Húsnæðisstofnun ríkisins

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 18:58:24 (3692)


[18:58]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég harma að ekki sé von á að orðið verði við óskum húsnæðismálastjórnar um flutning á lagabreytingartillögum af hálfu hæstv. félmrh. Það hefur t.d. verið beðið eftir því að lögum yrði breytt hvað varðar almennu kaupleiguíbúðirnar en ákvæðið eins og það er í dag, með tvískiptum lánum þar sem annað lánið er til mjög skamms tíma eða aðeins fimm ára ef íbúð er keypt, hefur verið afar bagalegt. Ég harma það ef hæstv. ráðherra hyggst ekki verða við ósk um það á þessu þingi, sérstaklega í ljósi þess að það var notað sem röksemdafærsla fyrir því á síðasta þingi að taka ekki þessar óskir til umræðu og afgreiðslu að von væri á heildarendurskoðun af hálfu ráðuneytisins.
    Ég ítreka að það er að mínu viti nægjanlegt og hefði fyrir löngu verið hægt, ef vilji hefði verið fyrir hendi, að afgreiða það frv. sem liggur fyrir á þskj. 4 og var líka fyrirliggjandi á síðasta þingi. Ég er ekki viss um það hins vegar að sú leið sem lögð er til í frv. hæstv. ráðherra dugi að öllu leyti eins og ætlast er til þó það sé auðvitað meiningin og markmiðið. En það er nú stundum svo að ekki ná menn nú alltaf markmiðum sínum og leiðin er býsna flókin og erfitt að átta sig á henni til hlítar nema með mikilli yfirlegu. En hitt liggur ljóst fyrir að það frv. sem legið hefur hér fyrir frá því á fyrstu dögum þingsins er fullnægjandi, a.m.k. í þeim tilvikum sem vitað er um.