Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 14:24:04 (3364)


[14:24]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Hæstv. sjútvrh. fór yfir þá deilu sem hefur staðið að undanförnu á milli LÍÚ og sjómanna, sem hefur snúist um ýmis mál, en aðalágreiningsmálið hefur reyndar verið þátttaka sjómanna í kvótakaupum sem fer fram með ýmsum hætti. Hæstv. ráðherra hélt sig við það í ræðu sinni að tala um þennan stutta tíma sem deilan sjálf stóð yfir, en lét ekki koma neitt fram um það hverjar skoðanir hans eru á forleik málsins, sem er auðvitað sá að ríkisstjórnin var búin að klúðra þessu máli fyrir löngu síðan og hefur ekki viljað horfast í augu við það að hún hefur ekki fundið lausnir á þessum málum.
    Ég mun í ræðu minni reyna að koma því til skila hvernig þetta mál hefur borið að og hver aðalástæðan er fyrir því að svo alvarlega fór, að verkfall á fiskiskipaflotanum varð staðreynd. Það má auðvitað rekja upphaf málsins til þeirrar yfirlýsingar sem sjómannasamtökin gáfu út eftir að tvíhöfða nefndin svokallaða skilaði sinni skýrslu. Tvíhöfða nefndin var skipuð af ríkisstjórninni til þess að útfæra sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar. Tvíhöfða nefndin átti að hafa í farteskinu stefnumörkun ríkisstjórnarinnar sem fólst í hvítu bókinni sem gefin var út. Í þeirri hvítu bók er sagt, sem aðalatriði vegna mótunar fiskveiðistefnu, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisstjórnin hyggst móta sjávarútvegsstefnu er nær jafnt til veiða, vinnslu og markaðsmála, hamlar gegn ofveiði, treystir byggð, stuðlar að hagræðingu og tryggir stjórnskipulega stöðu sameignarákvæðis laga um stjórn fiskveiða.`` Ég endurtek: ,, . . .  tryggir stjórnskipulega stöðu sameignarákvæðis laga um stjórn fiskveiða``.
    Um hvað voru sjómenn að slást í þessu verkfalli? Þeir voru að slást um afleiðingar þess að það er í gildi þannig kerfi hér við stjórn fiskveiðanna að útgerðarmönnum í landinu er afhent ígildi eignarréttar á þessari auðlind. Nýlegur hæstaréttardómur hefur staðfest að það eigi að fara með þessar eignir nákvæmlega eins og aðrar eignir, skattleggja þær og afskrifa. En ríkisstjórnin hafði sem sagt sagt í upphafi: Við ætlum að breyta þessu, við ætlum að tryggja að þjóðin eigi þessa auðlind áfram með breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Tvíhöfða nefndin fór yfir málið og komst að annarri niðurstöðu, að þetta væri ekki skynsamlegt og það ætti ekki að gera þetta. Hennar tillaga var: Að festa í sessi aflamarkskerfið nánast óbreytt. Og ríkisstjórnin skrifaði upp á það.
    Þegar tvíhöfða skýrslan var lögð fram var loksins öðrum aðilum en þeim sem ríkisstjórnin hafði valið til starfa, boðið upp á það að fá að taka þátt í að móta sjávarútvegsstefnuna. Þar á meðal sjómönnum. En sjómenn gerðu sér auðvitað grein fyrir því að það var búið að marka stefnuna og það þýddi ekkert að tala við ríkisstjórnina um þetta mál eins og þá horfði. Þeir gáfu út sameiginlega yfirlýsingu, þegar þarna var komið, um að þeir mundu ekki taka þátt í því samráði sem þarna var verið að bjóða upp á. Ég ætla að lesa þessa yfirlýsingu, þó hún hafi oft verið lesin áður, vegna þess að ég held að það sé rétt að menn rifji upp með hvaða hætti þetta mál hófst. Þessi yfirlýsing var gefin í fyrravetur eftir að tvíhöfða nefnd hafði lagt fram sína skýrslu og sjómönnum hafði verið gefinn kostur á að taka þátt í þessari mótun stefnunnar:
