Málefni aldraðra

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 15:21:21 (3991)


[15:21]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég vil leyfa mér að lýsa stuðningi við þetta frv. Ég held að það sé fyllilega tímabært og fullkomin ástæða til þess að leiða ákvæði þess í lög.
    Ég hef frétt af húsnæðisskorti í Reykjavík fyrir fólk sem er í vandræðum vegna ellihrumleika. Þar af leiðandi get ég með glöðu geði stutt 1. gr., en þó vil ég sérlega leggja áherslu á 2. gr. þessa frv., þ.e. að óheimilt sé í auglýsingum, sölumennsku eða kynningu að nota heiti úr lögum þessum yfir þá þjónustu sem ætlunin er að veita nema að fengnu samþykki samstarfsnefndar um málefni aldraðra.
    Þessu frv. fylgir niðurstaða starfshóps á vegum félmrn. frá júlí 1993 og þar kemur ýmislegt athyglisvert fram. Reyndar þurfti ekki þennan starfshóp eða niðurstöðu hans til að menn sæju hvert stefndi því flestir Íslendingar, vil ég meina, hafa lent í því að einhver þeim nákomin eða kunnugur, aldraður íbúi í Reykjavík, hafi lent í klónum á þeim gæðingum sem virðast hafa einkaleyfi til að byggja í borginni íbúðir sem þeir selja síðan öldruðum.
    Það er óskaplegt að horfa upp á það hvernig gæðingum Sjálfstfl., tveimur fyrirtækjum í borginni, hefur verið sleppt á gamla fólkið. Í gamla daga fengu ribbaldar stundum heimild hjá konungum til þess að hafa land til skattheimtu. Það nægir að vitna í Heimskringlu. Þá fengu stundum ribbaldar leyfi hjá Noregskonungi til þess að fara norður á bóginn og kúga þá sem þar bjuggu og taka af þeim skatt. Þetta er með öðru móti núna. Íhaldið í Reykjavík hefur komið sér upp tveimur einkavinafyrirtækjum, Ármannsfelli og Gunnari og Gylfa, og aðrir fá ekki lóðir. Það er sannanlegt að samtökum eldri borgara hefur verið hótað að þau fengju ekki lóð nema þau semdu við tiltekna aðila um að byggja á henni. Þessi byggingarfélög hafa haft algjöran forgang og þau hafa byggt og selt ákaflega dýrt. Við þekkjum dæmi þess að fólk hefur verið að láta stóreflis einbýlishús og þau hafa ekki dugað fyrir lítilli íbúð í þessum blokkum. Svo eru

þetta kallaðar öldrunaríbúðir þó sú þjónusta sem þar til heyrir sé með engu móti á vegum byggingaraðilanna heldur rekin af Reykjavíkurborg og íbúar þessara íbúða eigi ekkert frekar aðgang að þessari félagslegu þjónustu á vegum borgarinnar en aðrir íbúar í borginni.
    Það hefur vakið athygli mína og reyndar nokkra umhugsun hvernig fáeinir verktakar á suðvesturhorninu hafa komið ár sinni fyrir borð. Það er umhugsunarvert þegar sveitarstjórnarkosningar nálgast að horfa á hvernig þeir hafa hreiðrað um sig. Ég nefni Hafnarfjörð. Þar hefur Jóhann Bergþórsson verið merkisberi Sjálfstfl., að vísu var hann aðeins lækkaður í tign síðast, einn umsvifamesti verktaki landsins. Í Kópavogi er á oddi hjá sjálfstæðismönnum annar mikilfenglegur verktaki, Gunnar Birgisson. Í Mosfellsbæ er nú aldeilis verktaki á ferðinni. Í Reykjavík hefur íhaldið að vísu ekki boðið fram þessa einkavini heldur koma þeir með öðrum hætti væntanlega inn í flokksstarfið en þar eru aðrir menn til að skaffa þeim lóðirnar og það er sannarlega gert.
    Í niðurstöðum starfshópsins segir, frú forseti: ,,Samkvæmt athugun starfshópsins eru íbúðir fyrir aldraða dýrari en íbúðir í félagslega kerfinu.`` --- Síðan segir: ,,Niðurstöður úttektar starfshópsins sýna að verðmunur á íbúðum fyrir aldraða getur verið töluvert mikill. Erfitt er að greina nákvæmlega ástæður verðmunar og sanna hvort ástæðan sé slakur undirbúningur eða of há verðlagning.``
    Ég held því fram að það sé nauðsynlegt að samþykkja þetta frv. og mæli sterklega með því og held að það geti verið einn þáttur í að slá á þá gegndarlausu spillingu sem þróast hefur í skjóli Sjálfstfl. þar sem hann kemst til áhrifa, hvort heldur er í sveitarstjórn, eins og í þessu tilfelli, ellegar í landsstjórninni.