundnu 8% lágmarki þrátt fyrir 1.250 m.kr. víkjandi lán sem Seðlabankinn veitti Landsbankanum undir lok ársins 1992. Í athugasemdum með áritun endurskoðenda, ríkisendurskoðanda og ráðherra verður þess getið að ríkisstjórnin hafi lýst því yfir að hún muni beita sér fyrir því að eiginfjárhlutfall bankans verði hækkað yfir lögbundið lágmark og að frumvarp þar að lútandi hafi verið lagt fram á Alþingi. Er þetta talið nauðsynlegt til að engar efasemdir vakni meðal innlendra og erlendra viðskiptavina og lánardrottna bankans um að ríkissjóður axli ábyrgð á starfsemi bankans.
    Að mati endurskoðenda bankans og ríkisendurskoðanda er æskilegt að auka afskriftir útlána enn frekar á þessu ári en þegar hefur verið nefnt, eða í allt að 5.800 m.kr. Þessi mikla hækkun á afskriftaþörf bankans kallar á fyrirgreiðslu ríkisins við bankann.
    Ríkisstjórnin hefur að höfðu samráði við bankastjórn Seðlabanka Íslands ákveðið að leita heimildar Alþingis til að bæta eiginfjárstöðu Landsbankans með tvennum hætti:
    Allt að 2.000 m.kr. fjárhagsaðstoð frá ríkissjóði.
    Allt að 1.000 m.kr. víkjandi lán úr Tryggingarsjóði viðskiptabanka. Lagaákvæðum um sjóðinn verði breytt í þessu skyni.
    Að meðtöldu víkjandi láni frá Seðlabankanum í lok síðasta árs felst í ofangreindum aðgerðum allt að 4.250 m.kr. heildarfyrirgreiðsla við Landsbankann.
    Fyrirgreiðsla við bankann er háð því skilyrði að viðræður hefjist milli Landsbankans og Búnaðarbanka Íslands í því skyni að bankarnir skipti á eignarhlutum sínum í greiðslukortafyrirtækjum og eignarleigufyrirtækjum sem þeir eiga báðir hlut í þannig að fyrirtækin komist að meiri hluta í eigu annars hvors bankans í stað þess að báðir séu minnihlutaeigendur í þeim öllum. Við þá breytingu teljast eignarhlutar hvors banka að fullu til eigin fjár þeirra í stað þess að dragast frá því eins og nú er, sbr. 36. gr. laga nr. 86/1985, um viðskiptabanka, sbr. 4. gr. laga nr. 7/1992, um breytingu á þeim. Einnig verður rætt við aðra eigendur þessara fyrirtækja.
    Fyrirgreiðslan er einnig háð því skilyrði að gerður verði samningur milli viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra annars vegar og Landsbankans hins vegar um það til hvaða ráðstafana bankinn skuldbindur sig til að grípa í því skyni að bæta afkomu sína og eiginfjárstöðu. Í samningnum verður kveðið á um eftirlit með framkvæmd hans. Veruleg hagræðing í rekstri bankans er mikilvæg forsenda fyrir því að eiginfjárstaða hans verði góð til frambúðar.
    Efnahagserfiðleikar undanfarinna ára hafa haft slæm áhrif á afkomu annarra innlánsstofnana en Landsbankans. Ríkisstjórninni telur því rétt að grípa til almennra aðgerða sem gera það mögulegt að efla eiginfjárstöðu annarra innlánsstofnana. Í því skyni hefur ríkisstjórnin ákveðið að Tryggingarsjóði viðskiptabanka verði, á hliðstæðan hátt og nú þegar gildir um Tryggingarsjóð sparisjóða, heimilt að veita viðskiptabönkum víkjandi lán. Í því skyni verður sjóðunum heimilað að taka lán með ríkisábyrgð að fjárhæð allt að 3.000 m.kr. Af þessari fjárhæð er gert ráð fyrir að Tryggingarsjóður viðskiptabanka veiti Landsbankanum allt að 1.000 m.kr. víkjandi lán. Þá verður skipuð nefnd til að semja tillögur um eflingu sjóðannna í framtíðinni og hugsanlega sameiningu þeirra.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að eiginfjárstaða Landsbankans verði efld um allt að 2.000 m.kr. með framlagi úr ríkissjóði í reiðufé eða ríkisskuldabréfum, með víkjandi láni úr ríkissjóði eða með öðrum jafngildum hætti. Telja verður heppilegt að kveða ekki í greininni á um nákvæma útfærslu á fjárstuðningi ríkissjóðs við bankann heldur verði hún í höndum viðskiptaráðherra að höfðu samráði við fjármálaráðherra og Seðlabankann. Til að víkjandi lán geti talist til eigin fjár bankans þarf það að uppfylla skilyrði 4. mgr. 36. gr. laga nr. 86/1985, um viðskiptabanka, sbr. 4. gr. laga nr. 7/1992, um breytingu á þeim. Víkjandi lán, sem Landsbankinn tekur, má hæst nema helmingi af eigin fé bankans að láninu frátöldu.

Um 2. gr.


    Í greininni er lagt til að fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs fái lántökuheimild vegna þeirrar fjárhæðar sem um ræðir í 1. gr. Eðlilegt þykir að leita strax eftir þessari lántökuheimild fremur en að leita eftir henni síðar í sérstöku frumvarpi eða frumvarpi um breytingu á lánsfjárlögum yfirstandandi árs. Ákvörðun um beitingu þessarar lántökuheimildar hefur ekki verið tekin.

Um 3. gr.


    Samkvæmt 51. gr. laga nr. 86/1985, um viðskiptabanka, er hlutverk Tryggingarsjóðs viðskiptabanka að tryggja full skil á innstæðum þegar skipt er búi viðskiptabanka. Hér er lagt til að sjóðnum verði einnig heimilt að veita viðskiptabönkum víkjandi lán í því skyni að styrkja eiginfjárstöðu þeirra. Í því skyni er lagt til að 51. gr. viðskiptabankalaga verði breytt. Tryggingarsjóðnum verður hins vegar ekki heimilað veita víkjandi lán af því fé sem ætlað er til að standa skil á innstæðum við slit viðskiptabanka heldur er gert ráð fyrir lántöku sjóðsins í þessu skyni.

Um 4. gr.


    Tryggingarsjóður sparisjóða hefur mjög rúmar lagaheimildir til að veita sparisjóðum stuðning. Hann hefur hins vegar ekki heimild til að taka lán. Hér er lagt til að ákvæði þess efnis verði sett í sparisjóðalögin, enda verði lánsfénu einungis varið til að veita sparisjóðum víkjandi lán í því skyni að bæta eiginfjárstöðu þeirra.

Um 5. gr.


     Í greininni er lagt til að heimilt verði að veita ríkisábyrgð á lán sem Tryggingarsjóður viðskiptabanka og Tryggingarsjóður sparisjóða taka að því hámarki sem tilgreint er í greininni.

Um 6. gr.


    Fyrirgreiðsla við innlánsstofnanir samkvæmt ákvæðum frumvarpsins er háð því skilyrði að gerður verði samningur milli viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra annars vegar og hlutaðeigandi innlánsstofnunar um það til hvaða ráðstafana stofnunin skuldbindur sig til að grípa í því skyni að bæta afkomu sína og eiginfjárstöðu. Í samningnum verður kveðið á um eftirlit með framkvæmd hans.


Um 7. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 8. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.