Sameiginleg forsjá

84. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 16:35:48 (3841)


[16:35]
     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Af þeim tölum sem hér liggja fyrir er ljóst að það er hátt í 20% tilvika á þessu rúma ári sem ég spyr um sem sameiginleg forsjá verður niðurstaðan. Þetta þykir mér býsna hátt hlutfall og ekki síst í ljósi þess að hér er ekki boðið upp á þá ráðgjöf sem þyrfti að vera þeim foreldrum veganesti sem velja þessa merkilegu lausn sem ég er síst að varpa rýrð á. Mér finnst hins vegar að það sé mjög mikið álitamál hvaða ráðgjöf fólki er boðið upp á og það kom fram í svari hæstv. dómsmrh. í síðustu viku að það er ekki um neina ráðgjöf félagsráðgjafa eða sálfræðinga að ræða nema fólk leiti til félagsmálastofnana.
    Þarna er í rauninni mikil gloppa og alvarleg gloppa í kerfi sem ella ætti að ganga vel. Ég tek það fram að það er við allt aðrar aðstæður og betri sem þessi gagnrýni hefur komið fram sem ég gat um í framsögu minni fyrir þessari fyrirspurn en það er fyrst og fremst tengt því hvaða ráðgjöf fólk á kost á. Meðan ekki er hægt að benda á neina haldgóða ráðgjöf finnst mér þessi tala feykilega há og alvarlega há og ég veit að það dregur oft tilfinningalegt uppgjör á langinn ef slík ákvörðun er tekin á lélegum forsendum og það getur líka þýtt að það kemur óeðlilega mikið rót á barn.