Lögskráning sjómanna

77. fundur
Miðvikudaginn 26. janúar 1994, kl. 15:43:45 (3521)


[15:43]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil endilega taka undir orð hv. 4. þm. Norðurl. e. áðan og m.a. í framhaldi af yfirlýsingu hæstv. sjútvrh. núna áðan að það fari fram umræða um þessi mál utan dagskrár hið allra fyrsta. M.a. til þess að hægt verði að brjóta þau mál til mergjar sem hæstv. sjútvrh. fullyrti að væru af minni hálfu ekki aðeins lygi heldur líka rógur um hans embættisathafnir. Hæstv. ráðherra hefur kosið að biðja mig ekki afsökunar á þessum ummælum sem ég þó geri enn kröfu um að hann geri. Hann væri maður að meiri fyrir vikið. En ég hvet hæstv. forseta til að halda þannig á málum að það verði tími í dagskrá þingsins hið fyrsta til að fara mjög nákvæmlega yfir þessi lögskráningarmál. Hver ber ábyrgð í einstökum atriðum og getur það verið að byssurnar skjóti sjálfar?
    Svo vil ég segja það við hæstv. forseta að ég þakka honum fyrir hvernig hann hefur stýrt þessari umræðu núna. Það hefur ekki verið einfalt. Ég bendi honum og öðrum á það til umhugsunar hvort ekki er nauðsynlegt að búa til einn farveg enn til þess að menn geti fyrirvaralítið skipst á skoðunum um brýn mál án þess að menn séu ævinlega á jaðrinum í þeim þingskapaákvæðum sem menn eru að fjalla um.