Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 15:26:16 (3775)


[15:26]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Tvennt hefur dregið til tíðinda að undanförnu sem varðar stöðu og skilning manna á búvörulögum. Hið fyrra er dómur Hæstaréttar og hið síðara er það samkomulag sem tekist hefur um gildistöku innan fáeinna mánaða, samkomulag sem kennt er við Úrúgvæ-lotu GATT-samninganna.
    Um hæstaréttardóminn er það að segja að hann hnekkti viðtekinni túlkun landbrn. og ýmissa annarra aðila á búvörulögunum, þ.e. hann hnekkti þeirri skoðun að ákvæði í búvörulögum hefðu sjálfstætt gildi og veittu með sjálfstæðum hætti heimild til banns í hendur Framleiðsluráði landbúnaðar og eftir atvikum landbrh. á innflutningi búvara. Af því hefði leitt að innflutningur hefði verið ekki einasta frjáls heldur eins og menn hafa orðað það hömlulaus, þ.e. það hefðu heldur ekki verið tryggar heimildir fyrir álagningu verðjöfnunargjalda.
    Þegar sagt er að tilefni þessa frv. sé að bregðast við þessu og koma aftur á óbreyttu ástandi, þá er það sem menn eiga við að þeir vilji að ástandið verði til skamms tíma, þar til GATT tekur gildi, hið sama og samkomulag varð um með breytingu á búvörulögum fyrir jólin á síðasta ári.
    Að því er varðar GATT-samkomulagið er út af fyrir sig margt um það að segja. Þar til fyrir skömmu töldu menn að það mundi ekki taka gildi fyrr en um mitt næsta ár. Nú eru aftur taldar auknar líkur á því að gildistaka þess verði um áramót, þ.e. í upphafi árs 1995. Það gerbreytir að sönnu grundvallarreglum um viðskipti með landbúnaðarvörur, bæði að því er varðar okkur Íslendinga sem og aðrar þjóðir. Íslendingar hafa haldið uppi verndarstefnu í þessum málum sem hefur aðallega byggst á tvennu, bannheimildum og svo hins vegar leyfisveitingarvaldi. Þetta hvort tveggja með gildistöku GATT-samningsins. Þegar hann er kominn í gildi verður ekki um að ræða að stjórnun á viðskiptum með landbúnaðarvörur byggist á banni eða leyfisveitingarvaldi. Hvort tveggja fellur úr gildi og breytir engu jafnvel þótt þessi ákvæði stæðu áfram í lögum sem hins vegar er ekki gert ráð fyrir vegna þess að partur af því samkomulagi sem gert var fyrir jólin var að forsrh. muni skipa nefnd fulltrúa fimm ráðuneyta til þess að endurskoða innflutningslöggjöfina í ljósi þeirra skuldbindinga sem við höfðum tekist á herðar með GATT. Af þessu tvennu, hæstaréttardómnum og svo GATT-samkomulaginu leiðir að það þarf að bregðast við því millibilsástandi sem hugsanlega gæti staðið í 11 mánuði þar til viðskiptin verða frjáls og þar vilja báðir stjórnarflokkarnir standa við það samkomulag sem gert var fyrir jólin. Með öðrum orðum, þrátt fyrir hæstaréttardóminn muni gilda um næstu 11 mánuði það samkomulag sem þá tókst. Það var eins og menn muna fyrst og fremst í því fólgið að gerðar voru breytingar á búvörulögunum sem tryggðu að landbrh. hefði lagaheimild til að standa við skuldbindingar milliríkjasamninga um að heimila innflutning, jafnframt að heimildir væru til þess að leggja á verðjöfnunargjöld eins og þar er nánar kveðið á um, hráefnisþátt innfluttra vara sem eru í samkeppni við innlenda framleiðslu eftir nánari ákvæðum og þá vísað til sérstakrar samráðsnefndar og málskoti til ríkisstjórnar og að lokum forsrh. ef ágreiningur rís af slíkum málum. Þetta lagafrv. er með öðrum orðum til að koma á óbreyttu ástandi til skamms tíma. Óbreytt ástand vísar til laganna frá því fyrir jól en út frá sjónarmiði framleiðenda og neytenda, sem er nú aðalatriði þessa máls, er ljóst að það sem þá var bannað verður áfram bannað í innflutningi. Það sem þá var frjálst verður áfram frjálst í innflutningi og það sem þá var frjálst í innflutningi og bundið ákvæðum um verðjöfnunargjöld verður svo áfram. Með öðrum orðum, eins og landbrh. hefur lagt áherslu á er þess ekki að vænta í framhaldi af þessu að um sé að ræða neinar verðbreytingar sem muni verða íþyngjandi fyrir almenning í landinu.
