Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 15:07:59 (3367)


[15:07]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Í raun erum við að ræða um tvö efnisatriði þegar við tökum til meðferðar frv. til laga um stöðvun verkfalls fiskimanna í aðildarfélögum Sjómannasambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands utan Vestfjarða. Í raun erum við í fyrsta lagi að tala um spurninguna um það hvort yfir höfuð var hægt að leysa deilu sjómanna og útvegsmanna með frjálsum og eðlilegum hætti eins og menn hefðu að ég hygg flestir viljað og hins vegar þá spurningu hvort eðlilegt hefði verið að kalla saman þingið til þess að fjalla um málið í því augnamiði hugsanlega að setja lög á deiluna til þess að ljúka henni með einhverjum hætti.
    Í raun og veru vil ég leggja áherslu á það að hér er um að ræða tvö aðskilin mál, annars vegar spurninguna um málsmeðferðina sjálfa, spurninguna um það hvort Alþingi hefði átt að koma saman til þess að ræða þessi mál og komast að niðurstöðu, hugsanlega með lagasetningu og hins vegar hitt efnisatriði málsins, spurninguna um það að setja lög um deiluna.
    Ég hef leyft mér að gagnrýna annað atriði þessa máls, þ.e. málsmeðferðina sjálfa, og ég hef komist svo að orði að ég hefði talið það eðlilegra að kalla saman Alþingi til að fjalla um þetta mál. Það felur í sjálfu sér ekki í sér að ég hafi fyrir fram hafnað því að það kynni að þurfa að grípa til þess að ljúka þessari deilu með lagasetningu. Ég er hins vegar að leggja á það áherslu og þar er útgangspunkturinn annar að þetta mál hefði átt að leysa með því að kalla saman þingið vegna þess að til þess voru allar forsendur að mínu mati.
    Ég er að vísu ósammála þeim sem þannig tala að það eigi aldrei undir nokkrum kringumstæðum að setja bráðabirgðalög. Ég skal fjalla um það síðar. Ég tel að þær aðstæður geti verið uppi í okkar þjóðfélagi að það sé ekki tóm til annars og ekki aðstæður til annars en að setja bráðabirgðalög og þá þurfum við að hafa heimildir til þess. En í þessu tilviki sýnist mér einsýnt að það hefði vel mátt koma þeim málum þannig fyrir núna að Alþingi væri kallað saman, frv. til laga lagt fram eins og þetta sem hér er verið að fjalla um og þingið tæki þá efnislega afstöðu til þess.
    Ég ætla ekki að gera lítið úr þeirri alvöru sem þessi kjaradeila var. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál fyrir okkar þjóðfélag þegar grundvallaratvinnuvegurinn stöðvast vegna vinnudeilna og vinnudeilur í sjálfu sér eru allar mjög alvarlegar og alvarlegs eðlis og ber að taka með þeim hætti. Hins vegar er óhjákvæmilegt að benda á það í þessu sambandi að aðstæður núna eru nokkuð öðruvísi en þær hafa oft verið í sjómannadeilum. Fyrir það fyrsta er það ljóst að kvótarnir, sem útgerðin í landinu hefur til ráðstöfunar, eru naumari núna en þeir hafa nokkurn tíma verið áður og það blasir t.d. við í heilum landshlutum að margar útgerðir, togarar jafnt sem bátar, eru orðnar eða verða uppiskroppa með þorskkvóta sinn. Þó eru eftir aflasælustu þorskmánuðirnar fram undan á fiskveiðiárinu fyrir togaraflotann. ( ÓÞÞ: Er ekki allt í lagi að hafa bara fé?) Þess vegna var það svo að ég taldi að þetta væri önnur ástæðan fyrir því að hægt væri og það væri tóm til þess að ræða þetta mál nokkuð ítarlegar en gert var með því að leggja fram bráðabirgðalögin, ákveða bráðabirgðalögin eins og gert var nú fyrir rúmri viku síðan.
    Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að þetta mál snýr ekki bara að bolfiskveiðunum eða þorskveiðunum. Loðnuflotinn var að búa sig til veiða en aðstæður voru líka þannig þar að ég tel að það hefði ekki skipt sköpum um niðurstöðu málsins þó að Alþingi hefði tekið sér nokkurn tíma til að fjalla um þetta mál. Þetta er í raun og veru spurningin um málsmeðferðina, spurningin um það hvort það átti að setja bráðabirgðalög eða hvort Alþingi hefði átt að koma saman. Þetta er með öðrum orðum aðeins annar hluti þessa máls.
