Ferill 531. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 531 . mál.


889. Tillaga til þingsályktunar



um stefnumótun, rannsóknir og þróunarstarf í ferðamálum.

Flm.: Tómas Ingi Olrich, Björn Bjarnason, Sturla Böðvarsson,

Einar K. Guðfinnsson, Gunnlaugur Stefánsson, Össur Skarphéðinsson.


     Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að móta stefnu í ferðamálum sem hafi það að markmiði að efla þróun ferðaþjónustu og tryggja jafnframt að sú þróun verði ekki til að rýra þau náttúrulegu gæði sem eru undirstaða atvinnugreinarinnar. Við stefnumótunina verði haft fullt samráð við hagsmunaaðila í ferðaþjónustu. Leitað verði raunhæfra leiða til að stuðla að rannsóknum og þróunarstarfi á sviði ferðamála í því skyni að beina þróun ferðaþjónustu inn á brautir sem samrýmast markmiðum um sjálfbæra þróun umhverfisins.

Greinargerð.

    Ferðamál eru nú stærsta atvinnugrein í heimi, hvort heldur mælt er í tekjum eða störfum. Heildartekjur OECD-ríkjanna af erlendum ferðamönnum árið 1990 voru um 182 milljarðar bandaríkjadala, eða sem nemur 11 þúsund milljörðum íslenskra kr. Heildarútgjöld þegna OECD-ríkjanna vegna ferðalaga voru hins vegar um 12 þúsund milljarðar kr.
    Margt bendir til þess að í örum vexti ferðaþjónustunnar í heiminum hafi verið vanrækt að taka tillit til þess viðkvæma sambands sem er milli umhverfismála og ferðamála á sama tíma og hreint umhverfi, samband manns og náttúru og heilbrigt líferni fær síaukið gildi í augum almennings og verður æ mikilvægari þáttur í ferðaþjónustu.
    Fyrir utan fjárfestingu í gistirými og flutningatækjum er erlendis lögð aukin áhersla á fjárfestingu í afþreyingu í víðustu merkingu þess orðs. Með hugtakinu er átt við þá margvíslegu þjónustu sem ferðamönnum er veitt á hverjum stað. Í löndum, þar sem náttúran er meginaðdráttarafl ferðamanna og þar af leiðandi sjálf uppspretta tekna í ferðaþjónustu, ber að þróa alla þætti greinarinnar, þar á meðal afþreyingu, með sérstöku tilliti til umhverfismála.
    Ferðaþjónusta hefur aukist mjög ört á Íslandi undanfarin ár. Árið 1990 komu rúmlega 140 þúsund erlendir ferðamenn til Íslands og var þá um 8,6% aukningu að ræða frá fyrra ári. Árið 1992 voru erlendir ferðamenn hér á landi 143.413. Einnig ferðast Íslendingar sjálfir æ meira um landið og er áætlað að innlendir ferðamenn ár hvert séu ívið fleiri en erlendir gestir.
    Gildi ferðamála fyrir íslenskt efnahagslíf og gjaldeyrisöflun þjóðarinnar er mikið og hefur vaxið ört undanfarin ár. Árið 1970 voru gjaldeyristekjur Íslendinga af ferðamálum um 5% af gjaldeyristekjum en voru orðnar 9% árið 1990. Árið 1992 námu þessar tekjur rúmlega 12 milljörðum kr., en það samsvarar 9,8% af gjaldeyristekjum vegna útflutnings á vörum og þjónustu eða 3,25% af vergri landsframleiðslu. Um 4,7% af starfandi Íslendingum vinna við ferðamál. Á undanförnum árum hafa ferðamál því skilað umtalsverðum tekjum bæði til einstakra fyrirtækja, ríkis og sveitarfélaga.
    Svo virðist sem tekið hafi fyrir vöxt ferðaþjónustunnar hér á landi. Árið 1992 fækkaði erlendum ferðamönnum um 1% og tekjur af þeim lækkuðu um 900 millj. kr. frá 1991. Milli áranna 1991 og 1992 drógust tekjur okkar af erlendum ferðamönnum, mældar í bandaríkjadölum, saman um 7,6%. Á sama tíma tapa alls fjögur OECD-ríki tekjum af ferðamönnum, og er tapið mest hjá Grikkjum en næstmest hjá Íslendingum.