    Þessum markmiðum mátti út af fyrir sig ná með ýmsum leiðum lagatæknilega séð. ( JGS: Með trausti milli manna í ríkisstjórninni.) Það sjónarmið var uppi að æskilegt væri að þetta væri gert með almennu orðalagi upp á gamla mátann, sem hefur ekki gefist vel með löggjöf framsóknarmanna hingað til, eða að þetta yrði gert með því að í frv. yrði birtur viðauki sem teldi upp með tæmandi hætti, þannig að engin eftirmál hlytust af, þær vörutegundir sem hér um ræðir. Það varð niðurstaðan og að mínu mati mjög hyggilega svo vegna þess að ég hygg að allir séu búnir að fá sig fullsadda af rifrildi um aukaatriði í þessu máli og það sé æskilegt, reyndar nauðsynlegt í kjölfar hæstaréttardómsins, bæði vegna virðingar Alþingis og stjórnsýslunnar í landinu að taka nú af öll tvímæli í þessu efni og skilja ekki eftir lausa enda. Niðurstaðan varð þess vegna sú að þessar vörur eru allar taldar upp í viðaukum en vegna spurningar sem fram kom hjá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur er rétt að taka fram að í því felst líka að landbrh. muni í framhaldi af því setja reglugerð í framhaldi af lögunum og þar mun koma fram að þær vörur sem voru á frílista og voru frjálsar í innflutningi áður verða það áfram, þ.e. þær verða ekki háðar leyfisveitingavaldi, og að þær vörur sem eru frjálsar í innflutningi samkvæmt milliríkjasamningum verða heldur ekki háðar leyfisveitingavaldi heldur frjálsum innflutningi sem var. Með öðrum orðum óbreytt ástand og þess vegna, og það er svarið við hennar spurningu, þess vegna var nauðsynlegt að telja upp allar þessar vörur í viðaukanum en jafnframt þarf að taka fram í reglugerð landbrh. að það breytist á engan veg að því er varðar þær vörur sem voru frjálsar í innflutningi eða bundnar milliríkjasamningi. Þær verða það áfram svo að það sé skýrt.
    Að því er varðar verðjöfnunargjöldin þá er staða mála óbreytt frá því sem ákveðið var í lögunum fyrir jól. Við viljum ekki í þessu millibilsástandi hömlulausan tollfrjálsan innflutning á þessum vörum, --- ég endurtek, á þessum vörum --- heldur verða þær undir verðjöfnunargjöldum samkvæmt þeim reglum sem um það gilda sem er að vega upp mun á innflutningsverði og innlendu heildsöluverði. Þetta þýðir það að verðjöfnunargjöldin eru breytileg frá einni vörusendingu til annarrar og það er munurinn á þeim annars vegar og tollum.
    Hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson spurði hvernig þessum málum yrði fyrir komið eftir gildistöku GATT. Svar við því er að stjórnarflokkarnir hafa gert með sér samkomulag um að endurskoða innflutningslöggjöfina í ljósi þeirra skuldbindinga og sú nefnd verður undir forsæti fulltrúa forsrh. en að öðru leyti koma fimm ráðuneyti að því ráði. Svarið er kannski ekki á þessari stundu óyggjandi en þó liggur það fyrir í aðalatriðum. GATT-samkomulagið kveður á um það að samkvæmt tilboði því sem við höfum gert, þegar um var að ræða innflutningsbann eða magntakmarkanir, þá verður það lagt af, það verða frjáls viðskipti en bannið umreiknað í tollígildi. Tollígildin eru mismunur á heimsmarkaðsverði, nánar skilgreindu, og innlendu heildsöluverði. Um tollígildin er síðan það að segja að þau eru heimildarákvæði, þau eru ýtrasta hámark og eins og menn þekkja úr GATT-umræðunni eru þau gríðarlega há samkvæmt tilboði Íslands sem bara endurspeglar þann gríðarlega verðmun sem er á heimsmarkaðsverði og innlendu heildsöluverði. GATT-kerfið gerir ráð fyrir því að þessi tollvernd, bundin í upphafi en lækkar síðan í áföngum, verði skilgreind með skiljanlegum, varanlegum hætti sem tollar vegna þess að þá verður að birta og þeir verða undir eftirliti hinnar nýju alþjóðlegu tollastofnunar. Með öðrum orðum, verðjöfnunargjöld eru annars konar kerfi en það sem við mun taka eftir að GATT tekur gildi. Reyndar eru þau sjónarmið uppi að verðjöfnunargjöld af þessu tagi sem eru raunverulega upprunnin í EB og miða við mun á skilgreindu lágmarksverði þar og svo niðurgreiddu heimsmarkaðsverði, það kerfi muni ekki standast eftir að GATT tekur gildi af þeirri einföldu ástæðu að síbreytileg verðjöfnunargjöld munu raska mjög verðlagi fyrir neytendur og reyndar framleiðendur og þess vegna flokkast undir viðskiptahindrun.
