Kaup á björgunarþyrlu

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 15:18:36 (4012)

[15:18]
     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson) :
    Hæstv. forseti. Þann 25. febrúar í fyrra, í umræðum um kaup á björgunarþyrlu, sagði hæstv. forsrh. eftir spurningar frá mér eftirfarandi um þetta málefni, með leyfi forseta:
    ,,Ég get skýrt frá því og sagt það sem ég þegar hef sagt. Það stendur ekki annað til heldur en að ríkisvaldið og ríkisstjórnin geri samninga um þyrlukaup á þessu ári alveg óháð því hvernig þessi hv. þm. lætur, . . . ``
    Síðar í umræðunni þegar óskað var eftir heldur skýrari svörum, þó að þessi væru nokkuð skýr í þá veruna að gengið yrði til kaupa á þessu ári, segir hæstv. forsrh., með leyfi forseta:
    ,,Þetta er nú skrípaleik líkast. Það er þannig að ég hef margítrekað hér bæði í minni fyrstu ræðu sem ekkert var loðin í þessum efnum og öllum þeim ræðum síðar að ríkisstjórnin mun innan fárra vikna meira að segja ganga til samninga um kaup á þyrlu. Þetta hef ég sagt hér inni. Allir þeir sem vilja heyra, a.m.k. allir þeir sem þessu máli fylgja af heilindum en ekki af einhverjum pólitískum skrípaleik, hafa skilið það sem sagt er.``
    Þetta töldum við sem þá vorum að berjast fyrir frv. til laga um kaup á björgunarþyrlu að væri nægilega sterk yfirlýsing til þess að við hana yrði staðið. Annað hefur komið í ljós. Nefndir og ráð hafa verið stofnuð til þess eins að því er virðist að draga málið á langinn. Hæstv. dómsmrh. hefur einnig gefið yfirlýsingar um að málið ætti að klárast innan tiltekins tíma.
    Fsp. sem lögð hefur verið fram um það hvað tefði málið var alls ekki svarað, hún var virt að vettugi. Og enn kom yfirlýsing fyrir örfáum vikum síðan frá hæstv. forsrh. þar sem hann segir fyrir utan Alþingishúsið þegar hann tók við undirskriftarlistum að þyrla verði keypt innan ,,skamms tíma`` heitir það nú.
    Auðvitað er stóra spurningin orðin sú hvernig er þetta tímatal eiginlega þar sem nokkrar vikur eru komnar yfir 50 vikur og ,,innan skamms tíma``, hvað ætli það skyldi þýða?
    Er því nema von að spurt sé hreint og beint út eins og gert er á þskj. 322: Hvenær verður gerður samningur um kaup á björgunarþyrlu?
    Þetta er skýr og skorinorð spurning og óskað eftir skýru og skorinorðu svari.