    Ef litið er til þess sem þegnar OECD-ríkjanna eyða í ferðir samsvara heildartekjur Íslendinga af erlendum ferðamönnum um 0,1% af þeim útgjöldum.
    Í nágranna- og samkeppnislöndum okkar er lögð rík áhersla á þróun ferðamála. Fjárveitingar Evrópubandalagsins til uppbyggingar ferðaþjónustu í aðildarlöndunum á fimm ára tímabilinu 1989–1993 samsvara um 152 milljörðum íslenskra kr. Í júnímánuði sl. var samþykkt að bandalagið verji jafngildi um 1.400 millj. kr. á næstu þremur árum til sameiginlegs átaksverkefnis sem miðar að því að kynna ferðaþjónustu í bandalagslöndunum á mörkuðum utan EB og til að örva ferðalög innan bandalagsins. Af þeim tölum, sem hér hafa verið nefndar, er ljóst að eftir miklu að er slægjast í ferðaþjónustu en samkeppnin fer harðnandi og staða Íslendinga versnandi.
    Hérlendis er náttúra landsins grundvöllur ferðaþjónustunnar. Það skiptir því meginmáli hvernig stefnumörkun í ferðamálum samrýmist helstu markmiðum í umhverfismálum. Nú þegar er álag á umhverfið á vinsælustu og viðkvæmustu viðkomustöðum ferðamanna of mikið og horfir víða til vandræða. Bent hefur verið á hve brýnt sé að fjölga þeim stöðum sem ferðamenn sækja til. Er ekki að efa að þróunarmöguleikar íslenskrar ferðaþjónustu eru talsverðir ef rétt er á málum haldið og tillit er tekið til umhverfisþátta.
    Það er áberandi hve lítið rannsókna- og þróunarstarf hefur farið fram hér á landi í tengslum við ferðaþjónustu. Er þá ekki einungis átt við söfnun og úrvinnslu gagna um þá sem landið sækja heim og kannanir á markaðsmálum ferðaþjónustunnar. Eru ekki síður hafðar í huga grundvallarathuganir á því hvaða lífsviðhorfum samtímans Íslendingum hentar vel að þjóna í ferðamálum, hvaða sérstaða það er sem þjóðin gæti markað sér innan alþjóðlegrar ferðaþjónustu, hvernig hún getur kynnt sem best samtímamenningu sína og menningararf þeim sem hingað sækja og síðast en ekki síst hvernig valkostirnir falla að markmiðum þjóðarinnar í umhverfismálum.
    Þá skiptir einnig miklu máli að það sem Íslendingar bjóða í ferðamálum flokkist undir eftirsótt gæði og miðist við þarfir þeirra sem hafa verulegan kaupmátt. Það mun gilda í þessari atvinnugrein eins og mörgum öðrum að þjónusta í háum gæðaflokki er ekki eins viðkvæm fyrir efnahagslegum samdrætti og sú sem beinist að þeim tekjulægri.
    Brýnt er að virkja einstaklinga, fyrirtæki og vísindastofnanir til rannsókna- og þróunarstarfa í ferðaþjónustu. Er slíkt starf raunar nauðsynlegur þáttur í þeirri stefnumörkun sem þingsályktunartillagan fjallar um en einnig mikilvægur grundvöllur undir frekari fjárfestingar og uppbyggingu ferðaþjónustunnar.
    Á 112. löggjafarþingi var lögð fram tillaga til þingsályktunar um ferðamálastefnu. Var tillagan samin af nefnd sem Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi samgönguráðherra, skipaði 1989. Þingsályktunartillagan var lögð fram á Alþingi, tekin til umræðu og vísað til atvinnumálanefndar sem sendi hana fjölmörgum aðilum til umsagnar. Tillagan var ekki afgreidd á því þingi en endurflutt á 113. löggjafarþingi og hafði þá verið tekið tillit til umsagna. Á því þingi reyndist ekki unnt að afgreiða tillöguna. Í henni er fjallað allítarlega um tengsl umhverfisverndar og ferðamála, svo og um mikilvægi rannsókna. Einnig var flutt á 113. löggjafarþingi frumvarp til laga um ferðaþjónustu, en í því var lögð áhersla á tengsl ferðaþjónustu og umhverfisverndar. Frumvarpið hlaut ekki afgreiðslu á þinginu.