Lyfjalög

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 17:15:14 (3678)


[17:15]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé enn og aftur ástæða til að árétta það fyrirkomulag sem við búum við í þessum efnum. Nú greiðir ríkið 70% af kostnaði við lyfjaverð. Hins vegar standa að þessari þjónustu einkaaðilar en samkvæmt ákveðnu tilteknu skömmtunarkerfi sem ríkið hefur með höndum. Það er uppbrot á þessu fastmótaða og niðurnjörvaða kerfi sem verið er að taka. Það er auðvitað ekki hægt að halda því fram með neinum rökum að hér sé verið að koma á fullkomnu frelsi í þessum efnum. Hér er verið að koma ákveðnum nýjum skikk þar sem reynt er að laða fram ákveðna samkeppni sem sannanlega í öllum viðskiptum hefur leitt til lækkunar á verði vöru, hvort heldur það er vara á sviði heilbrigðisþjónustu eða á sviði annarrar þjónustu. Ég veit og það er vafalaust hægt að finna dæmi um það annars staðar í öðrum löndum að uppstokkun og endurbætur á dreifingar- og sölukerfi af þessum toga hafi leitt til minni tilkostnaðar. Ég held að það sé ekki nokkur spurning án þess að ég hafi það handbært á einu augnabliki í þessari umræðu.
    Hér hefur verð lyfja með réttu verið ákveðinn rauður þráður í þessum efnum og þar kemur fram auðvitað að Ísland skagar upp úr. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að taka á áhyggjuefni hv. þm. Finns Ingólfssonar um að þess sé ekki að vænta að verð lækki á innflutningsstigi með samhliða innflutningi þar sem þeim aðilum fjölgi sem að slíkum innflutningi standa og þá minnki hugsanlega þær einingar sem inn kunna að koma í einni og sömu sendingunni. Ég held að þetta sé alrangt. Ég held að það sem meira máli skiptir þarna sé það frelsi sem skapast með EES að fá að velja sér það land sem við kaupum af. Það er kannski veigaþyngsti þátturinn á frumverðmyndunarferli við hina endanlegu álagningu á útsöluverði lyfja.