    ,,Framangreind hagsmunasamtök sjómanna lýsa yfir fullri andstöðu við framsal á veiðiheimildum, þ.e. sölu á óveiddum fiski innan gildandi kerfis um stjórn fiskveiða. Reynsla síðustu ára hefur leitt til aukinnar andstöðu sjómannasamtakanna gagnvart óheftu framsali veiðiheimilda og nú er svo komið að mælirinn er fullur. Sjómannasamtökin telja að nú sé komið að vendipunkti í þessu máli. Frjálst framsal veiðiheimilda hefur skapað fleiri vandamál en það hefur leyst. Kjarasamningum fiskimanna, sem byggðir eru í höfuðatriðum á hlutaskiptum, er ógnað vegna þess að fiskimenn eru látnir nauðugir taka þátt í kaupum á óveiddum fiski. Óheft framsal veiðiheimilda hefur búið til nýja stétt sjómanna og útgerðarmanna sem eru ofurseldir kjörum leiguliðans þar sem þeim er skammtaður aðgangur að fiskimiðunum af þeim sem veiðiréttinn hafa. Þessari óheillaþróun verður ekki snúið við nema með algjörri höfnun á sölu á óveiddum fiski.`` Og lokasetningin er: ,,Sjómannasamtökin telja það ekki þjóna tilgangi að fjalla um aðra þætti í tillögum þeirrar nefndar sem fjallað hefur um mótun sjávarútvegsstefnu nema fyrir liggi að öll viðskipti með veiðiheimildir verði bönnuð.``
    Þannig var afstaða sjómanna orðuð í þessari yfirlýsingu sem raunverulega var upphafið að því sem síðar gerðist. Og allir sem hugsa um þessi mál og hafa gert, gerðu sér grein fyrir því að það mundi stefna í átök á milli sjómanna og útgerðarmanna vegna þessara mála. Það er þess vegna ekki hægt að láta ríkisstjórnina og sjútvrh. sérstaklega sem hefur borið ábyrgð á þessum málum komast hjá því við umræður um verkfall sjómanna að ræða um ábyrgð ríkisstjórnarinnar á þessu máli því þar liggur öll ábyrgðin. Menn vissu um þetta vandamál og ef það yrði ekki leyst þá yrðu átök í þjóðfélaginu. Menn vita að þessi átök munu halda áfram svo lengi sem ekki verður tekið á málinu og þeim aðferðum sem menn hafa við að stjórna umgangi um auðlindina komið í eðlilegt horf.
    Það eru fleiri en sjómenn sem eiga hlut að máli. Aðrir aðilar munu rísa upp gegn því óréttlæti sem þetta kerfi hefur fært þjóðinni. Rétt til þess að láta rödd aðila hljóma sem hefur beitt sér í þessum málum fram að þessu, ætla ég að lesa upp úr forustugrein Morgunblaðsins sem var skrifuð af þessu tilefni þann 15. jan. sl. Í síðari hluta þeirrar forustugreinar stendur, með leyfi forseta:
    ,,Áhyggjur ríkisstjórnarinnar af verkfalli sjómanna eru skiljanlegar. Grundvallaratvinnuvegur þjóðarinnar hefur verið lamaður í hálfan mánuð. En það er líka nauðsynlegt að ráðherrar og þingmenn átti sig á því að tilfinningar vegna framferðis nokkurs hóps útgerðarmanna rista djúpt meðal sjómanna og margra fleiri. Þetta á í vaxandi mæli við um afstöðu, ekki eingöngu sjómanna heldur þjóðarinnar allrar til kvótakerfis í heild. Barátta sjómanna gegn kvótabraskinu snýst um réttlæti. Er nauðsynlegt fyrir sjómenn að fara í verkfall til þess að ríkisstjórn og Alþingi sjái ástæðu til að tryggja framgang réttlætis í þessu máli?
    Stjórnmálamenn hljóta í störfum sínum að taka mið af þeim straumum og því andrúmi sem er til staðar í samfélaginu hverju sinni. Þeir stjórnmálamenn sem átta sig ekki á þeim vatnaskilum sem urðu í kvótamálinu á þróttmiklum fundi sjómanna í fyrradag eru dæmdir til að taka rangar ákvarðanir. Með vissum hætti má segja að á fundi sjómanna hafi þjóðin talað og þá er tímabært að ráðamenn hlusti.
    Það mun ekki duga að setja bráðabirgðalög á almenning í þessu landi þegar hann rís upp gegn óréttlátu kerfi sem skipta mun þjóðinni í tvær andstæðar fylkingar þegar fram líða stundir. Þess vegna m.a.

