Starfshættir nefnda, vinnubrögð í landbúnaðarnefnd

77. fundur
Miðvikudaginn 26. janúar 1994, kl. 15:54:25 (3525)


[15:54]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að forseti fái frekari upplýsingar um þessa óvenjulegu málsmeðferð sem hér er á ferðinni því hún er í öllu falli, besta falli liggur mér við að segja, óvenjuleg og á grundvelli þess ákvæði sem hér var vísað til um forustu hæstv. forseta varðandi starf nefnda þá held ég að það sé óhjákvæmilegt að gefa fyllri upplýsingar um hvernig þetta hefur gengið til fyrir sig.
    Í grófum dráttum er það þannig að á reglulegum fundi landbn. í gær var dreift drögum að frv. og ég hygg að allir nefndarmenn hafi verið í þeirri trú að þetta væri það frv. sem lagt yrði fram á þingi síðar sama dag og af þeim sökum væri ekki óeðlilegt að hafa það til hliðsjónar umræðunni sem fram fór um málið. Það var í því ljósi sem menn á fundi landbn. í gær gerðu ekki athugasemdir við að boðaður yrði fundur í hádeginu í dag enda gengu menn út frá því að frv. yrði fram komið og því hefði verið dreift á þinginu í gærdag. Svo gerast þau tíðindi að ekkert frv. birtist. Það er ekki til eða því hefur verið stolið eins og kunnugt er nema ef vera skyldi ætlunin að lauma því svo leynilega í gegnum þingið að það verði allan tímann ósýnilegt. Það væri eftir öðru. Síðan berast af því fréttir í fjölmiðlum að það sé meira en bara að frv. hafi ekki komið fram. Um það sé enn þá efnislegur ágreiningur í ríkisstjórn. Þetta er svo staðfest af landbrh. fyrr á þessum fundi þar sem hann talar í véfréttastíl um það að hann vonist til þess að samkomulag náist um málið á næstu dögum og frv. komist fram.
    Það voru þess vegna að mati okkar minni hlutans í landbn. strax í gærkvöldi og ekki síður í morgun brostnar forsendur fyrir því að halda þennan fund og fulltrúar stjórnarandstöðunnar töluðu saman um það og komu þeim skilaboðum til formanns. Ég hlýt þess vegna að harma það að formaður skyldi ekki taka viturlegri kostinn og fresta fundinum. Ég leyfi mér að halda því fram að þetta hafi ekki verið góður og gagnlegur fundur þegar vantaði a.m.k. helming nefndarmanna. Ég tel það mikinn galla á fundi í öllu falli.

E.t.v. er formaður mér ekki sammála um það. E.t.v. vill hann hafa fundi þannig að þar mæli allir einum rómi og séu helst allir úr sama flokki en ég er honum í öllu falli ekki sammála. Til þess að fundir nefnda Alþingis séu góðir og gagnlegir tel ég að fulltrúar allra þingflokka þurfi að vera viðstaddir.
    Ég sé í sjálfu sér, hæstv. forseti, ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð en ég held að mönnum hljóti að vera ljóst að allar undanþágur og frávik frá venjubundinni málsmeðferð hljóta að kalla á það að um slíkt sé samkomulag og það ríki góður andi samvinnu og samkomulags í störfum þingsins en það hefur ekki verið síðasta sólahring. 27. gr. þingskapanna um nefndarstarfið hefst á þessum orðum, með leyfi forseta:
    ,,Þegar máli hefur verið vísað til nefndar til athugunar tekur hún ákvörðun um málsmeðferð`` o.s.frv. Máli sem ekki er til er í öllu falli ekki búið að vísa til þingnefndar og þaðan af síður tilefni til þess að nefndin hittist og fari að ræða um málsmeðferðina og sérstaklega ekki ef um þingstörfin er bullandi ósamkomulag eins og nú er.