Ferill 462. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 462 . mál.


973. Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Jörgínu Jónsdóttur um atvinnuþátttöku kvenna á landsbyggðinni.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hver eru helstu verkefni sem studd voru með fjárveitingum árið 1992 af fjárlagaliðnum 07-981 Vinnumál 1.70 Atvinnumál kvenna á landsbyggðinni?
    Hvernig skiptast þessar fjárveitingar eftir kjördæmum?
    Hvert er mat ráðuneytisins á gildi þessa verkefnis fyrir atvinnuuppbyggingu kvenna á landsbyggðinni?

    Tvisvar hefur verið úthlutað úr þessum sjóði, fyrst árið 1991 og síðan aftur 1992, 15 millj. kr. á hvoru ári. Við ráðstöfun fjárins hefur einkum verið tekið mið af þróunarverkefnum sem þykja líkleg til að fjölga atvinnutækifærum kvenna á viðkomandi atvinnusvæði. Einnig hefur verið litið til þess að ráðning sérstakra ráðgjafa til að leiðbeina og hvetja til atvinnuátaks kvenna er að mati kvennanna sjálfra talin vænleg til árangurs. Leitast hefur verið við að dreifa fjármagninu um allt land þannig að í hvern landshluta komi nokkuð svipuð upphæð. Einnig hefur verið horft til atvinnuástandsins á hverju svæði, þ.e. atvinnuleysis, einkum meðal kvenna.
    Við úthlutun hafa eftirfarandi atriði jafnframt verið höfð til hliðsjónar:
 —    Verkefnin skulu vera vel skilgreind og fyrir skal liggja framkvæmda- og kostnaðaráætlun.
 —    Fjárveitingin komi sem flestum konum að notum.
 —    Ekki verði veittir beinir rekstrar- eða fjárfestingarstyrkir nema sérstakar ástæður mæli með því.
 —    Tekið verði mið af framlagi heimamanna, svo sem fjárframlögum, vinnu, húsnæði og tækjum.
    Félagsmálaráðuneytið hefur notið ráðgjafar Byggðastofnunar við úthlutun fjárins og hóps kvenna sem atvinnuþróunarfélögin í hverju kjördæmi hafa tilnefnt í. Hefur reynslan af þessu fyrirkomulagi verið góð.

    1. Alls voru veittir styrkir til 27 verkefna. Þar af voru 6 hlutfallslega háir styrkir, 1 millj. kr. eða meira, og 21 styrkur með lægri fjárhæðum en 1 millj. kr.
    Stærsta upphæðin fór til Suðurnesja eða 2,5 millj. kr. til atvinnuuppbyggingar á því svæði. Þar er nú um 12% atvinnuleysi meðal kvenna eins og kunnugt er. Hér er um að ræða þróunarverkefni í umsjón atvinnuráðgjafa svæðisins.
    Til Vestfjarða var veitt 1,7 millj. kr. til áhugahóps um atvinnumál kvenna á Vestfjörðum. Þessi hópur var myndaður í kjölfar ráðstefnu um atvinnumál kvenna sem haldin var á Ísafirði haustið 1991 og var ráðstefnan styrkt úr þessum sama sjóði á því ári. Hugmyndir vestfirsku kvennanna eru að ráða ráðgjafa til að vinna að atvinnuuppbyggingu fyrir konur á svæðinu. Samvinna mun verða milli kvennahópsins og starfsmanna Byggðastofnunar á Ísafirði við þetta verkefni.
    Til Norðurlands eystra runnu samtals 2,3 millj. kr. og er helsta verkefnið laun til ráðgjafa sem starfar á vegum Iðnþróunarfélags Eyjafjarðar. Var veitt 1,3 millj. kr. til þessa. Hér er um að ræða framhaldsverkefni frá árinu 1991.
    Þá var 1,1 millj. kr. varið til að ráða ráðgjafa í hlutastarf til að vinna með austfirskum konum að verkefni sem kallað er „Kvennaráðgjöf Atvinnuþróunarfélags Austurlands“.
    Þróunarverkefnið að Þingborg í Hraungerðishreppi í Árnessýslu fékk í annað sinn styrk úr sjóðnum að upphæð 1 millj. kr. til að vinna að nýjungum í ullarvinnslu (vinnuþjálfun, fræðslu og vöruþróun).
    Til verkefnisins „Átak í smáiðnaði“, sem hefur aðsetur í Borgarnesi, var varið 1 millj. kr.
    Tæpum 6 millj. kr. var samtals varið til 21 verkefnis. Hér eru ekki tök á að telja þau öll upp og verða hér aðeins nefnd nokkur. Til Norðurlands vestra dreifast 1,5 millj. kr. til 7 smærri kvennaverkefna. Saumasmiðjan TEST fékk styrk til hönnunar og markaðsátaks og saumastofa á Hofsósi fékk einnig styrk til markaðsátaks. Þá fengu nokkrir kvennahópar, m.a. Bardúsa á Hvammstanga sem rekur verslun og verkstæði, styrki til hönnunar og markaðsátaks varðandi nytjalist og til að standa straum af kostnaði við námskeiðahald.
    Þá var ferðaþjónustuverkefni á Stokkseyri og Eyrarbakka veittur styrkur og er reiknað með að hópur kvenna fái þar atvinnu ef vel tekst til. Til Víkur í Mýrdal var veitt 440 þús. kr. til að þróa matvælaframleiðslu.
    KK-matvæli á Reyðarfirði fengu 350 þús. kr. til að standa að nýjungum í matvælaiðnaði og til markaðsátaks.
    Kvennahópur í Þingeyjarsýslu hefur staðið fyrir útimarkaði á Fosshóli undanfarin sumur og fengu þær styrk að upphæð 350 þús. kr.
    Veittir voru styrkir til nokkurra verkefna sem nýtast konum um allt land, svo sem til að taka saman upplýsingar um atvinnumál kvenna á landsbyggðinni og til útgáfu fréttabréfs. Þá var einnig veittur styrkur til að taka saman og gefa út upplýsingabækling um konur í atvinnurekstri á Íslandi.
    2. Leitast hefur verið við að dreifa fjármagninu um allt land. Einnig hefur verið horft til atvinnuástandsins á hverju svæði, einkum með tilliti til atvinnuleysis meðal kvenna.
    Suðurnes     
2.500.000 kr.

