Lyfjalög

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 16:56:12 (3672)


[16:56]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Mér finnst betra að fá að nýta mér þann rétt minn að taka aftur til máls en tala í andsvari.
    Það kom fram í ræðu hæstv. heilbr.- og trmrh. áðan að hann var mjög hissa yfir því hversu mikinn stuðning núverandi kerfi hefði. Ég get ekki greint það af ræðum manna fyrr í þessari umræðu að menn hafi verið með sérstakar stuðningsyfirlýsingar við gildandi kerfi í lyfsölu og lyfjadreifingu. Síður en svo. Staðreyndin er hins vegar sú, og það tek ég undir með hæstv. ráðherra, að þar má ýmsar breytingar á gera. Ég er sannfærður um að þar er hægt að hagræða mjög og spara. Aftur á móti held ég að þetta frv. eins og það liggur nú fyrir frá ríkisstjórnarflokkunum muni ekki leiða til þess sparnaðar og þeirrar hagræðingar sem menn ætlast til að ná með þeim skipulagsbreytingum sem þar eru boðaðar.
    Hæstv. ráðherra kvartaði yfir því að ekki væru neinar tillögur fyrirliggjandi frá einstökum flokkum eða einstökum hv. þm. um það hvað menn vildu gera í þessum efnum. Ég vil benda hæstv. ráðherra

