Ferill 480. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 480 . mál.


828. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992–93.)



1. gr.


    Við 19. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar svohljóðandi:
19.2.    Heilsuverndarstöð í Reykjavík skal starfrækt sem sérstök heilsuverndarstofnun fyrir landið allt og er hlutverk hennar eftirfarandi:
              1.    Umsjón með heilsuverndarstarfi í landinu og samræming heilsuverndar.
              2.    Þróun heilsuverndarstarfs, rannsóknir og kennsla heilbrigðisstétta á sviði heilsuverndar.
              3.    Að annast tiltekna þætti heilsugæslu og heilsuverndar í Reykjavíkurlæknishéraði og Reykjaneslæknishéraði samkvæmt samkomulagi við stjórnir heilsugæslustöðva í þeim héruðum og að fengnu samþykki ráðherra.
              4.    Að annast forvarnastarf og hýsa opinbera starfsemi á því sviði samkvæmt ákvörðun ráðherra.
19.3.    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipar til fjögurra ára í senn heilsuverndarráð. Ráðið skal vera ráðherra og stjórn Heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík til ráðgjafar um hvaðeina er við kemur heilsuvernd. Í ráðið skulu skipaðir níu fulltrúar. Manneldisráð, áfengisvarnaráð, tóbaksvarnanefnd, tannverndarráð og landsnefnd um alnæmisvarnir tilnefna einn fulltrúa hver. Stjórn Heilsuverndarstöðvarinnar skal tilnefna þrjá fulltrúa fyrir þær heilsuverndargreinar sem starfræktar eru á Heilsuverndarstöðinni og ekki eiga sérstakan fulltrúa í ráðinu. Ráðherra skipar formann heilsuverndarráðs án tilnefningar.

2. gr.


    3. mgr. 21. gr. laganna orðast svo:
21.3.    Um stjórn heilsugæslu í Reykjavík gildir eftirfarandi:
              1.    Stjórnir heilsugæsluumdæma í Reykjavík skulu skipaðar fimm mönnum. Einn stjórnarmanna skal skipaður af ráðherra og skal hann vera formaður. Hann skal vera búsettur í umdæminu. Þrír skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu borgarstjórnar og einn samkvæmt tilnefningu starfsmanna heilsugæslustöðvanna í umdæminu.
              2.    Stjórn Heilsuverndarstöðvar í Reykjavík, sbr. 2. mgr. 19. gr., skal skipuð af ráðherra eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar. Stjórnina skipa tveir fulltrúar tilnefndir af Reykjavíkurborg, einn fulltrúi kosinn af starfsmönnum stöðvarinnar og tveir fulltrúar skipaðir af heilbrigðisráðherra án tilnefningar og skal annar vera formaður.
              3.    Ráðherra setur reglur um kjör fulltrúa starfsmanna í stjórnir heilsugæsluumdæma í Reykjavík og í stjórn Heilsuverndarstöðvar í Reykjavík.
              4.    Stjórnir heilsugæslustöðva í Reykjavík og stjórn Heilsuverndarstöðvar í Reykjavík ráða forstjóra heilsugæslu- og heilsuverndarstarfs í Reykjavík. Forstjóri skal hafa sömu skyldur og framkvæmdastjórar sjúkrahúsa skv. 29. gr. og fer um mat á hæfni skv. 30. gr.
              5.    Ráðherra setur reglugerð í samráði við héraðslækni um fyrirkomulag og samvinnu heilsugæslustöðva innan Reykjavíkurhéraðs. Þar skal m.a. kveðið á um ráðningu forstjóra.

3. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1993. Jafnframt falla úr gildi heilsuverndarlög, nr. 44/1955, sbr. lög nr. 28/1957.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í ákvæði 1. tölul. til bráðabirgða í lögum nr. 75/1990, um breytingu á lögum nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum, sbr. samfelld lög nr. 97/1990, var kveðið á um að heilsuverndarstarf í Reykjavík samkvæmt heilsuverndarlögum, nr. 44/1955, sbr. lög nr. 28/1957, skyldi haldast óbreytt frá því sem það var við gildistöku laganna þar til heilsugæslustöðvar hefðu verið skipulagðar til að annast það, en þó ekki lengur en til ársloka 1991.
     Ráðherra var falið að skipa þriggja manna stjórn Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur sem í umboði ráðherra annaðist rekstur Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur og gerði í samráði við héraðslækni og stjórnir heilsugæsluumdæmanna í Reykjavík tillögur um framtíðarhlutverk stöðvarinnar.
     Ætlast var til að skipulag þessa efnis kæmi til framkvæmda 1. janúar 1992 og að frá og með þeim tíma féllu úr gildi heilsuverndarlög sem fyrr eru nefnd.
     Stjórn Heilsuverndarstöðvarinnar lagði fram tillögur sínar í nóvember 1991, en ekki vannst tími til að taka afstöðu til þeirra fyrir 1. janúar 1992.
     Í staðinn var ákvæði laganna um heilsuverndarstarf í Reykjavík framlengt um eitt ár, sbr. lög nr. 86/1991, um breytingu á lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu.
     Nýrri stjórn Heilsuverndarstöðvarinnar var, auk þess að annast rekstur hennar, falið að vinna að endanlegri gerð áætlunar um framtíðarhlutverk stöðvarinnar.
     Sú vinna hefur nú farið fram í samráði við heilbrigðisráðuneytið og ráðuneytið hefur samþykkt þann starfsramma sem tillögurnar frá nóvember 1991 gera ráð fyrir.
     Með vísun til þess sem hér hefur verið sagt að framan er ekki lengur ástæða til að bíða með að ákvarða Heilsuverndarstöð Reykjavíkur fastan lagalegan sess í samræmi við breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem í reynd tók gildi 1. janúar 1990.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er lagt til að Heilsuverndarstöð í Reykjavík verði ákveðið sérstakt verksvið og er það þríþætt:
    Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að Heilsuverndarstöð í Reykjavík hafi umsjón með heilsuverndarstarfi í landinu, samræmi heilsuverndarstarfið og annist þróun heilsuverndarstarfs, rannsóknir og kennslu.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir að Heilsuverndarstöðin annist tiltekna þætti heilsgæslu og heilsuvernd í Reykjavíkurlæknishéraði og Reykjaneslæknishéraði samkvæmt samkomulagi við stjórnir heilsugæslustöðva í þeim héruðum og að fengnu samþykki ráðherra.
    Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að Heilsuverndarstöðin annist forvarnastarf og hýsi ýmsa opinbera starfsemi á því sviði samkvæmt ákvörðun ráðherra. Hér er átt við t.d. manneldisráð, áfengisvarnaráð, tóbaksvarnanefnd, landsnefnd um alnæmisvarnir og tannheilsumál. Í sambandi við tannheilsumál er gert ráð fyrir sameiningu umsjónar með skólatannlækningum í Reykjavík því tannheilsustarfi sem unnið hefur verið í heilbrigðisráðuneyti og því umsjónarstarfi sem unnið hefur verið í Tryggingastofnun ríkisins af tryggingatannlækni í tannheilsudeild Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur.
     Sem faglegur ráðgjafaraðili er gert ráð fyrir að skipað verði heilsuverndarráð sem verði ráðherra og stjórn stöðvarinnar til ráðgjafar. Í ráðinu verða níu fulltrúar, þrír frá þeim heilsuverndargreinum sem starfræktar eru nú í Heilsuverndarstöðinni en síðan er gert ráð fyrir fulltrúum frá manneldisráði, áfengisvarnaráði, tóbaksvarnanefnd, tannverndarráði og landsnefnd um alnæmisvarnir. Gert er ráð fyrir að ráðherra skipi formann án tilnefningar.
     Hlutverk heilsuverndarráðs er svo sem fyrr segir að vera hinn faglegi ráðgjafar- og umsjónaraðili heilsuverndarstarfs í landinu.