    Vesturland     
1.650.000 kr.

    Vestfirðir     
1.800.000 kr.

    Norðurland vestra     
1.480.000 kr.

    Norðurland eystra     
2.350.000 kr.

    Austurland     
1.975.000 kr.

    Suðurland     
2.250.000 kr.

    Óstaðsett     
   800.000 kr.

    3. Markvisst mat hefur ekki farið fram á því hvernig styrkirnir hafa nýst konum á landsbyggðinni þegar til framtíðar er litið. Enn sem komið er er erfitt að meta árangur, enda of stuttur tími liðinn frá því fyrst var úthlutað. Varanlegur árangur gæti farið að koma í ljós á þessu ári en þegar styrkur er veittur er ævinlega farið fram á ítarlega skriflega greinargerð frá styrkþegum sem þeim ber að senda ráðuneytinu ári síðar.
    Hins vegar má leiða að því líkum að þessir styrkir hafi talsvert gildi fyrir atvinnuuppbyggingu kvenna á landsbyggðinni. Ef litið er til styrkjanna frá árinu 1991 má t.d. benda á að ráðning kvennaráðgjafa fyrir Eyjafjarðarsvæðið hafi skilað árangri. Mat kvenna á því svæði er að ráðgjöfin hafi nýst þeim afar vel. Á sama ári var framleiðsla á flíkum úr hreindýraskinni styrkt á Austfjörðum og hefur það þróunarverkefni borið góðan árangur.
    Styrkir til námskeiðahalds hafa að öllum líkindum komið mörgum konum til góða og ýmsar kvennasmiðjur hafa getað haldið áfram starfsemi sinni vegna fjárstuðnings úr þessum sjóði. Ber þar líklega hæst starfsemi Þingborgar í Árnessýslu þar sem mjög faglega er að verki staðið.
    Í framhaldi af ráðstefnum um atvinnumál kvenna, bæði á Akureyri (1992) og á Ísafirði (1991), sem styrktar hafa verið úr sjóðnum, hefur verið hrint af stað sérstöku átaki í atvinnumálum bæði á þessum svæðum og á landsvísu.
    Ljóst er að þessar styrkveitingar hafa haft hvetjandi og styrkjandi áhrif á konur á landsbyggðinni og aukið þeim þor og sjálfstraust til að takast á við ný verkefni.