Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 20:32:27 (3420)


[20:32]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (um fundarstjórn) :
    Frú forseti. Hv. 8. þm. Reykn. hefur nú í tvígang undir dagskrárliðnum fundarstjórn forseta farið rangt með ummæli þau sem ég viðhafði fyrr á þessum fundi. Ekki veit ég hvort það er óafvitandi eða

vísvitandi gert en nauðsynlegt að leiðrétta það.
    Ég sagði að það hefði verið mat ríkisstjórnarinnar að hún hefði ástæðu til að ætla að þingmeirihluti væri að baki bráðabirgðalögunum og að hæstv. forsrh. hafi lýst því yfir að hann hefði haft ástæðu til að ætla að þingmeirihluti væri að baki bráðabirgðalögunum. Ég vona að hv. þm. snúi ekki út úr þessum ummælum í þriðja sinn eða rangfæri þau því að það er nauðsynlegt að fara rétt með þegar vitnað er í ummæli manna um jafnviðkvæm mál og þetta.
    Ég vil ítreka það enn og aftur að það er ekki stjórnarskrárskilyrði fyrir útgáfu bráðabirgðalaga að gengið sé úr skugga um það fyrir fram að þingmeirihluti sé fyrir hendi. Ríkisstjórn metur það upp á eigin spýtur og ég hygg að allur gangur hafi verið á því frá einum tíma til annars hvort stjórnarflokkar á hverjum tíma hafi rætt við alla þingmenn eða ekki. Það er reyndar aukaatriði málsins. Hitt er aðalatriðið að þetta er ekki skilyrði og líka nauðsynlegt að minna á að þetta er engin ný uppgötvun allt í einu í miðri umræðunni. Það var greint frá því þegar kvöldið sem bráðabirgðalögin voru sett að ekki hefði verið talað við alla þingmenn Sjálfstfl. Hér er því ekki um nein ný sannindi að ræða sem ástæða er til að gera meira veður út af en menn höfðu tilefni til strax í upphafi umræðunnar.