Lyfjalög

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 17:05:25 (3673)


[17:05]
     Geir H. Haarde (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er kannski ekki alltaf einhlítt hvenær lyfjaverð er hátt og hvenær það er lágt, þ.e. í hvaða löndum það er hátt og hvaða löndum það er lágt. Það var nefnt sem dæmi fyrr í umræðunni að lyfjaverðið væri mjög lágt í Portúgal og það væri vegna þess, sagði að hv. þm. Framsfl. Ingibjörg Pálmadóttir, að Portúgalar væru svo margir og miklu fleiri en við. Ég hygg nú ekki að það sé ástæðan. Ég held að lyfjafyrirtækin skipti heiminum upp í markaðssvæði og miði fyrst og fremst við kaupgetu á hverjum stað, þ.e. hvað geta þau fengið mest fyrir sín lyf. Þetta eru fyrirtæki sem hámarka sinn hagnað og skipta þar af leiðandi sínum viðskiptum upp eftir markaðssvæðum að því leyti til og selja ekki endilega sömu vöruna á sama verði til allra markaðssvæða. Kannski er það að einhverju leyti skýringin á því, hv. þm. Finnur Ingólfsson, hversu lyfjaverð er hátt í Þýskalandi að þar er mjög mikil kaupgeta.
    En ég vil vekja athygli á því að hv. þm. svaraði ekki þeirri spurningu sem ég beindi til hans áðan. Var hann að leggja til í andsvari við mig hér áðan að það yrði sett hámarksverð á lyf sem seld eru án lyfseðils með sama hætti og gert er ráð fyrir í 40. gr. frv. um lyfseðilsskyld lyf? Ég held að það væri ágætt að það kæmi fram ef hv. þm. er að gera slíka tillögu. Það gæti verið framlag í nefndarstarfið eins og ég benti á áðan.