Viðhald húsa í einkaeign

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 15:32:05 (3585)

[15:32]
     Fyrirspyrjandi (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Það hefur orðið talsvert mikill samdráttur í byggingariðnaði sem hefur þegar leitt til vaxandi atvinnuleysis. Hugsanlegt er að þessi samdráttur í byggingariðnaði sé varanlegur og ýmis atriði benda til þess að svo geti verið. Það eru ekki vísbendingar um mikinn hagvöxt á næsta leiti. Efnahagsstöðnunin í Evrópu hefur ýtt undir breytta hegðan neytenda sem lýsir sér í því að mun meiri varfærni kemur fram í fjárfestingum en áður var. Það má gera ráð fyrir því að svipað gerist hér á landi eftir fimm ára efnahagsstöðnun og efnahagssamdrátt.
    Mikil byggingarstarfsemi á undanförnum tveimur áratugum, sem ýtt var undir með mikilli spennu á vinnumarkaði og losaralegri efnahagsstjórn, getur leitt til þess að hér verði minni eftirspurn eftir nýbyggingum á næstunni. Þá er einnig rétt að geta þess að lág verðbólga, aðhald í efnahagsstjórn og skuldsetning fyrirtækja og heimila hefur dregið úr áhuga á fjárfestingum og mun hugsanlega halda áfram að gera það. Ég vil í þessu sambandi, virðulegi forseti, geta þess að í síðasta fréttabréfi um verðbréfaviðskipti kemur fram að í atvinnuvegunum er fjárfesting orðin miklu minni en munar eðlilegum afskriftum til viðhalds fjármuna í atvinnulífinu. Það má gera ráð fyrir því að ástandið sé ekki alveg eins alvarlegt í sambandi við íbúðarhúsnæði en engu að síður bendir margt til þess að þar sé ekki heldur stundað eðlilegt viðhald.
    Áhersla liðinna áratuga á nýbyggingar hefur beint sjónum byggingariðnaðarins frá viðhaldi. Með hækkandi meðalaldri fasteigna fara viðhaldsverkefni hins vegar hratt vaxandi og eru að öllum líkindum stórlega vanrækt. Í þessu tilfelli má vitna í skýrslu sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands lét gera um viðhorf til viðhalds og nýbygginga í íbúðarhúsnæði. Þar var rætt við verkfræðinga, arkitekta, iðnaðarmenn og verktaka um skoðanir þeirra á viðhaldi húsa. Það sem vekur athygli þar er m.a. að allir þessir hópar halda því fram að viðhaldsþörf á íbúðarhúsnæði sé mjög mikil og verulega vanrækt. Einnig kemur fram í þessari skýrslu að bæði vinnulag við framkvæmdir og efnisval sé ekki sem skyldi.
    Stærsti hluti þjóðarauðsins er bundinn í fasteignum. Því hlýtur það að vera afar alvarlegt mál ef það kemur í ljós að viðhald fasteigna er vanrækt á sama tíma og í byggingariðnaðinum er mjög vaxandi atvinnuleysi. Af þessum sökum er rétt að varpa ljósi á þetta mál eftir því sem föng eru og þess vegna hef ég beint eftirfarandi fsp. til hæstv. iðnrh.:
  ,,1. Hvert er verðmæti húsa í einkaeign talið vera?
    2. Hver er eðlilegur árlegur viðhaldskostnaður þessa húsnæðis talinn vera, annars vegar innan húss og hins vegar utan húss?
    3. Hve mikill hluti verkefna byggingariðnaðarins telst vera viðhaldsverkefni, annars vegar húsnæðis í opinberri eigu og hins vegar í einkaeign?
    4. Hver var fjárfesting í nýbyggingum á síðasta ári borin saman við meðaltal áranna 1980--1990?``