Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 17:15:11 (3800)


[17:15]
     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það kom hér fram hjá hv. 3. þm. Austurl. áðan að það sem hæstv. ráðherra var að lesa upp úr 41. gr. væri allt frá árinu 1955, en það skiptir kannski ekki aðalmáli heldur hitt að síðan lögin voru samþykkt og síðan breytt 1985 þá voru hér allt önnur skilyrði. Þá var bannaður innflutningur á vörum nema þeim sem væru gefnar frjálsar og það var við þau skilyrði sem þetta var miðað. Og breytingin varð svo þegar lög um utanríkisviðskipti voru sett hér á Alþingi 1992 sem hæstv. forsrh. sagði að hæstv. viðskrh. hefði laumað í gegn eða lætt í gegn og reyndar fullyrti þá sjálfur, hæstv. þáv. viðskrh. að þetta ætti engu að breyta. En vegna þeirrar breytingar er það sem hæstaréttardómurinn féll. Af þeim sökum er hér um að ræða meinloku hjá hæstv. landbrh. að það sé hægt að rekja þetta aftur til þess tíma.