Lyfjalög

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 15:35:13 (3644)


[15:35]
     Árni M. Mathiesen :
    Hæstv. forseti. Íhaldssemin virðist ráða ríkjum í málflutningi hv. stjórnarandstöðu í þingsölum í dag og finnur hún frv. hæstv. heilbrrh. flest til foráttu. Ég verð þó að segja að þetta frv. er jákvætt og spor í rétta átt hvað varðar lyfjaþjónustu hér á landi. Það er auðvitað alveg rétt sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði í sinni ræðu hér rétt á undan mér að lyf eru engin venjuleg markaðsvara, þau eru auðvitað að mestu leyti seld gegn ávísunum lækna. En þegar búið er að skrifa út ávísunina þá eiga þau að geta lotið flestum þeim lögmálum sem markaðsvörur lúta og við eigum að nýta okkur markaðinn og lögmál hans til að ná þessari vöru á sem lægstu verði og fá hana afgreidda á sem hagkvæmastan hátt.
    Þó ég telji að þetta frv. sé jákvætt og spor í rétta átt þá tel ég að það sé ekki nægjanlega langt gengið til þess að við getum nýtt okkur jákvæða þætti markaðarins. Til þess eru enn þá of miklar hindranir í þessu frv. og þá á ég sérstaklega við þá kafla sem varða heimild til rekstrar á lyfjabúðum. Ég tel að það sé óskynsamlegt að binda leyfisveitinguna við lyfsala, að þeir einir geti fengið lyfsöluleyfið og að lyfsöluleyfið fylgi lyfsölunum. ( IP: Bæta hestamönnum kannski við.) Ég tel að það væri skynsamlegt að það væri hverjum og einum heimilt sem uppfyllir svipuð skilyrði og gert er ráð fyrir í frv. þessu um lyfjaheildsölu að stofna og reka lyfsölubúðir og eins og segir um lyfjaheildsölurnar, hafa þá í þjónustu sinni lyfsala og uppfylla önnur þau skilyrði sem þar koma fram. Ef þetta væri eins og ég er að nefna, þá mundi það að sjálfsögðu taka til hestamanna eins og annarra, eins og hv. þm. frú Ingibjörg Pálmadóttir stakk upp á hér í frammíkalli.
    Ég held að ef við bindum lyfsöluleyfið við lyfsalann þá sé ákveðin hætta á því að það geti orðið fjölgun á litlum lyfsölum, sérstaklega á þéttbýlissvæðunum, og þar af leiðandi verði ekki til að dreifa þeirri hagkvæmni sem við mundum ná með stærri einingum og þá sérstaklega einingum sem tengdust annarri verslun að einhverju leyti og þar með næðist fram lækkun á föstum kostnaði við rekstur lyfjabúða vegna samrekstrar við hugsanlega aðra verslun. Þetta ætti ekki að þurfa á neinn hátt að rýra það öryggi sem nú er á þjónustu lyfsölubúða, en ætti að þjóna þeim tilgangi að lækka verð á lyfjum.
    Ég tel að verð á lyfjum ætti að vera frjálst eins og á öðrum vörum á innlendum markaði en það getur oft verið skynsamlegt að fara varlega þegar gerðar eru stórar og miklar breytingar og sú tillaga sem lögð er fram í þessu frv. um hvernig haga skuli verðlagningu er út frá því sjónarmiði skynsamleg og get ég þá tekið undir hana.
    Í umræðum um frv. sama efnis á síðasta þingi gagnrýndi ég það þar sem fjallað er um göngudeildarþjónustu og lyfsölur tengdar sjúkrahúsum og göngudeildum, að þar væri ekki nægjanlega fast að orði kveðið hvað varðar útboð á rekstri þessarar þjónustu. Það ætti ekki einungis að vera heimilt að bjóða rekstur þessarar þjónustu á spítölum út heldur ætti það að vera skylda. Því miður hefur ekki orðið breyting á þessu í þessum kafla eins og ég hafði vonað en hins vegar hefur önnur breyting verið gerð á frv. og er hún um það að rekstur lyfjabúða göngudeilda sjúkrahúsa skuli vera aðskilinn reikningslega frá öðrum rekstri sjúkrahússins og tel ég það vera til mikilla bóta.
    Ég hef athugasemdir við nokkur önnur atriði og þá vil ég nefna sérstaklega 11. gr. sem er fyrsta grein V. kafla þar sem lyfjafræðingum er heimilt að afhenda lyf í minnstu pakkningu án lyfseðils í neyðartilfellum. Ég efast um gildi þessarar greinar og efast mjög um það að sú staða eigi yfirleitt að koma upp að sjúklingur nái í lyfjabúð en ekki í lækni. Ég held að þessi grein ýti undir það að fólk reyni að fara fram

