Tengsl aðila við björgunaraðgerðir hérlendis

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 16:20:58 (3606)


[16:20]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að almannavarnarkerfið er býsna vel þróað og gott kerfi eftir því sem við þekkjum best. Sem betur fer hefur ekki mikið á það reynt. Í þessu tilviki mun það alls ekki hafa verið ætlun flugmanna þyrlunnar að lenda í Neskaupstað heldur ætluðu þeir að fljúga til Egilsstaða. Vegna veðurs komust þeir ekki þangað og vissu harla lítið um hvar þeir voru staddir þegar þeir lentu í Neskaupstað en ætlunin var að lenda á Egilsstöðum eins og fram hefur komið.
    Ég get ekki svarað því hvort hér var í einu og öllu farið eftir þeim reglum sem settar hafa verið í þessu efni. Ég geri ráð fyrir því að þeir aðilar sem þarna eiga hlut að máli virði reglurnar og fari eftir þeim og ljóst að yfirstjórn leitar og björgunar, sem gert er ráð fyrir að komi til starfa undir ákveðnum kringumstæðum þegar leit og björgun á sér stað, mun fara yfir ákveðna þætti og sérstaklega þá þætti sem lúta að skiptum við björgunarþyrlur varnarliðsins og björgunarsveitir á landi.
    Það hefur í auknum mæli farið fram samstarf og samvinna milli Landhelgisgæslunnar og björgunarsveita varnarliðsins og nokkuð tíðar æfingar eiga sér stað þar á milli en ugglaust er það svo að enn má bæta skipulag og upplýsingamiðlun í þessu efni. Af hálfu ráðuneytisins voru þær reglur sem hér um ræðir skoðaðar á nýjan leik og í sjálfu sér eru þær þess eðlis að þær þurfa jafnan að vera í skoðun. Ekki þótti ástæða á þeim tíma til frekari breytinga þar á en að mínu mati er mjög mikilvægt að þessir aðilar og dómsmrn. séu mjög vakandi um það hvernig framkvæmd þessara reglna reynist og séu þá tilbúnir til þess á hverjum tíma að koma við betra skipulagi og betri reglum ef nauðsyn þykir krefja.