Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 14:18:45 (3758)


[14:18]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Þau frumvörp sem hér eru rædd og það frv. sem hér er á dagskrá og annað frv. sem hv. síðasti ræðumaður er 1. flm. að eiga rót að rekja til ákvarðana sem teknar voru á síðasta þingi varðandi aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði. Ég skil það vissulega að hér er verið að reyna að bregðast við þeim dómi sem felldur var af Hæstarétti nýverið og er út af fyrir sig ekki nema góðra gjalda vert að reynt sé að gera það en ég er ekki viss um að þau frv. sem hér liggja fyrir séu til þess fallin í rauninni að skera úr þeirri óvissu eins og látið er í veðri vaka. En í máli hv. þm. Jóhannesar Sigurgeirssonar hér áðan saknaði ég þess að hann tengdi þetta mál við uppsprettuna, þ.e. við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði sem er ástæðan fyrir tillöguflutningnum. Hann er hér að endurflytja með sérstöku frumvarpi frumvarp sem flutt var á síðasta þingi og sem landbn. studdi og meiri hluti var fyrir í þinginu en honum láðist að gera grein fyrir afstöðu sinni til þess sem er undirstaðan, þeirri afstöðu sem hann tók andstætt því sem 2. flm. frv. á þskj. 515 tók til samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Það var auðvitað þá sem menn áttu að bregðast við því það var augljóst í hvað stefndi. Hér er í rauninni verið að reyna að fylla í þau göt sem sköpuð voru með þeim ákvörðunum. Ég hefði talið æskilegt að hv. síðasti ræðumaður hefði gert grein fyrir afstöðu sinni til þess máls. Við komum svo síðar að GATT-samkomulaginu, (Forseti hringir.) en hann saknar þess helst að ríkisstjórnin komi sér ekki saman og treystir sér greinilega betur til þess að bæta í götin heldur en þeir ráðherrar sem nú sitja.