Um 2. gr.


    Í þessari lagagrein er gert ráð fyrir að 3. mgr. 21. gr. gildandi laga umorðist og er gerð sú breyting að sett er sérstök stjórn Heilsuverndarstöðvar í Reykjavík sem skipuð er af ráðherra eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar. Gert er ráð fyrir tveimur fulltrúum frá Reykjavíkurborg, einum fulltrúa kosnum af starfsmönnum stöðvarinnar og tveimur fulltrúum sem skipaðir eru af ráðherra án tilnefningar og verður annar þeirra formaður.
     Þá er gert ráð fyrir því að stjórnir heilsugæslustöðva í Reykjavík og stjórn Heilsuverndarstöðvar í Reykjavík ráði forstjóra heilsugæslu og heilsuverndarstarfs í Reykjavík því eðlilegt þykir að einn forstjóri sé fyrir heildarstarfseminni og að stjórn Heilsuverndarstöðvar í Reykjavík hafi aðild að því máli á sama hátt og heilsugæslustöðvar.

Um 3. gr.


    Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. júlí 1993. Við gildistöku þessara laga er gert ráð fyrir að heilsuverndarlög, nr. 44/1955, sbr. breytingu nr. 28/1957, falli úr gildi.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um


breytingu á lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu,


með síðari breytingum.


    Frumvarpinu er ætlað að koma í stað ákvæða til bráðabirgða í lögum nr. 75/1990, um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, sem hafa verið felld inn í lög nr. 97/1990. Í bráðabirgðaákvæðinu var kveðið á um að heilsuverndarstarf í Reykjavík skuli fara eftir lögum nr. 44/1955.
     Í 1. gr. frumvarpsins er hlutverk Heilsuverndarstöðvar í Reykjavík skilgreint. Helstu nýmæli eru þau að Heilsuverndarstöðin annast umsjón með heilsuvernd í landinu öllu og ýmis starfsemi er flutt til stöðvarinnar. Kveðið er á um skipun níu fulltrúa í heilsuverndarráð og er það nýlunda.
     Að mati fjárlagaskrifstofu hafa umræddar breytingar í 1. gr. frumvarpsins ekki í för með sér aukin útgjöld. Um hreinan tilflutning verkefna er að ræða og eiga fjárveitingar að fylgja þeim. Ætla má að nokkur hagræðing hljótist af því að flytja starfsemi nefnda og ráða á einn stað ef rétt er haldið á málum. Hugsanlegur kostnaður af þóknun heilsuverndarráðs kemur að einhverju leyti á móti, en um óverulegan kostnað verður að ræða. Vísað er í þessu sambandi til kostnaðarmats fjárlagaskrifstofu á tillögum stjórnar Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur dags. 7. júlí 1992.
     2. gr. frumvarpsins er að meginefni umorðun á gildandi lögum. Einnig er kveðið á um að stjórn Heilsuverndarstöðvar í Reykjavík komi að ráðningu á forstjóra heilsugæslu og heilsuverndar í Reykjavík í stað þess að stjórnir heilsugæslustöðva í Reykjavík sjái einar um ráðningu. Breyting á orðalagi greinarinnar á ekki að hafa í för með sér efnislegar breytingar á hlutverki forstjóra frá því sem nú er. Þá er fjölgað úr þremur fulltrúum í fimm í stjórn Heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík og mun það kosta um 200 þús. kr. á ári.
     Framangreindar breytingar í 2. gr. frumvarpsins hafa ekki í för með sér útgjöld umfram núverandi fjárlagaramma Heilsuverndarstöðvarinnar.
     Samanlagt felur frumvarpið ekki í sér kostnaðarauka fyrir ríkisjóð og er það í samræmi við mat embættismanna í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.