Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 22:45:10 (3469)


[22:45]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (um fundarstjórn) :
    Herra forseti. Í fyrsta lagi vil ég vekja á því athygli vegna þeirrar óskar sem hér hefur verið sett fram að það er ekki nýtt að upplýst hafi verið í umræðum um bráðabirgðalög að fyrir fram hafi ekki verið leitað til einstakra þingmanna í þingflokki sjálfstæðismanna. Það hefur þvert á móti verið upplýst við þessar umræður að áður þegar bráðabirgðalög hafa komið til umræðu hafi þetta verið upplýst. Það eru því engin rök í þessu máli að hér sé eitthvað nýtt á ferðinni.
    Í annan stað hefur verið á það bent að engin stjórnarskrárskilyrði eru fyrir því að leita slíks álits og þess vegna eru það heldur ekki gild rök fyrir ósk um frestun.
    Í þriðja lagi vil ég benda á að umræðan fer fram í dag að sérstakri ósk stjórnarandstöðunnar og hv. 8. þm. Reykn. sem óskuðu eftir því að hún færi fram í dag og ég hygg að þá hafi flestum verið ljóst að hæstv. forsrh. var á förum til útlanda.
    Í fjórða lagi vil ég minna á að hv. þm. Alþb. greiddu atkvæði með því í upphafi umræðunnar að undanþága væri veitt frá ákvæðum þingskapa þannig að hægt væri að taka málið á dagskrá í dag og þá var öllum ljóst að hæstv. forsrh. var farinn úr landi. Eigi að síður töldu menn rétt í upphafi þingfundar í dag að taka málið á dagskrá og greiddu því sérstaklega atkvæði.
    Og loks vil ég vekja á því athygli, herra forseti, að þetta mál er á stjórnskipulegri ábyrgð sjútvrh. Það er hann sem undirritar lögin með forseta Íslands og ber á þeim stjórnskipulega ábyrgð og svarar fyrir þau í þinginu, með hvaða hætti þau voru sett, um efnisatriði þeirra og önnur atriði sem lögin varða. Þá er það stjórnskipuleg ábyrgð sjútvrh. og hann er hér viðstaddur til þess að svara fyrir þau atriði. (Gripið fram í.) Af öllu þessu má ljóst vera, herra forseti, að hér hafa engin gild rök verið færð fram fyrir því að fresta þessari umræðu. ( ÓRG: Ef þetta var á stjórnskipulegri ábyrgð sjútvrh. af hverju ræddi hann þá ekki við forseta lýðveldisins?)