    Hinn hlutinn lýtur að efnisatriðunum sjálfum, spurningunum um það hvort búið var að reyna samningsleiðina til þrautar, hvort hægt hefði verið að leysa þetta mál með samningum eða hvort það hefði verið nauðsynlegt að lokum að grípa til lagasetningar og ljúka málinu þannig. Nú er það svo að ég hygg að það hafi orðið hlutskipti flestra ef ekki allra stjórnmálaflokka í landinu að standa að lagasetningu á vinnudeilur með einum eða öðrum hætti. Það er eingöngu Kvennalistinn sem ekki hefur verið í ríkisstjórn og sem ekki hefur staðið frammi fyrir þeim bitra veruleika þannig að ég hygg nú að það sé verið að kasta steinum úr glerhúsi þegar menn tala sem svo að það komi aldrei, aldrei til greina að setja lög á kjaradeilur einfaldlega vegna þess eins og ég segi að allir stjórnmálaflokkarnir að undanskildum Kvennalistanum hafa staðið að slíkri lagasetningu með einum eða öðrum hætti. Það sem þá blasir við er þessi spurning: Sýnist mönnum að hægt hafi verið að leysa þessa deilu með frjálsum samningum án þess að löggjafinn hefði haft afskipti af henni?
    Nú er það auðvitað svo fyrir okkur sem stóðum utan við þetta að það var kannski nokkuð erfitt á sínum tíma að meta þetta að öðru leyti en því að við gátum reynt að rýna og átta okkur á afstöðu manna í gegnum fjölmiðlana og það verður auðvitað að segjast eins og er að þau viðbrögð gáfu ekki mjög til kynna að hægt væri að leysa þessi mál í frjálsum samningum. Og ég tel að atburðarásin síðan, viðbrögðin við hugmyndum þriggja manna nefndar ráðuneytisstjóranna hafi líka undirstrikað það að því miður voru þessi mál komin í þær ógöngur að það var borin von til þess að hægt hefði verið að leysa þetta með eðlilegum hætti í samningunum án atbeina löggjafans. Þess vegna er það mín niðurstaða að þrátt fyrir að ég hafi gagnrýnt málsmeðferðina sjálfa þá hafi verið efnisleg rök til þess að setja lög til þess að stöðva þessa vinnudeilu meðan menn voru að finna bærilega og ásættanlega lausn á málinu sjálfu til þess að tryggja það að atvinnulífið gæti gengið sinn vanagang og ekki yrði af þeir meiri skaði en orðinn var. Með öðrum orðum, svo að ég dragi það saman og það sé alveg ljóst, að um leið og ég gagnrýni málsmeðferðina þá tel ég að efnislega hefði ekki verið hjá því komist að lokum að ljúka þessu máli með lagasetningu í þeim anda sem frv. þetta til laga sem við erum að ræða um gerir í raun og veru ráð fyrir. Þetta er að vísu að sjálfsögðu neyðarúrræði en alvara málsins er líka öllum ljós.
    Ég vildi aðeins nefna það aftur að ég sagði það í máli mínu áðan að ég teldi ekki að það ætti að afnema algerlega allar heimildir til útgáfu bráðabirgðalaga. Ég veit að þetta er að vísu sjónarmið Morgunblaðsins eins og hér hefur verið rakið en ég tel hins vegar að það geti komið upp ýmis tilvik, séu fyrir hendi tilvik, sem geri það að verkum að til þess kunni að verða gripið að setja bráðabirgðalög. Sú umræða sem hins vegar hefur farið fram um þessi mál hefur öll hnigið í þá átt að stjórnmálamenn hafa talið eðlilegt að þrengja þessa kosti, þrengja þessa möguleika til setningar bráðabirgðalaga og það er enginn vafi á því að sú umræða ein og sér hefur gert það að verkum að menn grípa miklu síður til bráðabirgðalagasetningar nú en gert var hér á árum áður og það er vissulega vel. Þess vegna vil ég að það liggi ljóst fyrir hver afstaða mín er að þessu leytinu.
