Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 20:54:59 (3431)


[20:54]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég skal reyna það. Hv. 8. þm. Reykn. bar þær sakir á mig að ég hefði farið hinum háðulegustu orðum um afstöðu hans fyrir tveimur árum og um það sem hann gerði fyrir einu ári síðan. Ég gerði ekkert annað en að rifja upp afstöðu hans þá, rifja upp hans eigin orð og las hans eigin orð og benti á að þau hefði verið mjög svipuð, ef ekki nákvæmlega þau sömu, hjá þessum tveimur hv. þm. sem hér báru af sér sakir og þeir hefðu fengið mjög skýr svör þá. ( ÓRG: Enda viðurkenndi forsrh. mistökin.) Ég neita því, virðulegi forseti, að það sé komið upp og sagt að ég hafi farið hinum háðulegustu orðum um þá og bera á mig þær sakir þegar ég les upp sem þeir sjálfir sögðu fyrir einu eða tveimur árum síðan. Það er þá eitthvað nýtt ef það eru kallaðar sakir að segja sannleikann sem þeir sjálfir hafa sagt um sig og aðra. ( ÓRG: Þú minnist ekkert á forsrh.)