Færsla grunnskólans til sveitarfélaganna

75. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 17:23:53 (3354)

[17:23]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ragnar Elbergsson lagði fram fyrirspurn sem ekki gafst tími til að fjalla um áður en þing fór í jólafrí. Hún er á þskj. 302 og er til hæstv. félmrh., um færslu grunnskóla til sveitarfélaganna. Fyrirspurnin er í tveimur liðum.
  ,,1. Telur ráðherra það enn raunhæft að sveitarfélögin geti yfirtekið allan rekstur grunnskólans 1. ágúst 1995?
    2.  Hvaða áhrif hefur niðurstaðan í kosningum um sameiningu sveitarfélaga 20. nóvember sl. á þennan tilflutning að mati ráðherrans og ríkisstjórnar?``
    Ástæðan fyrir þeirri fyrirspurn sem er hér lögð fram er sú að yfirtaka sveitarfélaganna á öllum rekstri grunnskólans er stór og viðamikil framkvæmd. Þetta er eina verkefnið sem sveitarfélögin eiga að yfirtaka sem búið er að dagsetja. Undirbúningur er skammt á veg kominn og þess vegna er eðlilegt að því sé velt fyrir sér hvort ekki sé rétt að fara hægar í þessa framkvæmd. Hvort sem við erum hlynnt eða andvíg því að grunnskólinn færist yfir til sveitarfélaganna hljóta allir að vera sammála því að ef af þessu verður þá verði undirbúningsvinnan að vera vandlega unnin. Það er áhyggjuefni margra sem að þessu máli vinna að tíminn sem gefinn er, þ.e. til 1. ágúst 1995, sé of naumur til að þessi verkaskipting geti gengið eftir á eðlilegan hátt.
    Kosningarnar 20. nóvember sl. benda til þess að í sameiningarmálum eigi eftir að vinna mikið starf og þrátt fyrir yfirlýsingar um að færsla grunnskólans sé óháð sameiningu sveitarfélaganna, hlýtur að verða tekið tillit til þess í undirbúningsvinnunni hversu burðug sveitarfélögin eru til þess að taka við verkefninu. Þessari fyrirspurn er beint til félmrh. í ljósi þess að hann er yfirmaður sveitarstjórnarmála og getur sem slíkur gripið inn í málin og frestað framkvæmdinni ef þurfa þykir.