á að á 115. og 116. löggjafarþinginu lagði stærstur hluti þingflokks framsóknarmanna fram frv. til laga um lyfjadreifingu og lyfsölu sem var vísað til hv. heilbr.- og trn. en kom þar ekki til vinnslu. Í því frv. eru lagðar til ákveðnar leiðir í lyfsölu og lyfjadreifingu. Það frv. gerir hins vegar ráð fyrir grundvallarefnisbreytingum á innflutningi lyfja til landsins.
    Ég er sannfærður um að aðalsparnaði má má í auknu magni, stærri innkaupum til landsin. Þetta frv. sem er til umfjöllunar frá ríkisstjórnarflokkunum gerir hins vegar ráð fyrir, eins og hæstv. heilbrrh. viðurkenndi áðan í umræðunni, fleiri innflytjendum. Fleiri innflytjendur kalla að mínu viti á minni lyfjakaup hverju sinni og minni lyfjakaup þýða að verðið verður hærra. Samkeppnin mun ekki myndast sem hæstv. ráðherra er að boða í innflutningnum, því miður, heldur einfaldlega leiða til þess að verðið verður hærra.
    Í frv. okkar framsóknarmanna er einnig gert ráð fyrir ákveðnum breytingum í lyfjadreifingunni. Það er ekki gert ráð fyrir því að leggja niður núverandi lyfsalakerfi. Það er gert ráð fyrir að þeir geti starfað áfram. Það er hins vegar gert ráð fyrir talsverðum breytingum þar á, m.a. til þess að tryggja jafna lyfjadreifingu um allt land sem m.a. annars felst í því að gefa stjórnum heilsugæslustöðva kost á því að sjá um lyfsölu á þeim stöðum þar sem lyfsalar treysta sér ekki til að setja upp eða koma á fót lyfsölustöðum. Kjósi þeir það gæti hugsanlega verið að stjórn heilsugæslustöðvarinnar með sína lyfsölu væri í samkeppni ef verðinu væri haldið niðri. Þar eru því boðaðar breytingar og því óþarfi fyrir hæstv. heilbr.- og trmrh. að vera að kvarta yfir því að ekki liggi fyrir tillögur um það hvaða breytingar menn vilja gera. Við þingmenn Framsfl. erum sannfærðir um að það er hægt að ná hundruð milljóna króna sparnaði bara með þeim breytingum sem þar eru lagðar til.
    Fyrir utan það, og það kom ég inn á í minni fyrri ræðu, að í þeirri norrænu skýrslu sem ég hef vitnað í er gert ráð fyrir og gengið út frá því að lyfjakostnaður á Íslandi hafi lækkað um 6% milli áranna 1989 og 1991. Það var ekki af því að það væri verið að gera einhverjar grundvallarbreytingar á lyfsölu- og lyfjadreifingarkerfinu hér heldur þvert á móti. Það var gripið til aðgerða innan núverandi kerfis sem m.a. fólust í því, og það vil ég aftur árétta, að álagning í heildsölu var lækkuð úr 15% í 13,5%. Það er ekkert í núgildandi kerfi sem stendur í vegi fyrir því að menn lækki þá álagningu. Menn þurfa engar breytingar að gera á heildarlöggjöfinni til þess að geta lækkað álagninguna. Það þarf engar grundvallarbreytingar að gera til þess að lækka smásöluálagninguna sem lækkaði á árunum 1989--1991 úr 70% niður í 59%. Það þarf engar breytingar að gera á lyfjalöggjöfinni til þess að láta stóru apótekin sem eru með mestu veltuna greiða ákveðinn hluta af sinni veltu aftur til baka til Tryggingastofnunar ríkisins. Allt þetta ásamt því að það var gefinn út bestukaupalisti. Það var hvati af hálfu opinberra aðila til lækna og sjúklinga að nýta sér þann möguleika sem fólst í því að fá lyfin ódýrari ef jafnan væri ávísað á ódýrasta lyf.
    Þetta er allt saman hægt að gera og þetta eru hlutir sem spöruðu hundruð milljóna króna á þeim tíma. Og ef menn halda áfram á þessari braut þá geta menn sparað þar enn til viðbótar.
    En ég tek undir með hæstv. ráðherra að það er líka nauðsynlegt að gera breytingar á núverandi kerfi. En fyrst og fremst þurfa þær breytingar að snúa að innflutningnum og álagningunni innan lands vegna þess að verðmismunurinn heima og erlendis liggur fyrst og fremst í því að álagningin er miklu meiri hér en t.d. í Danmörku og að mínu viti a.m.k. er innkaupsverðið hærra hingað en á hinum Norðurlöndunum.
    Niðurstaðan af því frv. ríkisstjórnarinnar sem er til umfjöllunar er hins vegar sú, nái það fram að ganga, að það er verið að leiða yfir okkur dýrasta kerfi í Evrópu sem er þýska kerfið. Þar er samkeppnin mjög mikil og þar er eitt hæsta lyfjaverð í allri Evrópu, einmitt á þeim stað þar sem samkeppnin á að vera nógu mikil til að lækka lyfjaverðið. Af hverju hefur lyfjaverð ekki lækkað í Þýskalandi þar sem samkeppnin hefur verið til staðar? Hæst lyfjaverð í Evrópu. Af hverju hefur það ekki lækkað? Þessum spurningum hefði sú ágæta nefnd sem skoðaði málið milli þinga þurft að svara. Af hverju hefur samkeppnin t.d. í Þýskalandi ekki leitt til þess að lyfjaverðið er það lægsta þar í Evrópu heldur það hæsta?
    Á hinn bóginn erum við einnig að leiða yfir okkur óhagkvæmasta kerfið í Asíu sem er japanska kerfið. Við erum með því hvernig við ætlum að leyfa fjölgun lyfjabúða að opna fyrir þann möguleika að gefa læknum kost á því að eiga lyfjaverslanir að öllu leyti en vera með lyfjafræðinga í sinni þjónustu þannig að þeir hafi beinan hag af því að ávísa á dýrustu lyfin og ná sem mestri veltu í apótekinu svo hagnaður þeirra sé sem mestur. Þá erum við komnir með dýrasta kerfi sem þekkt er í Asíu: Það japanska. Ef þetta frv. nær fram að ganga erum að leiða yfir okkur tvö óhagkvæmustu kerfin sitt í hvorri heimsálfunni. Hvers eigum við að gjalda í þeim efnum?