Skuldbreytingar sjávarútvegsfyrirtækja

75. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 17:07:43 (3349)


[17:07]
     Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin. Þau bera það glöggt með sér að þegar hæstv. ríkisstjórn var að fjalla um þau vandamál sem fylgja aflasamdrættinum og koma ekki hvað síst niður á þeim hópi útgerðarmanna sem ég var að nefna, þ.e. þeirra sem eru að gera út báta undir 10 tonnum, þá var ekki verið að taka á vanda þeirra með neinu móti heldur einungis stærri útgerðarinnar í landinu. Það dregur athyglina að því að ævinlega þegar verið er að fást við vanda sjávarútvegsins á Íslandi ráða fyrst og fremst þröngir hagsmunahópar stærstu útgerðarinnar í landinu ferðinni. Og ekki einu sinni allir útgerðarmenn sem

eiga aðild að LÍÚ hafa hagsmunagæslu með sama hætti. Það vitum við. Við höfum séð það í gegnum tíðina hvernig að þessum málum er staðið.
    Það er alveg hróplegt að þannig skuli vera komið fyrir atvinnugrein sem gefur verulega af sér í þjóðartekjum og skapar mikla atvinnu og það á tímum atvinnuleysis að ekkert skuli vera gert til þess að koma til móts við þessa aðila. Ég tel þetta sérstaklega ámælisvert og vil meina það að þarna þurfi að snúa við blaðinu og leggja meiri áherslu á það að styðja við bakið á smærri útgerðarmönnum og gera þá jafnsetta hinum. Það er ekki verið að fara fram á neitt annað en það. Þar hefur vantað mikið á. Ég vek athygli á því að hæstv. forsrh. sagði það áðan að hann hefði ekki samandregna tölu um hvað hefur verið gert fyrir smábátaeigendur. Til hvers bendir það? Það bendir bara til þess að nákvæmlega ekkert hafi verið gert fyrir þá í þessu efni í framhaldi af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.