hjá læknum til þess að nálgast lyfin og það ætti ekki að kveða á um slíkt leyfi í þessum lögum. Ef það er tilfellið að það er auðveldara fyrir sjúklinga að ná til lyfsalanna og í lyfjabúðirnar heldur en að ná til læknanna þá hlýtur lausnarinnar á því vandamáli að vera að leita annars staðar heldur en að veita lyfsölunum leyfi til þess að afhenda lyfin án lyfjaávísunar, þá verðum við að gera róttækar breytingar á skipulagi heilbrigðisþjónustu okkar hér á landi og bið ég hæstv. heilbrrh. og hv. nefnd að skoða þetta í þessu ljósi.
    Ég hef skoðað þessa grein út frá þeirri grein lækninga sem ég þekki best sem dýralæknir og ég á afar erfitt með að ímynda mér þau tilfelli þar sem sjúklingur eða eigandi sjúklings væri fær um að notfæra sér þau lyf sem hann gæti fengið hjá lyfjafræðingnum án þess að til kæmu leiðbeiningar dýralæknis. Þá er ég ekki að tala um lyf eins og bóluefni sem er reyndar ekki lyf og ekki notað í neyðartilfellum og bændur eiga að hafa fyrirhyggju um að kaupa áður en þeir þurfa á þeim að halda.
    Í þessum kafla er einnig kveðið á um það að landlæknir eigi að hafa eftirlit með lyfjaávísunum lækna og afhendingum lyfjafræðinga á lyfjum í neyðartilfellum. Ef svo ólíklega mundi fara að hæstv. ráðherra og hv. nefnd tæki ekki tillit til ábendinga minna í þessu tilfelli þá held ég að í öllu falli sé landlæknir alls ekki rétti aðilinn til þess að hafa eftirlit með þeim lyfjum sem lyfjafræðingar afhenda til notkunar í tilfellum dýra. Auðvitað ætti yfirdýralæknir að hafa eftirlit með slíkum afgreiðslum lyfjafræðinga.
    Það kom fram í ræðu hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur einhver reginmisskilningur á því hvernig sölu á dýralyfjum er háttað. Það er öllum lyfjabúðum heimilt að selja dýralyf. Það er hins vegar rétt að héraðsdýralæknar hafa leyfi til þess að selja dýralyf og reka nánast dýraapótek og í mörgum tilfellum er litið á það sem nokkurs konar launauppbót. Ég tel að lyfsala lækna, og þar með talið dýralækna, sé óeðlileg. Fjárhagsleg tengsl lækna við lyfsöluna eru óeðlileg og eiga ekki að eiga sér stað. Það á enginn læknir að vera settur í þá stöðu þegar hann er að ávísa á lyf eða ákveða hversu langur lyfjakúr eigi að vera að hann fari að hugsa til þess hvernig staðan sé á ávísanareikningnum hjá honum og ættum við því að forðast slíkt. Ég tel að þetta frv. leggi ákveðnar línur í þeim málum. Ekki er gert ráð fyrir því hér að dýralæknar reki lyfjaverslanir heima hjá sér en hins vegar er tekið tillit til þess hvernig háttar um landbúnað hér á landi. Hann er dreifður vítt um sveitir og dýralæknar þurfa auðvitað að hafa lyf til þess að nota í sínum vitjunum og til þess að bændur geti notað í eftirmeðferðinni sem þar á eftir fylgir.
    Það komu fram ýmis sjónarmið hjá stjórnarandstöðunni og fannst mér þau flest vera á þá leið að það gæti þurft einhverjar breytingar í dreifingu lyfja og sölu á lyfjum en það væru breytingar sem einhverjir aðrir en þeir sem á lyfinu þurfa að halda væru færastir um að ákvarða. Eins og hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir sagði þá gæti vel verið að það þyrfti að fjölga eitthvað apótekum í Reykjavík en það yrði að gerast án þess að það verði kaos. Og hún ætlar auðvitað sjálf að dæma um það hvort um kaos er að ræða þegar apótekunum fer að fjölga.
    Ég held að aukið frjálsræði í þessum viðskiptum leiði til þess að sjúklingurinn sem á lyfjunum þarf að halda, sem er þá viðskiptavinur í sama tilfelli, hafi mest um það að segja hvar hann fær bestu þjónustuna, hvar hann fær hagkvæmasta verðið og beinir þá sínum viðskiptum þangað. Það tel ég vera eðlilegu leiðina til þess að ákvarða hversu mörg apótek við þurfum og hvar þau eiga að vera og hvers konar annars konar starfsemi þau gætu tengst.
    Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir las upp úr dönskum þingtíðindum og út af fyrir sig var það mjög athyglisverð lesning og hugsanlega getum við rætt þann lestur nánar á milli umræðna en þrátt fyrir það að lesturinn hafi verið athyglisverður þá hafa Danir auðvitað engan einkarétt á því að hafa rétt fyrir sér í þessu máli frekar en öðrum. Og það eru fleiri en Danir sem hafa verið að endurskoða þessi mál hjá sér að undanförnu, m.a. Svíar sem fram að þessu hafa byggt á svipuðu kerfi og hv. þm. Finnur Ingólfsson talaði hér fyrir og hefur held ég reyndar einhvern tímann flutt þingmál um. Þær upplýsingar sem ég hef bestar um fyrirætlanir Svía á breytingum á þessu kerfi eru að þeir hugsa sér að breyta kerfinu í svipaða átt og hæstv. heilbrrh. er að leggja til að við gerum hér á landi.
    Ég hef ákveðnar athugasemdir við þetta frv., ég tel þó að það sé í rétta átt og mun því styðja frv. þrátt fyrir athugasemdirnar.