Hafnalög

81. fundur
Miðvikudaginn 02. febrúar 1994, kl. 15:35:16 (3732)


[15:35]
     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég fagna þessari yfirlýsingu hæstv. samgrh. Hún tekur af öll tvímæli um það að hér heitir samráð það sama og samþykki, að hið háa Alþingi veiti hæstv. samgrh. heimild til þess að mynda hafnasamlög en þá verði að liggja óskorað samþykki allra viðkomandi hafnarstjórna fyrir áður en slíkt hafnasamlag er stofnað. Að hugtakið ,,samráð`` þýði samþykki í þessu tilfelli. Og ég þakka aftur hæstv. samgrh. að taka af öll tvímæli um þetta.
    Ég get tekið undir orð hans um það að mjög víða geta hafnasamlög komið að góðu gagni en það er mjög mkilvægt að frumkvæðið að slíkum hafnasamlögum eigi sér stað í heimabyggð en miðstjórnarkerfið hér í Reykjavík komi ekki til með að hafa frumkvæði fyrst og fremst og ráða síðan úrslitum jafnvel gegn vilja hafnarstjórnanna um hvort hafnasamlag verði stofnað eður ei. Þetta tel ég afar mikilvægt og þetta er líka viðkvæmt þannig að frumkvæðið liggi í heimabyggð. Þess vegna er svo mikilvægt að þetta liggi núna fyrir að hafnarstjórnirnar allar verða að samþykkja myndun slíks hafnasamfélags.