Lyfjalög

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 16:46:10 (3665)


[16:46]
     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það deilir enginn um það hér að markmið frv. er ágætt. En við náum ekki markmiði frv. eins og það kemur fyrir af kúnni. Það er alveg ljóst. Mig langar t.d. að spyrja hæstv. ráðherra hvað það sé í þessu frv. sem geti vakið vonir manna um lækkun lyfjakostnaðar. Hvað er það? Það er hvatt til aukins tilkostnaðar í þessu frv. með mikilli fjölgun lyfjabúða. Ég veit að í sambandi við innflutninginn getur verið eitthvað óhagkvæmt en markaðurinn ætti ekki að aukast mjög mikið og við verðum að skoða það að markaðurinn er ekki stór á Íslandi. Og við getum ekki ætlast til að lyfjaverð verði það sama á Íslandi og í löndum milljónaþjóða. Því breytum við ekki með þessu frv. Við verðum að horfast í augu við það. Þannig að mér finnst að verið sé að vekja falskar vonir hjá sjúklingum með þessu frv.
    Hæstv. ráðherra talaði um að þetta kvótakerfi væri óþolandi. Ég get vel skilið hann, þetta kvótakerfi er erfitt varðandi þessi lyfsölumál. En vill hæstv. ráðherra heldur fá þetta erfðakerfi? Þetta frv. er þannig lagað svo ég einfaldi málið að væri ég t.d. prestur á Akranesi og dóttir mín eða sonur væri prestur þá gæti hann erft embættið. Það er þannig í þessu frv. að eigi apótekari lyfjafræðing fyrir son eða dóttur þá erfir hann embættið. Er það betra en kvótakerfið? Það er sem sagt ekki það faglega sem fær að ráða í þessu. Hæstv. ráðherra segir að þarna sé verið að bæta aðgengi að lyfjum. Ég spyr hæstv. ráðherra: Fyrir hverja er verið að bæta aðgengið? Fyrir hverja? Það er alveg ljóst að það er sóst eftir því að það verði margar lyfjaverslanir í stórmörkuðum. En það er ekki verið að bæta aðgengið almennt að lyfjum. Það er rangt.