Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 18:20:23 (3396)


[18:20]
     Guðmundur Hallvarðsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Út af orðum síðasta ræðumanns vildi ég ítreka það sem ég sagði áðan, að það er og var nokkurt efni til til þess að skerpa á því sem deilt var mest um. Það er í fyrsta lagi yfirlýsing frá því 26. apríl 1992, hvar útgerðarmenn og fulltrúar sjómanna höfðu undirritað yfirlýsingu þess efnis að: ,,Samningsaðilar eru sammála um að útgerðarmanni sé óheimilt að draga útlagðan kostnað vegna leigu eða kaupa á aflaheimildum frá heildarsöluverðmæti aflans áður en skiptaverð til sjómanna er reiknað``.
    Það kemur mér ákaflega spánskt fyrir sjónir ef það er rétt sem síðasti ræðumaður var að segja hér áðan, að fulltrúar útgerðarmanna vítt og breitt um landið hafi verið tilbúnir til þess að semja við sjómenn. Það var allt annað að heyra á þeirra talsmanni, Kristjáni Ragnarssyni. Það var aldeilis ekkert samningshljóð í honum. Og jafnvel þó að þessi yfirlýsing sé til eins og hún stendur hér skrifuð, þá er samt sem áður ekki farið eftir henni. Og þá vaknar sú spurning hvort ekki væri þá eðlilegt að lögbinda þessa yfirlýsingu, þó að ég, og ég ítreka það, sé á móti þessari lagasetningu.
    Hitt málið sem ég var að tala um hér áðan er í hvítbók ríkisstjórnarinnar. Þar hefur nokkuð miðað áleiðis, einkum í sambandi við Verðlagsráð sjávarútvegsins sem hefur verið mörgum ríkisstjórnum hinn mesti þröskuldur og venjulega staðið í mikilli deilu milli sjómanna og útgerðarmanna þegar Verðlagsráð hefur ákveðið verðlagningu á sjávarafurðum í byrjun janúar hér á árum áður. Sem betur fer hefur það verið aflagt, en það sem hins vegar vantar á eru fiskmarkaðirnir og samtenging þeirra og viðmiðunarverð. Og á mörgum stöðum úti á landi hefur kaupfélagsstjórinn og aðrir því um líkir verið að borga sjómönnum langt undir eðlilegu verði og það er það sem þarf að taka á. ( Gripið fram í: Kaupfélagsstjórar?) ( Gripið fram í: Úr eigin vasa?) (ÓÞÞ: Er Kristján Ragnarsson orðinn varðhundur fyrir þá?)