Flutningastarfsemi á grundvelli EES-samningsins

84. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 17:12:53 (3857)


[17:12]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Unnið er að því að endurskoða reglur um þyngd ökutækja þar sem leitast verður við að samræma hérlendar reglur við samsvarandi reglur innan landa hins Evrópska efnahagssvæðis. Engin vandkvæði virðast vera á því að uppfylla ýtrustu kröfur EES varðandi stærð, hæð, breidd og lengd ökutækja og heildarþunga þar eð reglur þær sem hér gilda eru mjög líkar og í ýmsum tilfellum rýmri en reglur EES. Þær gera hins vegar í sumum tilfellum ráð fyrir hærri öxulþunga en hér hefur tíðkast. Ljóst er að það hefur áhrif á endingu vegakerfisins og allmargar brýr munu ekki þola slíka álagsaukningu og verður nauðsynlegt að endurbyggja þær áður en nýjar reglur taka að fullu gildi.
    Meginreglan í Evrópska efnahagssvæðinu um flutningastarfsemi er sú að ökutæki sem uppfylla ákveðin skilyrði geti farið óhindrað milli landa þannig að ökutæki sem leggur af stað frá einhverju sérstöku landi verður að geta komist á ákvörðunarstað t.d. á Íslandi án hindrunar. Leyfilegur heildarþungi ökutækja er 40 tonn og öllum ökutækjum sem koma með skipum til landsins verður heimilt að halda áfram til lokaáfangastaðar hér á landi. Leyfilegur heildarþungi ökutækis hér á landi hefur verið 30 tonn miðað við áðurnefnd 40 tonn í löndum Evrópska efnahagssvæðisins eða Evrópubandalagsins.
    Þegar verið er að flytja gáma frá verksmiðju eða afgreiðslustöð á járnbrautarstöð eða útflutningshöfn er leyfður heildarþungi ökutækja 44 tonn í löndum Evrópubandalagsins en hér á landi er leyfður 43 tonna heildarþungi á nokkrum aðalleiðum. Þó að nú sé leyfður 43 tonna heildarþungi á ýmsum aðalleiðum, þá vantar nokkuð á að unnt verði að leyfa slíkt á öllum helstu samgönguleiðum landsins.
    Á undanförnum árum hafa verið endurbyggðar nokkrar brýr og vegir á aðalleiðum, t.d. brú yfir Hrútafjarðará á Norðurlandsvegi sem var endurbyggð á sl. sumri og Jökulsá á Dal sem verið er að endurbyggja nú og hefur verið boðin út. Enn eru þó eftir nokkrar brýr sem nauðsynlegt er að styrkja eins og Laxá í Kjós, Botnsá í Hvalfirði og Fjallsá í Austur-Skaftafellssýslu.