Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 21:49:43 (3449)


[21:49]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa upp 35. gr. stjórnarskrárinnar, eins og hún er nú, ef hugsanlegt væri að hv. 5. þm. Austurl. gerði sér grein fyrir því um hvað er verið að ræða. Því hann hefur lýst því yfir að hann skilji bara málið alls ekki:
    ,,Reglulegt Alþingi skal koma saman ár hvert hinn fyrsta dag októbermánaðar eða næsta virkan dag ef helgidagur er og stendur til jafnlengdar næsta árs hafi kjörtímabil alþingismanna ekki áður runnið út eða þing verið rofið. Samkomudegi reglulegs Alþingis má breyta með lögum.``
    Það var stigið það skref að Alþingi ætti að starfa allt árið og svo halda menn að engu hafi verið breytt þegar valdhafarnir telja að nauðsyn beri til að koma í veg fyrir að þetta ákvæði gildi. Mig undrar að menn skuli leyfa sér þann málflutning að láta eins og stjórnarskráin sé sú sama í dag og hún var 1986.
    Hitt atriðið mun ég ræða í mínum ræðutíma hér á eftir.