Húsnæðisstofnun ríkisins

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 18:15:12 (3685)


[18:15]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hæstv. félmrh. hefur svarað því sem ég spurði um áðan að ekki væri fyrirhugað að fara með fjármagn byggingarsjóðanna á erlendan markað en enn er þó eftir að fá svör við því hvers vegna verið er að rýmka þetta þar sem ekki er hægt að sjá það í fljótu bragði að þessir sjóðir geti ávaxtast betur í öðrum lánastofnunum en Seðlabanka Íslands. Þar hlýtur öryggi sjóðanna líka að vera hvað mest. Það má því heita nokkuð undarlegt að það sé verið að fara fram á þetta hér með sérstökum lagabreytingum.
    Ég vildi annars frekar gera að umtalsefni 3. og 4. gr. um að nú sé hægt að veita félagsleg íbúðalán til lögbýla í gegnum sveitarfélög. Það hefur verið rakið á undan mér sumt af því sem ég hafði tekið eftir af hv. 5. þm. Vestf. en einmitt í ljósi þess sem kom fram í hans máli þá virðist mér að hér sé verið að setja upp millilið sem geti valdið þeim sem situr síðan hugsanlega í þessu húsnæði miklum erfiðleikum og þarna sé verið að breyta tilhögun með félagslegt íbúðarhúsnæði þannig að þetta sé þeim sem býr

í húsnæðinu mjög í óhag.
    Ég held að það þurfi mjög nákvæmrar skoðunar við hvort það ákvæði sem hér er verið að breyta í sambandi við félagslegar íbúðir sé ásættanlegt. Það er mjög sérkennilegt að sveitarfélagið eigi að bera ábyrgð á þessu með öllum sínum eignum en jafnframt gilda ekki um sveitarfélagið ákvæði þessara laga um kaupskyldu og forkaupsrétt sveitarfélaga á eigninni. En sveitarfélagið á að standa algerlega ábyrgt fyrir lánum til þessara bygginga. Mér finnst þarna stangast á. Ég verð að játa það. Og mér sýnist þessi ákvæði sem hér eru sett upp geti orðið til þess að bæði kaupendur hugsi sig um oftar en tvisvar og einnig hitt að sveitarfélög telji sig naumast geta tekið á sig þessa ábyrgð.
    Í athugasemdum við lagafrv. er mikið rætt um að hugsanlegt sé að þetta einnig vegna heilsuspillandi húsnæðis á lögbýlum sem, eins og hér segir, hafi komið í ljós að leynist víða í sveitum landsins. Aftur á móti var afnumið með lögum frá 1990 um félagslegar íbúðir að veita sérstök lán til útrýmingar á slíku húsnæði. Og mér sýnist þá frekar eðlilegra að taka aftur upp það ákvæði sem var í lögunum um sérstakar lánveitingar til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði heldur en búa til einn nýjan lánaflokk sem líklega verður að mörgu leyti erfiður í framkvæmd bæði fyrir sveitarfélög og þá sem hugsanlega kaupa.
    Þarna er líka verið að breyta því sem er í lögunum í dag að endurskoðun fari fram eftir 3 ár eða 5 ár á fjárhagslegri stöðu þeirra sem kaupa íbúðir í þessu kerfi af Byggingarsjóði verkamanna og hvort þeirra fjárhagsstaða hafi batnað þannig að þeir eigi að taka á sig hærri vexti. Þarna er líka verið að setja upp nokkuð ógreiða leið að því að fylgja þeim ákvæðum eftir ef við skoðum það.
    Hins vegar vil ég lýsa því yfir um 5. gr. að ég tel að þar sé verið að bæta fyrir afglöp sem gerð voru við breytingu á ákvæðum um skyldusparnað á síðasta þingi. Ég tel að þar sé verið að fara inn á rétta braut sérstaklega hvað varðar námsmenn. Ég veit t.d. um námsmenn sem eru í þeirri aðstöðu að foreldrar þeirra hafa misst vinnu og geta þar af leiðandi ekki aðstoðað þá við byrjun í námi þar sem lánasjóðurinn kemur ekki inn heldur fyrr en eftir á. Þeim hefur verið gert erfitt fyrir að hefja nám. Þeir hafa ekki aðstoð foreldra og geta ekki notað það fjármagn sem þeir eiga inni í skyldusparnaði vegna þess að það hefur verið þeim lokað. Og námsmönnum finnst auðvitað mjög erfitt að sætta sig við að þeir skuli eiga kannski milljón í skyldusparnaði í Húsnæðisstofnun en geti ekki notað hana til þess að fjárfesta í sínu námi og ná ekki þeim peningum út og bæði námsmenn og foreldrar hafa verið ósáttir við þessa skipan mála. Ég vænti þess að þetta verði þannig til að leiðrétta það a.m.k.
    Ég held að þetta frv. þurfi að skoðast vel, sérstaklega ákvæðin um Byggingarsjóð verkamanna sem hér er verið að breyta og ég vænti þess að það verði skoðað vel og vandlega í félmn.