hefði átt að kalla Alþingi saman til fundar til að bregðast við þeim vandamálum sem þetta ólánskerfi hefur kallað yfir þjóðina og nú á eftir að gera í auknum mæli í framtíðinni. Bráðabirgðalögin leysa engan vanda. Þau veita einungis flóafrið áður en ný deila rís vegna fiskveiðistjórnunarkerfis sem mun valda illdeilum svo lengi sem framsal kvóta er leyft lögum samkvæmt, þótt ólög séu og í andstöðu við stjórnarskrá lýðveldisins.``
    Þarna talaði Morgunblaðið. Hefur áður komið fram afstaða á þeim bæ og verður þó að segja um þann fjölmiðil að hann er sá eini af fjölmiðlum landsins sem hefur sinnt því að láta fara fram umræðu og stuðlað að umræðu um þetta stóra hagsmunamál alls landsins. Ég hygg að þarna hafi verið talað fyrir munn miklu fleiri en ríkisstjórnin virðist gera sér grein fyrir að eru á öndverðum meiði við hana í þessum málum. Ég hugsa að það hafi komið ýmsum á óvart að samstaða sjómanna skyldi vera eins og hún var. Í þinginu töluðu menn um það að sjómenn væru sundraður hópur og að þetta verkfall hefði verið kallað fram með einhverjum fámennisaðferðum og engin samstaða væri á bak við verkfall sjómanna. Þetta sýndi sig vera rangt. Ég hygg að það muni líka koma að því að alþingismenn muni átta sig á því að miklu stærri hópur þjóðarinnar en sjómenn vill fá breytingar á þessu kvótakerfi. Því miður virðast alþingismenn lifa í afmörkuðum heimi og hafa ekki gert sér grein fyrir því að það er mikil andstaða við þær aðferðir sem hafa verið skapaðar með lögum um stjórn fiskveiða.
    Ríkisstjórnin hagaði sér þannig í þessu máli að það má nánast segja að hún hafi lýst yfir stríði á hendur sjómönnum eftir að fyrir lá að verkfall yrði um áramótin. Eða hvernig mátti skilja það að ríkisstjórnin ákvað loksins að leggja fram sjávarútvegsfrumvarp í þinginu einmitt örfáum dögum áður en að verkfalli sjómanna skyldi koma? Það vissu allir hvað sjómenn voru að berjast við og hverju þeir vildu fá breytt. Þá kemur ríkisstjórn landsins og leggur fram frumvörp um óbreytta sjávarútvegsstefnu þar sem ekki er tekið á aðalvandamálinu sem sjómenn voru að berjast gegn. Ef einhver hefði tekið mark á þessari ríkisstjórn, og einhver hefur kannski gert það, þá var ekki hægt að túlka það með öðrum hætti en þeim að ríkisstjórnin væri að segja þá skoðun sína skýrt og skorinort: Svona skal þetta vera og við munum brjóta sjómenn niður í verkfalli.
    Framhaldið virtist líka bera með sér að þannig ætti að standa að málum því rétt fyrir jólin var ákveðið að lengja jólafrí þingmanna um heila viku. Það var auðvitað um það spurt í þinginu í hvaða tilgangi þetta væri gert. Engar skýringar komu á því. En skyldi ekki einhver hafa látið detta sér í hug að það hafi verið gert til þess að það yrði svigrúm til þess að setja bráðabirgðalög um verkfall sjómanna? Ég held að margir hafi látið sér detta það í hug vegna þess að ríkisstjórnin mundi með þeim aðferðum fá lengri tíma til þess að fjalla um þessi mál heldur en annars. Ýmsir geta látið sér detta í hug að Alþingi hefði ekki getað leyst þetta mál. Ég held að það hefði verið hægt að leysa þetta á Alþingi og ég er sannfærður um að það hefði verið möguleiki á því að semja við sjómenn um að fresta verkfalli ef það hefði legið fyrir að menn ætluðu í alvöru að fást við þessi mál á Alþingi.
    Ég tel að það sé mikill ábyrgðarhluti að ríkisstjórnin skyldi fara svona að í þessu máli og það sem útskýri þá afstöðu geti ekki verið nema eitt. Það er að hún hafi ætlað að láta reyna á samstöðu sjómanna, hvort hún kæmist upp með stefnu sína sem búið var að marka í umfjöllun tvíhöfða nefndar og hafði verið lögð fram í þinginu. Hún ætlaði að láta reyna á það hvort hægt væri að koma þessu fram og brjóta sjómenn niður í verkfallinu.
    Þá er það spurningin hvort hugmyndir ráðuneytisstjóranefndarinnar, sem sett var á fót og virtist vera aðalhugmynd ríkisstjórnarinnar að lausn málsins, geti leyst þau mál sem sjómenn voru að takast á við LÍÚ um. Ég held að þessi svokallaði kvótamarkaður geti breytt þessum viðskiptum verulega. Þau munu fara öðruvísi fram en það er ýmislegt sem bendir til þess að það verði ekki hægt að synda fram hjá möguleikum til þess að láta sjómenn taka þátt í kvótakaupum þó svona markaður verði til.