    Virðulegi forseti. Ég held að með þessu hafi ég skýrt það sem mér þykir ástæða til af hverju þessi löggjöf er nauðsynleg og hvers vegna það er sanngirnismál þrátt fyrir dóm Hæstaréttar að stjórnarflokkarnir standi við það samkomulag sem gert var sem sanngjarnt var á sínum tíma fyrir jólin þó að það gildi til skamms tíma. Ég vil taka það fram að þær umræður sem urðu hér nokkuð ástríðuþrungnar um forræðismál varða þetta mál ekki nokkurn skapaðan hlut. Um þau mál er skýrt kveðið á um í lögum, bæði lögum um Stjórnarráðið og reglugerð um verkaskiptingu í Stjórnarráðinu og þarf ekkert um að fara fleiri orðum. ( SJS: Hvernig skýrt?) Ég beini bara hv. þm. að lesa það, það er ekkert vafamál. ( SJS: Viltu ekki svara spurningunni sem borin var upp?) Ég er búinn að svara þeim spurningum sem til mín hefur verið beint sem varða bæði annars vegar reglugerðina og hins vegar hvað við tekur að því er varðar GATT. Ég var einfaldlega að segja það að þessar deilur um forræði snerta ekki það mál sem hér er á dagskrá sem er að tryggja óbreytt ástand varðandi innflutningsskipunina. Ég vil hins vegar nota tækifærið, virðulegi forseti, undir lokin til þess að taka mjög eindregið undir það sem fram hefur komið í máli hæstv. landbrh. að það er tími til kominn að við förum að ræða aðra og veigameiri hluti sem varða hlut landbúnaðarins og búvöruframleiðslunnar í okkar þjóðfélagi heldur en ráðrúm hefur gefist hingað til. Staðreyndin er sú að gildistaka GATT breytir auðvitað í grundvallaratriðum starfsskilyrðum landbúnaðarins og búvöruframleiðslunnar hér á landi eins og annars staðar. Það þýðir einfaldlega að smám saman stendur búvöruframleiðslan frammi fyrir nokkurri og aukinni samkeppni og það sem skiptir mestu máli af hálfu stjórnvalda er það að gera innlendum landbúnaði, gera bændum landsins og þeim sem vinna úr landbúnaðarhráefnum matvæli kleift að standast þá samkeppni, að hlúa að þessari framleiðslu þannig að starfsskilyrði þeirra séu ekki lakari heldur en í samkeppnislöndunum og að stuðla þannig að því að hlutur innlendrar búvöruframleiðslu verði góður, bæði til þess að standast þessa samkeppni hér á heimamarkaðnum og eins til þess að nýta þau tækifæri sem ég er í engum vafa um að munu skapast til útflutnings, einkum og sér í lagi ef samstarf tækist um það að stíga þau skref sem óhjákvæmilegt er að stíga í framhaldinu til þess að innlend búvöruframleiðsla eða hluti hennar gæti náð alþjóðlegri viðurkenningu sem vistvæn framleiðsla og gæti þess vegna náð markaðsstöðu á mun hærri verðum heldur en unnt hefur verið hingað til. Þetta er auðvitað aðalatriðið og ég tek undir það með hæstv. landbrh. að það er ekki bara að GATT breyti viðskiptagrundvelli að því er varðar landbúnaðarvörur, heldur þurfum við að taka til gagngerðrar endurskoðunar það kvótakerfi, það framleiðslustýringarkerfi sem bundið hefur íslenska bændastétt allt of lengi í viðjar kotbúskapar og reyndar kippt fótunum undan möguleikum bændastéttarinnar til þess að bregðast við til þess að auka framleiðni, til þess að efla vöruþróun og til þess að byggja upp vaxandi og samkeppnishæfan atvinnuveg. Þetta eru auðvitað meginverkefnin. Og þegar þessum deilum er lokið, sem eru senn að baki, þá læt ég a.m.k. í ljós þá von að menn geti lagt þær að baki og horft heldur fram á veginn og reynt að sameina krafta sína hér á hinu

háa Alþingi til þess að stuðla að slíkri framtíðarstefnu sem er jákvæð í staðinn fyrir það neikvæða sem liðið er og sem hefur það að markmiði að byggja hér upp stétt bjargálna bænda í stað kotbænda sem eru niðurnjörvaðir í viðjar þess kerfis sem vonandi er við útgönguversið --- og farið hefur fé betra.