Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 21:02:49 (3436)


[21:02]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Þó að hv. þm. Geir H. Haarde hafi einhverjar leiðir til þess að finna út hver sé afstaða þingmanna Sjálfstfl. án þess að tala við þá og ég met þá hæfileika mjög mikils, þá gengur það ekki upp að hann geti séð það á látbragði mínu hvaða þingmaður ég tel að gangi lengst í því að fara út fyrir efnið í ræðustóli hér og tala um efnisleg atriði. Hitt er svo grundvallaratriði líka að þegar hæstv. forsrh., þessa stundina Friðrik Sophusson, lýsir því yfir að það hafi komið í ljós að bráðabirgðalög hafi verið staðfest af þinginu eins og ríkisstjórnin lagði þau fram, þá man ég ekki betur en það hafi verið gerðar miklar breytingar áður en þau mál voru afgreidd. Þannig að ég tel að það hafi verið ósannað hver meiri hlutinn var.
    Kjarni málsins er nefnilega sá að forsrh. er ekkert skyldugur, eins og hér hefur komið fram, að afla upplýsinga um það hver sé afstaða þingmannanna. En forseti landsins hefur litið á það sem skyldu sína lengi að spyrja forsrh. að því hver afstaða þingheimsins sé, hvort meiri hluti sé til staðar eða ekki.
    ( Forseti (SalÞ) : Er hv. þm. að bera af sér sakir?)
    Og nú er ég að bera af mér sakirnar, ef ég mætti reyna ögn á þolinmæði forseta. Þess vegna er það kjarni málsins að við unum því illa ef slík spurning forseta til forsrh. er ekki grundvölluð af forsrh. í svari hans á meiri upplýsingum en okkur virðist að hann hafi um þetta mál, þá finnst okkur að hann hafi ekki skýrt forseta lýðveldisins heiðarlega frá. Og við biðjumst undan því að liggja undir þeim sökum, þeim áburði, að það sé óeðlilegt að við áteljum það hér í ræðustól að þessi vinnubrögð séu ekki í samræmi við hefðir og það þykir okkur mjög miður að sé upplýst hér í kvöld. Vinnubrögðin eru ekki í samræmi við

hefðir. Hitt er rétt að samkvæmt skilgreiningu prófessoranna stenst það að setja bráðabirgðalög, jafnvel þó að þau væru felld í þinginu.