Olíugjald í stað þungaskatts á dísilbíla

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 16:34:14 (3610)


[16:34]
     Fyrirspyrjandi (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegur forseti. Ég verð eiginlega að lýsa vonbrigðum mínum yfir því hvað þetta mál virðist ætla að þvælast lengi áður en menn fá einhverja lausn. Kannski fer það svo að ekki verði gengið í að leysa þetta mál fyrr en svo verður komið, sem vel getur orðið, að það verði að gera það af tæknilegum ástæðum einfaldlega vegna þess að mælar til þess að mæla kílómetratölu verði ekki lengur fáanlegir eða svo dýrir að þeir verði illkaupandi. En það mun gerast og er bein afleiðing af því ef við förum að vera nánast eina þjóðin sem er með þetta kerfi áfram.
    Virðulegur forseti. Ég er viss um að þeim flutningabílstjórum sem nú eiga í harðri samkeppni og eru að slást í undirboðum við óprúttna aðila sem ekki fara að reglum mun finnast langt að bíða til annarra áramóta. Þeim mun finnast það langur tími. Það er lítið farið að skila sér í þeim svokölluðu hertu aðgerðum sem nú eiga að vera í gangi. Þó nánast borðliggjandi sannanir séu fyrirliggjandi virðist málunum ekkert vera fylgt eftir af hálfu ríkisins.
    Ég verð því, virðulegi forseti, að lýsa því yfir að ég varð fyrir hálfgerðum vonbrigðum með þau svör sem hér hafa komið fram. Ég hafði vænst miklu afdráttarlausari yfirlýsinga frá ráðherranum um þetta, m.a. með tilliti til þess sem hæstv. ráðherra hefur svarað þegar ég hef spurt hann að þessu tvö sl. ár. Það voru miklu afdráttarlausari svör en þau sem við höfum fengið í dag.