    Ég ætla ekki að nota minn tíma í þessari ræðu til þess að fara út í það að fjalla um hvaða möguleika ég sé í þessu núna en þeir eru áreiðanlega fleiri en ég hef komið auga á en ég sé það að hægt er að komast fram hjá þessu með ýmsum hætti. Hins vegar mun þetta hamla að einhverju leyti þeim viðskiptum sem hafa farið fram með það að augnamiði að taka kaup á aflaheimildum inn í fiskverðið og ná þannig inn í skiptakjör sjómanna.
    Ég get ekki annað í þessari ræðu minni en nefnt þá afstöðu LÍÚ sem kom fram í þessu verkfalli. Ég tel að hún hafi verið gjörsamlega forkastanleg. Ég er ekki að segja það vegna þess að ég telji að allt hafi verið rangt sem LÍÚ hélt fram um þessi mál. En hvernig í ósköpunum er hægt að bjóða upp á tvíbenta afstöðu hjá forustu LÍÚ? Hún viðurkennir annars vegar í samningaviðræðunum að það eigi ekki að láta sjómenn taka þátt í kvótakaupum ef útgerðarmenn hafa keypt kvóta og býður sjómannasamtökunum upp á samstarf um að koma í veg fyrir að þannig sé farið aftan að þeim eða þeir látnir taka nauðugir þátt í kvótakaupunum en hins vegar neitar forustan að taka þátt í umræðum um að reyna að koma í veg fyrir að sjómenn séu látnir taka þátt í kostnaði vegna kvótakaupa, t.d. þegar fram fara viðskipti milli sjávarútvegsfyrirtækja sem annars vegar eru bæði í útgerð og fiskvinnslu og hins vegar bara í útgerð. Hvers konar afstaða er þetta? Þetta er afstaða sem þýðir að ef þetta fyrirkomulag verður áfram eins og það hefur verið, og það virðist LÍÚ hafa viljað og lýsti nánast yfir í þessum samningum, er verið að útiloka venjulega útgerðarmenn sem ekki taka þátt í fiskvinnslu frá samkeppninni um veiðiheimildirnar því auðvitað eiga þeir ekki sama möguleika til þess að komast yfir veiðiheimildir og hinir sem geta látið kostnað vegna veiðiheimildanna koma fram í samningum um fiskverð.
    En það er svo sem ekki í fyrsta málinu sem forusta LÍÚ virðist taka afstöðu með þessum hópi útgerðar- og fiskvinnslumanna sem er stærri en hinn. En forusta LÍÚ hefur a.m.k. í orði haldið því fram að hún væri að berjast fyrir útgerðarmenn í landinu en ekki fyrir fiskvinnsluna. En í þessu máli er það greinilegt að útgerð sem líka rekur fiskvinnslu réði þar ferðinni.
    Ég fagna því að hæstv. sjútvrh. sagði það áðan að hann væri tilbúinn að setja lög sem fælu í sér þá hugsun sem var í yfirlýsingu LÍÚ og sjómannasamtakanna um kvótakaup vegna þess að mér finnst í því falin stefnubreyting. Ég hef aldrei fyrr heyrt hæstv. sjútvrh. taka skýrt til orða með þessum hætti. Þvert á móti hafa forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar talað þannig í ræðustóli að það hefði mátt skilja það þannig að viðskipti, t.d. tonn á móti tonni eða einhver slík viðskipti þar sem sjómenn eru látnir taka þátt í kvótakaupum, væru ekkert óeðlileg. Aðalhugsuðurinn á bak við sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar, hv. 5. þm. Norðurl. v., hefur margoft í þessum ræðustóli og enn þá oftar í blaðagreinum lýst því yfir að þessi verslunarmáti sem sjómenn voru að berjast gegn væri fyrst og fremst hagræðing og menn ættu að halda áfram. Þetta væri það sem gæti bjargað útgerðinni og fiskvinnslunni í landinu.
    Virðulegi forseti. Ég lýsi mig algjörlega andvígan þessum bráðabirgðalögum sem sett voru af ríkisstjórninni og ég lýsi ábyrgð á hendur ríkisstjórnarinnar vegna þessa máls. Það er hún sem ber ábyrgð á því að þetta verkfall varð.