    Ég vil líka mótmæla því mjög harðlega sem hér hefur verið sagt af ýmsum ræðumönnum fyrr í dag að það hafi legið að baki því, þegar þingið fór heim skömmu fyrir jól, einhver ásetningur um að setja lög á sjómannadeiluna. Það finnst mér afar sérkennileg fullyrðing í ljósi þess að það voru gerðar mjög miklar tilraunir til þess að ná sáttum í þessari alvarlegu og erfiðu deilu. Ég minni ekki síst á hlut hæstv. sjútvrh. í þessu máli sem hvað eftir annað hafði atbeina að því og frumkvæði að því að kalla deiluaðila saman til þess að reyna að finna lausn á málinu. ( JÁ: Af hverju lengdu þeir jólafríið?) Það hefur ekkert með þetta mál að gera. Málið er ósköp einfaldlega það að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. sjútvrh. alveg sérstaklega reyndu allt sem í þeirra valdi stóð til þess að leiða saman deiluaðila, kalla þá saman til þess að finna lausn á þessu máli. Og þess vegna finnst mér afar ómaklegt að gera því skóna að annað hafi staðið til.
    Ég vil sérstaklega, virðulegi forseti, vekja athygli á því að eftir að það lá fyrir að hæstv. ríkisstjórn hafði ákveðið að setja þessi bráðabirgðalög þá var auðvitað eins og lög gera ráð fyrir kallað eftir viðbrögðum ýmissa aðila, aðila vinnumarkaðarins, fulltrúa stjórnmálaflokkanna o.s.frv. við setningu bráðabirgðalaganna og þessi viðbrögð komu fram í fjölmiðlum. Og ég tel sérstaka ástæðu til þess að vekja m.a. athygli á viðbrögðum hv. 1. þm. Austurl., fyrrv. hæstv. sjútvrh., Halldórs Ásgrímssonar, sem eins og allir vita er nú orðinn sérstakur ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í þessum málum. ( JÁ: Hvar er ráðgjafinn núna? Hvar er ráðgjafinn?) Í viðtali við ríkissjónvarpið segir hv. þm. m.a.:
    ,,Með því að setja þessi bráðabirgðalög er verið að fresta átakspunktinum sem er að sjálfsögðu slæmt. Það sem gerist þó,`` og hér er ástæða til að vekja athygli á, ,,það sem gerist þó er að menn búa til vettvang til að tala saman þannig að miðað við allan aðdraganda var trúlega ekkert annað að gera en setja lög. Ég hefði nú talið réttara að kalla þingið saman og að minnsta kosti kalla út sjávarútvegsnefnd þingsins.`` Síðan segir þulur: ,,Er það rétt að þú metir það svo í þessari stöðu eins og orðið var að bráðabirgaðlögin hafi verið réttlætanleg?`` Svar hv. 1. þm. Austurl. er: ,,Ja, eins og staðan var orðin var held ég að nauðsynlegt að fara í löggjöf vegna þess að aðilar voru hættir að tala saman og það er ekkert traust á milli manna að því er virtist. Það er engin leið að leysa deilur nema skapa traust á milli aðila.``
    Þetta er viðhorf hv. þingmanns. Ég hlýt að túlka þetta viðhorf þannig að það hafi verið sjónarmið hv. 1. þm. Austurl., varaformanns Framsfl., sem í raun og veru var þó líka bergmálað í skoðun formanns Framsfl. í viðtali við Morgunblaðið að þrátt fyrir að hv. þm. hafi talið eðlilegra að kalla saman þingið, þá hefðu þeir látið það duga að kalla saman sjútvn., þá hefði það samt sem áður verið hans skoðun að lagasetning í sjálfu sér hafi verið nauðsynleg eins og í pottinn var búið. Þetta tel ég ástæðu til þess að ítreka.
    Virðulegi forseti. Það er ekki ástæða fyrir mig til þess að fara ítarlegar ofan í þetta mál núna. Ég ætla að geyma mér að fjalla um efnisatriði fiskveiðistjórnunar sem menn hafa verið aðeins að tæpa hér á. Ég vil einungis ítreka það að þó að ég hafi gagnrýnt þá málsmeðferð sem hæstv. ríkisstjórn hafði við lausn þessarar alvarlegu vinnudeilu þá tel ég að úr því sem komið var hafi ekki verið færi á öðru en gripið yrði

til lagasetningar til þess að leysa málið, höggva á hnútinn skulum við kannski frekar segja, en það hefði verið eðlilegast að það hefði verið gert með þeim hætti sem ég hef þegar lýst.