Innflutningur á landbúnaðarvörum

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 13:50:35 (3630)


[13:50]
     Ólafur Ragnar Grímsson:
    Virðulegi forseti. Hæstv. landbrh. kvaddi sér hér hljóðs til að eyða misskilningi. Það var ekki misskilningur sem hafði komið fram hjá þeim þingmönnum sem hér hafa talað, það var misskilningur hæstv. utanrrh. Ræða hæstv. landbrh. hér áðan var ágæt staðfesting á þeim grundvallarágreiningi sem ríkir innan ríkisstjórnarinnar í þessum málum. Með ræðu hæstv. landbrh. féllu ómerk öll þau orð sem sett hafa verið fram, bæði í síðustu viku, yfir helgina og í byrjun þessarar viku um að málið væri í höfn. Það var greint frá því í fjölmiðlum um helgina að samkomulag hefði náðst. Það var sagt að beðið væri heimkomu forsrh. til að staðfesta samkomulagið. Forsrh. hefur senn verið á landinu í tvo sólarhringa og málið er enn þá greinilega í hnút. Hæstv. landbrh. kemur hér í byrjun hverrar viku og lýsir því yfir að vonir standi til að málið komi fram næstu daga.
    Það ber að þakka hæstv. landbrh. fyrir að hafa flutt þá stuttu ræðu sem hann flutti áðan til að staðfesta ágreining sinn við hæstv. utanrrh. Ágreiningurinn snýst greinilega um jöfnunargjöldin. Þar með snýst hann um forræði landbrh. á jöfnunargjöldunum og það svokallaða samkomulag sem þjóðin og þingheimur hefur talið að hafi verið gert innan ríkisstjórnarinnar í málinu. Það hefur þess vegna komið hér alveg skýrt fram í dag að ekkert samkomulag er í ríkisstjórninni um þetta mál og þá er ekkert annað að gera stjórnarfarslega í málinu en að þingið skeri úr og þess vegna er sú beiðni rökrétt sem hér hefur komið fram að það frv. sem liggur fyrir þinginu verði tekið fyrir þegar í stað.